Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Aldur þeirra sem sækja börn á leikskóla

Hvað þurfa börn að vera orðin gömul til að sækja systkini sín í leikskóla?

Svar umboðsmanns barna:

Engar reglur um þetta er að finna í lögum eða reglugerðum. Hins vegar hafa einstök sveitarfélög eða leikskólar sett sér viðmiðunarreglur í þessu efni.

Árið 2001 ritaði umboðsmaður barna bréf til leikskólanefnda sveitarfélaga þar sem hún greindi frá þeirri skoðun sinni að það væri ábyrg stjórnun af hálfu leikskóla að setja almennar reglur um hverjir mættu sækja börn í leikskóla. Það væri hins vegar alfarið á valdi sveitarfélaga eða einstakra leikskóla við hvaða aldur væri miðað í slíkum reglum.

Ótvírætt er að foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum á leið í og úr leikskólanum. Leikskólar bera ábyrgð á öryggi og velferð þeirra meðan þau dvelja í leikskólanum eða eru á ferð á hans vegum. Starfsmönnum leikskóla ber í öllum störfum sínum að sýna ábyrgð og aðgæslu. Þeim ber jafnframt að hafa það að leiðarljósi sem barni er fyrir bestu, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Starfsmenn mega því ekki setja barn í hendurnar á hverjum sem er að skóladegi loknum.

Með tilliti til öryggis þeirra ungu barna sem í hlut eiga finnst umboðsmanni barna eðlilegt að leikskólar setji sér viðmiðunarreglur í þessu efni. Þær hljóta að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað. Ekki er rétt að leggja almennt þá ábyrgð á börn yngri en 12 ára að tryggja öryggi og velferð yngri barna á leið til og frá leikskóla. Þó mætti í undantekningartilvikum gera það og þá m.a. að teknu tilliti til nálægðar heimilis barnsins við leikskólann og annarra aðstæðna.

Samkvæmt 10. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 skal leikskólastjóri stuðla að samstarfi milli foreldra og starfsfólks leikskóla með velferð barna að markmiði. Umboðsmaður telur að mikilvægt að leikskólastjórar hafi samráð við foreldrafélag viðkomandi leikskóla við gerð viðmiðunarreglna um ofangreint.