Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Umgengni ekki sinnt

Hitt foreldrið sinnir ekki umgengni. Hvað get ég gert?

Svar umboðsmanns barna:

Í  barnalögum nr. 76/2003 er kveðið á um umgengnisrétt en hann felur í sér rétt barns til samveru og annarra samskipta við báða foreldra. Í 46. gr. laganna er kveðið á um rétt og skyldu foreldra til þess að rækja þessa umgengni við barn sitt.

1. og 2. mgr. 46. gr. Umgengni við foreldri:

Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur.

Foreldri sem barn býr ekki hjá á í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.

Ef foreldri sinnir ekki umgengnisskyldu sinni er hægt að leita til sýslumanns og óska eftir að hann taki ákvörðun um umgengni. Ef sýslumaður kveður upp úrskurð um umgengni en foreldri sinnir samt sem áður ekki umgengni er hins vegar því miður lítið hægt að gera. Í barnalögum eru engin úrræði til að knýja fram umgengni í slíkum tilvikum. Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvort umgengni við foreldri sem vill ekki hitta barn sitt sé til þess fallin að þjóna hagsmunum barnsins. Foreldrar missa auðvitað af miklu þegar þeir velja að umgangast ekki börn sín.

Misjafnt er þó hversu miklu börnin missa af við að umgangast ekki foreldri sem sýnir þeim hvort sem er ekki áhuga.  Þegar svo er komið reynist oftast best að vinna út frá stöðunni eins og hún er, þ.e. sætta sig við staðreyndir og horfa fram á veginn með jákvæðu hugarfari. Hafi barn hins vegar sterka löngun til samneytis við það foreldri sem ekki sinnir umgengnisskyldu sinni þrátt fyrir fögur fyrirheit og barn upplifir mikla höfnun getur verið nauðsynlegt að barn fái aðstoð fagaðila sem getur stutt það og aðstoðað við að takast á við hlutina.

 Nánari upplýsingar um umgengni og önnur fjölskyldumál er að finna hér