Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18 til 24 ára

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 31. mars 2005
Tilvísun: UB 0503/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18 til 24 ára

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 14. mars 2005, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda þingsályktunartillögu.

Árið 1998 sendi þáverandi umboðsmaður barna frá sér ítarlega álitsgerð um málefni ungra fanga. Í álitsgerðinni var lögð rík áhersla á mikilvægi þess að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að ungir afbrotamenn færu í fangelsi. Þess í stað yrðu þeim boðin úrræði sem haft gætu í för með sér raunverulega betrun þeirra og samfélagslega endurhæfingu í samræmi við ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Í álitsgerðinni segir m.a. orðrétt:

„Á meðan ekki hefur verið komið á fót meðferðarstofnun fyrir ungmenni, sem dæmd hafa verið til óskilorðsbundinnar refsivistar, er mér ljóst að ekki verður hjá því komist að vista þau í venjulegum afplánunarfangelsum. Í þeim tilvikum þarf hins vegar að reyna að búa svo að ungum föngum að dregið verði úr neikvæðum ákvæðum fangavistarinnar eftir því sem kostur er.

Í því sambandi vek ég sérstaka athygli á ákvæði því sem er að finna í c-lið 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en það hljóðar svo:

„Aðildarríki skulu gæta þess að: Farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er sjálfræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á.“

Í lokamálslið 3. mgr. 10. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ... segir svo:

„Ófullveðja brotamenn skulu aðskildir frá fullorðnum mönnum og sæta meðferð sem hæfir aldri þeirra og réttarstöðu.“

 Síðla árs 1998 var gert samkomulag milli Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu um vistun fanga yngri en 18 ára á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu í stað fangelsis. Slík vistun er þó háð samþykki viðkomandi og hefur reynslan sýnt að sumir brotamenn á aldrinum 15 - 18 ára kjósa heldur að sitja í fangelsi en að taka út dóm sinn á meðferðarheimili. Þessir einstaklingar sitja í dag í almennum fangelsum. Sérdeild fyrir unga fanga myndi koma til móts við þarfir þessa hóps sem og þeirra ungu fanga sem fjallað er sérstaklega um í umræddri þingsályktunartillögu, þ.e. á aldrinum 18 - 24 ára.

Rétt er að benda á að á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hinn 28. janúar 2003 var fjallað um aðra skýrslu Íslands um framkvæmd Barnasáttmálans, sem skilað hafði verið til nefndarinnar 27. apríl 2000. Í lokaathugasemdum nefndarinnar um skýrsluna segir m.a. í kafla C um helstu áhyggjuefni og tilmæli að nefndin mælist til þess við aðildarríkið að það tryggi með lögum að börn í haldi séu aðskilin frá fullorðnum eins og kveðið er á um í c-lið 37. gr. Barnasáttmálans.

Með vísan til framangreinds sem og meðfylgjandi álitsgerðar um unga fanga, dagsettrar 9. júlí 1998 í heild sinni tek ég undir efni þingsályktunartillögunnar og vonast til að hún hljóti samþykki á hinu háa Alþingi.

Virðingarfyllst,
Ingibjörg Rafnar