Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Verum vinir hurðaspjöld

Um útgáfu hurðaspjaldanna Verum vinir og notkun þeirra

Í samráði við ráðgjafarhóp umboðsmanns barna var ákveðið að leggja áherslu á mikilvægi vináttu og samkenndar í samfélagi barna veturinn 2010-2011. Hurðaspjöldin Verum vinir voru því útbúin til að vekja athygli á mikilvægi vináttunnar og því allir þurfa á samkennd og kærleika að halda. Um er að ræða tvær tegundir spjalda:

Mynd af Verum Vinir Hurðasjöldum Fyrir Yngri BörnVerum vinir - Hurðaspjald 1

Ætlað leikskólabörnum og nemendum á yngsta stigi grunnskóla. Hurðaspjaldið á að minna á mikilvægi þess að koma vel fram við aðra og vera góður vinur eða félagi. Á annarri hlið spjaldsins geta börnin litað sjálf. Hægt er að fá spjaldið annað hvort tilbúið eða þannig að börnin klippi það út sjálf.

Mynd af Verum Vinir Hurðasjöldum Fyrir Eldri Börn

Verum vinir - Hurðaspjald 2

Ætlað nemendum á mið- og elsta stigi grunnskóla en einnig fyrir þá sem eldri eru. Hurðaspjaldið á að minna á mikilvægi þess að koma vel fram við aðra og vera góður vinur eða félagi. Á annarri hlið spjaldsins segir: Líðan annarra kemur þér við. Láttu vita. Með því er verið að vekja athygli á því að vinir og kunningjar geta hjálpað hver öðrum með því að láta þá fullorðnu, t.d. umsjónarkennara eða námsráðgjafa, vita ef einhverjum í samfélagi þeirra líður illa af einhverjum ástæðum og þurfa hjálp.

Með hurðaspjöldunum vill umboðsmaður barna beina því til barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum að það er mikilvægt að vera vakandi fyrir velferð hvors annars og að allir geta gert eitthvað til að hjálpa þeim sem þurfa, t.d. með því að reyna að vera góður vinur og láta einhvern fullorðinn sem maður treystir vita þegar málin verða flókin.

Af hverju að leggja áherslu á vináttu?

Í bókinni Hvernig er að vera barn á Íslandi? sem umboðsmaður barna gaf út í nóvember 2009 segja leik- og grunnskólabörn frá reynslu sinni, skoðunum og tjá sig í máli og myndum um það hvernig er að vera barn á Íslandi. Einelti og vinaleysi er eitt af því sem börnin hafa hvað mestar áhyggjur af og benda mörg hver á mikilvægi þess að tekið sé á þessum málum af festu.

Í könnun umboðsmanns barna um líðan barna í skólanum og heima sem framkvæmd var árið 2010 voru lagðar nokkrar spurningar varðandi framkomu samnemenda, baktal, ofbeldi og særandi ummæli. Einnig voru nemendur spurðir hversu örugga þeir upplifðu sig í skólastofunni annars vegar og á skólalóðinni hins vegar. Niðurstöður könnunarinnar staðfesta að einelti og annars konar ofbeldi fær að þrífast í skólanum, þ.e. á þeim vinnustað sem börnum er ætlað að sækja í 170 daga á ári. Því er mikilvægt að allir skólar sinni þeirri skyldu að hafa eineltisáætlun sem er bæði virk og vel kynnt starfsfólki, nemendum og foreldrum og stuðli þannig að velferð og vellíðan allra nemenda.

Umboðsmaður barna fagnar allri vandaðri umræðu um eineltismál og þeim aðgerðum sem ýmsir aðilar hafa staðið að til að skilja einelti betur, draga úr því og aðstoða þá sem þurfa. Umboðsmaður, eftir að hafa fengið ábendingar frá ráðgjafarhópnum um að einelti sé þungt og fráhrindandi hugtak, hefur þó ákveðið að nálgast þetta vandamál út frá jákvæðum hliðum og leggja áherslu á vináttu og samkennd. Einelti getur bæði verið afleiðing og orsök ýmissa annarra vandamála en með því að bæta skólabrag og efla vináttu og kærleika fyrir náunganum er hægt að vinna gegn einelti og vinaleysi og bæta líðan almennt. Virðing fyrir mannhelgi og samlíðan eru hlutir sem börn ættu að læra að tileinka sér í skólanum, tómstundastarfi og heima hjá sér hvern einasta dag. Það er ábyrgð foreldra að kenna börnum sínum þessar dyggðir en mikilvægt er að skólinn og aðrir sem sinna börnum leggi líka sitt af mörkum til að þjálfa jákvæð samskipti.

Af hverju hurðaspjöld?

Venjan er að hurðaspjöld séu sett á hurðir, t.d. hótelherbergja, til að koma því á framfæri að viðkomandi óski eftir því að vera ekki ónáðaður. Að sjálfsögðu eiga allir rétt á því að fá að vera í friði þegar þeir kjósa en það er samt staðreynd að sumir senda þau skilaboð út í samfélagið að þeir vilji fá að vera í friði þegar einlæg ósk þeirra er að einhver kanni hagi þeirra og reyni að hjálpa þeim. Það er ekki jafnauðvelt fyrir alla að eignast vini og þeir sem eru óöruggir og hræddir við að vera hafnað eiga það skiljanlega til að láta það líta svo út að þeir hafi ekki áhuga á félagsskap eða að vera ónáðaðir. Fyrir þessa krakka getur það þó reynst sem himnasending að vera heilsað, spurðir um daginn og veginn, boðnir með hópnum í sund, bíó eða út í bakarí. Þeir sem eru félagslega færir og vinamargir geta líka lent í því að upplifa vanlíðan eða að eitthvað komi uppá sem veldur kvíða og erfitt er að glíma við.

Markmiðið með útgáfu hurðaspjaldanna er að minna á mikilvægi þess að setja sig í spor annarra og vera vakandi yfir líðan annarra, einnig þeirra sem „setja upp spjaldið ónáðið ekki“.

Segir þú ekki bara allt fínt?

Við erum oft fljót að draga ályktanir um að allt sé í fína lagi hjá fólki út frá hegðun fólks út á við eða útliti. Það er alveg eðlilegt að fólk, bæði börn og fullorðnir, setji upp grímu til að fela raunveruleikann og láta allt virðast gott þegar eitthvað bjátar á, hvort sem það eru viðvarandi erfiðleikar eða óvænt áföll.

Það getur valdið miklu álagi að vera unglingur og það er alveg nóg fyrir suma til að vera oft „tæpir“ og finnast lífið ömurlegt. En þegar við bætist annað áfall eða viðvarandi álag getur það reynst mörgum óyfirstíganlegt. Flestir ganga einhvern tímann í gegnum erfiðleika. Þá er gott að eiga vini eða félaga sem eru til staðar og veita skjól. Í þessu samhengi getur verið gagnlegt að spyrja sjálfan sig spurninga eins og þessara:

 • Hef ég áhuga á að vita hvernig fólki virkilega líður? 
 • Þekki ég aðstæður kunningja minna og vina? 
 • Sýni ég þeim að líðan þeirra skiptir mig máli? 
 • Vil ég að einhver reyni að hjálpa þegar eitthvað bjátar á hjá mér?

En ég get ekki bjargað öllum!

Mikilvægt er að brýna fyrir börnum að þau gæti þess að taka ekki þátt í því að koma illa fram við aðra og að þau láti vita þegar eitthvað er sagt eða gert sem skaðar eða særir einhvern. Það er auðvitað ekki hægt að gera kröfu á börn að þau verði „besti vinur allra“ en það er mikilvægt að undirstrika það að allir geta lagt sitt af mörkum til hjálpa og að láta fólki finnast það mikilvægt. Með því að tileinka okkur hjálpsemi verðum við betri manneskjur og færari í samskiptum. Fyrsta skrefið í að sýna samkennd þarf ekki endilega að vera stórt. Bara það að heilsa einhverjum sem er oft einn getur verið nóg til að bjarga deginum fyrir viðkomandi. Svo er e.t.v hægt að reyna að kynnast aðstæðum hans/hennar og áhugamálum.

Þeir sem stíga fram og reyna að hjálpa verða samt að hafa í huga að þeir bera aldrei ábyrgð á líðan þeirra sem þeir eru að aðstoða. Það er mikilvægt að reyna að forðast meðvirkni með því að taka neikvæðum viðbrögðum viðkomandi einstaklings ekki persónulega. Þegar vandamálin verða of stór eða flókin er mikilvægt að leita eftir aðstoð hinna fullorðnu. Yfirleitt er best að byrja á að ræða málin við einhvern sem þekkir eða kannast við viðkomandi eins og t.d. foreldra, umsjónarkennara, námsráðgjafa, frístundaráðgjafa eða einhvern annan fullorðinn sem maður treystir.

Hvað með trúnað?

Við verðum að virða trúnað og friðhelgi einkalífs en sumt er bara þannig að við verðum að segja frá. Þegar við vitum eitthvað sem við erum ekki viss um hvort við eigum að segja frá eða ekki er betra að láta einhvern fullorðinn sem maður treystir vita, t.d. einhvern í fjölskyldunni, starfsfólk skólans, frístundaheimilisins eða félagsmiðstöðvarinnar. Það getur skipt miklu máli til að einstaklingurinn fái nauðsynlega hjálp. Sem dæmi um málefni sem er mikilvægt að nái eyrum hinna fullorðnu má nefna einelti, ofbeldi, óreglu eða ósætti á heimili, veikindi í fjölskyldunni, skilnað eða sambúðarslit foreldra, vanrækslu, áhættuhegðun, einangrun, kvíða, vonleysi, fátækt og langvarandi streitu.

Verum vinir í starfi með börnum

Verum vinir hurðaspjöldin eru tilvalin til notkunar þegar skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar standa fyrir vinaviku eða eru með þemavinnu tengda vináttu, einelti eða samkennd.

Þeir sem vilja panta hurðaspjöld geta gert það með því að senda póst á ub@barn.is eða hringja í síma 552 8999.

Umboðsmaður barna reynir eftir fremsta megni að heimsækja alla þær stofnanir sem óska eftir því að hann komi og kynni embættið og réttindi barna. Í slíkum heimsóknum fer umboðsmaður oft í leiki með börnunum sem byggjast á kennsluefni Kompás, sjá nánar hér. Einn af leikjunum er svokallaður skrefaleikur en í honum þurfa nemendur að setja sig í spor annarra og reyna að sjá heiminn með þeirra augum. Leikurinn hentar því einkar vel þegar fjalla á um vináttu og mismunandi aðstæður barna og unglinga og dreifa Verum vinir hurðaspjöldunum.

Myndefni sem tengist efninu

Umboðsmaður mælir með eftirfarandi myndefni sem finna má á netinu:

 • Hulduheimar 
  Myndband um einelti sem var útbúið fyrir nemendur grunnskóla til að vekja hjá þeim samkennd og kærleika fyrir náunganum. Myndbandið var sérstaklega gert til að sýna nemendum hinar ýmsu birtingarmyndir eineltis, fá þá til að ræða og íhuga efni myndbandsins og til að vekja nemendur til umhugsunar um alvarleika eineltis og hræðilegar afleiðingar þess. Sjá hér myndbandið Hulduheima á Youtube..
 • In a heartbea
  Myndband um barn sem líður illa heima hjá sér og er einangrað í skólanum. Barnið kemur þó öllum á óvart þegar það tekur afstöðu í máli þar sem enginn þorir. Sjá hér myndbandið Ina Heartbeat á Youtube. Lykilorðið er artiofilms.
 • Fyrirmyndir 
  Myndband sem unnið var í vinnusmiðju umboðsmann barna um vináttu og samkennd í lok árs 2010. Það fjallar um áhrif hinna fullorðnu á börn. Sjá hér myndbandið Fyrirmyndir á Youtube.
 • Hæ! 
  Myndband sem unnið var í vinnusmiðju umboðsmann barna um vináttu og samkennd í lok árs 2010. Það fjallar um einmana ungling sem er við það að gefast upp á lífinu þegar kveðja á Facebook breytir öllu. Sjá hér myndbandið Hæ! á Youtube.
 • Ósýnileg 
  Stutt myndband frá Friends samtökunum í Svíþjóð um stúlku sem finnst hún vera ósýnileg í skólanum þangað til einhver sest hjá henni og segir "hæ". Sjá hér myndbandið Osynlig á Youtube.
 • Vegurinn heim 
  Heimildarmynd, byggð á viðtölum við fimm börn innflytjenda á Íslandi sem lýsa upplifun sinni af því að vera á mörkum ólíkra menningarheima. Allir grunnskólar landsins hafa aðgang að myndinni og kennsluleiðbeiningum sem henni fylgja á vef námsgagnastofnunnar, www.nams.is. Upplýsingar um verkefnið er að finna hér á vef Námsgagnastofnunnar.
 • Pro Infirmis Get closer (bangsamyndband) 
  Myndbandið er tilraun til að vekja athygli á málefnum fatlaðra. Fáir finna ekki til samkenndar með fötluðum en þó stríðir Fabian við það á hverjum degi að hann situr einn í strætó vegna þess að fólk þorir ekki að setjast við hliðina á honum. Tilraunin heitir Pro Infirmis og var þetta myndband gert til að vekja fólk til umhugsunar. Sjá hér myndbandið Pro Infirmis á Youtube.
 • Make your influence positive 
  Myndband um áhrif foreldra og annarra fyrirmynda á hegðun barna og unglinga. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Sjá hér myndbandið Make your influence positive á Youtube.
 • Take a stand against bullying 
  Stutt myndband um það hvað viðbrögð eins einstaklings við einelti geta verið áhrifarík. Sjá hér myndbandið Take a stand against bullying á Youtube.
 • Sálarkvöl 
  Tónlistarmaðurinn Orri Err samdi lagið Sálarkvöl (Barátta gegn einelti). Textinn er byggður á viðtölum við þolendur eineltis. Sjá hér myndbandið Sálarkvöl á Youtube.
Ábendingar um vandað efni sem tengist vináttu, samkennd og einelti eru vel þegnar.