Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot), 20. mál

Skoða frumvarp laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot), 20. mál, þskj. 20.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík,  10. nóvember 2006
Tilvísun: UB 0611/4.1.1


Efni: Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot), 20. mál.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett þann 20. október 2006, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna fagnar framkomnu frumvarpi enda felur það í sér aukna réttarvernd fyrir börn gegn kynferðisbrotum.  Refsimörk fyrir kynferðisbrot gegn börnum eru hækkuð og slík brot  munu fyrnast á lengri tíma en samkvæmt núgildandi ákvæðum.  Frumvarpið er vel unnið og athugasemdirnar með því einkar skýrar.  Þær hafa að geyma  vandaða refsiréttarlega umfjöllun um kynferðisbrot og ítarlega samantekt á réttarreglum á þessu sviði í nágrannalöndunum.  Augljóst er að vandað hefur verið til verksins. 

Í umsögn þessari verður fyrst og fremst fjallað um þær greinar frumvarpsins er varða kynferðisbrot gagnvart börnum.

1. gr.
Í grein þessari er gerð tillaga um breytingu á 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér að viðmiðunaraldur um upphaf fyrningarfrests fyrir kynferðisbrot gegn börnum er færður úr 14 ár í 18 ár.  Með því og hækkun refsimarka mun sök fyrir þessi brot fyrnast er brotaþolar verða 23, 28 eða 33 ára eftir alvarleika brots í stað

19, 24 eða 29 ára.  Hér er að sjálfsögðu um mikla réttarbót að ræða sem ber að fagna.

Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins lagði  umboðsmaður barna til árið 1997 að sérregla gilti um fyrningu kynferðisbrota gegn börnum.  Bent var á þrjár leiðir: þau yrðu ófyrnanleg eða að tekinn yrði upp sérstakur fyrningarfrestur varðandi þessi brot, t.d. 25 ár eða að upphaf fyrningarfrests yrði við 18 ára aldur brotaþola.  Með lögum nr. 63/1998 var nokkuð komið til móts við þessa tillögu, sérstaða þessara brota var viðurkennd og sett sérregla um fyrningu sakar í kynferðisbrotum gegn börnum, sem fól í sér að miða upphaf fyrningarfrests við 14 ára aldur brotaþola.  Í frumvarpi þessu er lagt til að þetta aldursmark verði hækkað í 18 ár. Er það í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum okkar, Noregi (1998),  Danmörku (2000) og Svíþjóð (2005).

Umboðsmaður barna er því fylgjandi að gengið verði eins langt í því að auka refsivernd barna að þessu leyti og frekast er kostur.  Færð hafa verið ýmis lagatæknileg rök fyrir því að kynferðisbrot gegn börnum verði ekki ófyrnanleg, sbr. m.a. umfjöllun í athugasemdum með frumvarpinu.  Verði  á þeim byggt við afgreiðslu allsherjarnefndar á frumvarpi þessu vill umboðsmaður barna gera tillögu um að tekið verði upp samskonar ákvæði og 3. mgr. 93. gr. dönsku hegningarlaganna en þar er kveðið á um að fyrningarfrestur í slíkum málum verði aldrei skemmri en 10 ár.  Slík breyting stenst fyllilega öll lagatæknileg rök og samræmingarsjónarmið.  Fordæmi er og að finna í 2. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga sem kveður á um að brot sem eru fólgin í því að komast undan greiðslu á tollum, sköttum eða öðrum gjöldum til hins opinbera fyrnist aldrei á skemmri tíma en 5 árum.  Verði frumvarpið samþykkt óbreytt munu alvarlegustu brot gegn börnum fyrnast á 10 og 15 árum og önnur á 5 árum.   Lagt er til að bætt verði nýrri málsgrein í 81. gr. sem verði 3. mgr., svohljóðandi:  “Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194. –202. gr. og brotaþoli er yngri en 18 ára er aldrei skemmri en 15  ár.”  Verði slík breyting samþykkt munu slík brot aldrei fyrnast fyrr en brotaþoli nær 33 ára aldri.

2. gr.
Umboðsmaður barna styður eindregið að hugtakið nauðgun er rýmkað verulega með frumvarpi þessu þar sem það mun einnig taka til þess að maður notfærir sér þær aðstæður að brotaþoli getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.  Af athugasemdum með frumvarpinu má ljóst vera  að brot sem felst í því að brotamaður hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn  skal talið vera nauðgun.  Fjallað verður frekar um þetta atriði í umfjöllun um 10. gr. frumvarpsins.

3.gr.
Í grein þessari er lagt til að nýtt ákvæði komi inn í kynferðisbrotakaflann sem ætlað er að hafa áhrif til þyngingar við ákvörðun refsingar.  Meðal þeirra þriggja refsiþyngingarástæðna sem þar eru tilgreindar er ungur aldur þolanda.  Í athugasemdum frumvarpsins er vitnað til rannsóknar á dómum Hæstaréttar á tuttugu ára tímabili en í henni þótti helst gagnrýnivert að ekki skyldi meira tillit tekið til ungs aldurs þolenda við ákvörðun refsingar.  Þessi breyting felur í sér aukna refsivernd barna þar sem  dómurum er gert skylt  að virða ungan aldur til þyngingar refsingar og er hún löngu tímabær.

5. og 6. gr.
Tekið er undir athugasemdir Barnaverndarstofu við þessar greinar frumvarpsins, sem fram komu í umsögn dags. 11. maí s.l.

8.  og  9. gr.
Í þessum greinum frumvarpsins er hækkað refsihámark 2. mgr. 200. gr. og 201. gr. um kynferðislega áreitni manns annarsvegar gagnvart barni sínu eða öðrum niðja (8. gr.) og hins vegar kjör-, stjúp-, fóstur- eða sambúðarbarni eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis (9. gr.) og er sú breyting til bóta.

Vakin er athygli á að í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir hækkun refsimarka fyrir brot sem felast í því að gerandi hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða niðja (200. gr.) eða kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis (201. gr.).  Með lögum nr. 40/2003 voru refsimörk þessara brota (sem í athugasemdum voru nefnd ”grófustu kynferðisbrot gegn börnum”) hækkuð í 12 ár til jafns og samræmis við refsimörk slíkra brota samkvæmt 202. gr..  Vandséð er ástæða þess að því samræmi er ekki haldið í frumvarpi þessu.  Að því þarf að huga.  Því ætti að skoða hvort breyta ætti refsimörkum í þessum ákvæðum til samræmis við það sem gert er í 10. gr. frumvarpsins varðandi 202. gr.  Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins þá varða þessi brot  jafnframt við 202. gr. ef þolandi er yngri en 14 ára.  En hér er um svo alvarleg brot að ræða sem framin eru gegn börnum í skjóli náinna fjölskyldu- og sifjatengsla að rétt er að miða við 18 ára aldur þolanda.

Rétt er að breyta orðinu ungmenni í 1. mgr. 201. gr. í barn  til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á XXII. kafla á undanförnum árum og gerð er á 202. gr. í 10. gr. frumvarps þessa.

10. gr. 
Með grein þessari eru lagðar til nokkrar breytingar á 202. gr. laganna  er gera ráð fyrir að rýmka refsirammann fyrir kynferðisbrot gegn börnum.  Refsihámarkið er hækkað í 16 ára fangelsi og lagt er til að lögfest verði sérstakt refsilágmark, 1 árs fangelsi.  Verða refsimörk 1. mgr. 202. gr. þá hin sömu og fyrir nauðgun.  Þess má geta að umboðsmaður barna lagði til við dómsmálaráðherra árið 1997 að tekið yrði upp ákvæði um 1 árs lágmarksrefsingu vegna kynferðisbrota gegn börnum.  Því er þessari breytingartillögu sérstaklega fagnað.

Í 1. málsgrein 202.gr. hegningarlaga er lagt fortakslaust bann við kynmökum við börn yngri en 14 ára.  Því er ætlað að veita börnum vernd gegn kynferðislegri misnotkun sér eldri og þroskaðri einstaklinga. Talað er um að kynferðislegur lágmarksaldur (og stundum  kynferðislegur lögaldur) sé 14 ár.

Umboðsmaður barna hefur allt frá árinu 1997 lagt  til að þessi viðmiðunaraldur verði hækkaður til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.  Í dönskum og sænskum rétti er miðað við 15 ára aldur en í norskum rétti er miðað við 16 ár en helmingi þyngri refsing lögð við ef brotið er gegn barni yngra en 14 ára.  Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram rökstuðningur fyrir því að ekki er lagt til að þessi aldursmörk verði hækkuð og  vitnað til þess að rannsóknir sýni að unglingar á Íslandi byrji fyrr að stunda kynlíf en unglingar á öðrum Norðurlöndum eða rúmlega 15 ára að meðaltali.  Síðastliðið vor voru kynntar niðurstöður viðamikillar rannsóknar Barnaverndarstofu og Rannsókna og greiningar um kynhegðun ungs fólks á Íslandi og kynferðislega misnotkun á börnum. Meðal þess sem þar kom fram var að 16 % stúlkna og 12 % stráka kváðust hafa haft kynmök í fyrsta sinn fyrir 15 ára aldur en tæplega 70 % eftir að þau náðu 16 ára aldri.  Samkvæmt þessari rannsókn virðist kynhegðun íslenskra ungmenna vera sambærileg kynhegðun norrænna jafnaldra þeirra.

Í lokaathugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá því í janúar 2003 -við skýrslu Íslands til hennar- sagði m.a.: “(38) Nefndin fagnar upplýsingum um hin nýlega settu lög um barnaklám (2000). Hún fagnar einnig skýrslu um athugun stjórnvalda á umfangi barnavændis og barnakláms, þar sem ýmis tilmæli eru sett fram.  Nefndinni þykir þó miður hversu lág aldursmörk eru sett fyrir samþykki til kynmaka (14 ár), þar sem þau kunna að veita börnum eldri en 14 ára  ófullnægjandi vernd gegn kynferðislegri misneytingu.”

Ákvæði 202. gr. er fyrst og fremst ætlað að verja börn fyrir misnotkun sér eldri einstaklinga en ekki að leggja refsingu við kynferðismökum jafnaldra.  Þegar til þess er litið og jafnframt að 10. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að lækka megi refsingu eða láta hana falla niður ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi telur umboðsmaður barna rétt að hækka kynferðislegan lágmarksaldur í 15 ár.  Í því samhengi má benda á að 15 ár er nokkuð algengt aldursviðmið í íslenskri löggjöf, samanber að sakhæfisaldur er 15 ár, barn öðlast stöðu aðila í barnaverndarmáli 15 ára og í vinnulöggjöfinni er eitt meginviðmiðið varðandi vinnu barna 15 ár.

Þegar um er að ræða samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára gerir frumvarp þetta ráð fyrir að sett verði sérstakt refsilágmark og refsihámark er þyngt og verða refsimörkin þau sömu og fyrir nauðgun.  Í athugasemdum með frumvarpinu (bls. 40) segir:  ”Kynmök fullorðins manns við barn eru slík misnotkun á yfirburðaaðstöðu hans gagnvart barninu að í því felst ofbeldi, hótun og misneyting, þótt það teldist það e.t.v. ekki ef þolandinn væri fullorðinn.  Hafi fullorðinn maður kynmök við barn ætti að ákæra bæði fyrir nauðgun og kynferðisbrot  gegn barni.”  Þegar litið er þeirrar breytingar sem gerð er á nauðgunarhugtakinu í frumvarpinu og tilvitnaðra orða í athugasemdum telur umboðsmaður barna rétt að skoða hvort ekki sé rétt að taka af öll tvímæli í þessu efni að hætti Svía og orða 1. mgr. þannig:  ”Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 (15) ára gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.  Lækka má.......”

Velta má fyrir sér  hvort rétt er að nota orðið kynmök  í verknaðarlýsingu kynferðisbrota gegn börnum.  Það orð felur í sér gagnkvæmni og jafnræði og að báðir aðilar geri sér grein fyrir eðli og alvarleika þess verknaðar sem fram fer.  Benda má á að orðnotkun var breytt í sænsku hegningarlögunum 2005.. Í þessu samhengi má einnig benda á umfjöllun í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. apríl s.l.: ”Ákærða er einnig gefið að sök að hafa, í framhaldi af leik telpnanna, haft ”munnmök” við þær og látið þær hafa ”munnmök” við hann.  Hér þykir dómendum hart kveðið að orði í ákæru og í raun óvægið í garð lítilla barna, sem  ekki hafa í ljósi þroska síns öðlast kynhvöt af nokkru tagi.  Hafi ákærði á annað borð gert á hlut telpnanna og látið þær framkvæma afbrigðilegan verknað honum til fróunar, verður fráleitt  litið svo á að um mök hafi verið að ræða.  Til þess skortir lögmætt samþykki þess, sem fyrir verður.”

Í 3. og. 4. mgr. 202. gr. er kveðið á um að það sé refsivert að annars vegar tæla barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka og hins vegar að greiða barni endurgjald fyrir það.  Misræmi er í refsihámarki fyrir þessi brot, það varðar fangelsi í allt að 4 ár að tæla barn, en í allt að 2 ár að kaupa barn til kynmaka.  Ekki verður séð að haldbær rök hnígi til þessa misræmis og telur umboðsmaður barna að í báðum tilvikum skuli brot sæta fangelsi allt að 4 árum.

Til viðbótar þeim breytingum sem gerðar eru á XXII. kafla hegningarlaga með frumvarpi þessu  telur umboðsmaður barna rétt að gera enn frekari breytingar.

Rétt er að lögfesta sérstakt ákvæði um að virða skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 200.–202. gr ef um endurtekin brot gegn barni er að ræða.  Í þessu sambandi má benda á c. lið 2. mgr. 195. gr. norsku hegningarlaganna.  Tekið er fram í athugasemdum frumvarpsins (bls. 29) að ekki sé lagt til að lögfest sé ákvæði um refsiþyngingarástæður í tengslum við kynferðisbrot gegn börnum samsvarandi þeim sem er að finna í 3. gr. þess og taka  til nauðgunar.  Það er skýrt með þeim hætti að 194. gr. eigi við hver sem aldur þolanda er og að í frumvarpinu sé hvatt til þess að því ákvæði verði beitt í ríkari mæli en nú er gert þegar börn séu þolendur samræðis eða annarra kynmaka.  Í 3. gr. er ekki tilgreint sem refsiþyngingarástæða að brot sé endurtekið.

Séu skoðaðir dómar vegna kynferðisbrota gegn börnum kemur í ljós að kynferðisofbeldi stendur yfirleitt í langan tíma og samkvæmt tölulegum upplýsingum, sem er að finna í ársskýrslu Stígamóta 2005, stóðu sifjaspell í 76 % tilfella yfir í eitt ár eða lengur.  Ekki þarf að fjölyrða um hversu þungbær raun það er fyrir börn að búa við slíkar aðstæður um langa hríð og þær alvarlegu afleiðingar sem sú raun hefur í för með sér.  Því er hér lagt til að í  203. gr. verði sett eftirfarandi ákvæði:  ” Þegar refsing fyrir brot gegn  200. - 202. gr. er ákveðin skal virða til þyngingar ef um endurtekin brot gegn barni er að ræða.”

Jafnframt  þarf  að huga að því að vernda börn fyrir því að fullorðinn einstaklingur sem er tengdur því með þeim hætti sem kveðið er á um í 200.–201. grein eða í þeirri aðstöðu, sem kveðið er á um í 197.-198. gr. veiti öðrum einstaklingum aðgang að barni til kynferðislegra athafna- hvort sem fyrir það kemur greiðsla eða ekki.   Í því samhengi má benda á  2. mgr. 193. gr., 2. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 199. gr. norsku hegningarlaganna.

Í athugasemdum (bls. 29) er vikið að því að erlendar rannsóknir sýni að gerendur í kynferðisbrotum gegn börnum eru oft  sjálfir börn.  Nýleg  íslensk rannsókn leiðir hið sama í ljós.  Í athugasemdunum segir jafnframt að ekki sé til nein sérhæfð meðferð fyrir unga gerendur hér á landi og að huga þyrfti að því hvort rök séu til þess að taka upp slíka meðferð og hvar ætti að finna henni stað.  Hér er um þarfa ábendingu að ræða sem taka ber mark á og  hvetur umboðsmaður barna allsherjarnefnd til að bregðast  við henni með tilhlýðilegum hætti.

Með vísan til framangreindra athugasemda lýsi ég yfir stuðningi við framkomið frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum.

Virðingarfyllst,
Ingibjörg Rafnar