Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Ofbeldi

Kaflar:

 1. Réttur á vernd gegn ofbeldi
 2. Helstu lög um vernd barna gegn ofbeldi
 3. Birtingarmyndir ofbeldis
 4. Heimilisofbeldi
 5. Kynferðislegt ofbeldi
 6. Einelti
 7. Börn sem þolendur ofbeldis 
 8. Börn sem beita ofbeldi 
 9. Ábyrgð hinna fullorðnu 
 10. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla. 
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu. 

1. Réttur á vernd gegn ofbeldi

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi, vanrækslu eða aðra vanvirðandi meðferð. Í 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fjallað um rétt barna til verndar gegn hvers konar ofbeldi, en þar segir:

Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.

Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann í febrúar 2013, sbr. lög nr. 19/2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst."

 2. Helstu lög um vernd barna gegn ofbeldi 

Auk Barnasáttmálans eru helstu lagabálkarnir í íslenskum rétti sem fjalla um vernd barna gegn ofbeldi barnaverndarlög nr. 80/2002, barnalög nr. 76/2003 og almenn hegningarlög nr. 19/1940. 

Í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir:

Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.

Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna

Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir:

Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Í 28. gr. barnalaga er einnig sérstaklega tekið fram að foreldrum beri skylda til þess að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og vanvirðandi meðferð. 

Ofbeldi gegn börnum kemur öllum við. Er því öllum skylt að hafa samband við barnavernd ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn sæti vanrækslu eða verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu einstakra starfsstétta. Meginreglan er að barnið á að fá að njóta vafans og því skal einnig tilkynna ef aðeins um grun er að ræða. Tilkynnandi getur í flestum tilvikum óskað nafnleyndar gagnvart fjölskyldu barnsins. Börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi geta líka leitað sjálf til starfsmanna barnaverndar. Auðveldast er að hringja í Neyðarlínuna í síma 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Einnig er hægt að hafa samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar í viðkomandi sveitarfélagi.      

Ofbeldi er refsivert samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. til dæmis XXII. kafli um kynferðisbrot og XXIII. kafli um manndráp og líkamsmeiðingar. Ákvæði þessara kafla taka jafnt til barna sem og fullorðinna. Börnum er auk þess tryggð sérstök vernd gegn kynferðislegri misnotkun, sbr. 200-202. gr. laganna. Í 98. og 99. gr. barnaverndarlaga er auk þess að finna refsiákvæði í sem leggja refsingu við því að misbjóða barni andlega, líkamlega eða kynferðislega

Í 98. gr. barnaverndarlaga segir:

Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Í 99. gr. barnaverndarlaga segir:

Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.
Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Börn eða forsjáraðilar þeirra geta kært ofbeldi eða aðra illa meðferð gegn börnum til lögreglu. Ekki skiptir máli hver það er sem beitir ofbeldinu, hvort það er annað barn, kennari, starfsmaður skóla, foreldri eða einhver annar. Barn á aldrei að þurfa líða það að vera beitt ofbeldi. 

Hér á síðunni um afbrot er fjallað um börn sem brotaþola. 

3. Birtingarmyndir ofbeldis

Með ofbeldi er almennt átt við vísvitandi hegðun þar sem einstaklingur eða hópur beitir valdi til að meiða eða niðurlægja aðra. Ofbeldi gegn börnum getur tekið á sig ýmsar myndir. Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Einnig geta börn verið beitt annars konar illri meðferð, svo sem vanrækslu.

Með vanrækslu er átt við það þegar barn fær ekki þá líkamlegu eða andlegu umönnun sem það þarf. Með andlegu ofbeldi er átt við háttsemi eða orðalag sem er til þess fallið að hafa neikvæð áhrif á líðan eða sjálfsmynd barna. Getur slíkt ofbeldi t.d. falist í því að einhver gerir lítið úr, niðurlægi, hóti og hræði barn.

Með líkamlegu ofbeldi er átt við hvers kyns líkamlega valdbeitingu sem er ætlað að valda sársauka eða óþægindum, óháð því í hvaða tilgangi það er eða hvort það hafi sýnilegar afleiðingar. Loks telst það kynferðislegt ofbeldi þegar börn eru fengið til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik með einhverjum sem hefur meiri völd eða er hærra settur en þau, hvort sem það er gert með líkamlegu afli eða ekki.

Almennt er talið að líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi feli alltaf í sér andlegt ofbeldi en andlegt ofbeldi er einnig algengt án þess að því fylgi líkamlegt ofbeldi. Hvers kyns ofbeldi eða vanræksla hefur neikvæð áhrif á þroska barna og geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

4. Heimilisofbeldi

Öll börn eiga rétt á líkam­­legri, andlegri og tilfinningalegri umhyggju. Ekkert barn á að þurfa þola ofbeldi, allra síst í sínu nánasta umhverfi. Börn eiga rétt á því að líða vel heima hjá sér, enda er almennt litið svo á að heimilið eigi að vera griðastaður fjölskyldunnar. Það er þó því miður ekki alltaf raunin þar sem ofbeldi innan veggja heimilisins er ein algengasta tegund ofbeldis hér á landi. Heimilisofbeldi er oft falið vandamál, en mikilvægt er að muna að friðhelgi heimilisins á ekki að ná til ofbeldis eða annars konar vanvirðandi meðferðar. 

Hugtakið heimilisofbeldi er mjög víðtækt og getur náð til hvers kyns ofbeldis sem bitnar á einhverjum nákomnum geranda. Heimilisofbeldi getur falið í sér allar tegundir ofbeldis. Þannig getur verið um að ræða líkamsmeiðingar, kynferðislegt ofbeldi, lítilsvirðingu, höfnun, einangrun, kúgun, niðurlægingu, hótanir, einelti eða annars konar andlegt ofbeldi. 

Ofbeldi foreldra gegn börnum sínum er sérstaklega alvarlegt, enda er foreldrum skylt að vernda börn sín gegn hvers kyns illri meðferð. Þar sem foreldrar bera ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna er þeim heimilt að beita vissum aga í uppeldisskyni. Þeir mega þó aldrei beita líkamlegu afli eða andlegu ofbeldi til þess að aga börnin sín. Ólíkt því sem margir virðast halda eru flengingar, öskur og niðurlægingar líka ofbeldi. Foreldrar sem beita börn sín slíku ofbeldi eru ekkert endilega slæmir einstaklingar. Sumir hreinlega vita ekki betur, aðrir eiga erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og aðrir eru einfaldlega undir of miklu álagi.

Mörg börn búa við ofbeldi innan veggja heimilisins, þó að ofbeldið beinist kannski ekki beinlínis að þeim sjálfum. Margir foreldrar í ofbeldissamböndum halda að það sé hægt að halda börnum sínum fyrir utan ofbeldið en svo er ekki raunin. Það að búa við og verða vitni af ofbeldi gegn foreldri eða einhverjum öðrum nákomnum hefur neikvæð áhrif á líðan og þroska barna. Er því almennt talið að það feli í sér andlegt ofbeldi þegar barn býr við ofbeldi á heimili sínu. Á það við jafnvel þó að börn verði ekki beinlínis vitni af ofbeldinu. Ef barnið er t.d. í öðru herbergi og heyrir og skynjar hvað er að gerast getur það haft mjög slæmar afleiðingar á sálarlíf þess. Það sama gildir um barn sem horfir upp á hamslaust foreldri, niðurbrotið foreldri, jafnvel með áverka, eða brotna hluti heimilisins. 

Álagið við að búa við stöðuga spennu, stjórnleysi og kvíða hefur margvíslegar afleiðingar fyrir börn og unglinga. Þegar ofbeldið liggur alltaf í loftinu á heimilinu og er orðið að fjölskylduleyndarmáli er tilfinningaþroski og sjálfsmynd barna og unglinga í mikilli hættu. Börn sem búa við heimilisofbeldi ná stundum ekki að mynda eðlileg tengsl við aðra og því eiga þau oft við ýmsa skapgerðar- og hegðunarerfiðleika að etja. Á skólaaldri er algengt að börnin telji ofbeldið sér að kenna og reyni því að vera „góð“ til að ástandið batni. Svo fyllast þau jafnan sektarkennd, vonleysi og kvíða þegar ofbeldið heldur áfram. Þessir samskipta- og tilfinningalegu erfiðleikar verða þess valdandi að sumir unglingar taka upp andfélagslega hegðun, á meðan aðrir taka á sig ábyrgðina á fjölskyldunni. Skömm, niðurlæging, vonbrigði, stjórnleysi og stöðugur kvíði gera það að verkum að sumir eru alla ævi að glíma við afleiðingar ofbeldisins. 

5. Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi er ein alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis gegn börnum. Það telst kynferðislegt ofbeldi þegar börn eru fengin til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik, með einhverjum sem hefur meiri völd eða er hærra settur en þau, óháð því hvort það sé gert með valdi eða ekki. Það telst því kynferðislegt ofbeldi þegar einhver notfærir sér þroska- og reynsluleysi barns undir 18 ára aldri til þess að fá það til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum. 

Karlar, konur eða önnur börn geta verið gerendur kynferðislegs ofbeldis gegn barni. Í flestum málum sem kærð eru til lögreglu vegna slíks ofbeldis eru karlar þó gerendur. Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum birtist með ýmsum hætti og getur átt sér stað innan fjölskyldu, t.d. af hendi foreldris, stjúpforeldris, systkina eða annarra ættingja eða utan heimilis, t.d. af hendi vinar, nágranna, ókunnugra, kennara eða annarra sem hafa börn í umsjá sinni. Algengt er að þeir sem fremja kynferðisbrot gegn börnum tengist þeim fjölskylduböndum. Er því oft um mikið trúnaðarbrot að ræða. 

Nauðgun, sifjaspell, barnaklám, kynferðisleg áreitni og vændi eru allt tegundir kynferðisofbeldis, sama hvort atburðurinn á sér stað einu sinni eða oftar. Það telst einnig kynferðisbrot að stunda kynlíf með barni undir 15 ára aldri eða tæla barn á aldrinum 15 til 18 ára til kynferðislegra athafna. 

Í 202. gr. almennra hegningarlaga segir:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.

Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum.

Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Hver sem með samskiptum á netinu, annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti mælir sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega á annan hátt skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

Það skal virða til þyngingar refsingu skv. 1. og 2. mgr. ef tengsl geranda og barns eru með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 200. gr. eða 1. mgr. 201. gr., enda eigi síðari málsliður 1. mgr. þessarar greinar ekki við.

Með nauðgun er átt við það þegar ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung er beitt til þess að hafa samfarir eða önnur kynferðismök við einstakling. Það telst einnig nauðgun ef einhverjum eru gefin lyf eða honum er með öðrum hætti komið í þannig ástand að hann getur hvorki neitað né veitt samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum.

Sifjaspell er kynferðislegt atferli þar sem gerandi og þolandi eru tengdir fjölskyldu- og trúnaðarböndum. 

Þegar börn eru sýnd eða fjallað er um þau á kynferðislegan eða klámfenginn hátt telst það barnaklám. Á það við um ljósmyndir, kvikmyndir, nektar- og klámsýningar og annað efni. Það er ekki skilyrði að við töku myndefnis hafi verið framið kynferðisbrot gegn barni. Samkvæmt 210. gr. a. og b. almennra hegningarlaga er bannað að framleiða, flytja inn, hafa í vörslu sinni og skoða barnaklám.

Kynferðisleg áreitni felur í sér særandi eða móðgandi kynferðislega hegðun. Hún getur verið líkamleg (t.d. káf), bundin í orð (t.d. athugasemdir og uppástungur um kynlíf eða líkama þolanda) eða táknræn (t.d. það sem gefið er í skyn án beinna orða eða athafna). Það telst kynferðisleg áreitni ef hegðun er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hún sé illa séð. Eitt tilvik getur einnig talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Vændi er það þegar greitt er fyrir einhvers konar kynferðislegar athafnir. Þegar um börn er að ræða felur vændi alltaf í sér kynferðislegt ofbeldi, þar sem einstaklingur er að nýta sér þroska- og reynsluleysi barns. Reyndin er sú að flestir stunda vændi vegna erfiðra aðstæðna og er alltaf hætta á að einstaklingar hafi verið neyddir á einn eða annan hátt til að selja líkama sinn. 

Það er mikilvægt að muna að þögn er ekki það sama og samþykki. Ekkert getur réttlætt kynferðisofbeldi og gerandinn ber alla ábyrgð. Kynferðislegt ofbeldi er aldrei þolandanum að kenna þó að sumir gerendur séu snillingar í að telja sjálfum sér og öðrum trú um það.

Kynferðislegt ofbeldi getur skaðað tilfinningalíf barna til langs tíma og veldur þeim oft sársauka, hræðslu, niðurlægingu, skömm, sekt, einmanaleika og algeru valda- og varnarleysi. Yngri börn gera sér síður grein fyrir því að misnotkunin er eitthvað sem ekki má. Skömmin, sektarkenndin og það að finnast maður ekki geta sagt neinum frá ofbeldinu getur jafnvel farið verr með börn heldur en ofbeldið sjálft. Börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi verða oft mjög reið sjálfum sér og finnst þau ekki eiga neitt gott skilið. Það er þekkt staðreynd að börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi segja í mörgum tilfellum ekki frá því fyrr en löngu síðar, oft ekki fyrr en á fullorðinsárum.

6. Einelti

Einelti er ofbeldi. Margar skilgreiningar eru til á hugtakinu einelti, og má meðal annars skilgreina það með eftirfarandi hætti: 

Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur eru tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.

Einelti hefur margvíslegar birtingarmyndir:

 • Munnlegt ofbeldi – Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Þeir sem beita ofbeldinu hvíslast t.d. á um fórnarlambið, flissa og hlæja.
 • Félagslegt ofbeldi – Barnið er skilið útundan í leik, því er ekki boðið að taka þátt í samkomum með bekkjarfélögunum eins og t.d. afmælisveislum. Barnið þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
 • Efnislegt ofbeldi – Eigum fórnarlambsins er stolið, t.d. skólabókum, pennaveski, skólatösku, nesti eða íþróttafatnaði eða þessir hlutir eru eyðilagðir.
 • Andlegt ofbeldi – Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, s.s. girt er niður um barnið, það látið eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans. Barnið fær endurtekið neikvæðar athugasemdir og hótanir, ýmist í daglegum samskiptum eða í gegnum netið eða farsíma.
 • Líkamlegt ofbeldi – Gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað, hárreytt og sparkað er í það og því hrint.

Yfirleitt ríkir ójafnvægi í persónulegum og/eða líkamlegum styrk geranda og þolanda, þannig að þolandi stendur höllum fæti gagnvart geranda/gerendum.

Algengt er að börn gantist í góðu, tuski hvert annað til og kalli hvert annað ýmsum nöfnum, án þess að nokkrum detti í hug að um einelti sé að ræða. Það sem skilur á milli þess og eineltis er samband gerandans og fórnarlambsins og tilgangurinn með samskiptunum. Ef annar aðilinn hefur yfirhöndina og tilgangur hans með samskiptunum er að valda líkamlegum eða andlegum sársauka hins er um eineltistilvik að ræða, sérstaklega ef athugasemdirnar eða ofbeldið er síendurtekið. 

Barni sem lagt er í einelti líður illa, það verður öryggislaust, einmana og tortryggið. Barn sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfu sér jafnvel um og finnst eitthvað vera að sér. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis. Hugsanlega er um einelti að ræða ef barnið kvartar undan vanlíðan (t.d. magaverk eða höfuðverk) á morgnana, vill ekki fara í skólann, er hrætt við að ganga eitt í skólann eða heim. Einnig ef barnið kemur heim í öllum hléum í skólanum eða hættir að sinna náminu eins vel og áður. Auk þess eru líkur á einelti ef barn fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur eða kemur heim með marbletti eða skrámur sem það getur ekki útskýrt. Önnur einkenni þess að barn sé lagt í einelti eru t.d. að barnið leikur sér ekki við önnur börn, vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum, verður árásargjarnt og erfitt viðureignar, byrjar að stama, missir sjálfstraustið og neitar að segja frá hvað amar að.

Einelti kemur öllum við. Þegar upp koma eineltismál eru til ýmsar leiðir til að leita sér aðstoðar. Þolendur eineltis þarfnast ekki einungis hjálpar, heldur einnig gerendurnir. Verði foreldrar, starfsmenn skóla eða aðrir nemendur varir við að einhverjum líði illa eða grunar af öðrum ástæðum að einelti eigi sér stað er mikilvægt að láta vita. Hægt er að tala við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólastjóra. 

Nauðsynlegt er að viðurkenna að einelti á sér stað í skólum, óháð stærð þeirra og staðsetningu. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 segir í 7. gr:

Allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.

Áætlunin skal ná til allrar starfsemi og alls starfsfólks skóla og skal kveða á um skyldur þess til að vinna gegn einelti með ábyrgum og virkum hætti. Áætlunin skal ná til allra nemenda og styrkja þá til að bera virðingu hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og samkennd og taka afstöðu gegn einelti. Áætlunin beinist einnig að foreldrum með það að markmiði að þeir séu virkir í samstarfi við skólann í að vinna gegn einelti og vinna með starfsfólki skóla að úrvinnslu eineltismála, eftir atvikum með formlegum samningi milli heimilis og skóla. Einnig skal í áætluninni vikið að aðilum í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum og unglingum og þeir upplýstir um vinnu skólans gegn einelti og óskað eftir samráði við þá eftir því sem þörf krefur.

Aðgerðir skóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.

Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur.

Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Ráðuneytið gefur út verklagsreglur um vísun mála til fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Á grundvelli þessa ákvæðis starfar sérstakt fagráð í eineltismálum á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fagráðið á í fyrsta lagi að vera stuðningsaðili við skólasamfélagið í eineltismálum og í öðru lagi að koma með niðurstöðu eða ráðgefandi álit um úrlausn slíkra mála. Í 5. gr. verklagsreglna ráðsins er að finna mikilvægt ákvæði fyrir foreldra og stjórnendur grunnskóla þegar kemur að því að leysa úr eineltismálum:

Foreldrar og stjórnendur grunnskóla geta vísað til fagráðsins eineltismálum sem þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu hefur ekki tekist að leysa innan skóla og sveitarfélags. Tilvísun eða ósk um að taka mál fyrir í ráðinu skal fylgja greinargerð ásamt afritum af gögnum málsins.

Áhrifaríkasta tækið sem skólinn hefur yfir að ráða í baráttunni gegn einelti eru nemendurnir sjálfir. Þó að meirihluti nemenda eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur hins vegar oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er að skólanum takist að fá þennan hóp „hlutlausra áhorfenda” til að taka afstöðu gegn einelti í verki og tilkynna um það til starfsfólks skólans. Þá er mikilvægt að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Allt starfsfólk skólans þarf að hafa þjálfun í að þekkja einkenni eineltis.

Umræða um einelti þarf bæði að ná til starfsfólks skóla, foreldra og einnig til nemendanna sjálfra sem oftast eru þolendur eða gerendur þegar einelti er annars vegar. Því er mikilvægt að settar séu ákveðnar reglur um samskipti og hegðun í skólum og að viðbrögð skólanna við einelti séu kynntar öllum aðilum, t.d. á heimasíðu skólanna.

Nokkuð hefur borið á því að börn og unglingar noti netið og farsíma til að leggja fórnarlömb sín í einelti. Niðrandi ummæli, hótanir og móðganir með þessum miðlum ná enn nær fórnarlambinu því með þessu móti fær það ekki einu sinni frið á heimili sínu.Þó að sumum börnum finnist ólíklegt að fullorðið fólk lesi nokkurn tíma skrif þeirra á netinu er mikilvægt að ræða þessi mál þannig að öllum sé ljóst að það sem fer á netið eru opinber gögn sem allir hafa aðgang að; foreldrar, ömmur, afar, kennarar o.fl. Einnig þarf að brýna fyrir börnum að efni og myndir sem sett er á netið getur hver sem er skoðað og tekið afrit af og geymt eða sent áfram, jafnvel löngu seinna. Svo virðist sem börn og ungmenni átti sig ekki alltaf á þeim skaða og sárindum sem þau geta valdið með því að birta eitthvað ósæmilegt um annan einstakling eða hafa í hótunum við annað fólk á netinu eða með SMS-skilaboðum. Því er mikilvægt að allir átti sig á því að við njótum tjáningarfrelsis en við erum jafnframt ábyrg orða okkar. Réttur okkar til að tjá okkur takmarkast af rétti annarra til að njóta friðhelgi einkalífs.

Niðrandi ummæli og hótanir á netinu eða með SMS-skilaboðum tengjast oft eineltismálum. Ef bæði gerandi og þolandi eru grunnskólanemendur er skólinn góður vettvangur til að fá ráðleggingar varðandi næstu skref. Skólar geta tekið á málinu ef eineltið fer fram innan skólans eða ef niðrandi eða neikvæð ummæli um nemendur eru send úr tölvum skólans eða frá netfangi sem skólinn hefur úthlutað nemendum sínum. Þá er tekið á málinu og farið eftir eineltisáætlun viðkomandi skóla. Ef alvarlegt einelti og hótanir eiga sér stað á netinu skal hafa samband við lögreglu. Félagsmiðstöðvar og félagsþjónustan geta líka komið að þessum málum.

Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í þeim kafla er m.a. lögð refsing við því að hóta einstaklingi um refsiverðan verknað. 

Í 233. gr. a. laganna segir auk þess:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Í 234. gr. laganna segir:

Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

235. gr. laganna segir:

Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Landssamtökin Heimili og skóli starfrækja SAFT–verkefnið svokallaða en meginmarkmið þess er að hvetja til ábyrgrar og öruggrar netnotkunar barna og unglinga. SAFT stendur fyrir samfélag, fjölskylda og tækni. Verkefnið er vakningarátak um örugga netnotkun barna og unglinga og er hluti af aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB. Menntamálaráðuneytið hefur falið Heimili og skóla – landssamtökum foreldra að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins.

7. Börn sem þolendur ofbeldis

Hvers kyns ofbeldi eða vanræksla hefur neikvæð áhrif á líðan og þroska barna. Það er þó misjafnt hvaða áhrif ofbeldi hefur á einstaka börn, enda eru aðstæður barna mismunandi. Algengt er að börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi upplifi hræðslu, niðurlægingu, skömm, einmanaleika og varnarleysi, stundum ofaná líkamleg meiðsl. Börn sem verða fyrir ofbeldi eða búa við ofbeldi þjást einnig oft af svefnleysi og martröðum. Námsörðugleikar eru nokkuð algengir meðal þessara barna þar sem þau geta átt í erfiðleikum með einbeitingu. Einnig eru þau líklegri en önnur börn til að glíma við þunglyndi og kvíða. Sum einangrast félagslega, þjást af hegðunarröskun og verða jafnvel árásarhneigð gagnvart öðrum börnum. Álagið við að búa við stöðuga spennu, stjórnleysi og kvíða hefur margvíslegar afleiðingar og eru börn sem verða fyrir ofbeldi líklegri til að eiga við ýmis konar vandkvæði að stríða, jafnvel löngu eftir að ofbeldið átti sér stað. Sem dæmi má taka vímuefnaneyslu, brottfall úr skóla, óæskilega og ótímabæra kynlífshegðun, afbrot og sjálfsvígstilraunir. 

Áhrif ofbeldis á börn og unglinga er háð ýmsum þáttum. Hvers konar ofbeldi er beitt, hve oft og yfir hve langan tíma eru hlutir sem skipta miklu máli varðandi afleiðingar ofbeldisins á börnin og horfur þeirra til að vinna sig út úr vanlíðaninni. Einnig skiptir stöðugleiki í umhverfi barnanna miklu máli og er þá átt við fjölskyldu- og vinatengsl, tíðni flutninga og skólaskipti. Þar að auki hefur staða og hlutverk barnanna í fjölskyldunni, aldur, kyn og þroskastig þeirra áhrif. 

Mikilvægt er að bregðast rétt við þegar í ljós kemur að barn hefur verið beitt ofbeldi og veita því viðeigandi stuðning og aðstoð. Þannig er hægt að takmarka neikvæðar afleiðingar ofbeldisins og stuðla að bættri líðan og sterkari sjálfsmynd. 

8. Börn sem beita ofbeldi
Ofbeldisfull hegðun getur birst á ýmsan hátt hjá börnum og unglingum, t.d. í skapofsaköstum, árásargirni, slagsmálum, hótunum eða tilraunum til að meiða aðra, notkun á hvers konar vopnum, einelti, grimmd í garð dýra, íkveikjum og eignaspjöllum. Sá sem beitir ofbeldi er yfirleitt óöruggur og býr yfir takmarkaðri hæfni í samskiptum og er ofbeldið venjulega frumstæð aðferð til að bæta sér upp eða fela veikleika og lágt sjálfsálit. Samsetning og víxlverkan ýmissa þátta eykur líkur á ofbeldishegðun barna og unglinga. Þar á meðal má telja reynslu af ofbeldi innan fjölskyldu eða samfélags, erfðafræðilega þætti, ofbeldisefni í fjölmiðlum og tölvuleikjum, áfengis- og/eða vímuefnaneyslu og erfiðleika í fjölskyldulífi. Á unglingsárum gæti þrýstingur frá félögum leitt til þess að unglingar beiti aðra ofbeldi. Strákar eru líklegri til að finna fyrir þrýstingi til að sýna völd sín og „karlmennsku" með því að berja einhvern eða ná fram vilja sínum við hitt kynið. Stelpur nota yfirleitt aðrar aðferðir eins og t.d. baktal og útilokun. Í mörgum tilvikum eru börn sem beita ofbeldi haldin þunglyndi eða eiga við önnur sálræn eða geðræn vandamál að stríða.

Það er ekki síður mikilvægt að aðstoða þau börn sem beita ofbeldi en þau sem verða fyrir ofbeldi. Það skiptir miklu máli að grípa eins fljótt og hægt er inn í ofbeldishegðun barna með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Slíkt getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd barnanna og dregið úr líkum á því að þau haldi áfram að beita ofbeldi eða sýna aðra áhættuhegðun. 

9. Ábyrgð hinna fullorðnu

Foreldrar bera ábyrgð á því að vernda börn sín gegn hvers kyns ofbeldi eða illri meðferð. Auk þess ber öllum sem koma að málefnum barna með einum eða öðrum hætti sem og samfélaginu í heild að láta sig velferð barna varða. Er því öllum skylt að hafa samband við barnavernd ef grunur leikur á því að barn sæti vanrækslu, ofbeldi eða annars konar illri meðferð. 

Ofbeldi meðal barna og unglinga verður að reyna að uppgötva í tíma þannig hægt sé að bregðast við í samræmi við það sem er barni fyrir bestu. Það eru ekki einungis börn sem eru þolendur ofbeldis sem þurfa aðstoð heldur einnig börn sem beita ofbeldi. Fjölskyldur barna sem eru þolendur eða gerendur ofbeldis þurfa að bregðast við með uppbyggilegum hætti og reyna koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur. Hér reynir einnig oft á þá aðila sem vinna með börnum, til dæmis í skólum. Oft þarf fagfólk að koma að málum og veita ráðgjöf og meðferð, sérstaklega þegar ástandið er alvarlegt og hefur varað lengi. 

Mikilvægt er að foreldrar og aðrir uppalendur kenni börnum að þau ráði yfir líkama sínum sjálf og að enginn annar hafi rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Frá unga aldri ætti að leggja rækt við jákvæða sjálfsímynd og sjálfsvirðingu. Þá er mikilvægt að börnin þjálfist í því að þekkja tilfinningar sínar, takmörk sín jafnt sem sterku hliðarnar. Einnig er brýnt að börn og unglingar tileinki sér virðingu fyrir öðrum og læri að meta sjálf sig og aðra á sanngjarnan hátt. Einstaklingur sem þekkir verðleika sína og býr yfir nægilegri sjálfsvirðingu til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er, á auðveldara með að sýna ákveðni í samskiptum. Strax á leikskólaaldri er mikils virði að efla vináttu, umburðarlyndi og virðingu fyrir einstaklingum sem hver og einn er sérstakur á sinn hátt.

Augljóst er að ofbeldi hefur neikvæð áhrif á börn. Því er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að börn og unglingar komist í tæri við ofbeldi, hvort sem það er á heimili, innan samfélagsins eða í gegnum fjölmiðla. Foreldrar bera auðvitað fyrst og fremst ábyrgð á velferð barna sinna en nauðsynlegt er að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða unga fólkinu upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu.

10. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Barnaverndarnefndir 
Öllum ber skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um grunsemdir um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum. Börn geta sjálf leitað til starfsmanna nefndanna og fengið þá til að kanna heimilisaðstæður sínar eða vina sinna. Auðveldast er að hringja í Neyðarlínuna í síma 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Einnig er hægt að hafa samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar í viðkomandi sveitarfélagi. Nánari upplýsingar um starfsemi barnaverndarnefnda eru á heimasíðu Barnaverndarstofu en hún hefur umsjón og eftirlit með starfsemi barnaverndarnefnda á landinu. 

Félagsþjónusta sveitarfélaganna
Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á félagslega ráðgjöf. Börn geta yfirleitt hringt eða komið sjálf og rætt málin eða beðið um aðstoð vegna ofbeldis eða annars konar vandamála. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á viðkomandi sveitarfélag er hægt að komast inn á heimasíðu þess.

Þjónustumiðstöðvarnar í Reykjavík 
Á þjónustumiðstöðvunum er alhliða upplýsingamiðlun um þjónustu borgarinnar. Þar er veitt ýmiss konar félagsleg ráðgjöf. Nánar á www.reykjavik.is.

Heilsugæslustöðvar 
Ef barn er með áverka eftir ofbeldi er nauðsynlegt að starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar líti á þá. Það getur líka verið gott að ræða við lækna og hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar um tilfinningaleg mál o.fl. Nánar á heimasíðum heilsugæslustöðva

Lögreglan 
Á vef lögreglunnar er hægt að finna ýmsar upplýsingar um fræðslu og forvarnir. Lögreglan tekur við ábendingum og tilkynningum um ofbeldi. Hér má einnig skoða bækling fyrir þolendur afbrota

Starfsfólk skólans 
Grunn- og framhaldsskólanemar eiga að geta leitað til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings (í grunnskólum) með trúnaðarmál. Þegar barn hefur verið beitt ofbeldi eða annars konar illri meðferð ber þessum aðilum að hafa samband við barnaverndarnefnd. 

Hjálparsími Rauða krossins, 1717 
Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu. Hér eru nánari upplýsingar um hjálparsímann.

Tótalráðgjöfin - Áttavitinn
Tótalráðgjöfin er ætluð ungu fólki sem vantar aðstoð og ráðgjöf fagfólks til að leysa úr alls kyns vandamálum. Hægt er að hringja í síma 520-4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.attavitinn.is

Leiðin áfram
Á vefnum leidinafram.is er að finna fræðsluefni og myndbönd fyrir þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. 

Kirkjan 
Mörgum finnst gott að tala við sóknarprestinn sinn um viðkvæm og persónuleg mál. Einnig er hægt að hafa samband við Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem er á Klapparstíg 25-27 í Reykjavík. Síminn er 562-3600.

Karlar til ábyrgðar 
Verkefni á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Allar upplýsingar um verkefnið eru á www.karlartilabyrgdar.is.

Samtök um kvennaathvarf 
Kvennaathvarfið er fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna. Til að koma í viðtal eða dvöl þarf samþykki forsjáraðila. Boðið er upp á símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561-1205. Þangað geta börn hringt til að fá stuðning og ráð án þess að gefa upp nafn sitt. Heilmiklar upplýsingar um heimilisofbeldi er að finna á heimasíðu Kvennaathvarfsins, sérstaklega á undirsíðunni um ofbeldi.

Barnaheill
Ef þú rekst á barnaklám á Netinu láttu þá vita hér á vef Barnaheilla.

Barnahús 
Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss. Börn og forsjáraðilar þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Heimasíða Barnahúss er www.barnahus.is og símanúmerið er 530-2500.

Blátt áfram 
Blátt áfram eru sjálfstæð félagasamtök og er tilgangur samtakanna að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi.  Blátt áfram býður upp á fræðslu fyrir skóla og félagasamtök, fullorðna og börn um kynferðislegt ofbeldi og forvarnir. Á heimasíðu félagsins, www.blattafram.is, er að finna ráðgjöf fyrir foreldra og uppalendur og þar er einnig sérstök síða ætluð börnum.

Neyðarmóttaka vegna nauðgana 
Neyðarmóttakan veitir þolendum kynferðisofbeldis fyrstu hjálp, ráðgjöf og stuðning. Einnig fá skjólstæðingar skoðun samkvæmt réttarfarslegum kröfum um sönnunarbyrði. Starfsmenn neyðarmóttöku koma þolanda í samband við lögmann hyggist hann/hún leggja fram kæru en allir geta þó leitað til neyðarmóttöku hvort sem þeir hyggjast leggja fram kæru hjá lögreglu eða ekki. Neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb nauðgana er á Landspítalanum Fossvogi. Síminn er 543-2094 en beinn sími til vaktstjóra hjúkrunar er 543-2019. Neyðarmóttaka vegna nauðgana er einnig á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Síminn þar er 463-0800.

Stígamót 
Stígamót eru opin öllum þeim sem orðnir eru 18 ára og orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. Stígamót veita stuðning við að ræða ofbeldið, rifja það upp og setja það í orð, en það eru fyrstu skrefin í að ná tökum á afleiðingum ofbeldisins á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þolenda. Fólk ræður sjálft ferðinni, hve mikinn stuðning það vill og í hve langan tíma. Heimasíðan er www.stigamot.is og síminn er 562-6868 og 800-6868.

Fagráð eineltismála
Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi vegna eineltis í grunnskólum til fagráðs eineltismála. Sjá nánar hér á vef fagráðsins. 

Olweusarverkefnið gegn einelti 
Margir grunnskólar landsins starfa eftir Olweusarkerfinu við meðferð eineltismála. Framkvæmdastjóri Olweusarverkefnisins á Íslandi er Þorlákur H. Helgason. Hægt er að hafa samband við Þorlák í síma 894–2098 eða á netfangið torlakur@hi.is. Þorlákur veitir ráðgjöf þeim sem til hans leita vegna eineltismála í grunnskólum.

SAFT
SAFT – Samfélag – fjölskylda og tækni er vakningarátak um örugga netnotkun barna og unglinga. Veitt er ráðgjöf í síma 516 0100. Ýmsan fróðleik og leiðbeiningar er að finna á  www.saft.is, m.a. um góð samskipti á netinu. 

BACA
BACA á Íslandi – Biker against child abuse Iceland - eru samtök sem starfa í þeim tilgangi að  búa börnum sem hafa orðið fyrir misnotkun öruggara umhverfi. Samtökin starfa með vitund og samþykki þeirra opinberu aðila sem þegar eru til staðar til verndar börnum. Á opinberri vefsíðu samtakanna er hægt að finna frekari fróðleik um samtökin á alþjóðavísu. Hjálparsími samtakanna er 780-2131 en einnig er hægt er að senda þeim erindi hér á vefsíðu BACA á Íslandi

 

Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.