Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Velferðarstefna - Heilbrigðisáætlun til ársins 2020

Velferðarráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að heilbrigðisáætlun. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 21. september 2012.

Sjá hér drög að heilbrigðisáætlun til ársins 2020 á vef velferðarráðuneytisins

Umsögn umboðsmanns barna

Reykjavík, 21. september 2012

Efni: Umsögn um heilbrigðisáætlun

Vísað er til tölvupósts frá velferðarráðuneytinu, dags. 10. september sl., þar sem óskað er eftir umsögnum um drög að heilbrigðisáætlun.  Umboðsmaður barna telur mikilvægt að til staðar sé heildaráætlun í heilbrigðismálum og fagnar því ofangreindum drögum. 

Í drögunum er meðal annars fjallað um að vinna skuli stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og geðheilbrigðismálum, sbr. kafla B.4 um áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir annars vegar og kafla um B.6 geðheilsu hins vegar. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af skorti á úrræðum fyrir börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu vegna vímuefnaneyslu eða hegðunarvandamála. Telur umboðsmaður því ástæðu til að umrædd drög kveði á um að unnið verði að því að koma á fót frekari úrræðum fyrir börn með ofangreindan vanda og fækka börnum sem eru á biðlista eftir greiningu eða þjónustu til dæmis hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). 

Umboðsmaður barna telur jákvætt að 1. aðgerð í kafla B.5 um  slysa- og ofbeldisvarnir miði að því að efla skráningu á slysum og áverka vegna ofbeldis. Umboðsmaður barna telur þó ástæðu til að árétta enn frekar að efla skuli skráningu á öllum slysum sem varðar börn. Sömuleiðis er mikilvægt að kveða á um að efla skuli rannsóknir á slysum sem börn verða fyrir. Oft á tíðum má reka áverka barna vegna atvika sem eru skráð sem slys til vanþekkingar þeirra sem gæta barnanna eða ófullnægjandi búnaðar í þeirra umhverfi. Fullnægjandi skráning og rannsókn á áverkum barna er því til þess fallin að fækka slysum á börnum og tryggja þeim aukið öryggi og vernd. Ennfremur telur umboðsmaður mikilvægt að fram komi í heilbrigðisáætlun að slysavörnum barna skuli fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera, til að tryggja að almenningur eigi kost á ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningum fagfólks á sviði slysavarna.

Umboðsmaður barna fagnar því sérstaklega að stefnt sé að því að fjölga heilsugæslustöðvum sem bjóða upp á unglingamóttöku., sbr. 3. aðgerð í kafla C.2 um heilsugæslu. Umboðsmaður telur þó mikilvægt að slíkar unglingamóttökur séu í boði fyrir börn frá 12 ára aldri, en ekki 14 ára eins og drögin gera ráð fyrir. Umboðsmaður fær reglulega fyrirspurnir frá börnum á aldrinum 12 til 14 ára varðandi kynlíf, kynheilbrigði og önnur málefni sem brenna á unglingum og telur hann því fulla ástæðu til að sá hópur geti leitað sér ráðgjafar á heilsugæslustöðvum, rétt eins og eldri ungmenni.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á umsögn sína um aðgerðaráætlun um málefni barna og ungmenna, þar sem fjallað er um nauðsyn þess að bæta heilbrigðisþjónustu við börn á ýmsum sviðum. Umsögnina má nálgast hér.
 

Virðingarfyllst,

_______________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna