Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um almannatryggingar, tannlæknakostnaður aldraðra, öryrkja og barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. apríl 2005
Tilvísun: UB 0504/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um almannatryggingar, 587. mál, tannlæknakostnaður aldraðra, öryrkja og barna

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dagsett 17. mars 2005, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem miða m.a. að því að koma til móts við markmið Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 um bætta tannheilsu barna og unglinga. Þá viðleitni tel ég mjög af hinu góða. Einnig vil ég fagna hækkun aldursmarka 2. mgr. 37. gr. laganna úr 15 árum í 18 ár og þeirri auknu greiðsluþátttöku ríkisins vegna tannlæknisþjónustu sem hækkunin hefur í för með sér. Þessi breyting felur í sér bætta réttarstöðu barna eldri en 15 ára og færir almannatryggingalögin til samræmis við þá meginreglu er birtist m.a. í barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að einstaklingur er barn að 18 ára aldri. 

Hins vegar vil ég þó jafnframt benda á mikilvægi þess að farið sé varlega þegar ákvæði laga er varða mikilsverð réttindi borgaranna eru færð yfir í reglugerðir, þar sem mun einfaldara er fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að breyta þeim. Réttindi barna til að njóta besta heilsufars og heilbrigðisþjónustu, þ.á m. tannlæknaþjónustu er tryggður í 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en þar segir að aðildarríkin skuli tryggja að hvert barn njóti besta heilsufars og aðstöðu til læknismeðferðar. Þá segir að yfirvöld skuli  kappkosta að ekkert barn fari á mis við þennan rétt sinn til heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. tannlæknaþjónustu.

Virðingarfyllst
Ingibjörg Rafnar