Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. mars 1998
Tilvísun: UB 9803/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína 

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 20. febrúar 1998, þar sem óskað er eftir umsögn minni um tillögu til þingsályktunar um réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína, 173. mál.

Af þessu tilefni vil ég greina frá því, að í skýrslum mínum til forsætisráðherra um störf mín árin 1995 og 1996 og kynntar hafa verið fyrir ríkisstjórn, hef ég vakið sérstaka athygli á því hversu algengt það er að bæði börn og foreldrar þurfi að kljást við erfið og langvinn umgengnisvandamál í kjölfar skilnaða og sambúðarslita. Árið 1995, sem var fyrsta starfsár mitt sem umboðsmaður barna, voru skráð alls 307 erindi sem bárust símleiðis, og voru þau í langflestum tilvikum afgreidd munnlega með leiðbeiningum og ráðgjöf. Flest þessara erinda, eða 86 talsins, voru vegna vandamála af ýmsum toga varðandi einstök börn, einkum vegna erfiðleika í sambandi við umgengnisrétt í kjölfar sambúðarslita foreldra. Árið 1996 voru skráð alls 514 munnleg erindi, þar af voru 97 vegna þessara mála og á nýliðnu ári voru skráð tæplega 800 munnleg erindi, og voru 141 þeirra eingöngu vegna erfiðleika við skilnað og sambúðarslit. Af efni þessara erinda má ráða að fjöldi barna á um mjög sárt að binda vegna þess að þau verða að bitbeini foreldra sinna í kjölfar skilnaðar. Algengt er að slíkur ágreiningur foreldra vari svo árum skiptir. Afleiðingin fyrir börnin er að þau fá ekki notið hins lögákveðna réttar síns til umgengni við báða foreldra sína.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 83/1995 um umboðsmann barna ber umboðsmanni ekki að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita hvar þeir getia fengið úrlausn mála sinna. Þegar einstaklingsmál af sama toga eru hinsvegar orðin svo mörg sem að framan greinir lít ég á það sem skýra vísbendingu um að aðgerða sé þörf. Ég hef því, með vísan til b-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994, ritað dómsmálaráðherra bréf með tillögum mínum um úrbætur í þessum efnum. Mikilvægast tel ég að sett verði á stofn opinber fjölskylduráðgjöf sem fær það hlutverk að aðstoða foreldra er hafa í hyggju að skilja eða slíta sambúð. Ráðgjöfina á að veita börnum jafnt sem foreldrum enda hafa börn oft þörf á að ræða við einhvern, sem þau geta treyst, þegar miklir erfiðleika steðja að fjölskyldu þeirra. Í bréfi mínu til ráðherra lýsi ég jafnframt þeirri skoðun minni að skylda ætti hjón eða sambúðarfólk, með börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, til að leita slíkrar ráðgjafar áður en til skilnaðar eða sambúðarslita getur komið. Fyrirbyggjandi starf sem þetta ætti að koma í veg fyrir þann skaða sem illskeyttar deilur vegna skilnaðar foreldra valda börnum.  Þá tel ég sérstaklega brýnt að gefnir verði út upplýsingabæklingar á aðgengilegu máli um atriði eins og skilnað að borði og sæng, lögskilnað, sameiginlega forsjá, sem og forsjárskyldur og gagnkvæman umgengnisrétt milli barna og foreldra. Eigi tillögur mínar að koma til framkvæmda kallar það óhjákvæmilega á breytingar á núgildandi löggjöf, þ.e. hjúskaparlögum og/eða barnalögum.

Í ljósi þess, sem ég hefi nú rakið, hlýt ég að taka undir efni tillögunnar þar sem ég tel að hér sé á ferðinni afar mikilvægt réttinda- og hagsmunamál fyrir stóran hóp umbjóðenda minna. Meðfylgjandi er ljósrit af bréfi mínu til dómsmálaráðherra, dagsett 24. febrúar 1998.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal