Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Má beina innheimtu að börnum?

Má beina innheimtu að börnum?

Svar umboðsmanns barna:

Í VII. kafla lögræðislaga nr. 71/1997 eru ákvæði er varða fjárræði og meðferð fjármuna barna og unglinga. Samkvæmt lögunum verða menn fjárráða við 18 ára aldur en fram að þeim tíma fara foreldrar eða forsjáraðilar barns með fjárhald þess. Ein undantekning er frá þessari reglu í lögunum, en hún heimilar barni að ráðstafa sjálfsafla- og gjafafé sínu.

Þrátt fyrir þessa undanþágu, að barni sé heimilt að ráðstafa sjálfsafla- og gjafafé sínu er ófjárráða barni óheimilt að stofna til skulda. Þá kemur fram í lögunum að löggerningar ólögráða manns bindi hann ekki.

Einstaklingum og lögaðilum er með öllu óheimilt að beina kröfu að barni til innheimtu skulda. Kröfu, t.d. vegna frístundastarfs eða skólagjalda, má því ekki beina að barninu sjálfu heldur skal beina innheimtu hennar til forsjáraðila barnsins.

Samkvæmt ofangreindu er fyrirtækjum og stofnunum því óheimilt að eiga viðskipti við ófjárráða einstakling, sem felur í sér fjárhagslega skuldbindingu fyrir hann, án samþykkis forsjáraðila. Það að fá samþykki forsjáraðila og upplýsingar um hann er eina trygging fyrirtækisins fyrir greiðslu. Geri fyrirtækið hins vegar samning við ófjárráða einstakling, án samþykkis forsjáraðila tekur það áhættu af því að fá ekki greiðslu samkvæmt samningnum. 

Stundum kemur þó fyrir að fyrirtæki og stofnanir stíli innheimtubréf á börn. Yfirleitt er það vegna mistaka eða gáleysis. Í þeim tilvikum er best að hafa samband við þann sem sendir kröfuna til að fá þetta leiðrétt og til þess að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Hafa verður í huga að þrátt fyrir þessar meginreglur laganna um að löggerningar ófjárráða bindi þá ekki, eru í lögum ákveðnar undantekningar frá þeim. Þá er jafnframt kveðið á um skilaskyldu, þ.e. hvor aðili um sig skal skila aftur þeim verðmætum sem hann hefur veitt viðtöku. Skal hinn ólögráða greiða fégjald að því leyti sem verðmætin hafa orðið honum að notum. Þarf því ávallt að meta hvert tilvik fyrir sig.

Í lögráðum og forsjá barna felst skylda foreldra til að upplýsa og fræða börn sín, m.a. um ábyrga meðferð fjármuna, eftir því sem aldur og þroski gefur tilefni til. 

Í 69. gr. lögræðislaga að finna undanþágu frá þeirri meginreglu að ófjárráða einstaklingur megi ekki stofna til skulda en þar segir að ófjárráða maður geti keypt og selt eignir (t.d. fasteignir, bíla, báta eða fyrirtæki), þegið eignir að gjöf og leigt út fasteign með samþykki yfirlögráðanda (sýslumanns). Samþykki yfirlögráðanda þarf einnig til allra ráðstafana varðandi fjárhald ófjárráða manns sem eru mikils háttar eða óvenjulegar miðað við efni hins ófjárráða. Innheimtu lögboðinna gjalda er hvíla á fasteign eða bifreið má því beina að ófjárráða barni, enda hafi sýslumaður samþykkt slíka eignatilfærslu. Ef eign er skráð á ófjárráða barn í veðmálabókum eða bifreiðaskrá má ætla að slíkt samþykki sýslumanns liggi fyrir.

Hér má lesa nánar um fjármál barna.