Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Leiksvæði - leikföng

Kaflar:

 1. Réttur til að leika sér
 2. Helstu lög og reglur um leiksvæði barna
 3. Öryggi leikfanga og hættulega eftirlíkingar
 4. Öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim
 5. Gæsla barna í frítíma og skemmtigarðar
 6. Íþróttir, frístundir og sund
 7. Ábyrgð hinna fullorðnu
 8. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til að leika sér

Segja má að leikþörfin sé ein af grundvallarþörfum barnsins. Leikurinn er barninu nauðsynlegur til þess að það þroskist og dafni, kynnist lífinu og tilverunni og læri að verða þátttakandi í mannlegu samfélagi. Sú staðreynd blasir hins vegar við að það umhverfi sem mætir barninu er oftar en ekki umhverfi hinna fullorðnu, þ.e. umhverfi sem miðast við forsendur fullorðinna. Þegar nánasta umhverfi okkar er skipulagt hafa hinir fullorðnu mikla tilhneigingu til þess að gleyma sjónarhorni barnsins. Að fá að leika sér í góðu og öruggu umhverfi er þó hluti af grundvallarmannréttindum allra barna

Í 3. gr. Barnasáttmálans er að finna eina af grundvallarreglum hans þar sem fram kemur að í öllum málum, er varða börn, skuli hagsmunir barnsins sjálfs og það sem því er fyrir bestu ætíð haft að leiðarljósi. Í 31. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. Í 24. gr. sáttmálans er lögð sú skylda á herðar aðildarríkjum sáttmálans, þar á meðal íslenska ríkinu, að sjá svo um að allir, einkum þó börn og foreldrar, séu vel upplýstir um almennt öryggi barna ekki síst slysavarnir þeirra. Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst“.

2. Helstu lög og reglur um leiksvæði barna

Ýmis lög og reglur eru til sem er ætlað að tryggja að börn njóti réttinda til þess að alast upp í örvandi og öruggu umhverfi.

Í 12. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 eru ákvæði um húsnæði og fjölda barna í leikskóla:

Gerð leikskólahúsnæðis skal taka mið af þörfum barna og þeirri starfsemi sem fram fer í leikskóla. Leggja skal áherslu á öruggt og rúmgott náms- og starfsumhverfi. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks. 

Við ákvörðun fjölda barna í leikskóla skal m.a. tekið tillit til aldursdreifingar barna og sérþarfa, lengdar dvalartíma þeirra, stærðar leik- og kennslurýmis og samsetningar starfsmannahóps. 

Ráðherra setur reglugerð um starfsumhverfi leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um öryggi barna og slysavarnir, um lágmarkskröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks, um lengd daglegs dvalartíma barna og um aðstöðu vegna þjónustu við börn með sérþarfir.

Á síðunni um leikskóla er reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 birt í heild sinni.

Um húsnæði og skólalóðir grunnskóla segir í 2.-4. mgr. 20. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008:

...
Grunnskólahúsnæði og skólalóðir skulu uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu.

Við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis skulu sveitarfélög hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi.

Ráðherra setur reglugerð um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.
...

 Í 3. gr. reglugerðar nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða segir:

Húsnæði og skólalóðir skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þarf að vera þannig úr garði gerður að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan hús­búnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað.

3. Öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar

Reglugerð um öryggi leikfanga og hættulega eftirlíkingar nr. 408/1994  gildir um leikföng sem greinilega eru hönnuð sem leikföng handa börnum yngri en fjórtán ára. Hún gildir einnig um vörur sem hafa þannig lögun, lykt, lit, útlit, umbúðir, merkingar, rúmmál eða stærð að hætta á að börn rugli þeim saman við matvæli og stingi þeim upp í sig, sjúgi þær eða gleypi. Í viðauka við reglugerðina eru taldar upp vörur sem ekki falla undir leikfangahugtakið. Þar á meðal eru jólaskreytingar, íþróttabúnaður, brúður í þjóðbúningum, brúður til skrauts, áþekkir hlutir handa fullorðnum söfnurum og skartgripir fyrir börn svo að nokkuð sé nefnt.  Nánari kröfur eru settar fram í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða evrópska staðla um leikföng, ÍST EN 71 – öryggi leikfanga. Þar eru gerðar ítarlegar kröfur um hönnun, smáhluti, efnafræðilega eiginleika, brunaeiginleika, rafeiginleika og merkingar leikfanga.

Óheimilt er að setja leikföng á markað hér á landi ef hætta er á að þau geti stofnað öryggi eða heilsu notenda og annarra í voða þegar þau eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun barna. Þetta segir í 3. gr. reglugerðar um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar.

Leikföng verða, í því ástandi sem þau eru þegar þau eru sett á markað og með hliðsjón af fyrirsjáanlegum og eðlilegum endingartíma þeirra, að standast þær öryggis- og heilbrigðiskröfur sem settar eru fram í viðauka II með reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar.

Í 7. gr. er fjallað um merkingar á leikföngum:

Eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki. Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við hættu sem fylgir tilteknum leikföngum, ásamt upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Á leikfanginu skal einnig vera nafn framleiðandans og merki ásamt heimilisfangi eða nafn og merki ábyrgðaraðila með heimilisfangi. Upplýsingar þessar skulu settar á leikfangið eða umbúðirnar og vera skýrar, læsilegar og óafmáanlegar. Þegar leikföng eru smágerð eða sett saman úr litlum hlutum er heimilt að setja þessar upplýsingar á merkimiða eða í notkunarleiðbeiningar. Óheimilt er að setja merki eða áletranir á leikföng sem rugla má saman við CE-merkið.

Heimilt er að nota skammstafanir í upplýsingum þeim sem um getur í 1. mgr., enda skal vera unnt að bera kennsl á framleiðanda eða ábyrgðaraðila með skammstöfuninni.

Auk upplýsinga sem um getur í 1. mgr. skulu viðvaranir og reglur um varúð við notkun fylja eftirtöldum leikföngum svo sem hér greinir:
     

 1. Leikföng sem kunna að vera hættuleg börnum yngri en þriggja ára skulu vera með viðvörun þar að lútandi ásamt ábendingu um hættuna sem viðvörunin lýtur sérstaklega að. Þetta ákvæði gildir ekki um leikföng sem vegna notagildis, stærðar, sérkenna, eiginleika eða af öðrum augljósum ástæðum eru ekki ætluð börnum yngri en þriggja ára. 
 2. Rennibrautum, rólum, hringjum, fimleikarólum, reipum og áþekkum leikföngum sem eru fest á þverslár skulu fylgja notkunarleiðbeiningar um hvernig eigi að setja þau saman og upplýsingar um hvaða hlutar geti verið hættulegir sé leikfangið ekki sett saman á réttan hátt. Ennfremur skulu fylgja upplýsingar um nauðsynlegt eftirlit og viðhald á mikilvægasta uppsetningarbúnaði og um hættu á falli eða veltu ef eftirliti eða viðhaldi er ekki framfylgt. 
 3. Umbúðir nytjaleikfanga skal merkja með varnaðarorðum um að þau skuli nota undir eftirliti fullorðinna. Ennfremur skulu fylgja þeim varúðarreglur sem notandi á að fara eftir og aðvörun um áhættuna sem notandi tekur geri hann það ekki. Ennfremur skal benda á að leikfangið skuli geymt þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess. 
 4. Leikföngum sem innihalda hættuleg efni og efnafræðileikföngum skulu fylgja upplýsingar um varúðarreglur, ábending um sérstaka hættu og ábending um skyndihjálp ef slys verður, ásamt merkingum í samræmi við ákvæði í reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna. Enn fremur skal benda á að leikfangið eigi að geyma þar sem börn yngri en þriggja ára nái ekki til þess. Á umbúðum utan um efnafræðileikföng skal ennfremur standa viðvörun um að leikfangið sé eingöngu ætlað börnum í aldursflokki sem nánar verður kveðið á um í viðkomandi stöðlum og það skuli notað undir eftirliti fullorðinna. 
 5. Hjólabretti og rúlluskauta fyrir börn skal merkja með viðvörun um að nota hlífðarbúnað. Í notkunarleiðbeiningum skal minna á að nota leikfangið með varúð og veita ábendingar um hlífðarbúnað sem mælt er með. 
 6. Á leikföng til nota í vatni, sbr. f-lið í kafla II. 1 í viðauka II með reglugerð þessari, skal í samræmi við samræmda evrópska staðla sett viðvörun um að þau megi eingöngu nota undir eftirliti og í vatni þar sem barnið nær til botns. 
 7. Allar varúðarmerkingar skulu vera á íslensku.

Í 8. gr. er fjallað um hættulegar eftirlíkingar:

Óheimilt er að flytja inn, framleiða eða markaðssetja vörur hér á landi sem hætta er á að sé ruglað saman við matvæli vegna þess að þær virðast aðrar en þær eru og geta þannig reynst hættulegar öryggi og heilsu neytenda því að þótt þær séu ekki matvæli hafa þær þannig lögun, lykt, lit, útlit, umbúðir, merkingar, rúmmál eða stærð að hætta er á að neytendur, einkum börn, rugli þeim saman við matvæli og stingi þeim upp í sig, sjúgi þær eða gleypi, sem gæti reynst hættulegt og til dæmis valdið köfnun, eitrun eða stungið gat á eða lokað meltingarvegi. Aðilum með staðfestu hér á landi er sömuleiðis óheimilt að setja slíka vöru á markað í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 14. gr. reglugerðarinnar segir að ef leikföng eða eftirlíkingar uppfylla ekki formleg skilyrði um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi, prófunarskýrslur o.s.frv. getur Löggildingarstofan bannað sölu þeirra. Neytendastofa tók við hlutverki Löggildingarstofu á sínum tíma og fer hún því með hlutverk hennar í opinberri markaðsgæslu með leikföngum og eftirlíkingu í samræmi við 10. gr. reglugerðarinnar.

Á vefsvæði Neytendastofu á   eru upplýsingar um leikföng, sjá má t.d. hér og hér góð ráð fyrir þá sem ætla að kaupa leikföng.

4. Öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002 gildir fyrir öll leiksvæði innan dyra sem utan, skipulögð fyrir leik barna svo sem í eða við leikskóla, skóla og gæsluvelli. Hún gildir jafnframt fyrir leiksvæði sem börn eiga greiðan aðgang að eða ætluð eru börnum svo sem í eða við fjölbýlishús, frístundahús, tjaldsvæði, verslunarhúsnæði og samkomustaði. Reglugerðinni er ætlað að stuðla að öryggi barna og annarra með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt. 

Rekstraraðili ber ábyrgð á að leiksvæði og leikvallatæki þess sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Hér eru II. og III. kaflar reglugerðarinnar birtir í heild:

II. KAFLI
Almenn ákvæði um leiksvæði.

6. gr.
Umhverfi.

Ekki má staðsetja leiksvæði þar sem ætla má að börnum geti stafað hætta eða ónæði af umhverfinu svo sem frá umferð, vegna fallhættu, hruns eða hættu á drukknun.

Aðkoma að svæðinu fyrir gangandi, hjólandi og eftir atvikum akandi vegfarendur skal vera þannig að ekki skapist óþarfa hætta á og við leiksvæðið.

Umferð vélknúinna farartækja er bönnuð á leiksvæðum utan þess sem nauðsyn krefur, svo sem vegna viðhalds eða endurnýjunar tækja og búnaðar.

Hindra skal að börn geti hlaupið beint út af leiksvæði þar sem umferð er.

Á leiksvæðum skal vera góð lýsing.

Þar sem grindverk og hlið eru á lóðum leiksvæða skal frágangi þeirra þannig hagað að börnum geti ekki stafað hætta af.

Við framkvæmdir og viðhald leiksvæða skal taka tillit til eðlis starfseminnar.

7. gr.
Hreinlæti.

Um frágang, viðhald og sandskipti í sandkössum skal fara eftir leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.

Á leiksvæðum skal gert ráð fyrir ruslabílum og losun sorps eftir því sem við á.

Rekstaraðili leiksvæðis skal sjá um að rusl sé fjarlægt reglulega, sbr. ákvæði reglugerðar um úrgang. Hættulegt rusl ber að fjarlægja jafnóðum.

 

III. KAFLI
Öryggi.

8. gr.
Öryggi leiksvæða.

Til að tryggja öryggi barna á leiksvæðum skal við hönnun og gerð leiksvæða fara eftir ákvæðum í viðauka II.

9. gr.
Öryggi leikvallatækja.

Þeir sem flytja inn, framleiða, markaðssetja, leigja eða dreifa leikvallatækjum hér á landi eða ætla að flytja þau út til annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu skulu geta sýnt fram á að viðkomandi tæki uppfylli kröfur sem fram koma í stöðlum um leikvallatæki og undirlag þeirra, ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I eða aðrar sambærilegar öryggiskröfur.

Með leikvallatækjum sem sett eru á markað skulu fylgja leiðbeiningar um uppsetningu og viðhald tækjanna svo og upplýsingar um þá staðla sem framleiðslan byggist á. Teikningar af tækinu fullbúnu skulu enn fremur fylgja með, upplýsingar um nauðsynleg verkfæri og önnur hjálpargögn við uppsetningu tækjanna.

Upplýsingar um ráðlagða notkun og fyrir hvaða aldurshópa tækið er skulu fylgja með leikvallatækjum. Ef tækið er eingöngu ætlað til notkunar innanhúss skal greint frá því sérstaklega með viðeigandi merkingum.

Leikvallatæki sem sett eru á markað hér á landi skulu merkt nafni framleiðanda, vörumerki hans eða öðru kennimerki. Ef um er að ræða erlenda framleiðslu skal nafn innflytjenda koma fram á leikvallatækinu.

Allar upplýsingar er varða rétta uppsetningu, viðhald og notkun leikvallatækja skulu fylgja með á íslensku.

10. gr.
Hönnun leikvallatækja.

Hönnun, framleiðsla, frágangur og viðhald leikvallatækis og fallflatar þess skal vera þannig að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi af leik í tækinu þegar það er notað eins og til er ætlast eða eins og búast má við að það sé notað.

Þar sem það á við skulu leikvallatæki sérstaklega merkt hvaða aldri barna þau eru ætluð.

Mörk, körfuboltaspjöld og samsvarandi búnað skal festa tryggilega niður. Að öðru leyti skal fara eftir stöðlum sem taldir eru upp í viðauka IV.

 

Í viðauka II er að finna nánari ákvæði um hönnun leiksvæða og frágang:

VIÐAUKI II
Öryggi leiksvæða.

Um öryggi leiksvæða gildir eftirfarandi:

 1. Leiksvæði skulu vera þannig hönnuð og frágengin að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi á svæðinu. 
 2. Séu hlutir úr náttúrunni notaðir sem leikvallatæki eða sem hluti þeirra gilda sömu kröfur um þau og önnur leikvallatæki, eftir því sem við á.  
 3. Yfirborðsefni á leiksvæðum skulu valin með tilliti til hálku og falls og viðeigandi skil skulu vera á milli mismunandi yfirborðsefna. 
 4. Leiksvæði skulu hönnuð með vatnshalla, vera vel framræst og þess gætt að vatn safnist ekki fyrir þannig að hætta stafi af. 
 5. Gæta skal að því að á leiksvæðum sé ekki eitraður gróður. Umhverfisstofnun gefur út lista yfir varasaman gróður. 
 6. Sé hluti leiksvæðis náttúrulegt svæði skal það yfirfarið og gengið þannig frá því að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi á svæðinu. 
 7. Á svæðum sem ætluð eru til vatnsleikja skal þess gætt við hönnun og frágang og rekstur að ekki skapist hætta af. 
 8. Við hönnun sleðabrekku skal miða við að rennslið niður sé óhindrað og án hættulegrar fyrirstöðu. Við hönnun skal miða við að rennslisflöturinn sé með setflöt efst, hæfilegum halla og bremsuflöt neðst. Þar sem þörf er á skal koma fyrir bólstruðum stöðvunarhindrunum. 
 9. Staðsetja skal hjólastíga á leiksvæðum þannig að þeir liggi ekki um lágmarksrými leikvallatækja. Þeir skulu vera minnst 120 cm breiðir, halli skal vera hæfilegur og hafa skal hindranir meðfram þar sem hætta er á falli. Lágmarksrými er það rými sem þörf er á umhverfis tækið svo hættulaust sé að nota það. 
 10. Um hönnun sandkassa gilda sömu kröfur og um önnur leikvallatæki. 
 11. Um stoðveggi, verkfærageymslur og önnur mannvirki á leiksvæðum gilda eftir því sem við á sömu kröfur og um leikvallatæki. 
 12. Á leiksvæðum er óheimilt að nota efnavörur eða hluti sem valdið geta heilsutjóni vegna geislunar, inntöku, innöndunar eða upptöku um húð. Val á efnum skal standast ákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Um aðra notkun efna og efnavara vísast til staðalsins ÍST EN 71 um öryggi leikfanga.

...

Samkvæmt viðauka III. er gerð krafa um að rekstraraðili setji upp innra eftirlit á leiksvæðum og er það þrískipt og greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun:

 1. Reglubundna yfirlitsskoðun getur þurft að framkvæma daglega allt eftir notkun og álagi á leiksvæðinu. Tilgangur hennar er að greina strax hættur sem geta stafað af skemmdarverkum, notkun, sliti eða veðrun. Dæmi um þetta er hættulegt rusl, skemmd leikvallatæki, lausar festingar leikvallatækja og marka, slitnir hreyfihlutir, flísar, útistandandi naglar og skrúfur og óvarðar undirstöður. Reglubundin yfirlitsskoðun felst einnig í að jafna yfirborðsefni undir leikvallatækjum með því að raka til möl og sand og sópa lausu efni af stéttum eftir þörfum. Þá skal við reglubundna yfirlitsskoðun fjarlægja skemmd leikföng og gera viðeigandi ráðstafanir til að taka bilaðan búnað úr umferð. 
 2. Rekstrarskoðun felst í verklegri yfirferð, viðhaldi og viðgerðum og gæti þurft að framkvæma hana á 1–3 mánaða fresti eftir notkun og álagi. Skoðuninni er ætlað að ganga úr skugga um að leikvallatæki virki eins og til er ætlast, stöðugleiki og festingar þeirra séu tryggar, kanna slitfleti, gera við tæki og framkvæma nauðsynlegt viðhald, svo sem mála, skipta um slitfleti, festa tæki og jafna undirlag. Hér er bæði unnið eftir leiðbeiningum framleiðanda og ábendingum frá reglubundinni yfirlitsskoðun. 
 3. Aðalskoðun er ástandsskoðun sem ætlað er að gera heildarúttekt á öryggi leikvallatækja, yfirborðsefna, m.a. yfirborðsefna til dempunar falls, og undirstaða undir leikvallatækjum (stöðugleikapróf), til dæmis vegna áhrifa veðrunar eins og ryðs og rotnunar á leikvallatæki og á yfirborðsefni. Einnig allar breytingar er geta haft áhrif á öryggi leikvallatækja. Þar má nefna áhrif viðgerða eða ísetningu nýrra hluta og uppsetningu nýrra tækja á leiksvæðum. Staðallinn segir til um að aðalskoðun eigi að vera framkvæmd af hæfum aðila samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda. Hæfni aðila fer eftir eðli verkefnis.

...

Hér er hægt að skoða reglugerð nr. nr. 942/2002 í heild sinni.  Sjá einnig Handbók um rekstrarskoðun á leiksvæðum barna

Neytendastofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli kröfur um öryggi, en heilbrigðisnefndir sveitafélaga hafa eftirlit með leiksvæðum og leikvallatækjum í notkun. Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja hættuleg leikvallatæki ef ástæða þykir til. Það er því hægt að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið á viðkomandi svæði til að óska eftir því að leikvellir verði skoðaðir og ábendingum um endurbætur sinnt. Heilbrigðisfulltrúi skal hafa aðgang að öllu skráðu og skjalfestu efni er eftirlitið varðar. Heilbrigðiseftirlitið á að afhenda þeim sem um það biðja, svo sem foreldrum eða foreldrafélögum, þau gögn (svo sem eftirlitsskýrslur) um viðkomandi leiksvæði sem eru opinber á grundvelli upplýsingalaga.

5. Gæsla barna í frítíma og skemmtigarðar

Foreldrar bera ábyrgð á því að þeir aðilar sem þeir fá til að gæta barna sinna séu hæfir til þess og geti sinnt hverju barni í samræmi við það sem er því fyrir bestu.

Víða er boðið upp á barnagæslu gegn gjaldi og ómönnuð barnahorn í verslunarmiðstöðvum, verslunum og líkamsræktarstöðvum. Einnig eru til staðir sem bjóða upp á skemmtun fyrir börn með foreldrum eða á meðan þeir bíða fyrir utan leiksvæðið. Þá má nefna ýmis konar námskeið og frístundastarf sem útfært er á marga vegu.

Ekki eru til opinberar reglur um þessa starfsemi og það er mismunandi hvort og þá hvaða hluta starfseminnar eftirlitsaðilar eins og heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit og eldvarnaeftirlit taka út. Í því sambandi má benda á að Vinnueftirlitið sér um úttektir á vinnuvélum, þ.m.t. tívolítækjum. Vinnuvéladeild Vinnueftirlitsins skoðar tækin og búnaðinn m.t.t. öryggis og uppsetningar og tekur við ábendingum um öryggismál tækjanna. Það er hins vegar á ábyrgð heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags að hafa eftirlit með öryggi þeirra sem fara í tækin, t.d. með því að hafa áhrif á aldurs- og hæðarmörk þeirra sem í tækin mega fara. Um leiksvæðin sjálf og hefðbundin leikvallatæki sem eru ekki vélknúin gildir reglugerð um um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002, sjá nánar hér á vef umboðsmanns barna.

Þeir þjónustuaðilar sem bjóða upp á gæslu eða skemmtun fyrir börn verða því að setja sínar eigin reglur um starfsemina sjálfa, s.s. kröfur til starfsfólks, fjölda barna á svæðinu, fjölda barna á hvern starfsmann, öryggisskipulag, neyðaráætlun og tryggingamál.

Ljóst er að víða er vel staðið að verki en umboðsmaður barna hvetur foreldra til að spyrja þjónustuaðilana um mönnun, aðbúnað og öryggismál áður en þeir ákveða að skilja barnið sitt eftir í umsjá þeirra eða án gæslu á svæðinu. Þetta á við hvort sem um er að ræða leikrými með leikvallatækjum og mannaðri gæslu, herbergi eða sal með leikföngum, opið barnahorn, leiksvæði innan- eða utanhúss sem greitt er inná eða lista-, íþrótta- eða annars konar frítímanámskeið fyrir börn.

6. Íþróttir, frístundir og sund

Mörg börn verja töluverðum tíma í  leiki, íþróttir og skipulagt frístundastarf sem fer fram í íþróttamannvirkjum eins og íþróttahúsum og sundlaugum. Hér er að finna reglur og gátlista sem gagnlegt er fyrir foreldra og aðra sem hafa börn í sinni umsjá að kynna sér:

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 gildir um búnað, hreinlæti, aðbúnað, öryggi og mengunarvarnir á sund - og baðstöðum. Í henni er fjallað um aldurstakmörk gesta í 14. gr. og um kröfur til starfsfólks í 15. gr

Nánar er fjallað um sundstaði  hér á síðunni um öryggismál og slysavarnir barna.

7. Ábyrgð hinna fullorðnu

Ábyrgðin á því að börn fái notið réttinda sinna hvílir fyrst og fremst á foreldrum eða þeim sem fara með forsjá barnanna. Foreldrum og öðrum sem bera ábyrgð á börnum ber að gæta þess að börn eigi kost á að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þeirra. Foreldrum ber jafnframt skylda til að vernda heilsu barna sinna og búa þeim gott og öruggt umhverfi. Það á við á öllum sviðum; í umferðinni, á heimilinu, úti á leiksvæðum, á ferðalögum og í tómstundum. Samfélagið allt ber einnig ábyrgð á því að börn búi við góð uppvaxtarskilyrði, sérstaklega öryggi í leikumhverfi sínu. Ábyrgðin er því mikil og liggur hún auk foreldra hjá sveitarfélögum, starfsfólki skóla og leikskóla, starfsfólki í frístundastarfi, dagforeldrum og öðrum sem taka að sér að bera ábyrgð á börnum.

8. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið hefur eftirlit með reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum. Nánar á www.velferdarraduneyti.is.

Umhverfisráðuneytið
Reglugerðir um öryggi og hollustuhætti eru gefnar út af umhverfisráðuneytinu. Nánar á www.umhverfisraduneyti.is. 

Neytendastofa
Neytendastofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli kröfur um öryggi og að leikföng í verslunum uppfylli kröfur um öryggi.  Þeir sem telja að leikföng í verslunum uppfylli ekki kröfur og séu hættuleg eru hvattir til að hafa samband við Neytendastofu, www.neytendastofa.is.

Heilbrigðiseftirlit
Heilbrigðisnefndir sveitafélaga hafa eftirlit með leiksvæðum og leikvallatækjum í notkun. Heilbrigðiseftirlitssvæðin á Íslandi eru tíu, sjá hér á vef Umhverfisstofnunar.

Landlæknir
Embætti landlæknis sinnir fræðslu og ráðgjöf um slysavarnir barna. Nánar á www.landlaeknir.is.

Vinnueftirlitið
Vinnueftirlitið sinnir eftirlit með tívolítækjum. Nánar á www.vinnueftirlit.is.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.