Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis

Stýrihópur sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra bauð umboðsmanni barna að senda athugasemdir um efni tillögu til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Athugasemdir sínar sendi umboðsmaður með tölvupósti 16. ágúst 2012.

Athugasemdir umboðsmanns barna

Reykjavík 16. ágúst 2012
UB: 1208/4.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Stýrihópur sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra bauð umboðsmanni barna að senda athugasemdir og ábendingar um efni ofangreindrar tillögu til þingsályktunar með tölvupósti dags. 2. júlí 2012. Umboðsmaður barna þakkar fyrir það tækifæri og vill benda á eftirfarandi athugasemdir.

Umboðsmaður barna leggur áherslu á 12. gr. Barnasáttmálans þar sem kveðið er á um skyldu aðildarríkja að tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Auk þess er kveðið á um tjáningarfrelsi barna í 13. gr. Barnasáttmálans. Mikilvægt er að tjáningarfrelsi barna verði virt eins og fullorðinna enda eiga þau að njóta mannréttinda rétt eins og aðrir.

Auk þess bendir umboðsmaður barna á að hugað verði sérstaklega að vernd barna þegar kemur að tjáningarfrelsi annarra, t.d. foreldra. Opinská umfjöllun um viðkvæm málefni barna getur valdið þeim vanlíðan og haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra. Umboðsmanni hafa borist ábendingar þar sem sagt er frá því að foreldrar tjá sig um börn sín í ýmsum fjölmiðlum. Mikilvægt er að börn njóti sérstakrar verndar þar sem þau fá oft ekkert um það að segja hvort fjallað er um persónuleg málefni þeirra á opinberum vettvangi eða ekki. Umfjöllun fjölmiðla um persónuleg málefni barns getur leitt til þess að barnið verði berskjaldað fyrir einelti eða öðru neikvæðu áreiti.

Að lokum bendir umboðsmaður barna á að þörf sé á umræðu um tjáningarfrelsi og friðhelgi barna.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna