Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 10. maí 2012.

Skoða frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík 10. maí 2012
UB: 1205/4.1.1

Efni: Frumvarp um breytingu á lögun um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 3. maí 2012, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður barna þakkar fyrir tækifærið að koma með athugasemdir við frumvarpið.

Umboðsmanni barna gafst kostur á að gera athugasemdir við drög að frumvarpinu á fyrri stigum. Hér að neðan er sú umsögn sem embættið sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í febrúar sl. birt að miklu leyti orðrétt.

Umboðsmaður barna fagnar því að gera eigi breytingar á lögum um framhaldsskóla og að leitast sé við að tryggja réttindi og velferð nemenda í framhaldsskóla, t.d. með því að lögfesta ákvæði um réttindi nemenda og ákvæði um skólabrag. Umboðsmaður barna gerir þó eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

Í 1. gr. frumvarpsins er talað um að virða skuli vinnuverndarsjónarmið. Umboðsmaður hefur áhyggjur af því að ekki sé nægilega skýrt hvað sé átt við með hugtakinu vinnuverndarsjónarmið. Hugsanlega væri ástæða til að útskýra það í lögskýringargögnum. Umboðsmaður telur til dæmis mikilvægt að í ákvæðinu segi að gæta skuli þess að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, sbr. 13. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Einnig má nefna kröfur um hljóðvist, loftgæði, lýsingu, húsbúnað o.s.frv.

Í 2. gr. frumvarpsins bætast við tvær nýjar greinar. Í 4. mgr. 33. gr. a segir að meðan mál skv. 3. mgr. sama ákvæðis hefur ekki verið leyst getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemanda og foreldrum sé nemandi yngri en 18 ára, tafarlaust um  þá ákvörðun. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að nemendum sé einungis vísað úr skóla ef brýn þörf er á því. Umboðsmaður leggur til að kveðið sé á um að gæta skuli meðalhófs þegar ákvörðun um brottvísun er tekin og ávallt skuli leita vægari úrræða. Auk þess minnir umboðsmaður barna á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í því ákvæði er kveðið á um að allar ákvarðanir skuli teknar með hagsmuni barns að leiðarljósi. Þá ber einnig að hafa í huga 12. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um rétt barna til að tjá sig í málum sem þau varða og að hlustað sé á skoðanir þeirra. Slík ákvörðun varðar veigamikil réttindi nemandans og er því mikilvægt að málsmeðferð sé sérstaklega vönduð og að skólastjórar séu meðvitaðir um skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum. Öll börn rétt á því að fá menntun við sitt hæfi, sbr. 28. gr. Barnasáttmálans og 32. gr. laga um framhaldsskóla. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að önnur úrræði verði fundin fyrir nemendur undir 18 ára aldri eins fljótt og hægt er ef þeim er vísað úr skóla. Umboðsmaður treystir því að nánar verði kveðið á um aðkomu foreldra þegar barni er vísað úr framhaldsskóla í reglugerð líkt og er gert í 15. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011.

Umboðsmaður barna vill gjarnan nota tækifærið til að lýsa yfir áhyggjum af þeim hópi unglinga sem eiga erfitt með að fóta sig í framhaldsskólum landsins. Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er hátt og líðan þessa hóps oft ekki góð. Reglugerð um framhaldsskóla nr. 105/1990 hefur nú formlega verið felld úr gildi og þykir umboðsmanni barna miður að með nýju regluverki verði nemendum framhaldsskólanna ekki tryggður sami eða betri réttur og fyrra fyrirkomulag átti að tryggja þeim varðandi rétt nemenda til sálfræðiþjónustu (31. gr.). Ljóst er að ef vilji er fyrir hendi er hægt að draga úr brottfalli og bæta hag nemenda í framhaldsskólum með því að tryggja þeim góða þjónustu. Umboðsmaður hvetur Alþingi til að huga að því að tryggja börnum a.m.k. sambærilegan rétt og reglugerð nr. 105/1990 um framhaldsskóla kvað á um.


Virðingarfyllst,

________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna