Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til skaðabótalaga

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. febrúar 1999
Tilvísun: UB 9902/4.1.1

 Efni: Frumvarp til skaðabótalaga  

Þar sem mér er kunnugt um að á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp til nýrra skaðabótalaga og sömuleiðis að allsherjarnefnd hefur nú fengið frumvarp þetta til meðferðar vil ég leyfa mér að vekja sérstaka athygli, háttvirtrar allsherjarnefndar, á álitsgerð minni til dómsmálaráðherra, dagsettri 16. janúar 1997, þar sem ég legg til breytingar á 26. gr. núgildandi skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í niðurlagi álitsgerðar minnar segir orðrétt:

Með vísan til ofangreinds, sbr. og b. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna, beini ég þeirri áskorun til dómsmálaráðherra að við heildarendurskoðun skaðabótalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1996 um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993, verði 26. gr. laganna breytt á þann veg, að í ákvæðinu verði tilgreind þau atriði, sem sérstök áhrif skulu hafa, við ákvörðun bótafjárhæðar til barna sem fórnarlamba kynferðisbrota. Einkum er þar um að ræða atriði, sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum, að almennt séu fallin til að hafa áhrif á hversu alvarlegar afleiðingar brot hefur fyrir brotaþola, svo sem eðli verknaðarins, hversu lengi misnotkun hefur varað og ekki síst hvort um sé að ræða misnotkun ættartengsla eða trúnaðartengsla. Slík upptalning ætti að vera til leiðbeiningar fyrir dómstóla, en hins vegar ekki tæmandi, þannig að dómstólar hefðu áfram nokkurt svigrúm til einstaklingsbundins mats. Varðandi lagasetninguna tel ég eðlilegt að skoða einnig atriði eins og það hvort taka beri tillit til efnahags tjónvalds og annarra aðstæðna hans.

Bréf þetta ásamt ofangreindri álitsgerð óskast kynnt fyrir allsherjarnefnd eins fljótt og verða má.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal