Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að reglugerð um hollusthætti á sund- og baðstöðum

Umboðsmaður barna óskaði eftir að fá að veita umsögn um drög að reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Umsögn sína sendi hann umhverfisráðuneytinu í tölvupósti hinn 23. september 2010.

Umsögn umboðsmanns barna

Efni: Drög að reglugerð um hollusthætti á sund- og baðstöðum

Umboðsmaður barna hefur fengið drög að reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.  Umboðsmaður fagnar því að reglugerðin kveði á um aukið eftirlit með sundlaugum, enda er slíkt til þess fallið að auka öryggi barna.

Umboðsmaður barna vill þó koma ábendingu á framfæri varðandi 14. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um aðgang barna að sund- og baðstöðum. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að börnum yngri en 10 ára sé óheimill aðgangur nema í fylgd með syndum einstaklingi 18 ára eða eldri. Umboðsmaður barna telur eðlilegt að miða við að börn yngri en 10 ára fari ekki ein í sund. Hins vegar telur hann ekki rök fyrir því að einstaklingar þurfi að vera orðnir 18 ára til þess að geta farið með yngri börnum í sund. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að hvetja börn til þess að fara í sund, enda er það ódýr og heilbrigð skemmtun fyrir fólk á öllum aldri.

Í samræmi við sjónarmið barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er mikilvægt að tryggja börnum aukna vernd og sjá til þess að öryggi þeirra sé ávallt tryggt. Á sama tíma er þó nauðsynlegt að taka tillit til stigvaxandi þroska barna og veita þeim aukna ábyrgð með aldrinum. Samkvæmt íslenskum lögum bera unglingar töluvert mikla ábyrgð frá 15 ára aldri. Á þeim aldri verða einstaklingar til að mynda sakhæfir samkvæmt almennum hegningarlögum. Þá hefur Vinnueftirlitið gengið út frá því að börn megi vinna við barnagæslu frá 15 ára aldri. Telur umboðsmaður barna því eðlilegt að miða við það að 15 ára unglingar megi fara með börnum yngri en 10 ára í sund. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og ber að tryggja þeim viðeigandi vernd. Er því eðlilegt að veita foreldrum ákveðið svigrúm til þess að meta það hvort þeir treysti einstaklingi á aldrinum 15 til 18 ára að gæta barns í sundi. Verður þá að meta það út frá aðstæðum hverju sinni, svo sem aldri og þroska beggja barna.

Ef óskað er frekari upplýsinga vinsamlegast hafið samband í síma 552-8999.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna.