Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Barnagæsla

Hvenær mega unglingar byrja að vinna við barnagæslu?

Svar umboðsmanns barna:

Umboðsmaður barna mælir með að foreldrar leyfi börnunum að njóta æskunnar – í öruggum höndum þeirra sem valda því að gæta þeirra. Ætti því ekki að fela barni að gæta annars barns nema ljóst sé að það hafi náð nægum aldri og þroska til að axla slíka ábyrgð.

Í  lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga er fjallað um vinnu barna. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með því að lögunum og reglunum sé framfylgt. Tilgangurinn með þessum reglum er að koma í veg fyrir að börn vinni störf sem geta verið þeim hættuleg andlega og líkamlega. Í reglunum eru tekin dæmi um störf sem unglingar í aldurshópunum yngri en 13 ára, 13–14 ára og 15 ára og eldri mega vinna en ekki er sérstaklega fjallað um barnagæsla.

Það að gæta ungra barna er mjög ábyrgðarmikið starf sem getur valdið miklu álagi. Ef eitthvað kemur fyrir er ábyrgðin gífurleg. Dæmi eru um að alvarleg slys og jafnvel dauðsföll hafi komið fyrir við svona aðstæður en slys á heimilum eru meðal algengustu slysa á Íslandi og verða flest í aldurshópnum 0–4 ára. Barnagæsla getur því ekki talist til léttari starfa sem börn undir 15 ára mega vinna.

Vinnueftirlitið hefur túlkað fyrrnefndar reglur þannig að ekki sé heimilt að ráða börn yngri en 15 ára til að starfa við barnagæslu.  

Hér er nánar fjallað um vinnu barna og unglinga

Hér er nánar fjallað um barnagæslu.