Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um almenn hegningarlög - kynferðisbrot gegn börnum

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. mars 1998
Tilvísun: UB 9803/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um almenn hegningarlög - kynferðisbrot gegn börnum  

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar, dagsett 20. febrúar 1998, þar sem óskað er eftir umsögn minni um frumvarp til laga um almenn hegningarlög, 451. mál, kynferðisbrot gegn börnum.

Í upphafi síðast árs ákvað ég, sem umboðsmaður barna, að taka til sérstakrar meðferðar, að eigin frumkvæði, kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum frá lögfræðilegu sjónarmiði, það er ákvæði hegningarlaga sem leggja refsingu við slíkum brotum og ákvæði réttarfarslaga um rannsókn og málsmeðferð fyrir dómi. Í skýrslunni eru borin saman ákvæði íslenskra hegningarlaga um kynferðisbrot, meðferð og framkvæmd slíkra mála hjá lögreglu og dómstólum, við réttarstöðuna í þessum málaflokki í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Skýrsla þessi ber heitið ,,Heggur sá er hlífa skyldi.”

Að fenginni þessari skýrslu var niðurstaða mín sú að brýnna úrbóta væri þörf til að styrkja réttarstöðu barna, sem fórnarlamba kynferðisofbeldis, sbr. og 34. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Af því tilefni ritaði ég dómsmálaráðherra bréf, dagsett 15. september 1997, og kom á framfæri tillögum mínum til úrbóta í þessum efnum, hvað varðar refsilöggjöfina sem og réttarfarslöggjöfina. Hinn 24. sama mánaðar barst mér svarbréf frá dómsmálaráðuneytinu, þar sem segir að ráðuneytið muni taka tillögurnar til athugunar og fela refsiréttarnefnd ráðuneytisins að fjalla um þær.

Þótt þær tillögur til breytinga á almennum hegningarlögum, sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, gangi ekki að öllu leyti eins langt og tillögur mínar til dómsmálaráðherra, tel ég þó fulla ástæðu til að taka undir þær í aðalatriðum, þar sem augljóst má telja að þær leiði af sér réttarbætur til handa börnum sem verða fórnarlömb kynferðisofbeldis.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal