Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Heilsa

Kaflar:

 1. Réttur til heilsuverndar
 2. Helstu lög og reglur um heilsuvernd barna
 3. Heilsugæsla
 4. Heilsuvernd skólabarna
 5. Sérreglur um sjúk börn
 6. Upplýsingar og samþykki
 7. Friðhelgi einkalífs og vernd
 8. Umskurður
 9. Fjárhagslegur stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur
 10. Ábyrgð hinna fullorðnu
 11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla. 
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til heilsuverndar

Ríkisvaldið gegnir veigamesta hlutverkinu í að verja og efla lýðheilsu, m.a. með því að marka stefnu í heilbrigðismálum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og gæði íslenska heilbrigðiskerfisins. Börn eiga rétt á að njóta bestu mögulegu heilsuverndar sem völ er á og þarf því að tryggja þeim og fjölskyldum þeirra greiðan aðgang að þjónustu fagfólks á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. 

Ein af grundvallargreinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er 3. gr.:

1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. 
2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. 
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón. 

Í 23.- 25. gr. sáttmálans er fjallað um rétt barna til heilsugæslu. Í 24. gr. segir m.a.:

Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. 

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann í febrúar 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst."

2. Helstu lög og reglur um heilsuvernd barna

Í ýmsum lögum er að finna ákvæði til verndar heilsu barna. Kveðið er á um heilsugæslu í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og í reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er í VI. kafla fjallað um þær sérreglur sem gilda um sjúk börn. 

Í X. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru ákvæði til verndar andlegri og líkamlegri heilsu ungmenna í starfi. Í kaflanum er m.a. fjallað um hámarksvinnutíma og lágmarks hvíldartíma og talin upp verkefni, tæki og efni sem eru bönnuð fyrir tiltekna aldurshópa. Hér  er að finna umfjöllun um vinnu barna og unglinga.  Þá er að finna fjölmörg ákvæði um aðbúnað og öryggi barna á leiksvæðum og í leik- og grunnskólum sem ætlað er að vernda heilsu þeirra og velferð hér í umfjöllun um slysavarnir og öryggismál barna en einnig má benda á umfjöllun um  grunnskóla og leikskóla.

Þeir sem bera ábyrgð á börnum bera ríkar skyldur til að vernda þau gegn skaðlegum áhrifum umhverfisins, s.s. ofbeldi, hávaða, sólarljósi, kulda, smitsjúkdómum og slysum. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002 segir m.a.: „Börn eiga skilyrðislausan rétt á reyklausu umhverfi, bæði á heimilum sínum og annars staðar.  Allir eru sammála um að vernda eigi börn fyrir tóbaks reyk og grípa verður til úrræða sem nauðsynleg eru í því skyni". Lögin skylda hvern þann sem ber ábyrgð á barni að forða því svo sem frekast er kostur frá óbeinum reykingum. Sambærilegt ákvæði er að finna í sóttvarnarlögum nr. 19/1997 en þar segir m.a. um skyldur einstaklinga (7. gr.): „Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er." Vilji löggjafans til að vernda heilsu og velferð barna er skýr og því má ætla að yfirfæra megi þennan rétt barna til verndar á fleiri svið sem varða heilsuvernd barna. Foreldrar skipta mestu máli í þessum efnum  enda mest um vert að þeir séu börnunum skjól í þessu sem öðru.

3. Heilsugæsla

Heilsugæsla telst til frumþjónustu heilbrigðisþjónustunnar og er fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslan samhæfir ólíka þætti heilbrigðisþjónustu og tengdrar þjónustu. Hún telst til nærþjónustu í samfélaginu þar sem hún starfar og þarf að taka mið af aðstæðum og þörfum þess. Yfirleitt tilheyrir fólk þeirri heilsugæslustöð sem næst er heimili þess og er þar skráð hjá heimilislækni. Börn eru skráð með foreldrum sínum en gerast sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins við 16 ára aldur.

Kveðið er á um heilsugæslu í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Í IV. kafla reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007 er fjallað um þjónustu heilsugæslustöðva. Heilsugæslustöðvar sinna fyrst og fremst heilsugæslu en með því er m.a. átt við almennar lækningar, hjúkrun, heilsuvernd og forvarnir og bráða- og slysamóttöku, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Auk þess er kveðið á um að heilsugæslustöð skuli veita almenna læknisþjónustu, almenna hjúkrunarþjónustu, mæðravernd, ungbarna- og smábarnavernd og heilsugæslu í grunnskólum, sbr. 11.-15. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar. Nánar er fjallað um heilsugæslu í grunnskólum í næsta kafla. Í 16. gr. segir einnig að heilsugæslustöðvar skuli m.a. sinna eftirtalinni heilsuvernd:

1. Kynsjúkdómavörnum. 
2. Geðvernd. 
3. Áfengis- og fíkniefnavörnum. 
4. Tóbaksvörnum. 
5. Sjón- og heyrnarvernd. 
6. Hópskoðunum og skipulagðri sjúkdómaleit. 
7. Sóttvörnum. 
8. Heilsuvernd unglinga (unglingamóttöku). 
9. Heilsuvernd aldraðra. 
10. Slysavörnum.

Þó er heimilt að veita aðra heilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum, svo sem þjónustu sérgreinalækna, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf, iðju- og sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf o.fl., í samræmi við ákvörðun ráðherra eða á grundvelli samninga sem gerðir eru samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

Á vef landlæknis er fjallað um heilsu og líðan en þar má meðal annars finna umfjöllun um börn á ýmsum aldri og málefni sem snerta hagsmuni þeirra.

4. Heilsuvernd skólabarna

Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Heilsugæslustöðvar annast heilsugæslu í grunnskólum skv. 15. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Þjónustan skal að jafnaði veitt í skólanum. Heilsugæslustöðvar skulu, í samræmi við lög um grunnskóla (41. gr.), hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslunnar. Skólastjóra ber að fylgjast með því að nemendur njóti skólaheilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið.

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru fræðsla og heilsuefling, bólusetningar, skimanir og skoðanir og umönnun veikra og slasaðra barna ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta, ýmist í hópfræðslu eða á einstaklingsgrunni. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6h heilsunnar, sjá nánar á www.6h.is.  Á vef landlæknis er að finna leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna og þau markmið sem unnið skal að.

Skólahjúkrunarfræðingar eru yfirleitt með fastan viðverutíma í grunnskólum en stundum starfa þeir einnig á heilsugæslustöðvum nálægt skólanum. Nemendur og foreldrar geta leitað til skólahjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Skólahjúkrunarfræðingurinn getur t.d. aðstoðað nemendur með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynheilbrigði og getnaðarvarnir. Ef nemendur hafa áhyggjur af geðheilbrigði sínu er gott að byrja á því að ræða líðanina við hjúkrunarfræðinginn.

Í skólanum er veitt fyrsta hjálp og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm, ofnæmi eða annað sem stefnt getur heilsu þess í hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæslan viti af því. Sjá nánar hér á vef landlæknis.

Skólaheilsugæslan sinnir reglubundnum skoðunum, svo sem sjónprófum, hæðar- og þyngdarmælingum. Í 7. bekk eru börn bólusett er gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta) og stúlkur eru bólusettar gegn HPV veirunni (þrjár sprautur á 6-12 mánaða tímabili). Í 9. bekk eru börn bólusett er gegn mænusótt, barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (ein sprauta).

Mikið er til af fræðsluefni um bólusetningar. Sjá t.d. hér á vef landlæknis, hér á vef heilsugæslunnar, hér á vefnum 6h.is og að lokum er  hér upplýsingabæklingur sóttvarnalæknis um bólusetningar barna.

Bólusetningar barna eru á ábyrgð foreldra fram að 16 ára aldri barns. Mikilvægt er að börn komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning á að fara fram. Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Ef foreldrar ákveða að þiggja  ekki  bólusetningar fyrir börn sín þá eru þeir beðnir um að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing viðkomandi skóla símleiðis eða með tölvupósti áður en bólusetningar fara fram í skólanum. Slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns.

Þegar ákvarðanir eru teknar um bólusetningar er það skylda foreldra að hlusta á og virða sjónarmið barna sinna. Frá 16 ára aldri ráða börn sjálf hvort þau láta bólusetja sig.

Sjá einnig kaflann um meðferð trúnaðarupplýsinga á síðunni um grunnskóla.

Í flestum skólum eru einhver börn sem þurfa að taka inn lyf á skólatíma. Börn, sérstaklega í yngri bekkjum grunnskóla, geta yfirleitt ekki sjálf borið ábyrgð á lyfjatökunni. Ábyrgðin er foreldra en skólahjúkrunarfræðingar og starfsmenn skóla aðstoða barnið við lyfjatökuna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft um. Foreldrar barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma. Árið 2010 gaf landlæknisembættið út tilmæli landlæknis um lyfjagjafir í skólum.

5. Sérreglur um sjúk börn

Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er í VI. kafla fjallað um þær sérreglur sem gilda um sjúk börn.  Þar segir í 27. gr.:

Skylt er að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir.

Hlífa ber börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum.
Sjúk börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnun, eiga rétt á að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér og skal sköpuð aðstaða fyrir þá eftir því sem kostur er.
Systkini og vinir mega eftir því sem kostur er heimsækja sjúkt barn sem dvelst á heilbrigðisstofnun.
Sjúk börn á skólaskyldualdri skulu fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi.
Umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skal hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.

6. Upplýsingar og samþykki
Frá 16 ára aldri eru börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Í 25. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 segir að ef sjúklingur er yngri en 16 ára skuli upplýsingar um heilsufar og meðferð veittar foreldrum. Þar er átt við m.a.:

a. heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,

b. fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,

c. önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,

d. möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.

Um samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð er fjallað í 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þar segir að foreldrar sem fara með forsjá barns skuli veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára en talað um að sjúk börn skuli eftir því sem kostur er höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Neiti foreldrar sem fara með forsjá barns að samþykkja nauðsynlega meðferð skal læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður snúa sér til barnaverndaryfirvalda, sbr. ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ef ekki vinnst tími til að leita liðsinnis barnaverndaryfirvalda vegna lífsnauðsynlegrar bráðameðferðar á sjúku barni er skylt að hafa heilbrigði þess að leiðarljósi og grípa tafarlaust til nauðsynlegrar meðferðar.

7. Friðhelgi einkalífs og vernd

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga börn á öllum aldri sjálfstæðan rétt til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna. Í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um 12. gr. Barnasáttmálans er fjallað um þennan rétt í athugasemd 101. Í lauslegri þýðingu segir þar að aðildarríki þurfa að innleiða lög og reglugerðir sem tryggja börnum rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns, þegar þörf er á vegna öryggis eða velferðar barns. Börn geta haft þörf á slíkri ráðgjöf, t.d. þegar þau hafa reynslu af ofbeldi eða vanrækslu á heimili sínu, hafa þörf á ráðgjöf um getnaðarvarnir eða þegar börn og foreldrar eru ekki sammála um aðgang barna að heilbrigðisþjónustu. Rétturinn til ráðgjafar og aðstoðar er óháður aldri til að veita samþykki í heilbrigðismálum og ætti ekki að vera takmarkaður með aldursmörkum.

Samkvæmt 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 35/2012 skal starfsmaður í heilbrigðisþjónustu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta ákvæði á að sjálfsögðu við um börn þó að foreldrum barna yngri en 16 ára skuli veittar allar nauðsynlegar upplýsingar um heilsufar þess og þjónustu í boði. Þagnarskyldan nær þó ekki til atvika sem starfsmanni í heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna um samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verði starfsmaður var við að barn hafi verið vanrækt, beitt einhvers konar ofbeldi eða stefni eigin velferð í hættu ber honum eða yfirmanni hans að tilkynna það barnaverndarnefnd. Sjá einnig kaflann um meðferð trúnaðarupplýsinga á síðunni um grunnskóla.

Í bókinni Friðhelgi einkalífs er fjallað ítarlega um rétt barna til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna.

8. Umskurður

Umskurður á stúlkum er refsiverður skv. 218. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í lögum er hvergi fjallað um umskurð á drengjum. Að mati umboðsmanns barna felur umskurður á ungum drengjum í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynlegt af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum.

Umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf. Auk þess telst umskurður brot gegn 3. mgr. 24. gr. sáttmálans sem tryggir börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig hvatt öll ríki til þess að banna aðgerðir sem stefna mannlegri reisn barna í hættu og eru ekki í samræmi við réttindi barna. Þó að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum, getur slíkur réttur aldrei gengið framar rétti barnsins. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða barn. Á réttur barna og mannhelgi þeirra því að ganga framar rétti fullorðinna til að taka trúarlegar og menningarlegar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að virða sjálfsákvörðunarrétt barna og banna umskurð á drengjum nema í þeim tilvikum sem drengur, sem náð hefur nægilegum aldri og þroska til að skilja hvað felst í aðgerðinni, veitir samþykki sitt.

Árið 2013 undirrituðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum sameiginlega yfirlýsingu undir samnorræna yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja ásamt fulltrúum barnalækna og barnaskurðlækna, Sjá nánar hér í frétt frá því í október 2013. 

9. Fjárhagslegur stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur

Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Tryggingastofnun ríkisins sér um eða hefur milligöngu um ýmsar greiðslur vegna barna og ungmenna og sinnir leiðbeiningarþjónustu í tengslum við þessar greiðslur. Á vef Tryggingastofnunar er stutt og einfaldað yfirlit um helstu greiðsluflokka almannatrygginga en þeir eru lífeyristryggingar og félagsleg aðstoð, sjúkratryggingar og slysatryggingar. Undir liðnum Barnafjölskyldur er að finna ítarlegar upplýsingar um greiðslur vegna barna.

10. Ábyrgð hinna fullorðnu

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna til 18 ára aldurs og þeim ber að sjá til þess að börn þeirra búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Hluti af forsjárskyldum foreldra er að sinna líkamlegum þörfum barna sinna og gæta þess að umhverfi þeirra sé eins öruggt og frekast er kostur. Foreldrum ber að sjá til þess að barn fái þá heilbrigðisþjónustu sem er því nauðsynlegt og sálfræðiþjónustu ef því er að skipta. Að sjálfsögðu ber foreldrum og þeim sem hafa börn í umsjá sinni að gæta að líðan barnanna og andlegu ástandi. Andleg vanlíðan getur haft líkamleg einkenni og því er mikilvægt að hugað sé að aðstæðum barna í sínu nánasta umhverfi, hugsanlegum áföllum eða áhyggjum þeirra þegar börn kvarta t.d. yfir þrálátum verkjum sem erfitt er að útskýra. Oft er nauðsynlegt að fá ráðgjöf eða meðferð hjá fagaðilum á sviði sálfræði eða geðlækninga til að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa orðið fyrir áföllum. Öðrum sem hafa börn í umsjá sinni ber einnig að haga störfum sínum þannig að heilsa og andleg velferð barnanna sé ávallt í fyrirrúmi. 

11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Ýmis þjónusta á vegum ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila stendur almenningi til boða ef spurningar vakna um heilsufar og líðan barna.

Barnalæknavaktin 
Barnalæknavaktin er staðsett í Domus Medica. Símanúmerið er 563-1010. 

Doktor.is 
Á heilsuvefnum doktor.is er mjög mikinn fróðleik að finna um allt sem tengist líkamanum og heilsunni. 

Foreldraskólinn 
Sinnir fræðslu og ráðgjöf um svefn og þroska ungra barna. Foreldraskólinn er á facebook

Heilsugæslan 
Foreldrar geta að sjálfsögðu hringt í hjúkrunarfræðing hjá heilsugæslunni í hverfinu eða bæjarfélaginu eða komið á staðinn og fengið ráðgjöf eða tíma hjá lækni. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.

Landlæknir
Meginhlutverk embættisins er fjórþætt, þ.e. ráðgjöf, fræðsla, eftirlit og upplýsingasöfnun. Vefsíða embættisins er www.landlaeknir.is

Læknavaktin 1770 
Hjá Læknavaktinni við Smáratorg er móttaka sjúklinga vegna almennra veikinda frá kl.17:00 á virkum dögum til 23:30. Símaþjónusta er í gegnum símanúmerið 1770 frá kl.17:00 á virkum dögum til 08:00 að morgni. Frá föstudagskvöldi kl.17:00 til mánudagsmorguns kl.08:00 er samfelld þjónusta. Fyrst svarar starfsmaður Læknavaktar sem tekur niður aðstoðarbeiðni innhringjanda og ef hann telur ástæðu til tengir hann símtalið áfram til vakthafandi hjúkrunarfræðings. 

Neyðarlínan 
Sé barn slasað eða mjög veikt ætti hiklaust að hafa samband við Neyðarlínuna með því að hringja í 112.

Tótalráðgjöfin 
Tótalráðgjöfin er ætluð ungu fólki sem vantar aðstoð og ráðgjöf fagfólks til að leysa úr alls kyns vandamálum. Hægt er að hringja í síma 520-4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni www.totalradgjof.is


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.