Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot), mál nr. 619.

Skoða frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot), mál nr. 619.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 25. apríl 2006
Tilvísun: UB 0604/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot), mál nr. 619.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 27. mars 2006, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Undirrituð fagnar framkomnu frumvarpi sem og væntanlegri fullgildingu samnings Evrópuráðsins um tölvubrot og telur það mikilvægt skref í baráttunni gegn glæpum sem framdir eru í skjóli alnetsins.

Undirrituð vill þó gera athugasemd við þá ákvörðun að nýta heimild  4. mgr.  9. gr. Evrópuráðssamningsins og koma þannig í veg fyrir að  b - og c - liðum  2. mgr. 9. gr. sé beitt, með þeim rökum að ekki sé ástæða til þess að rýmka hugtakið barnaklám með þeim hætti er þar greinir.

Þrátt fyrir að umræddir stafliðir eigi ekki við ólögráða börn í bókstaflegri merkingu, heldur taki þeir annars vegar til einstaklinga sem líta út fyrir að vera ólögráða börn og hins vegar til raunsannra mynda sem tákna eiga ólögráða börn, er ljóst að með þessu efni er verið að höfða til hvata sem verða að teljast afbrigðilegar og slíkt efni getur útsett börn frekar fyrir slík brot. Verður að telja erfitt sé að gera greinarmun á því hvort um er að ræða mynd af ólögráða barni eða mynd af einstaklingi sem líkist ólögráða barn. Sömu hvatir hljóta að knýja viðkomandi til þess að afla sér, skoða eða dreifa slíku efni. Af þessu leiðir að nauðsynlegt er að gefa þarf skýr skilaboð um að hvers kyns efni sem hefur kynferðislega tilvísun til ólögráða barna teljist barnaklám.

Sú öra tækniþróun sem orðið hefur á alnetinu sem og á öðrum sviðum tækninnar hefur meðal annars orðið til þess að mun auðveldara er að afla sér og dreifa barnaklámi en áður hefur þekkst. Það er því fagnaðarefni þegar alþjóðasamfélagið tekur höndum saman með það að markmiði að samræma löggjöf sína og stuðla að nánari samvinnu í baráttunni gegn afbrotum tengdum fjarskiptatækni.
 
Undirrituð ítrekar stuðning sinn við framkomið frumvarp og væntir þess að það verði samþykkt á hina háa Alþingi að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda. 

Virðingarfyllst,
  
______________________________
Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna