Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Lýðræði í skólastarfi

Lýðræði í grunnskólastarfi

Lýðræði í grunnskólastarfi - nemendafélög og skólaráð

Kaflar:

  1. Lýðræði og menntastefnan
  2. Lýðræði í grunnskólastarfi
  3. Athugun umboðsmanns barna 2011-2012

1. Lýðræði og menntastefnan

Sú menntastefna sem birtist í lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 er reist á sex grunnþáttum menntunar. Einn af þessum grunnþáttum sem ber að hafa að leiðarljósi í öllu skólastarfi er lýðræði og mannréttindi. Hlutverk grunnskóla er skilgreint í 2. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Þar segir í 1. mgr. að hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, sé m.a. að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Skólar þurfa að taka mið af því að börn og ungmenni eiga eftir að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög og þjálfist í því að taka þátt í þeim. Í aðalnámskrá segir að gert sé ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

2. Lýðræði í grunnskólastarfi

Víða tíðkast að sérstakar reglur um umgengni, samskipti og vinnulag gildi í einstaka bekkjum. Mikilvægt er að haft sé samráð við nemendur hvers bekkjar fyrir sig þegar reglurnar eru mótaðar og kennarar taki tillit til vilja nemenda um það hvernig þeir vilja ná fram vinnufriði og umhverfi þar sem öllum líður vel. Nemendur eru líklegri til að hegða sér vel og leggja metnað í nám sitt þegar þeir finna að þeir hafa áhrif á skólastarfið. Þannig má segja að lýðræðisleg þjálfun og þátttaka barna hafi jákvæð áhrif á markmið menntunar. 

Hinar formlegu leiðir nemenda til að hafa áhrif á skólastarfið og vinnustað sinn, skólann, eru annars vegar í gegnum nemendafélög og hins vegar með því að beita fulltrúum sínum í skólaráði.

Nemendafélag
Með virkri starfsemi nemendafélaga fá nemendur annars vegar tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku í hagsmunamálum sínum og hins vegar þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í 10. gr. laga um grunnskóla er fjallað um nemendafélög: 

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.

Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr.

Umboðsmanni barna finnst eðlilegt að skólayfirvöld kynni fyrirhugaðar breytingar á skólastarfi fyrir nemendafélagi til að stjórn félagsins geti tekið ákvörðun um það hvort ræða beri breytingarnar innan félagsins.

Skólaráð
Skylt er að starfrækja skólaráð við hvern grunnskóla og hefur það mikilvægu hlutverki að gegna sem samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun skólaráðs og stýrir starfi þess sem skilgreint er í 8. gr. grunnskólalaga. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla er fjallað nánar um verkefni skólaráðs:

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Skólaráð:
a. fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið,
b. fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar,
c. tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndarsamfélagið,
d. fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda,
e. fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum,
f. fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, almennum starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, menntamálaráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað,
g. tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

Í 3. gr. sömu reglugerðar er að finna ákvæði um skipun skólaráðs.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn. Miðað skal við að skipað sé í ráðið í upphafi skólaárs fyrir lok septembermánaðar. Kosningum skal haga á eftirfarandi hátt:
a. tveir fulltrúar kennara skulu kosnir á kennarafundi,
b. einn fulltrúi annars starfsfólks skal kosinn á starfsmannafundi þess,
c. tveir fulltrúar foreldra skulu kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
d. tveir fulltrúar nemenda skulu kosnir samkvæmt starfsreglum nemendafélags, sbr. 10. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
e. skólaráð skal sjálft velja einn fulltrúa úr hópi íbúa í grenndarsamfélaginu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra.

Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varamenn geta tekið sæti í skólaráði á einstökum fundum í forföllum aðalmanns. Varamaður tekur fast sæti við varanleg forföll eða missi kjörgengis aðalmanns, nema nýr sé kjörinn eða valinn í hans stað.

Fulltrúi í skólaráði missir hæfi sitt til setu í ráðinu ef tengsl hans við skólann rofna.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að efla nemendur í skólaráðum og aðstoða þá til þess að nýta sér þennan vettvang fyrir hagsmunamál sín.

3. Athugun umboðsmanns barna 2011-2012

Umboðsmaður barna sendi tölvupóst til allra grunnskóla í október 2011 og óskaði eftir upplýsingum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráðum. Bréfið má sjá hér. Nemendur og skólastjórnendur hafa gjarnan ólíka sýn á skólastarfið og leitaði því umboðsmaður barna bæði til skólastjóra og formanna nemendafélaga grunnskólanna og óskaði eftir að þeir svöruðu í sameiningu, ef kostur væri, nokkrum spurningum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráði skv. 8. og 10. gr. laga um grunnskóla 91/2008 og reglugerðar um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008. Lög um grunnskóla nr. 91/2008 tóku gildi 1. júlí 2008 og höfðu grunnskólar landsins því starfað eftir þeim í þrjú ár þegar tölvupóstur umboðsmanns barst. Tilgangur þessa tölvupósts var að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð og sjá hvernig grunnskólar væru að starfa eftir lögunum frá árinu 2008 þegar kemur að lýðræðislegri aðkomu nemenda að skólastarfi. Auk þess vonaði umboðsmaður barna að fyrirspurn af þessu tagi gæti orðið til þess að ýta við þeim skólum sem ekki voru búnir að innleiða ný vinnubrögð í samræmi við nýju lögin. Einnig voru allar upplýsingar um það hvernig er unnið með þátttöku nemenda í skólasamfélaginu og lýðræði í skólanum vel þegnar.

Svör bárust frá 35 grunnskólum alls staðar af landinu. Við vinnslu upplýsinganna kom í ljós að í einum skólanum voru börn á aldrinum tveggja til níu ára og áttu flestar spurningarnar því ekki við starfsemi þess skóla. Er því tekið mið af svörum frá 34 skólum. 

Smellið hér til að skoða niðurstöðurnar (PDF skjal).