Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Álit um umskurð ungra drengja

Í september árið 2010 fékk umboðsmaður barna þessa fyrirspurn frá barni í gegn um Spurt og svarað á vefsíðu sinni:

Mega foreldrar á Íslendi ákveða þegar maður er lítið barn og hefur ekkert vit að umskera mann? Hvað svo ef manni líkar það ekki þegar maður er eldri? Mega foreldar neyða mann í óþarfa lýtaaðgerð þegar maður hefur ekki aldur né vitsmuni til að neita því?

Hér er hægt að sjá svarið við henni. Þetta erindi varð til þess að umboðsmaður barna hafði samband við aðra umboðsmenn barna á Norðurlöndum og í sameiningu var tekin ákvörðun um að gefa út álit.

Hinn 30. september 2013, skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja.

Umskurður á ungum börnum brýtur gegn grundvallarréttindum barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega var  lögfestur hér á landi.

Umskurður felur í sér  óafturkræft inngrip í líkama drengja sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum.

Eðlilegt að drengir sem vilja láta umskera sig af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum taki ákvörðun um slíkt þegar þeir hafa sjálfir náð aldri og þroska til þess að skilja hvað felst í slíkri aðgerð.

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, Ingólfur Einarsson formaður félags barnalækna á Íslandi, Þráinn Rósmundsson yfirlæknir barnaskurðlækninga á Barnaspítala Hringsins og fulltrúi Barnaskurðlæknafélags Íslands og  Ragnar Bjarnason prófessor og  yfirlæknir barnalækninga á Barnaspítala Hringsins skrifuðu undir yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands.

Umskurður á ungum drengjum felur í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynlegt af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum.

Umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf. Auk þess telst umskurður brot gegn 3. mgr. 24. gr. sáttmálans sem tryggir börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig hvatt öll ríki til þess að banna aðgerðir sem stefna mannlegri reisn barna í hættu og eru ekki í samræmi við réttindi barna. Þó að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum, getur slíkur réttur aldrei gengið framar rétti barnsins. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða barn. Á réttur barna og mannhelgi þeirra því að ganga framar rétti fullorðinna til að taka trúarlegar og menningarlegar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna.

Í yfirlýsingunni kemur fram að umboðsmenn barna og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn á Norðurlöndum telja brýnt að vinna að því að banna umskurð á ungum drengjum. Mikilvægt er að virða sjálfsákvörðunarrétt barna og banna umskurð á drengjum nema í þeim tilvikum sem drengur, sem náð hefur nægilegum aldri og þroska til að skilja hvað felst í aðgerðinni, veitir samþykki sitt. Vonast er til þess að umrædd yfirlýsing verði til þess að málefnaleg umræða eigi sér stað milli allra þeirra sem málið varðar.

Að lokum eru ríkisstjórnir á öllum Norðurlöndum hvattar til þess að stuðla að fræðslu um réttindi barna og þá áhættu sem fylgir umskurði. Ennfremur eru þær hvattar þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að drengir fái sjálfir að ákveða hvort þeir vilji láta umskera sig þegar þeir hafa aldur og þroska til.

Sjá hér yfirlýsinguna á norsku.

Í tilkynningu til fjölmiðla vegna yfirlýsingarinnar fylgdi þessi tilvitnun í Margréti Maríu Sigurðardóttur þáverandi umboðsmann barna:

„Þó að umskurður af trúarlegum og menningarlegum ástæðum hafi almennt ekki tíðkast hér á landi eru dæmi um að slíkar aðgerðir hafi verið framkvæmdar. Ég vona því að þessi samnorræna yfirlýsing verði tekin alvarlega og gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja réttindi barna að þessu leyti. Ég geri mér grein fyrir því að það verða ekki allir sáttir við þessa yfirlýsingu okkar en ég vil mjög gjarnan taka þátt í málefnalegum umræðum um þessi mál.  Í gegnum tíðina hafa verið aflagðar ýmsar hefðir sem eru skaðlegar börnum en þóttu sjálfsagðar hér áður fyrr. Ég vona að við getum náð sátt um það að réttindi barna eiga alltaf að ganga framar rétti fullorðinna til að viðhalda trúarlegum og menningarlegum hefðum.“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.