Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum - barnaklám
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 8. nóvember 1996
Tilvísun: UB 9711/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum - barnaklám
Vísað er til bréfs formanns allsherjarnefndar Alþings ... þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr.19., 12. febrúar 1940, með síðari breytingum. Í stuttu máli vil ég taka fram að ég fagna þeirri breytingu á 210. gr. almennra hegningarlaga, sem lögð er til með 1. gr. framangreinds frumvarps, og vænti þess að hið háa Alþingi samþykki þetta frumvarp nú á yfirstandandi þingi.
Ég vil þó leyfa mér að benda á tvö atriði sem ég tel ástæðu til að allsherjarnefnd taki til skoðunar áður en frumvarpið verður afgreitt frá nefndinni.
Í fyrsta lagi er það skilgreining á orðinu börn í 1. gr. frumvarpsins. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er barn talið einstaklingur að 18 ára aldri, í lögum um vernd barna og ungmenna er barn skilgreint sem einstaklingur innan 16 ára aldurs en ungmenni einstaklingar 16 og 17 ára. Í ýmsum öðrum lögum er miðað við önnur og lægri aldursmörk. Mín skoðun er sú að hér sé réttast að miða við sjálfræðisaldur, þ.e. börn yngri en 16 ára.
Í öðru lagi tel ég vert að skoða hvort ekki ætti að vera heimild til þyngri refsingar fyrir ítrekað brot samkvæmt 1. gr. frumvarpsins. Í þessu sambandi má nefna að í norsku hegningarlögunum er gert ráð fyrir að unnt sé að dæma menn í fangelsi í allt að tvö ár fyrir ítrekuð brot af þessu tagi.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal