Mat lagt á aðra hagsmuni og ákvörðun tekin

Hversu mikið vægi það sem börnum er fyrir bestu á að hafa fer eftir eðli máls hverju sinni. 

Sé ákvörðun tekin sem byggir á öðrum hagsmunum, ber að greina frá því sem og þeim mótvægisaðgerðum, sem ætlunin er að grípa til, í því skyni að vega á móti mögulegum neikvæðum áhrifum á börn.

Til þess að framkvæma mat á því sem börnum er fyrir bestu, þurfa að liggja fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar, eins og eftir atvikum upplýsingar um gagnreyndar aðferðir, tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna. Mikilvægt er að fram komi á hvaða gögnum og upplýsingum var byggt við framkvæmd matsins.

Í flestum málum þar sem áhrifin á börn eru almenn, eins og t.d. við undirbúning frumvarpa og reglugerða eða við mótun stefnu á sér stað undirbúningsvinna, en mat á því sem börnum er fyrir bestu þarf að vera hluti af þeim undirbúningi.

Hvað segir regluverkið?

Mikilvægt er að beita Barnasáttmálanum og meginreglum hans en einnig er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um það regluverk sem gildir um viðkomandi málefni áður en vinnan við framkvæmd matsins hefst.

Túlkun og beiting Barnasáttmálans

Leiðbeiningar um túlkun og beitingu Barnasáttmálans má t.d. finna í niðurstöðum innlendra og alþjóðlegra dómstóla í tilteknum málum sem varða börn. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur með almennum athugasemdum sínum einnig veitt leiðbeiningar um túlkun sáttmálans, en þær leiðbeiningar taka ýmist til tiltekinna réttinda, tiltekinna ákvæða sáttmálans eða tiltekinna hópa barna.

Um Barnaréttarnefndina í Genf.

Mikilvægar spurningar

  • Hvað leiðir matið í ljós að er börnum fyrir bestu?

  • Er niðurstaða málsins í samræmi við það sem börnum er fyrir bestu?

  • Voru aðrir hagsmunir ráðandi við töku ákvörðunarinnar og er greint frá því í gögnum málsins sem og mótvægisaðgerðunum sem grípa á til


Taka ákvörðunar

Í einhverjum tilvikum er það ekki sami aðilinn sem leggur mat á það sem börnum er fyrir bestu og sem tekur ákvörðun í málinu. Það er því á ábyrgð þess sem tekur ákvörðun í málinu að tryggja aðkomu aðila sem er til þess bær að leggja mat á það sem börnum er fyrir bestu, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Gátlisti fyrir töku ákvarðana

  • Liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um það hvaða hópar barna er líklegt er að verði fyrir áhrifum og með hvaða hætti?

  • Er búið að staðreyna hvaða greinar Barnasáttmálans koma til álita í málinu?

  • Hvaða gagnreyndu þekkingu og niðurstöður rannsókna má nýta til að bæta gæði ákvörðunarinnar sem til stendur að taka?

  • Er búið að staðfesta hvaða regluverk tekur til málefnisins?

  • Hafa börn fengið tækifæri til þess að tjá sig um málefnið og hefur verið tekið tillit til sjónarmiða og óska þeirra?

  • Ef til stendur að taka ákvörðun sem byggir á öðru en því sem matið hefur leitt í ljós að er börnum fyrir bestu, er búið að skipuleggja mótvægisaðgerðir?


Næsti kafli - Eftirfylgni og upplýsingagjöf til þeirra sem aðkomu höfðu að málinu

Til baka á efnisyfirlit


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica