Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til barnaverndarlaga

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 7. maí 2001
Tilvísun: UB 0105/4.1.1

 Efni: Frumvarp til barnaverndarlaga

Vísað er til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dagsett 4. apríl 2001, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp. Um leið og þakkað er fyrir þetta tækifæri, vil ég geta þess að hinn 1. september 1998 sendi ég samkvæmt beiðni, formanni nefndar um endurskoðun laga um vernd barna og ungmenna, minnisblað þar sem er að finna álit mitt á gildandi barnaverndarlögum með sérstöku tilliti til þeirra atriða, sem ég taldi ástæðu til, að athuguð yrðu við endurskoðun laganna.

Í minnisblaðinu segir m.a.: Vegna mikilla starfsanna reynist mér ekki unnt að gefa eins ítarlegt álit og ég hefði kosið en ég vil þó ekki láta undir höfuð leggjast að nefna í stuttu máli mikilvæg atriði sem ég tel að nefndin ætti að taka til skoðunar... Eftirtalin atriði vil ég nefna:

*Setja ætti ákvæði um að: Sveitarstjórn marki sér stefnu og geri framkvæmdaáætlun til nokkurra ára á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins.

*Stækkun barnaverndarumdæma þarf að halda áfram svo þeim verði kleift að ráða í sína þjónustu sérhæft starfslið. Einnig er afar brýnt að velta upp þeirri spurningu, hvort ekki sé komið að þeim tímamótum að leggja niður barnaverndarnefndir í núverandi mynd, þ.e. að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi barnaverndarmála.

*Setja þarf í lögin sérstaka tímafresti í sambandi við meðferð barnaverndarmála, sem dæmi, þegar tekið hefur verið við tilkynningu um vanrækslu barns þá ber að taka tilkynningu þess efnis til skoðunar án tafar og aldrei síðar en viku eftir að hún berst. Könnun máls má almennt ekki taka lengri tíma en 3 mánuði. Í undantekningartilvikum þó 6 mánuði. Lengd kærufrests þarf einnig að taka til skoðunar.

*Við meðferð barnaverndarmála skal að meginreglu til fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga.

*Kæruleiðir þurfa að vera skýrari og markvissari en nú er, sbr. álit nefndar sem skilaði tillögum til félagsmálaráðherra á árinu 1997.

*Börn skulu eiga rétt á að fá skipaðan talsmann á fyrri stigum málsmeðferðar en núgildandi lög kveða á um.

*Setja þarf ákvæði um rétt barna til að tjá sig um mál, sem er til meðferðar áður en ákvörðun er tekin, og því eldri sem þau eru og þroskaðri ber að taka meira tillit til sjónarmiða þeirra við niðurstöðu máls.

*Skoða ber hvort setja eigi inn í lögin að barn öðlist stöðu aðila við 15 ára aldur, sbr. til hliðsjónar sakhæfisaldur.

*Þegar um þvingunarúrræði er að ræða af hálfu barnaverndaryfirvalda verður að vera unnt að vísa málinu til úrskurðar annars stjórnvalds og úrskurðum þess ætti síðan að vera unnt að vísa til dómstóla.

*Kveða þarf skýrt á um bann við líkamlegum og andlegum refsingum gagnvart börnum af hálfu foreldra/forsjáraðila og annarra sem fara með umsjón barna.

*Meginreglur um þvingungarráðstafanir og agaviðurlög á meðferðarheimilum fyrir börn og ungmenni þurfa að eiga skýra heimild í lögum. Nákvæmlega þarf að skilgreina hver megi beita þeim; við hvaða aðstæður o.s.frv. Virða þarf kærurétt barns í þessu sambandi. Réttarstaða barns þarf að vera glögg við þessar aðstæður.

*Meginreglur þarf að setja um skráningu og varðveislu trúnaðargagna skjólstæðinga barnaverndaryfirvalda.

*Eftirlitsþáttinn í barnaverndarstarfi þarf að taka til endurskoðunar á öllum sviðum og gera hann markvissari en raunin er. Ekki fer saman að hafa á sömu hendi leiðbeiningar- og eftirlitsstarf.

*Þeir sem starfa á sviði barnaverndarmála þurfa að hafa hreint sakavottorð a.m.k. hvað varðar brot gagnvart börnum og ungmennum. Ákvæði um slíkt þarf að vera í barnaverndarlögum.

*Ákvæði um varanlegt fóstur þarf að endurskoða. Hvert er markmiðið með varanlegu fóstri og hver er réttarstaða barna í slíku fóstri? Að þessum atriðum þarf að huga gaumgæfilega. Þá er brýnt að skoða eftirlitsþáttinn, fyrirkomulag hans og eðli.

*Skoða þarf réttarstöðu ungra afbrotamanna á sviði barnaverndar.

*Skipuleg samvinna barnaverndaryfirvalda, skólayfirvalda og lögregluyfirvalda er mikilvæg, ekki síst í forvörnum.

*Aldursmörk þarf að skoða í heild sinni með hliðsjón af hækkun sjálfræðisaldurs.

*Taka ber til sérstakrar skoðunar ákvæðið um útivistartímann og aldursmörk í því sambandi, sjá bréf umboðsmanns barna til félagsmálaráðherra frá árinu 1996.

*Einnig ber að taka til skoðunar aldursmörk varðandi þátttöku í fyrirsætukeppnum o.þ.h., sbr. bréf umboðsmanns barna frá þessu ári.

*Ákvæði um skemmtanahald ýmiss konar, sbr. núgildandi 58. gr., þarf að taka til endurskoðunar í ljósi nýrra tíma, sbr. t.d. tillögur nefndar, sem skilaði félagsmálaráðherra áliti sínu á árinu 1997.

*Þá er athugandi að setja ákvæði inn í barnaverndarlög sem mælir fyrir um úttekt/endurmat á starfsemi meðferðarheimila og öðrum stofnunum á vegum barnaverndaryfirvalda á tilteknu tímabili.

*Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi nefnd til nokkurra ára sem hafi það verkefni að gera breytingar á lögum um vernd barna og ungmenna, sbr. til hliðsjónar réttarfarsnefnd og refsilaganefnd sem dómsmálaráðherra skipar til nokkurra ára í senn.

Það er fagnaðarefni að við lestur frumvarpsins kemur í ljós að flest þeirra atriða, sem að framan eru talin, hafa verið tekin upp í frumvarpið þótt þess sé reyndar að engu getið í athugasemdum við það. Í tengslum við 93. gr. frumvarpsins er þó vitnað til ábendingar minnar, sem upphaflega kom fram í bréfi mínu til félagsmálaráðherra, dags. 28. apríl 1998, en þar er ekki farið að öllu leyti rétt með, en nánar um það síðar.

Í fyrrgreindu minnisblaði til formanns nefndar um endurskoðun barnaverndarlaga tek ég fram að ekki sé þar að finna endanlegt álit mitt á núgildandi barnaverndarlögum og áskildi ég mér rétt til að koma að fleiri atriðum síðar ef ég teldi ástæðu til. Hér á eftir fylgir umsögn um nokkur atriði, sem er að finna í frumvarpi til nýrra barnaverndarlaga, og ég tel ástæðu fyrir félagsmálanefnd að skoða nánar áður en frumvarpið verður samþykkt á hinu háa Alþingi.

II. kafli
Yfirstjórn barnaverndarmála

 Í 7. og 8. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk barnaverndarstofu. Þar segir m.a. að barnaverndarstofa skuli annast ráðgjöf og fræðslu fyrir barnaverndarnefndir í landinu, en jafnframt skuli stofan sjá um eftirlit með nefndunum og störfum þeirra. Samkvæmt framangreindu minnisblaði mínu, benti ég á að ekki færi saman að hafa á sömu hendi ráðgjöf og eftirlit. Nauðsynlegt væri að taka eftirlitsþáttinn í barnaverndarstarfi til endurskoðunar á öllum sviðum og gera hann markvissari. Þessi ábending mín var ekki tekin til greina og er því enn gert ráð fyrir að ráðgjöf og eftirlit verði á sömu hendi. Af þessu tilefni tel ég nauðsynlegt að greina frá því að reglulega berast embætti mínu kvartanir og ábendingar þess efnis að óheppilegt sé, að sama stofnun skuli koma að barnaverndarmálum, fyrst með leiðbeiningum og ráðgjöf til barnaverndarnefndar og síðar sem eftirlitsaðili með starfi sömu nefndar. Þessi vinnubrögð þykja ýmsum, sem eiga samskipti við barnaverndarnefnd og barnaverndarstofu, af einu eða öðru tilefni, í hæsta máta óeðlileg og telja það bjóða hættunni heim með tilliti til réttaröryggis, þegar sama starfsfólkið kemur að málum, fyrst með ráðgjöf og er síðan ætlað að hafa eftirlit með nefndunum þar sem reynt getur á gildi ráðgjafar.

Ég vil koma þessu sjónarmiði á framfæri, enda tel ég mikilvægt að almenningur beri traust til barnaverndaryfirvalda og þeirra stjórnsýslustofnana, sem að málum þeirra koma, en á því virðist nokkur misbrestur.

Í 9. gr. frumvarpsins er lagt fyrir sveitarstjórnir að þær skuli marka sér stefnu og gera framkvæmdaráætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins. Þá segir í 5. gr. að félagsmálaráðherra beri ábyrgð á stefnumótun í barnavernd. Í minnisblaði mínu til endurskoðunarnefndarinnar, benti ég m.a. á nauðsyn þess, að sveitarstjórnir marki sér stefnu og geri framkvæmdaráætlun til nokkurra ára á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins. Ég vil fagna því sérstaklega, að þessum ákvæðum hafi verið fundinn staður í frumvarpinu, því stefnumótun í málaflokki sem þessum og gerð framkvæmdaáætlunar í framhaldi af því skapar afar mikilvæga undirstöðu undir allt barnaverndarstarf í landinu. Það er því mikið fagnaðarefni að í lögum skuli nú loks kveðið á um þennan mikilvæga þátt í barnaverndarstarfi. Ég hef lengi bent á nauðsyn þess að mótuð verði heildarstefna í málefnum barna á Íslandi, og tel stefnumótun í einstökum málaflokkum, sem varða börn, vera nauðsynlegt innlegg í þá vinnu.

III. kafli
Barnaverndarnefndir

 Mjög jákvætt er að stuðla enn frekar að sameiningu barnaverndarnefnda og eflingu þeirra, til hagsbóta fyrir barnaverndarstarf í landinu. Í áðurnefndu minnisblaði mínu, velti ég upp þeirri spurningu hvort ekki væri komið að þeim tímamótum að leggja niður barnaverndarnefndir í núverandi mynd, þ.e. að ráðast í grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi barnaverndarmála. Af frumvarpinu er ljóst að ekki hefur verið ákveðið að ganga svo langt að þessu sinni. Ég tel þó að við heildarendurskoðun barnaverndarlaga sé rétt að staldra við og íhuga hvort verkefni barnaverndarnefnda, eins og þau eru skilgreind í frumvarpinu, séu ef til vill betur komin hjá sérhæfðu starfsliði sveitarfélaganna, en í 14. gr. frumvarpsins er fjallað um æði rúmar heimildir starfsliðs barnaverndarnefnda til umfjöllunar um mál, er heyra undir nefndirnar. Í 3. mgr. 14. gr. segir, að barnaverndarnefnd sé heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Um er að ræða framsal á valdi barnaverndarnefnda til einstakra starfsmanna. Við mat á vægi barnaverndarnefndanna sem slíkra, tel ég mikilvægt að litið verði til þess í hve miklum mæli framsal af þessum toga fer fram. Þá tel ég einnig nauðsynlegt að skoða nánar tengsl sveitarstjórnar við barnaverndarnefnd sveitarfélagsins. Við mat á framangreindum atriðum verður að hafa það eitt að leiðarljósi sem barni er fyrir bestu og skulu allar aðgerðir miða að því að ná því takmarki, sbr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, hér eftir nefndur Barnasáttmálinn.

Í tengslum við þennan kafla frumvarpsins vil ég koma á framfæri ábendingu sem barst embætti mínu varðandi heimildir barnaverndarnefndar til afskipta af börnum, sem eru „stödd“ í umdæmi nefndarinnar, en eiga þar ekki lögheimili. Ekki kemur skýrt fram í frumvarpinu, hverjar heimildir barnaverndarnefndar eru í slíkum tilvikum, t.d. ef neyðarástand skapast, sem nauðsynlegt er að bregðast tafarlaust við.

IV. kafli
Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld

 Skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, áreitni, ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni eða þroska í hættu hvílir, samkvæmt frumvarpinu, á almenningi og sérstaklega er skyldan rík, ef um er að ræða þá sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af börnum. Ekki er í frumvarpinu að finna sérstakt ákvæði, sem tekur á rétti barna til að leita sjálf til barnaverndarnefnda á frumstigi máls, þ.e. að þau geti tilkynnt barnaverndarnefnd um slæman aðbúnað, áreitni eða ofbeldi. Ég tel ákaflega mikilvægt að börnum sé gert kleift að leita sjálf til barnaverndaryfirvalda til að óska eftir aðstoð og þau eigi sama rétt á nafnleynd og aðrir er tilkynna um mál þangað. Ákvæði er mælti fyrir um þennan rétt barna, tel ég nauðsynlegt til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Barnasáttmálanum, en samkvæmt honum er litið á börn sem sjálfstæða einstaklinga með eigin réttindi.

Í 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins er m.a. fjallað um skýrslutöku af börnum. Ekki er þar fjallað sérstaklega um málefni ósakhæfra barna, en mikill munur er á meðferð mála ósakhæfra barna og barna er náð hafa sakhæfisaldri. Þegar barn, yngra en 15 ára, fremur afbrot, er málið ekki lögreglumál heldur fyrst og fremst barnaverndarmál og þarf að taka á því sem slíku. Frá árinu 1996 hef ég ítrekað bent á nauðsyn þess að settar verði samræmdar reglur um samskipti lögreglu og ósakhæfra barna, sem komist hafa í kast við lögin, en fjöldi erinda hefur borist embætti mínu vegna mála sem þessara. Mikilvægt er að til séu vandaðar reglur um þessi mál og tel ég því afar brýnt að skýrar verði kveðið á um samráð barnaverndarstofu við lögreglu- og dómsmálayfirvöld við gerð tillagna, sem félagsmálaráðherra setur með reglugerð. Í athugasemdum með 18. gr. segir, að gera verði ráð fyrir að við undirbúning á tillögum að reglum hafi Barnaverndarstofa samráð við lögreglu- og dómsmálayfirvöld. Slíkt samráð ætti að vera skylda.

Samvinna og samráð þeirra aðila sem koma að málefnum barna hjá sveitarfélögum er ákaflega mikilvægt. Ég vil því sjá ákvæði í lögunum þess efnis, að reglubundið samstarf verði að vera innan sveitarfélaga milli starfsfólks barnaverndar, heilsugæslu, leikskóla og grunnskóla. Þetta myndi tryggja enn frekar velferð barnanna, þar sem mál þeirra yrðu reglulega  með skipulegum hætti til skoðunar hjá þeim aðilum, sem með þau fara.

V. kafli
Upphaf barnaverndarmáls

Í 21. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um tímafrest, sem barnaverndarnefnd hefur til að taka ákvörðun um, hvort ástæða sé til að hefja könnun máls. Mikilvægt er að bregðast skjótt við þegar tilkynning um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin. Að bregðast við slíkri tilkynningu strax getur skipt sköpum fyrir viðkomandi barn. Í ákvæðinu segir að barnaverndarnefnd skuli bregðast við án tafar, og eigi síðar en innan sjö daga frá því tilkynning barst. Í 41. gr. frumvarpsins segir síðan, að ákvörðun um beitingu viðeigandi úrræða skuli að jafnaði liggja fyrir innan þriggja mánaða og eigi síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun var tekin um að hefja könnun. Margar þeirra ábendinga og kvartana, sem mér berast, tengjast seinagangi við meðferð barnaverndarmála og af þeim sökum kom ég þeirri ábendingu á framfæri í framangreindu minnisblaði mínu til endurskoðunarnefndarinnar, að settir yrðu í lögin sérstakir tímafrestir í sambandi við meðferð barnaverndarmála. Þessar ábendingar hafa nú verið teknar upp í frumvarpið og vil ég fagna því sérstaklega.

VI. kafli
Ráðstafanir barnaverndarnefnda

 Ég hef bent á, m.a. í fyrirliggjandi minnisblaði mínu, að réttur barns til að tjá sig um mál, sem er til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum, áður en ákvörðun er tekin, þyrfti að vera tryggður í barnaverndarlögunum.  Ákvæði þess efnis er að finna í 23. gr. frumvarpsins. Ég tel þetta mikla réttarbót, er tryggir rétt barnanna til að koma að málinu strax í upphafi og lýsi yfir ánægju minni með það. Samvinna og/eða samráð við börnin sjálf í upphafi málsmeðferðar, ætti að leiða til þess að það sem barni er fyrir bestu í hverju einstöku máli komi betur í ljós og vert er að hafa í huga að skoðanir og sjónarmið barns fá stöðugt meira vægi eftir því sem þroski þess vex.

 Eins og með önnur lagaákvæði er mikilvægt, að framkvæmd þeirra sé í fullu samræmi við lagatextann og lögskýringargögn. Nokkur misbrestur virðist hafa verið á því hingað til, hvað varðar gerð skriflegrar áætlunar um meðferð barnaverndarmáls, ef marka má ábendingar og kvartanir sem mér hafa borist. Slík áætlun hlýtur að vera grundvöllur undir því að vel takist til við meðferð málsins. Von mín er sú, að barnaverndaryfirvöld hugi enn betur að þessum málum í framtíðinni og starfi í fullu samræmi við lagatextann, sem er skýr og glöggur.

 Úrræðum barnaverndarnefndar, sem framkvæmd eru með samþykki foreldra, er lýst í 24. gr. frumvarpsins. Þar er mælt fyrir um samþykki foreldra til ráðstafana, en að eftir atvikum skuli haft samráð við barn áður en aðstoð er veitt. Hér tel ég ekki rétt að setja inn fyrirvarann eftir atvikum, heldur skuli hafa samráð við barnið með hliðsjón af aldri þess og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Jafnvel þó að úrræði þau, sem mælt er fyrir um í þessu ákvæði virðist tiltölulega væg, geta þau haft ákaflega mikið að segja fyrir einstök börn. Sérstaklega á þetta við um e-lið ákvæðisins, þar sem segir að barnaverndarnefnd aðstoði foreldra við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála. Jafnvel þó að þetta úrræði geti verið góð lausn fyrir foreldri, er ekki þar með sagt að barnið líti það sömu augum. Dæmi eru um börn, er leitað hafa til mín, sem telja foreldra fá of mörg tækifæri til að bæta ráð sitt og að barnaverndarnefnd grípi of seint inn í, þeim til hjálpar. Þau hafa nefnt að barnaverndarnefndir séu of „foreldravænar“, og hagsmunir foreldranna stundum teknir framyfir hagsmuni þeirra sjálfra.


 VII. kafli
Aðrar ráðstafanir barnaverndarnefnda

 Í 36. gr. frumvarpsins birtist sú regla, að óheimilt sé að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eða heimilum og stofnunum samkvæmt barnaverndarlögunum, þá menn sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Þá segir um framkvæmdina, að barnaverndarstofa og aðrir vinnuveitendur, sem taldir eru upp í 3. mgr., eigi rétt til upplýsinga úr sakaskrá um framangreinda menn. Ég fagna því að slíkt ákvæði sé nú loks tekið upp í barnaverndarlög, enda hef ég margítrekað bent á nauðsyn þess, m.a. í nefndu minnisblaði mínu. Í þessu sambandi vil ég þó benda á, hvað varðar öflun upplýsinga úr sakaskrá, að eðlilegra er að umsækjendum sé gert að leggja fram sakavottorð sitt ásamt umsókn um störf, en þess sé ekki aflað eftir á af hugsanlegum vinnuveitanda, jafnvel án vitundar umsækjanda.

 VIII. kafli
Málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd

 Í minnisblaði mínu til nefndarinnar um endurskoðun barnaverndarlaga benti ég sérstaklega á fáein, en afar þýðingarmikil atriði, sem tengjast málsmeðferð fyrir barnaverndaryfirvöldum. Sem dæmi nefndi ég að koma þyrfti inn í lögin ákvæði um að við meðferð barnaverndarmála skuli fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga að meginreglu til, að setja þurfi meginreglur um skráningu og varðveislu trúnaðargagna skjólstæðinga barnaverndaryfirvalda, að kveða bæri á um rétt barna til að fá skipaðan talsmann á fyrri stigum málsmeðferðar en núgildandi lög mæla fyrir um og að skoða ætti hvort setja skyldi inn í lögin að barn öðlist stöðu aðila barnaverndarmáls við 15 ára aldur. Þessi atriði eru öll tekin upp í frumvarpið að meira eða minna leyti og lýsi ég yfir ánægju minni með það.

 Við úrlausn mála samkvæmt barnaverndarlögum er ákaflega mikilvægt að meginreglan, sem er að finna í 3. gr. Barnasáttmálans sé ætíð höfð í huga. Markmiðið skal ávallt vera það að finna út hvað því barni, sem málið varðar, er fyrir bestu við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Til að komast að því hvað hverju og einu barni er fyrir bestu getur verið nauðsynlegt að ræða við barnið einslega, án afskipta utanaðkomandi aðila. Það er ákaflega mikilvægt að barnið finni að það eigi trúnað þeirra aðila sem með mál þeirra fara. Til mín hafa leitað börn og fullorðnir og bent á það að börnin eigi ekki trúnað vísan af hálfu barnaverndarstarfsmanna og geti því ekki leitað til þeirra, ein síns liðs, til að ræða vandamál sín, sem þau ef til vill eru ekki tilbúin að ræða við foreldra sína á því stigi. Þetta tel ég bagalegt, en fagna því að í 43. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir barnaverndarnefndar til að fara inn á heimili eða aðra staði þar sem barn dvelur og ræða við það í einrúmi ef þörf er talin á. Í athugasemdum segir, að ákvæðið samræmist vel vaxandi áherslu á sjálfstæðan rétt barns og sérstaka hagsmuni þess við úrlausn barnaverndarmáls og sé í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Ég tel ákvæðið skref í þá átt, að líta á barn sem sjálfstæðan einstakling með eigin réttindi, er geta verið ósamrýmanleg réttindum og hagsmunum foreldra eða annarra fullorðinna.

 Í 46. gr. frumvarpsins segir um réttindi barna við meðferð barnaverndarmáls, að börn, sem náð hafa 15 ára aldri séu aðilar barnaverndarmáls samkvæmt ákvæðum 25. og 27. gr. og 2. mgr. 34. gr. laganna. Ég fagna því, að börn öðlist stöðu aðila við meðferð mála samkvæmt framangreindum ákvæðum, en tel þó að ganga hefði átt alla leið og veita þeim aðild að öllum málum samkvæmt lögunum, en binda það ekki eingöngu við sum mál samkvæmt ofannefndu.

 Sú meginhugsun virðist búa að baki frumvarpinu, að barn skuli eiga kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og birtist sú meginregla m.a. í 2. mgr. 46. gr. Það er því með öllu óskiljanlegt, að í sömu málsgrein skuli gömul hugsun skjóta upp kollinum, þar sem segir að ávallt skuli gefa barni, sem náð hefur 12 ára aldri, kost á að tjá sig um mál. Það er í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans og 23. gr. frumvarpsins, að miða við aldur barna og þroska almennt, en ekki tengja rétt barna til að tjá sig og rétt þeirra til að tekið sé réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra, við ákveðinn aldur. Til frekari skýringa skal tekið fram að í 12. gr. Barnasáttmálans er um að ræða rétt barns til að tjá sig, en ekki skyldu þess.

 Ég vil fagna því sérstaklega, að í 3. mgr. 46. gr. sé sú skylda lögð á barnaverndarnefnd að taka afstöðu til þess hvort skipa skuli barni talsmann, þegar er tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls. Af þessu tilefni vil ég nefna, að mér hafa borist ábendingar þar sem börn kvarta yfir því að þau hafi engan sér við hlið, sem eingöngu hugsar um hagsmuni þeirra. Þetta tel ég alvarlegt og því mikilvægt að sá sem valinn er til að vera talsmaður barns, sé óháður aðili, sem ekki hefur komið að málinu á fyrri stigum og barnið getur treyst fullkomlega. Markmiðið með skipun talsmanns hlýtur að vera, að skapa grundvöll fyrir barnaverndaryfirvöld til að komast að því í einstökum málum hvað sé því tiltekna barni raunverulega fyrir bestu.

 Vakin er athygli á yfirskrift 48. gr. frumvarpsins, en þar stendur: Samþykki foreldra og barna en þar er aðeins fjallað um samþykki foreldra og engum orðum vikið að börnum.

 XII. kafli
Um ráðstöfun barna í fóstur

 Fjallað er um réttindi barna, sem ráðstafað hefur verið í fóstur, í 70. gr. frumvarpsins. Þar segir í 1. mgr. að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína eða aðra sem því eru nákomnir. Til mín hafa leitað ömmur, afar og systkini barna sem komið hefur verið í fóstur, og lýst yfir vonbrigðum sínum með mjög takmarkaðan rétt þeirra til umgengni við börnin. Ekki þarf að fjölyrða um þau sterku tengsl, sem eru á milli systkina, svo og tengsl barnabarna við afa og ömmur. Til að festa umgengnisrétt þessara aðila enn frekar í sessi, til samræmis við 8. gr. Barnasáttmálans, legg ég til að í lagatextanum segi að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og/eða aðra sem því eru nákomnir, t.d. systkini, afa og ömmur.

 Í 76. gr. frumvarpsins segir að barnaverndarnefnd, sem ráðstafar barni í fóstur skuli fylgjast með aðbúnaði og líðan barnsins og því að ráðstöfun nái tilgangi sínum. Þegar barn er tekið af heimili sínu og komið í fóstur hjá fósturforeldrum, hlýtur rík eftirlitsskylda að hvíla á barnaverndarnefndinni, sem stóð að þeirri ráðstöfun. Nefndin verður að fylgjast með barninu til að tryggja það að ráðstöfun þess í fóstur beri tilætlaðan árangur, sem hlýtur að vera sá að barnið búi við þær bestu aðstæður, sem völ er á. Ráðherra skal, skv. 78. gr., setja í reglugerð nánari reglur um fóstur og framkvæmd ákvæða er varða það. Í reglugerð verður að mínu mati að setja nánari reglur um framkvæmd þessa eftirlits og tel ég nauðsynlegt að tiltaka nánar í hverju eftirlitið eigi að vera fólgið. Það verður að beinast sérstaklega að barninu sjálfu, ræða þarf við það sjálft um líðan þess á fósturheimilinu og samskipti þess við fósturforeldra og aðra, er á heimilinu búa. Markmiðið verður að vera það að komast að því hvort ráðstöfunin hafi verið og sé enn barninu fyrir bestu.

 XIII. kafli
Heimili og stofnanir á ábyrgð ríkisins

 Þegar gripið er til þess ráðs að vista barn á heimili eða stofnun skv. 79. gr. frumvarpsins, er oft nauðsynlegt að hafa hraðar hendur. Mér hafa borist ábendingar þess efnis, að kerfið sé of seinvirkt og þunglamalegt og skilur almenningur ekki alltaf hvernig það virkar. Þeir foreldrar og aðrir aðstandendur, sem haft hafa samband við mig telja í sumum tilfellum nauðsynlegt að stytta leiðina, sem beiðni um vistun barns þarf að fara innan kerfisins. Af þessu tilefni vil ég mælast til að í 2. mgr. 80. gr. frumvarpsins, verði mælt fyrir um skyldu ráðherra en ekki aðeins heimild í þessu efni.

 Um þvingunarúrræði er fjallað í 82. gr. frumvarpsins, er ber yfirskriftina Réttindi barna og beiting þvingunar. Börn eru sjálfstæðir einstaklingar, sem njóta réttinda samkvæmt ákvæðum mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálum eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Í minnisblaði mínu til endurskoðunarnefndarinnar kom m.a. fram að ég teldi þvingunarráðstafanir  og agaviðurlög á meðferðarheimilum fyrir börn og ungmenni þurfa að styðjast við skýra heimild í lögum. Þannig þurfi nákvæmlega að skilgreina hver megi beita slíkum ráðstöfunum og við hvaða aðstæður og hvert barn geti kært ákvörðun um að grípa til slíkra ráðstafana eða viðurlaga. Almennt taldi ég þörf á því að skýrt væri kveðið á um réttarstöðu barna við þessar aðstæður í lögum. Þessum skilyrðum er ekki fullnægt í fyrirliggjandi frumvarpi. Það er allsendis ófullnægjandi að kveða á um þvingunarráðstafanir í reglugerð og tel ég slíka ráðagerð jafnvel brjóta gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar.

 Kæruheimildir samkvæmt þessum kafla þurfa sömuleiðis að vera miklu skýrari en áform eru uppi um í frumvarpinu. Ekki verður af ákvæðum frumvarpsins ráðið hvernig skuli fara með ágreining, sem rís á milli barns sem er í meðferð og telur á sér brotið af hálfu starfsmanns meðferðarheimilis/stofnunar. Afdráttarlaust ákvæði verður að vera um kærurétt barna í tilvikum sem þessum.

 XVII. kafli
Almenn verndarákvæði

 Í bréfi til félagsmálaráðherra, dagsettu 28. apríl 1998, beindi ég þeim tilmælum til hans að nauðsynlegt væri að nefnd um endurskoðun barnaverndarlaga kannaði hvort ekki væri ástæða til að bæta inn í lögin ákvæði sem setji tiltekin aldursskilyrði fyrir þátttöku barna/stúlkna í fegurðar- og fyrirsætukeppnum hér á landi. Lagði ég jafnframt til að lágmarksaldur yrði miðaður við 16 ár, en við þau tímamót lýkur barn skyldunámi grunnskóla og í kjölfar þess er tekin ákvörðun um nánustu framtíðaráform þess. (Sjá Ársskýrslu umboðsmanns barna 1998, bls. 85). Í þessu sambandi vil ég geta þess sérstaklega að fyrirtækið Eskimo models hefur þegar tekið ákvörðun um að heimila ekki þátttöku yngri barna en 16 ára í Ford-keppnum á þeirra vegum hér á landi. Í frumvarpinu er farin önnur leið og lögð skylda á þá, er skipuleggja, eða bera ábyrgð á fyrirsætu- eða fegurðarsamkeppni, þar sem þátttakendur eru yngri en 18 ára, að tilkynna um keppnina til barnaverndarstofu. Eins og ákvæðið hljóðar hefur það að mínum dómi enga þýðingu og mætti allt eins fella það út úr frumvarpinu. Að gefnu tilefni skal tekið fram, að ákvæði 3. mgr. 93. gr. frumvarpsins er ekki tilkomið vegna ábendingar frá embætti mínu, en er sjálfsagt að kveða á um algilt bann í tilvikum sem þar er fjallað um.

 Loks vekur það furðu að reglur um aðgang barna að dansleikjum og öðrum skemmtunum, er fellt út úr lögunum án nokkurra skýringa.

 Ég lýsi mig reiðubúna til að mæta á fund félagsmálanefndar til að ræða nánar um efni frumvarpsins, verði eftir því leitað.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal