Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um tæknifrjóvgun

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. september 1995
Tilvísun: UB 9509/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um tæknifrjóvgun

[...]  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 83/1994, er það hlutverk umboðsmanns barna að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Með vísan til þessa vil ég taka fram eftirfarandi:

Með stjórnskipunarlögum, nr. 97/1995, um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, samþykkti hið háa Alþingi svofellt ákvæði, sem nú er að finna í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar: “Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst”. Ekki er mér kunnugt um að sambærilegt ákvæði sé að finna í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar.

Þetta stjórnarskrárákvæði felur í sér stefnuyfirlýsingu af hálfu stjórnarskrárgjafans og sækir m.a. fyrirmynd í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem öðlaðist gildi hér á landi 27. nóvember 1992. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. sem er eitt mikilvægasta grundvallarákvæði samningsins hljóðar svo: “Það sem barni er fyrir bestu (leturbr. mín) skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir (leturbr. mín) gera ráðstafanir sem varða börn”.  Ákvæði þetta mælir svo fyrir um að í öllum málum, sem varða börn, skuli hagsmunir barnanna sjálfra og það sem þeim er fyrir bestu ávallt haft að leiðarljósi.

  Í 1. mgr. 7. gr. samningsins er að finna svofellt ákvæði: “Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína (leturbr. mín) og njóta umönnunar þeirra.”

Við túlkun á þessu ákvæði samningsins er ástæða til að nefna sérstaklega að í skýrslu frá 6. fundi barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sbr. 43. gr. samningsins um réttindi barnsins, var gerð athugasemd við þá stefnu norskra stjórnvalda að nafnleynd skuli ríkja þar í landi um sæðisgjafa. Í skýrslunni er vísað til 7. gr. samningsins um að barn skuli “eftir því sem unnt er” eiga rétt á að vita hverjir eru foreldrar þess. Í nefndri skýrslu, segir orðrétt: “Concerning the right of a child to know his or her origins, the Committee notes the possible contradiction between this provision of hte Convention with the policy of the State party in relation to artificial insemination, namely in keeping the identity of sperm donors secret.”

Í 1. mgr. 8. gr. fyrrnefnds samnings kemur og fram að aðildarríki skuldbindur sig til þess að virða rétt barns til að viðhalda því sem “auðkennir það sem einstakling” (leturbr. mín). Undir hugtakið auðkenni fellur m.a. líffræðilegt auðkenni. Þessi auðkenni fela í sér læknisfræði- og erfðafræðilegar upplýsingar um einstaklinga og ættingja, blóðtengsl og fleira.

Í þessu sambandi er einnig ástæða til að vekja athygli á ákvæðum 1. mgr. 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þar sem segir að aðildarríki skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum án mismununar.

Ættleitt barn, kynforeldrar þess og kjörforeldrar hafa ávallt óheftan aðgang að gögnum og upplýsingum, sem varða ættleiðinguna, hjá dómsmálaráðuneytinu, þrátt fyrir að þessi regla sé ekki beinlínis orðuð í ættleiðingarlögunum, sem auðvitað ætti að vera. Þessi réttur kemur hins vegar skýrlega fram í 15. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segir að aðili máls eigi rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða mál hans.

Mín skoðun er sú að þar sem ættleitt barn (og sömuleiðis barn, sem tekið er í fóstur, sbr. d. lið 1. mgr. 31. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992) á rétt á að vita um uppruna sinn, þekkja foreldra sína, eftir því sem framast er unnt, þá eigi barn, sem getið er með gjafakynfrumu, sama rétt. Annað gengur að mínu áliti í berhögg við 1. mgr. 2. gr. fyrrnefnds samnings og hina almennu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem er að finna í 1. mgr. 65. gr. hennar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995.  

Með skírskotun til alls þess, sem að framan greinir...., er það mín afdráttarlausa skoðun að með lögum eigi að tryggja barni, sem getið er með gjafakynfrumu, ótvíræðan rétt til að fá að vita hver raunverulegur uppruni þess er, eftir því sem framast er unnt. Þannig verður velferð barnsins best tryggð til framtíðar.

Réttur barns til að vita hvaðan það kemur, hver er líffræðilegur faðir þess eða móðir, á að mínum dómi að ganga framar rétti foreldra til að halda slíku leyndu fyrir barninu. Skylduna til að upplýsa barnið um raunverulegan uppruna þess verður að legggja á herðar foreldrum, þegar þeir telja barnið hafa öðlast nægilegan þroska til að skila þessar aðstæður.

 Ég legg því til að 4. gr. frumvarps til laga um tæknifrjóvgun verði breytt á þann veg, að ákvæði 2. mgr., sem ætlað er að tryggja kynfrumugjafa nafnleynd, verði fellt brott. Í stað þess verði réttur barns, sem getið er með gjafakynfrumu, til að vita uppruna sinn, virtur og lögfestur.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal