Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Umsögn um ákvæði um börn og auglýsingar í frumvarpi til laga um fjölmiðla, 198. mál.

Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna sendu umsögn um ákvæði um börn og auglýsingar í frumvarpi til laga um fjölmiðla, 198. mál.

Sameiginleg umsögn umboðsmanns barna og talsmanns neytenda


Nefndasvið Alþingis
b.t. menntamálanefndar
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. janúar 2011

Efni: Umsögn talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fjölmiðla, þskj. 215, 198. mál

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hafa á undanförnum árum unnið að því að auka neytendavernd barna og unglinga. Í þeim tilgangi voru árið 2009 gefnar út leiðbeinandi reglur um mörk við markaðssókn gagnvart börnum. Reglurnar voru settar eftir víðtækt samráð þessara embætta við um 100 aðila sem höfðu hagsmuna að gæta eða láta sig varða málefni barna og hagsmuni og réttindi neytenda. Þó að ákveðið hafi verið að reyna ná samstöðu á þessu sviði með óbindandi reglum hafa embættin ávallt tekið fram að lagabreytingar í því skyni að auka neytendavernd barna kynnu einnig að vera nauðsynlegar - einkum ef leiðbeiningar næðu ekki markmiði sínu. Embættin fagna því sérstaklega þeim ákvæðum ofangreinds frumvarps sem miða að því að takmarka markaðssókn gagnvart börnum, svo sem 39. og 40. gr. frumvarpsins. 

Í 38. gr. frumvarpsins er að finna sambærilegt ákvæði og er nú að finna í núgildandi útvarpslögum nr. 53/2000. Þó er að finna þá nýjung í c-lið að sérstaklega er fjallað um það að ekki skuli hvetja börn til neysla á matvælum og drykkjarvörum sem ekki er mælt með að börn neyti í óhóflegum mæli, svo sem matvæli sem innihalda mikla fitu, transfitusýru, salt/natríum og sykur. Embættin fagna sérstaklega þessari nýjung, enda er hún í samræmi við fyrrnefndar leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna. Í því sambandi hafa umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hvatt til þess að stjórnvöld taki upp opinbert hollustumerki sem hægt væri að miða við.

Í 5. mgr. 41. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að auglýsingar og fjarkaupainnskot séu óheimil í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára sem og 5 mínútum fyrir og eftir slíka útsendingu. Ákvæðið gengur að sumu leyti lengra en leiðbeinandi reglur embættanna enda þurfti við gerð þeirra reglna að taka mið af sjónarmiðum mismunandi aðila. Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda telja þó mikla þörf á umræddu ákvæði og fagna því að verið sé að tryggja aukna neytendavernd barna. Þá má velta fyrir sér hvort þörf sé að ganga enn lengra í þessum efnum og banna hvers kyns viðskiptaorðsendingar í tengslum við barnaefni. Í því sambandi má benda á að skylt er í lögum að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur m.a. fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar - ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Er því ljóst að takmarkanir á auglýsingum til verndar börnum teljast ekki brot á tjáningarfrelsi auglýsenda.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,                    Gísli Tryggvason,
      umboðsmaður barna.                          talsmaður neytenda.