Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Þátttaka

Kaflar:

  1. Ný viðhorf til barna
  2. Helstu lög um þátttöku barna
  3. Fjölskyldan
  4. Leikskólinn
  5. Grunnskólinn
  6. Framhaldskólinn
  7. Sveitarfélagið
  8. Önnur ákvæði um þátttöku barna
  9. Ábyrgð hinna fullorðnu

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla. 
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Ný viðhorf til barna

Umboðsmaður barna hefur alla tíð byggt starf sitt á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu. Rétt barna til verndar og umönnunar má telja óumdeildan en sá réttur er nátengdur grunnþörfum barna og því hefur reynst auðvelt fyrir fullorðna að viðurkenna hann. Það er hins vegar staðreynd að mörgum fullorðnum reynist framandi að viðurkenna rétt barna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kallar á ný viðhorf til barna og stöðu þeirra í samfélaginu. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Þar segir einnig að börn eigi rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Ástæða er til að undirstrika að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Skylda hvílir aftur á móti á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöldum, þ.á.m. sveitarstjórnum og skólayfirvöldum, ber að hlusta á skoðanir barna og virða þær. Þessi réttur nær til allra mála er varða börn á einn eða annan hátt, s.s. málefna fjölskyldunnar, skólans, æskulýðs- og tómstundamála, forvarna og skipulags- og umhverfismála.

Til að bæta aðstæður barna og þjónustu við þau er þátttaka þeirra sjálfra mikilvæg. Rannsóknir á þroska og námi barna hafa leitt í ljós að börn hafa frá unga aldri getu og áhuga til að taka þátt í ákvarðanatöku um málefni sem þau varða. Börn eru sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og því er mikilvægt að nýta einstaka sýn barnanna og þá þekkingu sem þau búa yfir. Þátttaka barna eykur þannig skilning fullorðinna á lífi og reynslu barna. Þátttaka barna er þeim einnig mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar.

2. Helstu lög um þátttöku barna

Auk Barnasáttmálans er að finna ákvæði um rétt barna til að hafa áhrif í ýmsum lögum. Í umfjölluninni hér að neðan er vitnað í barnalög nr. 76/2003, lög um leikskóla nr. 90/2008, lög um grunnskóla nr. 91/2008, lög um framhaldsskóla nr. 92/2008, æskulýðslög nr. 70/2007. Ákvæði um samráðsrétt barna er einnig að finna í öðrum lögum en um það er fjallað í kafla 7. 

3. Fjölskyldan

Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um inntak forsjár. Þar segir í 6. mgr:

Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Þátttaka barna ætti að vera hluti af daglegu lífi þeirra. Börn sem finna að þau eru virt að verðleikum og fá að hafa áhrif á fjölskyldulífið eru líklegri til að eiga góð samskipti við foreldra sína sem og aðra í samfélaginu. Í 43. gr. barnalaga er fjallað um rétt barns til að tjá sig þegar foreldrar þess deila vegna forsjár eða umgengni. Í þessu samhengi  verður að ítreka það að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu.

4. Leikskólinn

Starfshættir leikskóla skulu samkvæmt 2. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 m.a. mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð og virðingu fyrir manngildi. Meðal meginmarkmiða uppeldis og kennslu í leikskóla er að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi.  Í aðalnámskrá leikskóla (2011) er fjallað um lýðræði og jafnrétti í leikskólastarfi. Þar segir m.a. á bls. 25:

Leikskóla ber að vera vettvangur þar sem allir:
·    Taka virkan þátt í samræðum um almenn málefni.
·    Hlusta hver á annan og skiptast á skoðunum.
·    Bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum.
·    Vinna saman og aðstoða hver annan.
·    Hafa val um verkefni og vinnubrögð.
·    Hafa áhrif á leikskólastarfið.
·    Taka þátt í heimspekilegum umræðum.
·    Vinna að jöfnum tækifærum kynjanna til að takast á við fjölbreytt
      viðfangsefni.

Barnahópurinn í leikskólanum er fjölbreyttur og hefur ólíkar forsendur til þátttöku og að láta til sín taka. Því er mikilvægt að veita börnum frá unga aldri tækifæri til að tjá sig á þann hátt sem hentar þeim best og taka mark á þeim.

5. Grunnskólinn

Hlutverk grunnskóla er skilgreint í 2. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Þar segir í 1. mgr. að hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, sé m.a. að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.

Nemendafélag

Með virkri starfsemi nemendafélaga fá nemendur annars vegar tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku í hagsmunamálum sínum og hins vegar þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í 10. gr. laga um grunnskóla er fjallað um nemendafélög:

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.

Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa skólaráðs skv. 2. mgr. 8. gr.

Í athugasemd um þessa grein segir að eðlilegt sé að hver skóli þrói skipan mála eftir því sem hentar í skólanum með nemendalýðræði og þátttökulýðræði að leiðarljósi. Ekki er sérstaklega bundið í lög að stjórn skuli skipuð fulltrúum úr öllum árgöngum skólans en eðlilegt er að fulltrúar allra árganga geti tekið þátt í starfi félagsins eftir því sem þroski nemenda leyfir.

Skólaráð

Í grunnskólalögum er mælt fyrir um að tveir fulltrúar nemenda skuli eiga sæti í skólaráði, sem skylt er að starfrækja við hvern grunnskóla. Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun skólaráðs og stýrir starfi þess sem skilgreint er í 8. gr. grunnskólalaga:

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr., getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra, auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Auk þess skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári.

Í athugasemdum við 30. gr. grunnskólalaga sem fjallar um skólareglur segir að fulltrúar nemenda í skólaráði skuli taka þátt í gerð skólareglna. Í reglugerð um skólaráð nr. 1157/2008 er hlutverki skólaráðs gerð frekari skil. Sjá nánar í leiðbeiningum umboðsmanns barna um skólaráð fyrir nemendur.

Bekkjarreglur

Víða tíðkast að sérstakar reglur um umgengni, samskipti og vinnulag gildi í einstaka bekkjum. Mikilvægt er að haft sé samráð við nemendur hvers bekkjar fyrir sig þegar reglurnar eru mótaðar og kennarar taki tillit til vilja nemenda um það hvernig þeir vilja ná fram vinnufriði og umhverfi þar sem öllum líður vel í. Nemendur eru líklegri til að hegða sér vel og leggja metnað í nám sitt þegar þeir finna að þeir hafa áhrif á skólastarfið. Þannig má segja að lýðræðisleg þjálfun og þátttaka barna hafi jákvæð áhrif á markmið menntunar.

6. Framhaldsskólinn

Hlutverk framhaldsskóla er skilgreint í 2. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Þar segir að framhaldsskóli eigi að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Nemendafélag

Í 1. mgr. 39. gr. laga um framhaldsskóla er fjallað um nemendafélög:

Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.

Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla.

Skólaráð

Í samræmi við 7. gr. laga um framhaldsskóla skal skólaráð starfa við framhaldsskóla:

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

Nánar er fjallað um hlutverk skólaráðs er í 2. gr. reglugerðar um skólaráð við framhaldsskóla nr. 140/1997 (sem heldur gildi sínu þar til ný hefur verið sett). Þar segir að ráðið eigi að fjalla um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, skólareglur, umgengnishætti í skólanum og  vinnu- og félagsaðstöðu nemenda. Þá veitir skólaráð umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað. Þá fjallar ráðið um mál sem varða einstaka nemendur en með slík mál skal farið sem trúnaðarmál.

Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar úr nemendafélagi, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri (eða sambærilegt starfsfólk).

Skólafundir

Fulltrúar nemenda eiga rétt á setu á skólafundi samkvæmt 9. gr. laga um framhaldsskóla:

Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.

Skólanefnd

Ákvæði um skólanefnd í opinberum framhaldsskólum er að finna í 5. gr. laga um framhaldsskóla en þar eiga nemendur einn fulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.

7. Sveitarfélagið

Stjórnvöld, þ.á.m. sveitarfélög, eiga að hlusta á skoðanir barna og virða þær eins og fram kemur í Barnasáttmálanum. Sveitarfélög eru skuldbundin til þess að tryggja börnum og unglingum lýðræðislega þátttöku á þeirra eigin forsendum. Á það fyrst og fremst við um málefni er snerta börn á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun.  Sem dæmi má nefna skólastarf, tómstundastarf, forvarnastarf og skipulag nánasta umhverfis. 

Langflest sveitarfélög landsins eru þátttakendur í svokallaðri Staðardagskrá 21. Í 25. kafla hennar segir að þátttaka barna í ákvarðanatöku og áætlanagerð um umhverfi og þróun sé grundvallarþáttur í að langtímamarkmið verkefnisins náist.

Ungmennaráð

Umboðsmaður barna hefur í mörg ár barist fyrir því að sveitarfélögum verði gert skylt að skapa unglingum vettvang til að hafa áhrif á samfélagið. Í 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 segir:

Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

Til að kanna hvort sveitarfélög væru búin að stofna eða hygðust stofna ungmennaráð sendi umboðsmaður barna spurningalista til allra sveitarfélaga á landinu árin 2008, 2010 og 2013. Á miðju ári 2010 var staðan þannig að 18 sveitarfélög með um 74% íbúa landsins voru með starfandi ungmennaráð. Árið 2013 voru starfandi ungmennaráð í 36 sveitarfélögum með um  94% íbúa og á árinu 2015 voru 33 sveitarfélög, með um 92% íbúa, með starfandi ungmennaráð. Niðurstaða umboðsmanns er því sú að stærstu og meðalstóru sveitarfélögin starfrækja  ungmennaráð og starfsemi  ráðanna festist meira í sessi með hverju árinu sem líður.

Sveitarfélög með starfandi ungmennaráð árið 2015.

8. Önnur ákvæði laga um þátttöku barna

Í ýmsum lagabálkum er að finna ákvæði um rétt barna til að tjá sig um mál og hafa áhrif. Hér eru nokkur ákvæði talin upp:

Barnalög nr. 76/2003, sbr. 3. mgr. 1. gr.:

Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

Barnaverndarlög nr. 80/2002,  2. mgr. 4. gr.:

Í störfum sínum skulu barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til.

Barnaverndarlög nr. 80/2002, 1. og 2. mgr. 46. gr.:

Barn sem náð hefur 15 ára aldri er aðili barnaverndarmáls samkvæmt ákvæðum 25., 27., 2. mgr. 34., 74. og 81. gr. Um aðild barns að barnaverndarmálum sem rekin eru fyrir dómi gilda ákvæði X. og XI. kafla.

Gefa skal barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. 

Lög um ættleiðingar nr. 130/1999, 6. gr.:

Eigi má ættleiða þann sem orðinn er 12 ára án samþykkis hans, nema andlegum högum hans sé svo farið að hann geti ekki gefið marktækt samþykki eða ef varhugavert þykir vegna hagsmuna hans að leita eftir því.


Áður en barn samþykkir ættleiðingu skv. 1. mgr. skal ræða við það á vegum barnaverndarnefndar sem í hlut á og veita því leiðsögn um ættleiðingu og réttaráhrif hennar.


Ef barn sem ættleiða á er yngra en 12 ára skal með sama hætti og greinir í 2. mgr. leita eftir afstöðu þess til fyrirhugaðrar ættleiðingar ef slíkt þykir gerlegt miðað við aldur þess og þroska.

Lög  um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, 1. mgr. 26. gr.:

Foreldrar sem fara með forsjá barns skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri.

Lög um mannanöfn nr. 45/1996, 4. mgr. 13. gr.:

Breyting á eiginnafni eða millinafni barns undir 18 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.

Lög um mannanöfn nr. 45/1996, 8. mgr. 14. gr.:

Breyting á kenninafni barns undir 18 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.

Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999, 1. og 3. mgr. 8. gr.:

Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag eða úrsögn úr trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.

...

Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.

9. Ábyrgð hinna fullorðnu

Mörgum fullorðnum reynist framandi að viðurkenna rétt barna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Eins og fram kemur í köflunum hér að ofan eru hinir fullorðnu þó skyldugir samkvæmt ýmsum lögum að hlusta á og virða skoðaðnir barna. Þetta á við um skólamál, málefni sveitarfélagsins, fjölskyldumál sem og persónuleg málefni barna.

Þó að lögin tiltaki stundum aldursmörk eða geri óbeint ekki ráð fyrir því að mjög ung börn hafi formlegar leiðir til að hafa áhrif á samfélagið og þau mál sem skipta þau mestu máli verður alltaf að hafa í huga að í rauninni eiga öll börn þennan rétt til samráðs, líka þau yngstu. Mikilvægt er að börn fái frá unga aldri þjálfun í því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, miðla málum og finna lausnir með öðrum. Þó er brýnt að geta þess að einungis er um rétt barna til þátttöku að ræða en ekki skyldu. 


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.