Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, 211. mál.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, 211. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi dags. 24. febrúar 2011.

Skoða tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, 211. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Allsherjarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 24. febrúar 2011
UB:1102/4.1.1


Efni: Þingsályktun um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, 211. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 10. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda þingsályktunartillögu.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að unnið sé að því að bæta réttarstöðu kvenna sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru háðar ofbeldisfullum mökum um landvist á Íslandi. Umboðsmaður barna telur þó fulla ástæðu til að starfshópurinn skoði stöðu allra erlendra kvenna sem verða fyrir ofbeldi á heimilum, enda er ljóst að tungumálaerfiðleikar og veik félagsleg staða kvenna af erlendum uppruna geta takmarkað verulega möguleika þeirra til að leita sér aðstoðar. Mikilvægt er að hafa í huga að ofbeldi innan veggja heimilisins telst ávallt ofbeldi gegn börnum, hvort sem það beinist beinlínis að þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Skiptir því miklu máli fyrir velferð barna að allar konur eigi greiða leit út úr ofbeldissamböndum, án tillits til uppruna.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er meðal annars tekið fram að meira en lagabreytingar þurfi að koma til svo hægt sé að tryggja réttindi kvenna af erlendum uppruna, svo sem fræðsla. Umboðsmaður barna tekur undir það að mikilvægt sé að auka fræðslu og þekkingu á réttinum á vernd gegn ofbeldi. Í því sambandi vill umboðsmaður barna benda á að þar sem líkamlegar refsingar gegn börnum tíðkast enn víða um heim er nauðsynlegt að beina sérstakri fræðslu til foreldra og barna af erlendum uppruna um að hvers kyns ofbeldi gegn börnum sé óheimilt og að barnavernd geti aðstoðað við slík mál.

Virðingarfyllst,
___________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna