Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Upplýsingaskylda við forsjárlausa foreldra

Hver er upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra?

Svar umboðsmanns barna:

Í 52. gr. barnalaga er fjallað um rétt til upplýsinga um barn, en þar segir:

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu munnlegar upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.
Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.

Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til ráðuneytisins.

Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 78. gr.

Samkvæmt þessu á forsjálaust foreldri rétt á að fá skriflegar upplýsingar frá skólum, nema það gangi gegn ríkari almanna- eða einkahagsmunum, t.d. ef upplýsingagjöf telst skaðleg fyrir barn. Hægt er að skjóta synjun um upplýsingar til sýslumanns.

 Nánari upplýsingar um fjölskyldumál er að finna hér