Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 8. júlí 1996
Tilvísun: UB 9607/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum

Með bréfum, dagsettum 29. maí 1996, frá allsherjarnefnd Alþingis var óskað umsagnar  minnar um frumvörp  til laga um breytingu á lögræðislögum nr. 68/1984, með síðari breytingum, mál 456 og 457. Með báðum þessum frumvörpum er lögð til breyting á 1. gr. núgildandi laga um hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár.

I.

Samkvæmt núgildandi lögræðislögum nr. 68/1984 verður einstaklingur sjálfráða  16 ára að aldri, sem þýðir að hann ræður  einn persónulegum högum sínum, þ.e. lýtur þar með ekki  lengur forsjár foreldra sinna.

Veigamestu rökin með hækkun sjálfræðisaldurs barna  úr 16 árum í 18 ár eru, að mínu mati,  þau að með því er réttarstaða þeirra gagnvart foreldrum og öðrum sem fara með forsjá þeirra* á vissan hátt tryggð betur en nú er raunin þar sem lagalegur réttur þeirra til forsjár foreldranna er framlengdur um tvö ár. Í forsjá foreldra felst í senn bæði skylda og réttur til að tryggja  persónulega hagi  barna.

Hækkun á sjálfræðisaldri úr 16 árum í 18 ár mun fyrst og fremst fela í sér skýlausan rétt barna  á aldrinum 16 -18 ára til að foreldrar þeirra sjái þeim fyrir öruggu húsnæði og fullnægi öðrum daglegum þörfum þeirra svo þau búi við þroskavænleg skilyrði. Foreldrar  hafa  hins vegar allmikið svigrúm til að ákveða með hvaða hætti þessum skyldum er sinnt og hvers konar uppeldi þeir velja börnum sínum.

Vegna þessa er afar þýðingarmikið að minna sérstaklega á þá ríku skyldu foreldra að hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málefnum þess er ráðið til lykta eftir, þar á meðal með tilliti til þroska barnsins. Þessari skyldu ber foreldrum að sjálfsögðu að sinna af  kostgæfni  með farsæld barnsins í huga og hlusta þannig eftir og virða skoðanir þess eftir því sem framast er unnt.

Hlutverk foreldra gagnvart barni er mikilvægast þegar það er mjög ungt, en minnkar eftir því sem barnið eldist þar eð þroski barns til að skilja og nota réttindi sín vex  að jafnaði með hverju ári sem líður. Foreldrum ber að taka ákvarðanir fyrir börn sem ekki eru nógu þroskuð til að taka  þær sjálf, en foreldrum ber fyrst og fremst að leiðbeina og styðja eldri börn  þegar taka þarf  ákvarðanir  sem varða nútíð þeirra og framtíð.

II.

Þótt hækkun sjálfræðisaldurs tryggi réttarstöðu barna gagnvart foreldrum sínum, svo sem að framan segir verður hins vegar ekki fram hjá því litið að jafnframt er verið að skerða  rétt barna til að ráða sér almennt sjálf frá 16 ára aldri.

Af þessari ástæðu er, að mínum dómi, þýðingarmikið að börnum á aldrinum 16 -18 ára verði eftir sem áður tryggt sjálfræði á vissum sviðum, svo sem nú er reyndar gert í ýmsum lagaákvæðum sem varða börn.  Rétt er að vekja athygli á nokkrum þessara lagaákvæða:

Réttur barna til trúfrelsis.

*Börn 16 ára og eldri geta tekið ákvörðun um að ganga í trúfélag eða segja sig úr trúfélagi, sbr. 3. gr. laga nr. 18/1975 um trúfélög

Réttur barna til upplýsinga hjá lækni.

*Börn 16 ára og eldri eiga rétt á að fá upplýsingar hjá lækni um veikindi, ástand, meðferð og horfur, sbr. 10. gr. læknalaga nr. 53/1988.

Réttur stúlkna  til fóstureyðinga.

*Stúlkur 16 ára og eldri mega sækja um fóstureyðingu án þess foreldrar þeirra samþykki slíkt sérstaklega, sbr. 13. gr. laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Réttur barna til að aka bifreið.

*Börn 17 ára og eldri eiga rétt til að stjórna bifreið eða bifhjóli hafi þau til þess gilt ökuskírteini eins og  segir í 48. gr. umferðarlaga  nr. 50/1987.

Þessi lagaákvæði um sjálfræði barna myndu ganga framar rétti foreldra til að ráða persónulegum högum þeirra þótt sjálfræðisaldur verði hækkaður úr 16 árum í 18 ár nema ákvæðunum  verði breytt. Ég legg áherslu á að þessum lagaákvæðum og öðrum sambærilegum, sem tryggja sjálfræði barna yngri en 18 ára á ákveðnum sviðum, verði ekki breytt þótt sjálfræðisaldur verði hækkaður nema brýnir hagsmunir barna krefjist þess.

Réttur barna til að tjá sig.

*Einn mikilvægasti réttur sérhvers barns er  rétturinn til að tjá sig um málefni sem það varðar. Dæmi um þennan rétt er að finna í barnalögum nr. 20/1992, lögum um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992, ættleiðingarlögum  nr. 15/1978, mannanafnalögum nr.     45/1996. Í öllum þessum tilvikum er það fortakslaus regla að barn, sem náð hefur 12 ára aldri, eigi rétt á að tjá sig áður en máli er ráðið til lykta.

Samfara breytingu á lögræðislögum um hækkun sjálfræðisaldurs tel ég  því ástæðu til að tryggja í lögunum rétt barna til að tjá sig um persónuleg málefni sín og jafnframt að réttmætt tillit skuli tekið til skoðana þeirra eftir aldri þeirra og þroska. Þessu til stuðnings vil ég  vísa til 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (hér eftir nefndur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna), svo og tilmæla, er fram komu í lokaathugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda, um réttindi barna á Íslandi.* Sem dæmi vil ég nefna að hvergi er að finna í lögum skýlausan rétt til handa barni, sem lokið hefur  skyldunámi í grunnskóla, til að hafa áhrif á ákvarðanir um það hvort það heldur skólagöngu sinni áfram og þá hvaða nám það kýs að leggja stund á og við hvaða skóla

Það eru ekki einungis réttindi er varða sjálfræði barna, sem bundin eru við lægri aldur en 18 ár í núgildandi lögum, heldur eru ýmis önnur réttindi í þágu barna bundin við lægri aldur, fyrst og fremst  16 ára aldur. Dæmi um slík réttindi eru:

Réttur  barna til atvinnuleysisbóta

*Börn 16 ára og eldri eiga rétt á atvinnuleysisbótum ef þau eru atvinnulaus, sbr. 16.  gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 93/1993.

Réttur til barnabóta og barnabótaauka.

*Barnabætur og barnabótaauki er greiddur úr ríkissjóði vegna barna að 16 ára aldri, en framfærsluskyldu foreldra  með börnum sínum lýkur aftur á móti þegar barn hefur náð 18 ára aldri, sbr.13. gr. barnalaga nr. 20/1992.

Réttur til bóta samkvæmt almannatryggingalögum.

* Réttur 16 ára barna og eldri  til örorkulífeyris.

* Réttur 16 ára íþróttafólks, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum til slysabóta, hvort heldur er á  æfingum,  á sýningum eða  í keppni.

* Réttur yngri barna en 16 ára til að vera sjúkratryggð með foreldrum sínum.

* Réttur til  endurgreiðslu helmings kostnaðar af almennum tannlækningum vegna  barna 16 ára og yngri.

Ýmis konar réttindi samkvæmt barnaverndar- og réttarfarslögum.

*Barn yngra en 16 ára á rétt til þess að fulltrúi eða starfsmaður barnaverndarnefndar sé viðstaddur yfirheyrslur yfir því. Ákvæði þessa efnis er að finna í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1992  um vernd barna og ungmenna og  4.mgr. 69. gr. laga nr.19/1991 um meðferð opinberra mála.

* Barn yngra en 16 ára á rétt til þess að foreldri þess sé viðstatt yfirheyrslur nema hagsmunir þess mæli gegn því. Tilkynna ber foreldrum barns sem er yngra en 16 ára um að mál barns þeirra sé til meðferðar hjá lögreglu eða dómstól, sbr. 3. mgr. 14. gr.  lög nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna.

Þá er að finna ákvæði í lögum þar sem skyldur barna eru miðaðar við lægri aldur en 18 ár. Dæmi um þess konar skyldur eru:

Skylda barna  til að greiða skatta

*Börn 16 ára og eldri, eru sjálfstæðir skattaðilar og greiða skatt af launum sínum í ríkissjóð, sbr. 6.gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 10.og 11. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sakhæfi

*Börn  ná sakhæfisaldri við 15 ára aldur, sbr. 14.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar með er heimilt að gefa út ákæru á hendur þeim og refsa fyrir refsiverð brot sem þau  hafa framið. Ef börn yngri en 15 ára gerast hins vegar brotleg við lög er gripið til úrræða samkvæmt 22.gr. og 23. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna, sbr.og 267. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að engin  sérstök unglingafangelsi eru til  á Íslandi ætluð föngum á aldrinum 15 - 18 ára né heldur er skylda samkvæmt lögum að halda ungum föngum aðskildum frá eldri föngum. Í umsögn barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem áður er vitnað til, er sérstaklega vikið að þessari skipan mála.

Þau lagaákvæði um réttindi og skyldur barna, sem hér hafa verið talin upp, hljóta öll að koma til sérstakrar skoðunar verði sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 árum í 18 ár.

III.

Með því að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár er, að mínu áliti, verið að viðurkenna að einstaklingur sé samkvæmt lögum barn að 18 ára aldri. Er það í samræmi við 1.gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna og 1. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Af þessu tilefni tel ég mér skylt að greina  Alþingi  frá ýmsum ábendingum er mér hafa borist frá börnum sem telja mikið ósamræmi og óréttlæti viðgangast hjá hinum ýmsu stofnunum, félögum og fyrirtækjum  hér á landi í afstöðu  þeirra til þess hvenær einstaklingur telst vera barn. Þessir umbjóðendur mínir hafa nefnt að gjöld fyrir ýmiss konar þjónustu, svo sem fargjöld með almenningsvögnum og flugvélum, svo og  einnig verð fyrir ýmsa afþreyingu, svo sem miðaverð á íþróttakappleiki, í leikhús og á kvikmyndasýningar, miðist gjarnan við 12 ára aldur þeirra (ýmist fæðingarár eða -dag), þ.e. frá 12-13 ára aldri séu þau krafin um sömu gjöld og sama verð og fullorðnir.

Í nútímasamfélagi er, að mínum dómi,  nauðsynlegt að auka sem mest á samheldni og samveru foreldra og barna. Eitt af því sem gæti stuðlað að slíku, er að gera foreldrum og börnum kleift að njóta tómstunda saman. í meira mæli, t.d. með því að  fjölskyldur geti farið saman á hina ýmsu viðburði, sem í boði eru, en kosta fjárútlát. Í því sambandi er  afar mikilvægt að miðaverði fyrir börn undir 18 ára aldri sé í hóf stillt svo að öll börn, sama við hvaða aðstæður þau búa, eigi sömu tækifæri til að njóta samverustunda sem þessara  með foreldrum sínum. Ég tek því undir fyrrgreindar ábendingar umbjóðenda minna og hvet til þess að löggjafinn móti skýra  stefnu í þessum efnum og komi þannig í veg fyrir ósamræmi og óréttlæti í garð barna hvað þetta varðar. 

Þá hefur mér og verið bent á þá staðreynd að engin sérstök langtímaúrræði eru til, fyrir 16 og 17 ára börn, sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum vegna eigin lífernis, t.d. vímuefnaneytendur. Ein af þeim röksemdum, sem færð hefur verið fyrir hækkun sjálfræðisaldurs, er einmitt að með því gefist kostur á að vista börn á þessum aldri, sem eiga við vímuefnavandmál að stríða, gegn vilja þeirra á stofnunum eða meðferðar-heimilum án þess að svipta þurfi þau sjálfræði. Ekki  er hins vegar nóg að hækka sjálfræðisaldurinn, heldur verða að fylgja hér með raunhæf úrræði til hjálpar þessum hópi barna, sem eru svo illa á vegi stödd. Það væri í fullu ósamræmi við hækkun á sjálfræðisaldri og auk þess ekki forsvaranlegt að beita sömu úrræðum gagnvart þessum hópi barna og gert er gagnvart fullorðnum vímuefnaneytendum.

IV.

Þar sem um mikilvægt réttinda- og hagsmunamál er að ræða fyrir umbjóðendur mína legg ég það til, áður en endanlega verður ákveðið hvort sjálfræðisaldur verður hækkaður úr 16 árum í 18 ár, að gerð verði könnun á viðhorfi barna á aldrinum 15 - 18 ára til þeirrar breytingar. Ég tel það mikið réttlætismál og í samræmi  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að börn fái að láta í ljós skoðun sína á þessu mikilsverða máli.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal


--------------------------------------------------------------------------------

* Þótt í umsögninni sé hér á eftir einungis vísað til foreldra á það, sem um þá segir, einnig við aðra forsjáraðila barns.

* Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins fjallaði um frumskýrslu Íslands, sbr. 43. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, á fundum sínum 16. og 17. janúar 1996 og  samþykkti lokaathugasemdir  á fundi sínum 26. janúar sama ár. Í þessum lokaathugasemdum er meðal annars getið um  ýmis jákvæð atriði í þágu barna hér á landi, svo sem stofnun embættis umboðsmanns barna, þá lýsir nefndin helstu áhyggjuefnum sínum varðandi réttindi barna hér á landi og loks kemur nefndin með tillögur og tilmæli til íslenskra stjórnvalda um það hvað megi  betur fara til að tryggja enn frekar réttindi barna á Íslandi.