Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar, 279. mál

Skoða frumvarp til laga um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar, þskj. 294 - 279. mál
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna


Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

 Reykjavík,  1. desember 2005
Tilvísun: UB 0511/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar, 279. mál
Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett þann 17. nóvember 2005, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna  um ofangreint frumvarp.

Í  frumvarpi þessu  er að finna  tillögur um breytingar á  barnalögum, lögum um ættleiðingar og hjúskaparlögum. Eru þær flestar lítilvægar og þarfnast ekki langrar umfjöllunar.   Mikilvæg  breyting felst  þó í  1. gr. frumvarpsins, þar sem    kveðið  er á um að  foreldrar fari áfram sameiginlega með forsjá barna sinna við skilnað eða sambúðarslit, nema annað sé ákveðið.   Verður í umsögn þessari fyrst og fremst fjallað um  þetta atriði.

 1. gr. 
Undirrituð er samþykk þeirri breytingu sem hér er gerð enda má segja     sameiginleg forsjá sé  í reynd  orðin meginregla hér á landi.  Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands kusu  foreldrar 61.2 % barna  sameiginlega forsjá við lögskilnað  árið 2003 og  60.7 %   árið 2004.  Sameiginleg forsjá er  talsvert algengari eftir sambúðarslit  en  hún er  nú valin í  þremur af hverjum fjórum tilvikum (73,4 % árið 2003 og  75,8 % árið 2004).

Ég vil þó nefna nokkur atriði  sem ég tel ástæðu  til að allsherjarnefnd skoði nánar áður en  frumvarpið  verður samþykkt á hinu háa Alþingi.

Í athugasemdum með frumvarpi þessu er vísað til þess að hér sé farið að tillögu  svonefndrar  forsjárnefndar.  Í   skýrslu nefndarinnar kemur jafnframt fram “að  skilgreina þurfi nánar í barnalögum  inntak  sameiginlegrar forsjár.”  Á málþingi sem dómsmálaráðherra hélt í lok apríl s.l.   um lokaskýrslu  nefndarinnar    tók  undirrituð undir  þessa ábendingu  nefndarinnar.   Með því að sameiginleg forsjá er gerð að meginreglu verður ekki undan því vikist að skilgreina betur  hvaða réttaráhrif hún hefur.  Hagsmunir þeirra barna  sem í hlut eiga  krefjast þess.

Í barnalögum nr. 76/2003 er í fjallað um inntak  forsjár  í 28. gr. og er þar að finna  ívið ítarlegri  skilgreiningu en í eldri  lögum.  Ákvæðið  lýsir  þó inntaki forsjárhugtaksins   með fremur almennum hætti.  Í  4. mgr. segir að forsjá feli í sér rétt og skyldu foreldris til að ráða persónulegum  högum  barns, ákveða búsetustað þess og fara með lögformlegt fyrirsvar þess.  Segja má að 28. gr. virðist   fyrst og fremst taka mið af  því að  foreldrar  búi   saman ( í hjúskap eða sambúð).  Undantekning er þó 8. mgr. þar sem segir að  fari foreldrar  sameiginlega með forsjá barns sé  öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.  Þetta  ákvæði  var  tekið upp í barnalög árið  1995 og  þá  í  kaflann um umgengnisrétt.     8. mgr. 28. gr. er eina ákvæðið  í barnalögum sem  víkur sérstaklega að  inntaki sameiginlegrar forsjár.  Í  örfáum  ákvæðum annarra laga  er  vikið að  sameiginlegri forsjá, t.a.m. er  í 24. og 25.  gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 tekið á því  hvort þurfi  samþykki annars  eða beggja foreldra sem  ekki búa saman en fara sameiginlega með forsjá barns  til  beitingar þartilgreindra  barnaverndarúrræða.

Á athugasemdum með frumvörpum  til barnalaga 1992 og 2003  er  ekki mikið að græða í þessu efni.   Í  athugasemdum með frumvarpi til barnalaganna frá 1992  var lítillega fjallað um  inntak sameiginlegrar  forsjár, enda  var  hún þá  lögfest hér á landi í fyrsta skipti.  Þar  segir m.a.: “ Barnið dvelst þá  jafnaðarlega aðallega hjá öðru foreldri, en  hjá hinu á tilteknum tíma eða tímabilum.  Lögráðin  eru hins vegar í höndum  beggja, þannig að þörf er á samþykki þeirra beggja og atbeina til allra meiri háttar ákvarðana er  barnið varðar, um persónulega hagi  þess og fjármál.”   Og  jafnframt : “Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris til að taka við meðlagsgreiðslum með barni úr hendi hins foreldrisins eða Tryggingastofnunar ríkisins, mæðra- eða feðralaunum og barnabótum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera ef því er að skipta."

Í  athugasemdum með  frumvarpi til  núgildandi barnalaga má fá nokkra leiðbeiningu  af umfjöllun um 7. mgr. 28. gr. en hún kveður á um að  ef annað forsjárforeldra barns
er hindrað í að  sinna forsjárskyldum sínum eru  nauðsynlegar ákvarðanir  um persónulega hagi  barns  gildar.   Þar segir  m.a. : “Hér er ekki verið að vísa til minni háttar ákvarðana, því almennt er ekki gert ráð fyrir  að atbeina  beggja foreldra þurfi til slíkra ákvarðana, heldur er átt við ákvarðanir sem talist geta þýðingarmiklar.  Rétt er að undirstrika  að ákvæðið er bundið við nauðsynlegar ákvarðanir og því verður  sú krafa almennt gerð að ákvarðanir, sem mega bíða þar til foreldri er ekki lengur hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum, geri það.”

Það er  athyglisvert að mest umfjöllun um inntak sameiginlegrar forsjár var að finna  í athugasemdum með fumvarpi til breyting á  barnalögum nr. 9/1981 sem lagt var fram árið 1987, en þá var fyrst lagt til að taka upp sameiginlega forsjá.  Það  frumvarp hlaut hins vegar ekki afgreiðslu.

Skort hefur á  leiðbeiningar og  fræðslu um réttaráhrif  og efni barnalaga  af hálfu  hins  opinbera, þrátt fyrir að  sifjalaganefnd  hafi  í athugasemdum með frumvörpum lagt   mikla áherslu á slíka fræðslu.    Hin síðustu  ár hefur verið bætt úr því  að litlu leyti með því að á netinu er að finna upplýsingar um þetta efni.  Á vef dómsmálaráðuneytisins segir um sameiginlega forsjá: “Foreldrar þurfa að vera sammála um hjá hvoru  þeirra barn á að eiga lögheimili.  Barnið dvelst þá að jafnaði hjá því foreldra sem það á lögheimili hjá, en dvelst  hjá hinu á tilteknum tíma.  Sá sem barnið býr hjá tekur ákvarðanir um daglegar þarfir  barnsins hverju sinni.  Samþykki  beggja foreldra þarf hins vegar að koma til varðandi allar meiriháttar ákvarðanir sem varða persónulega hagi barnsins. Sýslumaður getur úrskurðað  um meðlag og umgengni þótt foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eins og sagt  er í köflum um umgengni og meðlag.  Foreldri sem barn er með lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum.”  Á vef  sýslumanna  segir: “Með sameiginlegri forsjá er átt við að báðir foreldrar fari með forsjá barns, þó þeir búi ekki saman.  Barnið dvelst þá að staðaldri hjá öðru  foreldri og á hjá því lögheimili, en dvelst  hjá hinu á tilteknum tíma eða tímabilum.  Sá sem barnið býr hjá ræður hversdagslegum athöfnum þess.  Samþykki beggja foreldra þarf hins vegar  til að koma varðandi allar meiriháttar ákvarðanir sem varða persónulega hagi barnsins, svo sem búsetu og skóla, svo og fjármál.  Foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum.”

Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að löggjafinn og  stjórnvöld hafa ekki skýrt  nægilega vel hvaða réttaráhrif  það hefur  að forsjá barns hvílir sameiginlega á herðum  beggja foreldra.  Í dag má segja að  um  margt  ríki óvissuástand í þessum efnum, sem er með öllu óviðunandi ef  sameiginleg forsjá á að vera  meginreglan.  Norðmenn hafa kosið að  setja  slíka  skilgreiningu  að hluta  inn í lagatextann sjálfan, sbr. 37. gr.  norsku barnalaganna.    Slík skilgreining gæti einnig átt heima  í reglugerð eða sérstökum  reglum/leiðbeiningum  dómsmálaráðuneytis  sem  væru gefnar út  og kynntar  almenningi, sérstaklega þeim sem  leita  til sýslumanna  vegna  samvistaslita. 

Í  núgildandi barnalögum   var  sameiginleg forsjá styrkt verulega  sem forsjárúrræði með því að  foreldrar geta nú leitað úrskurðar sýslumanns  með   tvenns konar ágreining,  um umgengni og  meðlög.  Jafnframt ber að nefna að samkvæmt  4. mgr.  51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er unnt að bera ágreining fjárhaldsmanna barns um fjárhaldið  undir  yfirlögráðanda.   Verði  sameiginleg forsjá gerð að meginreglu  er vert að athuga hvort rétt er    fjölga þeim  ágreiningsefnum, sem foreldrar geta leitað með til sýslumanns. Nefna      tímabundinn flutningur með barn úr landi  getur  fyllilega átt rétt á sér,  t.d. vegna  náms  foreldris  og  óþarfi/óæskilegt    leggja í  forsjármál til að fá úr  slíkum ágreiningi  skorið.

Jafnframt  telur undirrituð að  rétt væri að kveða á um það í  31. gr. eða 46. gr. barnalaga     leggja þurfi fram  til staðfestingar sýslumanns samkomulag um hvernig  umgengni/samvistum barns við það foreldri sem það á ekki lögheimili hjá skuli háttað   eða  a.m.k.    sýslumaður  bóki að samkomulag sé  um umgengni og  um helstu efnisatriði þess.  Telja má víst að  það séu meiri líkur til þess að  umgengni gangi vel  ef  staðreynt er með þessum hætti að  foreldrar hafi rætt  og  gert samkomulag  um hana.   Rétt er að nefna  að forsjárnefnd  lagði áherslu á þetta í skýrslu sinni.   Til þess er og að líta  að samningur um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest er samkvæmt  48. gr. bl. grundvöllur  þvingunaraðgerða,  þ.e. hann er unnt að fullnusta með dagsektum eins og  ef um úrskurð  væri að ræða.

Undirritaðri  virðist að af breytingu  þeirri  er frumvarpið gerir ráð fyrir á  31. gr.  leiði að  skoða þurfi  orðalag annarra  greina laganna.  Rétt  væri að umorða   1. mgr. 32. gr.  þannig að hún  taki þá fyrst og fremst til samninga foreldra sem ekki hafa verið gift eða í skráðri sambúð    og   einnig þarf að skoða  2. mgr. hennar.     Jafnframt þarf að taka af allan vafa um að  sérfræðiráðgjöf  skv. 33. gr.    skuli  bjóða við ákvörðun um lögheimili barns.

 2. – 4. gr. 
Undirrituð gerir ekki athugasemdir við greinar þessar.

5. gr.  
Ég  tel  orðalag  greinarinnar óskýrt  þegar litið er til þeirra skýringa sem fram koma í athugasemdum með frumvarpinu um að átt sé við að ekki þurfi að leita umsagnar barnaverndarnefndar  þegar  tvímælalaust  sé að umsókn beri að hafna.  Rétt væri að  kveða skýrt á um það í greininni sjálfri.

 6. gr. 
Undirrituð gerir ekki athugasemdir við grein þessa.

7. gr. 
Sjá athugasemd við  5. gr.

8. – 12. gr. 
Undirrituð gerir ekki athugasemdir við greinar þessar.

 Með vísan til framangreindra  athugasemda  lýsi ég yfir stuðningi við framkomið frumvarp til laga um breyting  á  nokkrum  lögum á sviði sifjaréttar


Virðingarfyllst,
Ingibjörg Rafnar