Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Mega foreldrar lesa einkaskilaboð barna sinna?

Mega foreldrar lesa tölvupóst, sms eða önnur einkaskilaboð barna sinna án vitundar barnsins?

Svar umboðsmanns barna:

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs, sbr. m.a. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Foreldrum og öðrum er því óheimilt að lesa tölvupóst eða önnur einkaskilaboð barna sinna, t.d. á netinu.

Má í því sambandi benda á að það er refsivert samkvæmt 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að hnýsast í bréf, skjöl, gögn eða forrit á tölvutæku formi, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, enda sé það gert án samþykkis viðkomandi og gögnin fengin með brögðum, bréf opnað, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð. Einnig er refsivert að hnýsast í hirslu annars manns án nægilegra ástæðna. Þessi réttarvernd nær bæði til barna og fullorðinna.

Þó að ólíklegt sé að foreldrar verði gerðir ábyrgir samkvæmt fyrrnefndu ákvæði þurfa þeir að hafa í huga að persónuleg gögn barns, t.d. bréf, dagbækur, minnisblöð, skilaboð í símum og netsamskipti, falla undir friðhelgi einkalífs. Meginreglan er því sú að foreldrum er ekki heimilt að lesa fyrrnefnd gögn nema með leyfi barns. Eðli málsins samkvæmt er þó sjálfsagt að foreldri lesi innihald efnisins fyrir barn sem kann ekki að lesa eða ef barn óskar eftir því af öðrum ástæðum.

Í ákveðnum undantekningartilvikum kann að vera að foreldrum sé heimilt að fylgjast með bréf- og netsamskiptum barna sína ef þeir hafa ástæðu til að ætla að slík samskipti geti stefnt velferð barns í verulega hættu. Á það þó einungis við ef foreldrar hafa ástæðu til að ætla að þær upplýsingar sem þar koma fram geti hjálpað þeim að vernda barnið og koma því til aðstoðar. Þá telur umboðsmaður barna mikilvægt að slíkt eftirlit sé ekki framkvæmt með leynd.

Þegar rætt er um netnotkun barna er mikilvægt að hafa í huga 94. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt því ákvæði ber foreldrum, eftir því sem í þeirra valdi stendur, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því. Með tilkomu spjallrása og samskiptavefja á netinu hefur verið fullt tilefni til eftirlits af hálfu foreldra hvað varðar netnotkun barna sinna. Dæmi eru um að spjallrásir hafi reynst börnum hættulegar og er því mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um skyldu sína til að tryggja börnum sínum vernd og fræða þau um ábyrga netnotkun. Foreldrar þurfa þó ávallt að virða friðhelgi einkalífs barna sinna og láta þau vita ef til stendur að hafa eftirlit með netnotkun.

Að lokum er mikilvægt að geta þess að allt sem börn skrifa eða birta á opnar síður netsins, s.s. Facebook, Twitter, Instagram, bloggsíður og þess háttar síður er að sjálfsögðu opið fyrir alla. Brýnt er að foreldrar fræði börn sín um að allt sem fer á netið hafa allir aðgang að, líka afar, ömmur, kennarar og vinnuveitendur og að hægt er að afrita efni af netinu og birta aftur eða dreifa með öðrum hætti síðar.