Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Vímuefni

Kaflar:

 1. Réttur til verndar
 2. Helstu lög og reglur
 3. Hvað hefur áhrif?
 4. Vísbendingar um vímuefnaneyslu
 5. Ábyrgð hinna fullorðnu
 6. Barnavernd
 7. Brottvísun úr skóla
 8. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til verndar

Áfengi og önnur vímuefni koma mikið við sögu í ýmsum félagslegum vandamálum, upplausn fjölskyldna, fjárhagserfiðleikum, slysum og stórum hluta ofbeldismála og afbrota. Oft er sagt að vímuefnaneysla unglinga sé yfirleitt birtingarmynd annars vanda eða vanlíðunar. Með því að gefa barni sínu tíma og byggja upp góða sjálfsmynd og traust innan fjölskyldunnar geta foreldrar dregið verulega úr líkum þess að barnið ánetjist vímuefnum þegar það kemst á unglingsár. Vímuefnaneysla unglinga getur raskað uppvaxtarferli þeirra og ógnað velferð þeirra og framtíð. Eftir því sem unglingar byrja fyrr að neyta vímuefna aukast líkurnar á að þeir ánetjist þeim, hætti í skóla, einangrist félagslega, fái sjúkdóma, lendi í slysum og verði fyrir óæskilegri kynlífsreynslu. Börn og unglingar eiga rétt á vímulausu umhverfi.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til verndar gegn hvers konar skaðlegum áhrifum. Í 33. gr. Barnasáttmálans segir:

Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsmála og menntamála, til verndar börnum gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og skynvilluefna svo sem þau eru skilgreind í alþjóðasamningum sem um þau fjalla, og til að koma í veg fyrir að börn séu notuð við ólöglega framleiðslu slíkra efna og verslun með þau.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann í febrúar árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.”

2. Helstu lög og reglur

Samfélagið setur þegnum sínum ýmsar reglur sem ætlast er til að farið sé eftir. Börn njóta ágætrar lagaverndar hvar varðar vímuefni. Fyrst og fremst er refsivert að kaupa efnin, selja þau, taka við þeim, hafa í vörslu sinni og afhenda þau. Ekki er refsivert út af fyrir sig að neyta efnanna. Þegar börn leiðast út í vímuefnaneyslu er áherslan lögð á aðstoð og meðferð frekar en refsingu. Refsingum er frekar beint að þeim sem selja og dreifa ólöglegum efnum eða þeirra sem selja áfengi eða tóbak til þeirra sem ekki hafa náð tilskildum aldri. Þetta tvennt getur að sjálfsögðu farið saman og þá er beitt refsingum og jafnframt boðið upp á ráðgjöf og meðferð.

Fyrst ber þó að nefna barnalög nr. 76/2003 en þar er fjallað um forsjárskyldur foreldra í V. kafla. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna til 18 ára aldurs og er það bæði réttur þeirra og skylda að ráða persónulegum högum þeirra til að forða þeim frá áföllum fram að þeim aldri. Í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um útivistartíma barna. Þar segir:

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Í 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998 segir:

Óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Ávallt þegar ástæða er til að ætla að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri skal sá sem selur, veitir eða afhendir það láta hlutaðeiganda sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.

Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 segir í 5. gr.:


Dvöl ungmenna á veitingastöðum.

Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.

Veita má í reglugerð undanþágu frá reglu 1. mgr. sem tekur til ákveðinna tegunda veitingastaða og sérstakra tilefna, svo sem skóladansleikja, enda fari engar áfengisveitingar þar fram og afgreiðslutími viðkomandi veitingastaðar sé í samræmi við heimilan afgreiðslutíma samkvæmt rekstrarleyfi staðarins, nema sótt hafi verið um tímabundið leyfi skv. 4. mgr. 18. gr.

Í reglugerð nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er 5. gr. ofangreindra laga skýrð nánar í 12. gr:

Dvöl ungmenna á veitingastöðum.

Ungmennum yngri en 18 ára er óheimilt að dvelja á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir kl. 22 á kvöldin. Þó er þeim það heimilt ef þau eru í fylgd með eftirtöldum einstaklingum, eldri en 18 ára:
a. Foreldrum eða öðrum forráðamönnum, svo sem stjúpforeldrum eða fósturforeldrum.
b. Móður- og/eða föðurforeldrum. Sama gildir um foreldra stjúpforeldris eða fósturforeldris.
c. Maka.

Fari skóladansleikir eða aðrar skemmtanir og uppákomur á vegum skóla, íþróttafélaga, æskulýðsfélaga og annarra viðurkenndra félaga ungmenna fram á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára þó heimil þar dvöl eftir kl. 22 að kvöldi fram til loka viðkomandi viðburðar enda fari engar áfengisveitingar þar fram á sama tíma.

Um dyravörslu er fjallað í 6. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 86/2007.

Í 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 er fjallað um bann við áfengisauglýsingum. Þar segir m.a.:

20. gr. Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.

Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:
1. Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
2. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar.
3. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.

Í lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 segir m.a. að innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla ávana- og vímuefna, sem frekar er lýst í lögunum, sé bannaður á Íslandi. Brot á lögunum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að sex árum.

Í 173. gr. a) almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir:

Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.

Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.

Í lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002 segir í 8. gr.:

Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

Bannað er að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum eða er ætlað að minna á tóbak með öðrum hætti, svo sem myndskreytingu.

Bannað er að selja tóbak úr sjálfsölum.

Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna magni en heilum 20 stykkja pökkum.

Bannað er að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og allt munntóbak, að undanskildu skrotóbaki.

Ekki má selja tóbak í skólum, stofnunum fyrir börn og unglinga eða á heilbrigðisstofnunum.

Þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak.
...

3. Hvað hefur áhrif?

Á kynþroskaaldri er vinahópurinn farinn að vera mjög sterkur áhrifavaldur og unglingurinn finnur oft til meiri samkenndar með honum en foreldrum. Eðlilega hefur unglingurinn sterka löngun til að falla inn í hópinn og upplifir sig sterkt í gengum það hvernig honum gengur að samsamast honum. Góður vinahópur getur haft jákvæð áhrif á einstaklinginn og orðið honum hvatning til góðra verka.

Stærsti markhópur fíkniefnasala er ungt fólk á aldrinum 14-19 ára. Enginn er óhultur og dæmi eru um að enn yngri börn hafi ánetjast vímuefnum. Stutt reynsla af lífinu, ómótuð sjálfsmynd og óöryggi þar af leiðandi getur gert börnum og unglingum erfitt með að þola hópþrýsting og standa við sannfæringu sína. Sumir unglingar finna fyrir miklum þrýstingi til neyslu áfengis, tóbaks og ólöglegra vímuefna. Forvarnir eru því sérstaklega mikilvægar fyrir þennan hóp en einnig þá sem yngri eru.

Upplýsingar um vímuefni, áhrif þeirra og fjölda vímuefnanotenda geta stundum brenglast þegar þeim er miðlað á milli ungmenna auk þess sem fíkniefnasalar og -neytendur veita oft beinlínis rangar eða villandi upplýsingar um þessi efni. Mikilvægt er að foreldrar hafi í huga að vímuefnasalinn getur oft verið einn úr vinahópnum. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar og þeir sem bera ábyrgð á börnum setji sig inn í þessi mál, t.d. með því að kynna sér niðurstöður kannana, til að geta leiðrétt og leiðbeint um þessi mál.

Einstaklingur sem líður vel með sjálfan sig og finnur að honum er treyst er líklegri til að taka jákvæðar ákvarðanir. Góðar fyrirmyndir, upplýsingar um skaðsemi fíkniefna og áhersla á heilbrigt líferni og sjálfsvirðingu eru dæmi um forvarnarstarf sem hægt er að vinna að á mörgum sviðum. Viðhorf foreldra hafa mjög mikið að segja varðandi afstöðu barna og unglinga til áfengis, tóbaks og annarra vímuefna. Nánar er fjallað um forvarnir og ábyrgð í kafla 5.

4. Vísbendingar um vímuefnaneyslu

Foreldrar sem hafa gefið börnum sínum tíma og byggt upp traust innan fjölskyldunnar draga ekki aðeins úr líkum þess að unglingurinn ánetjist vímuefnum heldur eru þessir foreldrar einnig betur í stakk búnir til að taka eftir breytingum í fari unglingsins sé hann byrjaður að neyta vímuefna. Einnig skiptir máli að foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra og aðra þá sem barnið/unglingurinn er í daglegum samskiptum við (s.s. kennara eða þjálfara). Þannig geta foreldrar oft áttað sig fyrr ef unglingurinn þeirra er að þróa með sér vímuefnavandamál. Hér að neðan eru talin helstu einkenni um vímuefnaneyslu unglinga.

 • Breytingar á viðhorfum og útliti (t.d. fatnaði, hárgreiðslu).
 • Breytingar á lífsstíl. Unglingurinn fer að vera lengur úti á kvöldin og kemur stundum ekki heim alla nóttina.
 • Kunningjahópurinn breytist og jafnvel reynt að halda leyndu hverjir kunningjarnir eru.
 • Tilhneiging til einangrunar. Unglingurinn verður fáskiptinn og lokar sig inni í herbergi.
 • Samband við foreldra versnar og áhugi á fjölskyldunni minnkar. Ágreiningur og árekstrar við foreldra aukast og barnið svíkur gefin loforð.
 • Sljóleiki og minnisleysi gera vart við sig.
 • Áhugi á að þrífa sig minnkar.
 • Skólasókn minnkar og námsárangur versnar.
 • Illa mætt í vinnu og logið til um ástæður þegar forföll eru boðuð.
 • Áhugamálum illa sinnt.
 • Þol gagnvart álagi minnkar og unglingurinn bregst við með skapofsa og ofsafengnum viðbrögðum af litlu tilefni.
 • Peningar (jafnvel hlutir) fara að hverfa af heimilinu og frá nákomnum. Viðkomandi verður uppvís að svikum og tvöfeldni.
 • Unglingurinn lendir í höndum lögreglunnar vegna óreglu og afbrota.

Hafa bera í huga að ástæður einkennanna kunna að vera af öðrum og meinlausari toga en neyslu vímuefna og því ber að forðast ásakanir að ósekju.

5. Ábyrgð hinna fullorðnu

Þessum kafla er skipt í þrennt: forvarnir heima, í skólum og í frístundastarfi.

Forvarnir heima
Forvarnir byrja heima. Foreldrar skipta lykilmáli í að þjálfa börnin í að hugsa málið út frá eigin forsendum, taka skynsamlegar ákvarðanir og treysta og trúa á sig sjálf. Börn sem eru í góðum tengslum við foreldra sína eru ólíklegri en önnur til þess að neyta vímuefna. Foreldrar eru fyrirmyndir og því í lykilstöðu þegar kemur að því að fræða börn um notkun vímuefna og afleiðingar af neyslu þeirra. Ábyrg hegðun foreldra, í samræmi við það sem þeir segja og kenna, skiptir hér miklu máli. Börn nema ýmislegt í tengslum við viðhorf, samskipti og fleira, bara af því að fylgjast með samskiptum og athöfnum annarra inni á heimilinu frá degi til dags. Einnig er mikilvægt að skapa barninu stöðugleika, aðhald og reglur sem halda. Foreldrasamstarf skiptir hér töluverðu máli en foreldrar sem eru í góðu sambandi við aðra foreldra, kennara og þjálfara eru líklegri til að geta veitt börnum sínum sanngjarnt aðhald. Þá er gott að þekkja til vinanna og þeirra staða sem barnið heldur til á.

Börnum er mikilvægt að vita að foreldrarnir séu tilbúnir að tala um hlutina af hreinskilni, án þess að vera með ásakanir og æsing. Góð samræða gerir meira en predikun og því þarf að hlusta vel á það sem börnin hafa að segja og reyna að setja sig í spor þeirra. Mikilvægt er að koma því skilmerkilega til skila hvað foreldrar vilja þegar vímuefni eru annars vegar. Foreldrar verða að geta rökstutt þau sjónarmið sem þeir halda á lofti svo að börnin skilji að þær forsendur sem liggja að baki þeim séu væntumþykja og áhugi á þeirra eigin velferð.

Forvarnir í skólanum
Grunnskólinn hefur lögboðið forvarnarhlutverk en í 2. gr. laga um grunnskóla segir: „Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins." Nánari útfærslu á lögunum er að finna í Aðalnámskrá grunnskóla. Þar kemur fram að öflugt foreldrastarf og sterk samstaða um grundvallarviðmið er besta forvörnin gegn hvers kyns fá, t.d. neyslu fíkniefna og óæskilegri hegðun. Ef foreldrar nemenda í bekk eða skóla ná að stilla saman strengi um meginviðmiðanir í uppeldismálum aukast líkur á árangri í skólastarfinu, þ.e. námsárangri, almennri velferð nemenda og forvörnum. Foreldrafélög á öllum skólastigum geta því lagt sitt af mörkum með því að taka afstöðu gegn neyslu vímuefna og eftirlitslausum skemmtunum. Nánari upplýsingar um foreldrasamstarf er að finna á heimasíðu Landssamtakanna Heimili og skóli.

Í almenna hluta aðalnámskrár (2011) er fjallað um forvarnir í kafla 7.8:

Grunnskólinn skal vinna markvisst að forvörnum og heilsueflingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans. Lögð skal áhersla á almennar forvarnir, s.s. gagnvart tóbaki, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn, t.d. net- og spilafíkn. Mikilvægt er að allir grunnskólar komi sér upp forvarnaráætlun sem birt er í skólanámskrá. Í forvarnaráætlun skal m.a. vera áætlun skólans í fíknivörnum og áfengis- og tóbaksvörnum, áætlun gegn einelti og öðru ofbeldi, áætlun í öryggismálum og slysavörnum og stefna í agastjórnun. Einnig skal koma fram með hvaða hætti skólasamfélagið hyggst bregðast við ef mál koma upp. Kynna skal forvarnaráætlun skólans öllum aðilum skólasamfélagsins, starfsfólki skóla, foreldrum og nemendum og birta í skólanámskrá.

Forvarnir og skipulagt frístundastarf
Ein leið til að bæta sjálfsmynd barna er að hjálpa þeim til að finna sér farveg og áhugamál sem hentar þeim. Rannsóknir sýna að skipulagt frístundastarf dregur verulega úr hættu á því að barn leiðist út í vímuefni. Einstaklingur sem á sér spennandi áhugamál sem veita honum ákveðna lífsfyllingu eða útrás er líklegri til að halda sig frá vímuefnum. Sá sem stundar t.d. íþróttir, félagsstarf eða listgrein hefur minni tíma aflögu fyrir hangs. Hann getur fundið fyrir framförum og öðlast um leið betra sjálfstraust og virðingu fyrir sjálfum sér. Einnig má ætla að hann hafi áhuga á því að verja þessa hæfileika með því að temja sér jákvæðan lífsstíl. Þeir sem skipuleggja, þjálfa eða sinna börnum í skipulögðu frístundastarfi bera mikla ábyrgð sem fyrirmyndir barnanna hvað varðar heilbrigðan lífsstíl.

6. Barnavernd

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Til að barnavernd geti aðstoðað börn í vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra þarf þeim að berast tilkynning. Í barnaverndarlögum er fjallað tilkynningar til barnaverndar:

16. gr. Tilkynningarskylda almennings.

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Tilkynnandi getur í flestum tilvikum óskað nafnleyndar gagnvart fjölskyldu barnsins. Börn og unglingar geta líka leitað sjálf til starfsmanna barnaverndar.

Barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi þar sem barnið býr og Barnaverndarstofa geta komið ungu fólki í vanda í meðferð á Stuðlum eða á meðferðarheimili í lengri eða skemmri tíma. Áður en það er gert er þó byrjað á vægari úrræðum til að hjálpa barninu og fjölskyldunni. Meðferðarheimili, sem taka börn í langtímameðferð á vegum Barnaverndarstofu, eru þrjú talsins og öll staðsett á landsbyggðinni. Nánari upplýsingar er að finna hér á vef Barnaverndarstofu.

Hér á vef umboðsmanns barna er nánar fjallað um barnavernd.

7. Brottvísun úr skóla

Skólaganga er mannréttindi en á vissum punkti getur það gerst að nemandi gengur svo langt að hann missir tímabundið þessi réttindi vegna alvarlegra brota á skólareglum eða öðrum opinberum reglum. Dæmi um það er fíkniefnasala í grunnskólum. Sá yfirgnæfandi meirihluti nemenda sem koma hvergi nærri fíkniefnum á rétt á því að vera í fíkniefnalausum skóla og vegur sá réttur þyngra en réttur barna sem selja fíkniefni til að stunda nám. Fjallað er um brottvísun um stundarsakir og ótímabundin brottvísun úr grunnskóla hér í kaflanum um skólareglur og brot á þeim. 

8. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Ef einhver grunur er um áfengis- eða eiturlyfjaneyslu barns eða unglings er mikilvægt að foreldrar leiti án tafar ráðgjafar hjá fagaðilum. Tíminn er dýrmætur og getur oft ráðið úrslitum um það hvort og hve fljótt tekst að ná unglingum út úr neyslu. Ýmsir aðilar sinna forvörnum og upplýsingagjöf varðandi skaðsemi ávana- og fíkniefna, aðstoða fíkla og aðstandendur þeirra og veita almenningi ráðgjöf.

Barnaverndin
Barn sem byrjað er að misnota áfengi eða tóbak eða er orðið háð fíkniefnum þarf á aðstoð að halda og því ber að tilkynna um neyslu barnsins til barnaverndar. Einfaldast er að hringja í 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar sem kemur skilaboðum áleiðis eða gefur samband við réttan aðila. Einnig er hægt að hafa samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar í viðkomandi sveitarfélagi. Hér á vef Barnaverndarstofu er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra .

Fræðslumiðstöð í fíknivörnum
Vefsetur um vímuvarnarmál. Fræðslumiðstöð í fíknivörnum er ætlað að styrkja og efla fíknivarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi. Miðstöðinni er ætlað að afla upplýsinga um fíkniefnamál, starfrækja gagnasafn, veita fræðslu og upplýsingar um fíkniefnamál og veita ráðgjöf í fíknivörnum. Heimasíðan er www.forvarnir.is.

Heilsugæslan
Foreldrar geta að sjálfsögðu hringt í hjúkrunarfræðing hjá heilsugæslunni í hverfinu eða sveitarfélaginu eða komið á staðinn og fengið ráðgjöf eða tíma hjá lækni.

Embætti Landlæknis
Landlæknisembættið annast m.a. fræðslu til almennings um heilsueflingu, forvarnir og lýðheilsu og kemur ráðgjöf og tilmælum á framfæri við heilbrigðisstéttir. Heimasíðan er www.landlaeknir.is. Undir liðnum Áfengis- og vímuvarnir er að finna ýmsar upplýsingar um áfengis- og vímuvarnir barna og ungmenna.

Lögregluvefurinn
Á lögregluvefnum er að finna mjög mikið af gagnlegum upplýsingum um forvarnir og fræðslu bæði fyrir börn og fullorðna.

Neyðarlínan
Sé barn slasað, mjög veikt eða á einhvern hátt illa haldið eftir neyslu vímuefna ætti hiklaust að hafa samband við Neyðarlínuna með því að hringja í 112.

SÁÁ – Samtök áhugafólks um áfengisvandann
SÁÁ eru fjölmenn almannasamtök. Á heimasíðu þeirra, www.saa.is, undir fræðsluefni, er m.a. að finna upplýsingar um áfengi, kannabis, helsælu, róandi ávanalyf, ofskynjunarefni, sveppi, stera, spilafíkn og ýmis vímuefni sem og upplýsingar um meðferðarúrræði og aðstoð sem er í boði fyrir alkóhólista, spilafíkla og aðstandendur þeirra.

Vímulaus æska – Foreldrahús
Vímulaus æska foreldrasamtök vinna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga. Samtökin starfa fyrir allt landið og reka Foreldrahúsið. Í Foreldrahúsinu er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar, forvarnanámskeið og stuðningsmeðferð fyrir börn. Foreldrasíminn, 581–1799, er opinn allan sólarhringinn alla daga ársins. Foreldrar geta hringt á hvaða tíma sem er til að fá leiðbeiningar og upplýsingar um hvert þeir geta leitað. Samtökin gefa út fræðsluefni, tímarit, bæklinga og bækur. Einnig hefur verið gefið út fræðslu efni á geisladiski og myndböndum. Nánar á www.vimulaus.is.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.