Svar umboðsmanns barna:
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 kveður á um skyldur ríkisins til að tryggja börnum ýmis grunnréttindi.
Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi – óháð réttindum hinna fullorðnu.
Barnasáttmálinn kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs og þroska, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Loks tryggir sáttmálinn börnum rétt til að taka þátt í samfélaginu og hafa áhrif á eigið líf.
Barnasáttmálinn var fullgiltur á Íslandi árið 1992, sem þýðir að Ísland er skuldbundið gagnvart öðrum þjóðum að virða og uppfylla ákvæði hans. Árið 2013 var sáttmálinn svo lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013.