Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um almenn hegningarlög

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 7. mars 2003
Tilvísun: UB 0312/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um almenn hegningarlög

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 18. febrúar 2003, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Árið 1997 lét ég taka saman skýrsluna "Heggur sá er hlífa skyldi", um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Eru í skýrslunni borin saman ákvæði íslenskra laga um kynferðisbrot, meðferð og framkvæmd slíkra mála hjá lögreglu og dómstólum við réttarstöðuna í þessum málaflokki í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ásamt því að settar eru fram tillögur til breytinga á íslenskum lögum til að styrkja réttarstöðu barna, sem fórnarlamba kynferðisofbeldis. Um leið og ég kynnti skýrsluna fyrir þáverandi dómsmálaráðherra, kom ég á framfæri nokkrum tillögum mínum til úrbóta á m.a. ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992. Ein af tillögum mínum var að tekið yrði upp ákvæði í almennum hegningarlögum er mæli fyrir um eins árs lágmarksrefsingu vegna kynferðisbrota gegn börnum.

Meðal þess, sem fram kemur í framangreindri skýrslu, er að í norskri og sænskri refsilöggjöf er kveðið á um lágmarksrefsingu vegna kynferðisbrota gegn börnum. Samkvæmt norska ákvæðinu skal dæma mann í fangelsi, ekki skemur en eitt ár, hafi verknaðurinn falið í sér samræði. Þessi lögbundna lágmarksrefsing er óháð því hvort brot telst að öðru leyti sérlega gróft eða ekki. Í sænska ákvæðinu er gert ráð fyrir því að lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot af þessu tagi sem telst mjög gróft verði ekki skemmri en fangelsi í tvö ár.

Nokkur ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, tilgreina lágmarksrefsingu við brotum gegn þeim. Þetta eru m.a. ákvæði er varða nauðgun, 194. gr., manndráp, 211. gr. og 2. mgr. 216. gr., mannrán, 226. gr., flugrán, 2. mgr. 165. gr., íkveikju er skapar almannahættu, 164. gr. og rán, 252. gr. Ekki er um tæmandi talningu að ræða, en eins og sjá má hefur verið tilhneiging til að tilgreina lágmarksrefsingu í ákvæðum er varða brot á miklum hagsmunum, sem litið er alvarlegum augum. Tel ég engan vafa leika á að alvarleg kynferðisbrot gegn börnum, er falla undir 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga, eigi heima í flokki með ofangreindum brotum og ætti því að liggja lágmarksrefsing við broti gegn þeim.

Í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að refsimörk vegna grófustu kynferðisbrota gegn börnum samkvæmt 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga verði hækkuð. Með þeirri breytingu er gert ráð fyrir að refsingar vegna þessara brota þyngist. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vísa til II. kafla almennra athugasemda við lagafrumvarpið  þar sem segir m.a: Rétt þykir að alvarleiki þessara brota verði virtur í þessu ljósi og er því lagt til að refsimörk vegna grófustu kynferðisbrota gegn börnum samkvæmt 200. og 201. gr. verði hækkuð. Er þá gert ráð fyrir að refsingar vegna þessara brota þyngist (Leturbreyting umboðsmanns).  Hér verður einnig að hafa í huga að ákvæði taka til brota þar sem venjulega er mikill aldursmunur á milli barns og geranda, sem brýtur gróflega gegn trúnaði sínum við barnið.

Skoðun mín er sú að þau rök sem þarna eru færð fram,  nýtist ekki síður til stuðnings þeirri breytingu sem ég legg til að gerð verði á 2. og 3. gr. fyrirliggjandi frumvarps, þ.e. að eigi skuli dæma mann skemur en eitt ár í fangelsi fyrir brot skv. 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga

Ég vil leggja til að í stað þess, eða samhliða því, að hækka refsimörkin samkvæmt þessum ákvæðum, verði lögfest eins árs lágmarksrefsing vegna kynferðisbrota gegn börnum, en það mun, að mínu mati, leiða til þyngingar refsinga vegna þessara brota.

Í skýrslunni "Heggur sá er hlífa skyldi" kemur einnig fram að ég tel rétt að breyta ákvæði 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992, á þann hátt að ákvæði 1. mgr. verði látið ná til barna yngri en 16 ára. Af þessu tilefni vil ég taka fram:

Með breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu hefur sú skoðun hlotið æ meira fylgi, að rétt sé að veita börnum almennt ríkari vernd en tíðkast hefur, ekki síst í formi refsiverndar. Samkvæmt íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, er einstaklingur skilgreindur sem barn til 18 ára aldurs. Sjálfræðisaldur var hækkaður hér á landi með lögum nr. 71/1997 og voru ýmis rök færð fyrir þeirri breytingu. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir m.a., að meginrökin fyrir hækkun sjálfræðisaldurs séu breyttar þjóðfélagsaðstæður, ... og samræmingar- sjónarmið hvað varðar alþjóðlega sáttmála og löggjöf í nágrannaríkjunum. Þá eru barnaverndarsjónarmið nefnd sem ástæða fyrir hækkuninni.

Að mínu mati eiga þau rök sem færð voru fyrir hækkun sjálfræðisaldurs að nokkru leyti einnig við um hækkun kynferðislegs lögaldurs, en ég tel mikilvægt að viðhalda ákveðnu samræmi í löggjöfinni, þannig að vernd barnanna sé ekki að miklum mun lakari að því er varðar kynferðismál, en á öðrum sviðum. Þá ber að geta þess, að sambærileg ákvæði í refsilögum annarra Norðurlandaþjóða, veita ríkari vernd en 202. gr. almennra hegningarlaga, þar sem kynferðislegur lögaldur er 15-16 ár.  Tel ég rétt að huga að samræmingu, þannig að íslensk börn njóti sambærilegrar verndar og jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum.

Markmiðið með aukinni og óskilyrtri vernd barna á aldrinum 14-16 ára í kynferðismálum, hlýtur að vera að vernda þau gegn misnotkun sér eldri einstaklinga, sem reyna að nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna í kynferðislegum tilgangi. Takmarkið er því ekki að leggja refsingu við kynferðismökum jafnaldra, heldur, eins og að framan segir, að vernda börnin fyrir misnotkun eldra og reyndara fólks. Jafnhliða því að hækka aldursmörk í framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga, tel ég mikilvægt að við lögin verði bætt ákvæði þess efnis, að refsingu megi færa niður eða fella alveg niður, ef aðilar eru á líkum aldri og svipaðir í þroska, sbr. t.d. til hliðsjónar ákvæði 205. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.

Ég vil leggja til að viðmiðunaraldur samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga verði hækkaður úr 14 árum í 16 ár.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að finna víðtækt ákvæði þar sem kveðið er á um vernd barna gegn ýmisskonar ofbeldi og notkun.  Þar segir m.a. í 19. gr:

Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun ...

Með þessum athugasemdum lýsi ég að öðru leyti yfir ánægju minni með framkomið frumvarp, sem miðar að ríkari refsivernd barna gegn kynferðisbrotum. Mikilvægi þeirrar verndar er óumdeilt og tel ég frumvarpið skref í þá átt að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal