Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Lög um umboðsmann barna

Athugasemdir við einstaka greinar

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarps til laga um umboðsmann barna:

Um 1. gr. 

    Um 1. mgr.

Í málsgreininni er skilgreindur tilgangur frumvarpsins. Með því er lagt til að hér á landi verði starfrækt embætti umboðsmanns barna sem vinna skal að réttinda- og hagsmunamálum barna. Embættinu er falin hagsmunagæsla fyrir tiltekinn hóp þjóðfélagsþegna. Tilgangur frumvarpsins spannar vítt svið enda hagsmunagæslu umboðsmanns barna ætlað að ná jafnt til opinberra sem einkaaðila.

    Um 2. mgr.

Rétt þykir að miða efri aldursmörk þess hóps, sem umboðsmaður barna skal starfa fyrir, við 18 ára aldur þótt einstaklingar verði sjálfráða 16 ára hér á landi. Þótt 16 ára aldri sé náð hafa börn langt frá því öðlast öll réttindi sem þau eiga samkvæmt lögum og má þar nefna fjárræði, kosningarrétt o.fl.

 

Um 2. gr. 

    Um 1. mgr.

Umboðsmaður barna skal skipaður af forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra til fimm ára í senn. Með því að tímabinda skipunartíma er verið að reyna að tryggja að sami einstaklingur gegni starfinu ekki í of langan tíma. Heppilegt er talið að sami einstaklingur gegni embættinu að jafnaði ekki lengur en 10 ár eða tvö skipunartímabil. Embætti umboðsmanns barna kemur til með að mótast af þeim embættismanni sem gegnir því hverju sinni. Þannig má búast við að áherslur í starfi verði mismunandi eftir því hver gegnir því á hverjum tíma og verður að telja það af hinu góða. Gert er ráð fyrir að umboðsmaður barna verði stjórnsýsluhafi og heyri undir forsætisráðuneytið, sbr. 8. gr. Um staðsetningu hans í stjórnkerfinu og stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu vísast til athugasemda um 8. gr.

    Um 2. mgr.

Með hliðsjón af verkefnum umboðsmanns barna í frumvarpi þessu og staðsetningu hans í stjórnkerfinu þykir nauðsynlegt að gera kröfu um háskólamenntun. Án efa mun umfjöllun um ýmis lagaleg atriði varðandi börn verða eitt meginverkefni umboðsmanns barna, a.m.k. á fyrstu árum embættisins. Hafi umboðsmaður barna ekki lokið embættisprófi í lögum er talið nauðsynlegt að við embættið starfi lögfræðingur.

Með vísan til eðlis embættisins er gerð krafa um lágmarksaldur umboðsmanns barna.

    Um 3. mgr.

Ákvæði þetta miðar að því að tryggja umboðsmanni barna fjárhagslegt sjálfstæði og virðingu í starfi og því er gert ráð fyrir að Kjaradómur ákvarði laun hans og starfskjör, sbr. lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992. Til að tryggja enn frekar sjálfstæði og hlutleysi umboðsmanns barna er honum óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf og á það jafnt við um störf hjá opinberum aðilum sem einkaaðilum. Æskilegt er enn fremur að sá sem gegnir embættinu hverju sinni hafi ekki með höndum ólaunuð störf eða starfi í þágu félagasamtaka eða annarra hagsmunahópa sem telja verður að samrýmist ekki starfi umboðsmanns barna.

 

Um 3. gr. 

    Um 1. mgr.

Hér er hlutverk umboðsmanns barna skilgreint almennt og í þessu sambandi er vísað til kafla um tilgang frumvarpsins og hlutverk umboðsmanns barna í almennum athugasemdum hér að framan. Það skal ítrekað að verkefni og hlutverk umboðsmanns barna er að standa vörð um hagsmuni og réttindi barna í samfélaginu. Honum er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum og vinna að því að tillit sé tekið til hagsmuna barna við ákvarðanatöku og skipulagningu í þjóðfélaginu. Afskipti hans eru ekki einskorðuð við barnaréttar- eða barnaverndarmál. Skipulags- og umhverfismál, svo að dæmi séu tekin, falla einnig undir verksvið umboðsmanns barna, enda þar um að ræða svið sem snertir velferð og hag barna.

Umboðsmanni barna er hvorki ætlað að taka til meðferðar mál sem heyra undir verksvið umboðsmanns Alþingis né mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum eða stjórnvöldum. En þótt verkefni umboðsmanns barna varði hagsmuni ótiltekins fjölda barna er ekkert sem hindrar að hann vekji athygli á, geri athugasemdir við eða setji fram tillögur í tilefni af niðurstöðu stjórnvalds eða dómstóls sé niðurstaða þess eðlis að hún varði hag eða réttindi barna almennt.

    Um 2. mgr.

Orðalagið ,,umboðsmaður barna skal einkum`` ber ekki að skilja svo að hér sé um að ræða tæmandi upptalningu á verkefnum embættisins heldur eru hér talin upp þau verkefni sem mikilvægust verða talin.

Um a-lið: Hér er sú skylda lögð á umboðsmann barna að hann hafi frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna. Umboðsmaður barna skal taka þátt í almennri þjóðfélagsumræðu með það fyrir augum að vekja athygli á málefnum barna. Honum er ætlað að setja fram tillögur og úrbætur varðandi málaflokka sem snerta börn, svo sem í menntunar- og félagsmálum, umhverfis- og skipulagsmálum svo að dæmi séu tekin. Með hliðsjón af hinu almenna hlutverki sínu, þ.e. að tryggja bættan hag barna, metur umboðsmaður barna sjálfur hvort og þá hvaða mál hann tekur til umræðu hverju sinni. Jafnframt er ljóst að hann mun taka þátt í umræðu um mál sem snerta börn og efst eru á baugi á hverjum tíma.

Um b-lið: Hlutverk umboðsmanns barna skv. b-lið skýrir sig sjálft. Með réttarreglum er átt við skráðar réttarheimildir, svo sem lög og reglugerðir. Einnig er átt við óskráðar réttarheimildir, svo sem réttarvenju, fordæmi, lögjöfnun, meginreglur laga og eðli máls sé því að skipta. Jafnframt skal umboðsmaður barna koma á framfæri tillögum um úrbætur á fyrirmælum stjórnvalda og framkvæmdavenju í stjórnkerfinu. Umboðsmaður barna metur sjálfur hvert hann beinir tillögum sínum um úrbætur samkvæmt ákvæði þessu. Honum er heimilt að koma með athugasemdir eða tillögur um úrbætur á öllum sviðum löggjafar og lagaframkvæmdar sem snerta börn beint eða óbeint en líklegt er að athyglin beinist einna helst að úrbótum er varða réttindi og vernd barna.

Um c-lið: Einna helst mun reyna á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 27. nóvember 1992. Eftirlitskerfi með framkvæmd samningsins er tvíþætt. Annars vegar er aðildarríkjum skv. 42. gr. samningsins skylt að kynna efni hans fyrir börnum og fullorðnum. Hins vegar er í 43. gr. samningsins gert ráð fyrir að sérstök nefnd óháðra sérfræðinga, sem kosnir eru af aðildarríkjunum, fylgist með framkvæmd hans. Eftirlit með framkvæmd samningsins er ekki í höndum umboðsmanns barna en í kjölfar fullgildingar Íslands á samningnum mun reyna á samninginn og skyldur íslenskra stjórnvalda. Telja verður að umboðsmaður barna sé vel til þess fallinn að stuðla að því að samningurinn, sem og aðrir þjóðréttarsamningar sem sérstaklega snerta börn, sé virtur og jafnframt mun samningurinn verða mikilvægt gagn í þágu hagsmuna- og réttindamála barna hér á landi.

Um d-lið: Ákvæðið veitir umboðsmanni barna ekki úrskurðarvald í þeim málum sem hann tekur til meðferðar. Honum er hvorki ætlað að hafa afskipti af deilum einstaklinga né heldur hefur hann heimild til afskipta af einstaklingsbundnum afskiptum stjórnvalda af börnum. Hins vegar er honum í ákvæðinu tryggður víðtækur réttur til að bregðast við ef hann telur tilgreinda aðila hafa brotið gegn réttindum, hagsmunum og þörfum barna í samfélaginu. Með stjórnsýsluhöfum er í frumvarpinu átt við handhafa stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, stofnanir og hvers konar rekstur á þeirra vegum. Hér er átt við athafnir eða athafnaleysi umræddra aðila gagnvart börnum almennt enda sé athöfn eða athafnaleysi þess eðlis að gengið sé gegn grundvallarréttindum, hagsmunum og þörfum barna. Sem dæmi má nefna ef eftirlitsaðilar sinna ekki hlutverki sínu, t.d. á sviði vinnuverndar, varðandi reglur um útivistartíma, eftirlit með samkomu o.s.frv. Jafnframt má nefna afskipti lögreglu af börnum og aðbúnað í skólum, leikskólum eða öðrum stofnunum. Umboðsmaður barna getur beint tilmælum og tillögum sínum til þeirra aðila sem hafa með höndum eftirlit eða umsjón viðkomandi málaflokka. Hann getur einnig beint tilmælum og tillögum sínum til þeirra aðila sem hann telur brotlega. Þess er vænst að farið verði eftir athugasemdum, tilmælum og tillögum umboðsmanns barna og því er ekki í frumvarpinu heimild fyrir hann til að beita stjórnarfarslegum þvingunarúrræðum. Telja verður að skylda umboðsmanns barna til að fjalla opinberlega um málefni barna almennt sé áhrifaríkara vopn í málum sem þessum.

Telji umboðsmaður barna að um brot á d-lið ákvæðisins sé að ræða koma til framkvæmdar ákvæði 3. mgr. 2. gr.

     Um 3. mgr.

Hér er kveðið á um viðbrögð umboðsmanns barna telji hann að brotið sé gegn ákvæði d-liðar. Athugasemdir til hlutaðeigandi aðila skulu vera rökstuddar og getur umboðsmaður barna sett fram tillögur um úrbætur telji hann ástæðu til.

Til afskipta umboðsmanns barna getur komið hvort heldur í hlut eiga stjórnsýsluhafar, einstaklingar, félög eða samtök einstaklinga. Verið getur að umboðsmaður barna beini tilmælum og ábendingum til fleiri en eins aðila og má í því sambandi nefna sem dæmi brot á lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33/1983. Fái umboðsmaður barna vitneskju um ólöglega sölu, dreifingu eða sýningu á ofbeldiskvikmyndum beinir hann tilmælum sínum til þess sem talinn er brotlegur, en jafnframt mundi hann vekja athygli og setja fram kröfu um aðgerðir lögregluyfirvalda og barnaverndarnefnda sem hafa eftirlitsskyldu á þessu sviði. Nefna má annað dæmi í þessu sambandi. Fái umboðsmaður barna vitneskju um að ekki sé fylgt ákvæðum laga og reglugerða um gerð skipulagsuppdrátta, t.d. hvað varðar leiksvæði barna, beinir hann tilmælum sínum til viðkomandi byggingaryfirvalda, en jafnframt einnig til viðkomandi sveitarstjórnar, skipulagsyfirvalda og lögregluyfirvalda sem fer með rannsókn á brotum á skipulagslögum.

 

Um 4. gr. 

    Um 1. mgr.

Ákvæðið kveður á um rétt barna svo og annarra til að leita til umboðsmanns barna með erindi sín. Erindi eða ábending þarf ekki að uppfylla sérstakar formkröfur og ekki er gerð krafa um að viðkomandi telji rétt á sér brotinn á einn eða annan hátt. Þannig felst í ákvæðinu ótakmarkaður aðgangur að embætti umboðsmanns barna. Sérstaklega þarf að tryggja greiðan aðgang barna að embættinu.

    Um 2. mgr.

Umboðsmaður barna tekur mál til meðferðar í kjölfar ábendinga eða erinda eða að eigin frumkvæði. Hann ákveður sjálfur hvort ábending eða erindi gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu og er ákvörðun hans endanleg. Að eigin frumkvæði er umboðsmanni barna heimilt að taka til meðferðar málefni sem hann telur varða hag barna og nauðsyn sé á að beita sér fyrir.

    Um 3. mgr.

Ákvæðið gerir ráð fyrir að umboðsmaður barna taki ekki til meðferðar eða sinni persónulegum ágreiningsmálum milli einstaklinga. Má í því sambandi nefna deilur milli barns og foreldra og milli foreldra innbyrðis (forsjár- og umgengnisdeilur). Berist slík mál umboðsmanni barna veitir hann þeim sem til hans leita með slík mál upplýsingar um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu, hjá dómstólum eða með því að vísa máli til umboðsmanns Alþingis.

Ef árekstrar verða milli barna og stofnana og/eða lögregluyfirvalda fer það eftir viðkomandi máli hvort umboðsmaður barna lætur málið til sín taka. Sé ljóst að mál eigi undir barnaverndaryfirvöld, umboðsmann Alþingis eða aðrar stofnanir ber honum að leiðbeina og aðstoða viðkomandi. Eigi barn hlut að máli er umboðsmanni barna heimilt að aðstoða barnið við að koma athugasemdum sínum á framfæri eða ná fram rétti sínum.

 

Um 5. gr. 

    Um 1. mgr.

Til að umboðsmaður barna geti sinnt hlutverki sínu er nauðsynlegt að veita honum óheftan og greiðan aðgang að öllum gögnum hjá stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem snerta mál er hann hefur til meðferðar. Umboðsmaður barna skal meta hvort og hvaða upplýsingar honum eru nauðsynlegar. Upplýsingaskylda stjórnsýsluhafa tekur til 3. gr. frumvarpsins í heild.

Í 2. málsl. er einstaklingum, félögum og samtökum einstaklinga gert skylt að veita umboðsmanni upplýsingar, en upplýsingaskylda þeirra nær eingögnu til d-liðar 3. gr. og er því takmarkaðri en þegar í hlut eiga handhafar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

    Um 2. mgr.

Greinin kveður á um óheftan aðgang umboðsmanns barna að stofnunum fyrir börn og stofnunum sem tengjast börnum á einn eða annan hátt. Hér er bæði átt við einkareknar stofnanir og ríkisreknar. Ákvæðið tryggir rétt umboðsmanns barna til að kanna aðstæður og aðbúnað viðkomandi stofnana. Má þar nefna sem dæmi skóla, leikskóla, sjúkrahús, félagsmiðstöðvar, meðferðarheimili o.s.frv.

    Um 3. mgr.

Komi upp ágreiningur um rétt umboðsmanns barna til upplýsinga samkvæmt þessari málsgrein frumvarpsins er honum heimilt að leita atbeina dómstóla. Má í því sambandi benda á XII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem kveður á um skjóta úrlausn með aðstoð dómstóla án málshöfðunar.

 

Um 6. gr. 

Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um upplýsingaskyldu stjórnsýsluhafa, einstaklinga, félaga og samtaka einstaklinga. Í störfum sínum verða umboðsmanni barna án efa kunn ýmis atvik er varða einka- eða almannahagsmuni sem þurfa að fara leynt. Hins vegar er ljóst að til að rækja hlutverk sitt skv. 1. og 3. gr. frumvarpsins kunngjörir hann álit sitt í einstökum málum og skýrir opinberlega frá málefnum sem hann vinnur að. Því er í greininni lögð sú skylda á umboðsmann barna að hann meti hverju sinni hverju hæfilegt og viðeigandi sé að skýra frá og leggja til grundvallar álitsgerðum sínum. Fela verður umboðsmanni barna þetta mat. Vísast í því sambandi til 32. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954.

 

Um 7. gr. 

Ákvæði 7. gr. er ætlað að stuðla frekar að sjálfstæði umboðsmanns barna í starfi með því að hann ræður hverja hann velur sem starfsmenn sína eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Eins og vikið er að í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir stofnun ráðs er vera skuli umboðsmanni barna til aðstoðar eða ráðgjafar. Þess í stað skal embættinu tryggt fé á fjárlögum til að standa straum af vinnu sérfræðinga vegna einstakra verkefna eftir ákvörðun umboðsmanns barna hverju sinni.

 

Um 8. gr. 

    Um 1. mgr.

Rétt þykir að embætti umboðsmanns barna heyri undir forsætisráðuneyti fremur en félagsmálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti eða dómsmálaráðuneyti en þau ráðuneyti hafa með höndum flesta þá málaflokka sem snerta börn sérstaklega. Hlutleysi gagnvart fagráðuneytum er umboðsmanni barna nauðsyn til þess að hann geti unnið að málefnum íslenskra barna af fullri einurð. Telja verður að traust almennings á störfum umboðsmanns barna verði best tryggt með því að embættið heyri undir ráðuneyti sem telja verður að fjalli almennt lítið um málefni barna.

Til að tryggja sjálfstæði umboðsmanns barna er þó forsætisráðuneytinu eingöngu ætlað að hafa eftirlit með fjárreiðum embættisins. Um boð- eða eftirlitsvald af hálfu ráðuneytisins er því ekki að ræða. Fyrirsjáanlegt er að tillögur, ábendingar eða gagnrýni umboðsmanns barna geta beinst að ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma og því er umboðsmanni barna nauðsyn á sjálfstæði í starfi.

Í greininni er lagt til að umboðsmaður barna gefi forsætisráðherra árlega skýrslu um störf sín líkt og tíðkast hefur hjá umboðsmanni barna í Noregi. Skýrsla af þessu tagi er gagnleg heimild um störf embættisins og jafnframt til þess fallin að vekja athygli og undirstrika enn frekar þau málefni sem umboðsmaður barna beitir sér fyrir.

    Um 2. mgr.

Í málsgreininni er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um starfshætti umboðsmanns barna, svo sem um aðgang að embættinu og meðferð og afgreiðslu mála svo að dæmi séu tekin.

 

Um 9. gr. 

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1995 en Alþingi ljúki afgreiðslu frumvarpsins og taki ákvörðun um stofnun embættis umboðsmanns barna á árinu 1994 sem er ár fjölskyldunnar.