Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Fjölskyldan

Kaflar:

 1. Barnið og fjölskyldan
 2. Helstu lög og reglur um fjölskyldumál barna
 3. Réttindi barns
 4. Forsjá
 5. Meginreglan við skipan forsjár
 6. Forsjá við skilnað eða sambúðarslit foreldra
 7. Sameiginleg forsjá
 8. Forsjá við andlát
 9. Samningur um forsjá og lögheimili
 10. Sérfræðiráðgjöf
 11. Dómsmál um forsjá eða lögheimili  
 12. Afhending barns til forsjáraðila
 13. Forsjársvipting
 14. Umgengni
 15. Ákvörðun um umgengni
 16. Þegar foreldrar virða ekki umgengnisrétt
 17. Umgengni annarra en foreldra
 18. Fyrirhugaður flutningur barns úr landi
 19. Upplýsingar um barn
 20. Réttur barna til að tjá sig
 21. Framfærsla barna
 22. Meðlag
 23. Sérstök framlög
 24. Menntunarframlag
 25. Stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur
 26. Áhrif erfiðra breytinga í fjölskyldunni á börn
 27. Ábyrgð hinna fullorðnu
 28. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla
 29. Tillögur að lesefni

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Barnið og fjölskyldan

Málefnum fjölskyldunnar er ekki nema að takmörkuðu leyti skipað með lögum, enda er friðhelgi fjölskyldu og heimilis talin meðal mikilvægustu mannréttinda sem varin eru í stjórnarskrá og í alþjóðlegum mannréttindasamningum. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er m.a. fjallað um fjölskylduna og rétt barna til að þekkja og dvelja með foreldrum sínum og fjölskyldu sem og rétt þeirra til einkalífs. Þrátt fyrir ríka friðhelgi fjölskyldunnar og heimilisins og þá staðreynd að fólk hefur nokkuð frelsi þegar kemur að uppeldi barna sinna, er talið nauðsynlegt að hafa lög og reglur í hverju þjóðfélagi þar sem tekið er á málefnum barna, bæði innan fjölskyldunnar sem og utan hennar. Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst”. 

2. Helstu lög og reglur um fjölskyldumál barna

Helstu lagabálkarnir í íslenskum rétti sem fjalla um börn eru barnalög nr. 76/2003, barnaverndarlög nr. 80/2002 og lögræðislög nr. 71/1997.

3. Réttindi barns

Þann 1. janúar 2013 tóku gildi lög nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003, með síðari breytingum. Er nú að finna nýjan I. kafla í barnalögunum og er þar að finna nýtt ákvæði, 1. gr., þar sem almennt er kveðið á um réttindi barna. 

Réttindi barns
Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.
Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

Ákvæðið byggir á fjórum grundvallarreglum Barnasáttmálans, þ.e. 2., 3., og 6. og 12. gr. Umrætt ákvæði fjallar um réttarstöðu barna á öllum sviðum samfélagsins.

4. Forsjá

Hugtakið forsjá lýsir sambandi foreldra og barns frá fæðingu barnsins og þar til það verður 18 ára, en þá verður barn lögráða. Segja má að hugtakið forsjá sé þríþætt. Í fyrsta lagi felur það í sér rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns en í því felst m.a. réttur foreldra til að ráða dvalarstað barns síns, skólagöngu, tómstundum og öðrum þáttum er snerta líf þess. Í öðru lagi felur hugtakið í sér skyldu foreldra til að fara með forsjána sem merkir að foreldrum ber að tryggja bæði efnahagslega og andlega velferð barns síns. Þeim ber að sjá til þess að barnið hafi fullnægjandi húsaskjól, fæði og klæði og að það búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi sem og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar mega sjálfir ekki heldur beita barn sitt hvers konar ofbeldi eða sýna því vanvirðingu. Í þriðja lagi tekur hugtakið forsjá til réttar barnsins til forsjár. Það þýðir að foreldrar barns eiga að annast persónuleg mál þess þar til barnið verður 18 ára. Í uppeldinu eiga foreldrar alltaf að hugsa um hagsmuni og þarfir barns síns og sýna því umhyggju og nærfærni. Foreldrar eiga að stuðla að því eftir mætti að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.

Helstu ákvæði laga sem fjalla um forsjárhugtakið og inntak þess eru:

28. gr. barnalaga nr. 76/2003

Almennt um inntak forsjár.

Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.

Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.

Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.

Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.

Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

28. gr. a, barnalaga nr. 76/2003

Almennt um inntak sameiginlegrar forsjár.

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.

Ef annað forsjárforeldra barns er hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar.

Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og er öðru foreldrinu þá óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

29. gr. barnalaga nr. 76/2003

Forsjá foreldra.

Barn á rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem eru í hjúskap, sbr. þó 3. mgr. 31. gr., eða hafa skráð sambúð sína í þjóðskrá.

Nú eru foreldrar barns hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns og fer móðir þá ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr.

Ákvæði 28. gr., 28. gr. a, 5. og 6. mgr. 30. gr., 3.–5. mgr. 32. gr., 33.–35. gr. og 46. gr. eiga einnig við um aðra en foreldra sem fara með forsjá barns samkvæmt lögum þessum, eftir því sem við getur átt.

29. gr. a, barnalaga nr. 76/2003.

Forsjá stjúp- og sambúðarforeldra.

Ef foreldri, sem er ekki í hjúskap og fer eitt með forsjá barns síns, gengur í hjúskap með öðrum en hinu foreldrinu, þá geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Hið sama á við ef foreldri hefur tekið upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár. 

Samningur öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Leita skal umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns og um samning gilda að öðru leyti ákvæði 32. gr. eftir því sem við á.

51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997

Foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem barni koma í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga og lögum um vernd barna og ungmenna.

Foreldrar barns, sem fara með forsjá þess, eða aðrir þeir sem falin hefur verið forsjá barns samkvæmt barnalögum fara með fjárhald þess.

1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002

Réttindi barna og skyldur foreldra.
Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.

Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.

5. Meginreglan við skipan forsjár

Skipan forsjár er ákveðin í barnalögum þar sem tiltekið er hverjir skuli fara með forsjá barns við hinar ýmsu aðstæður. Meginreglan er sú að foreldrar í hjónabandi eða í skráðri sambúð fari sameiginlega með forsjá barns síns. Sé móðir barns hvorki í hjúskap né skráðri sambúð fer hún ein með forsjá þess nema hún semji um annað við barnsföður sinn. Ef foreldri, sem er ekki í hjúskap fer eitt með forsjá barns síns, gengur í hjúskap með öðrum en hinu foreldrinu, þá geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Hið sama á við ef foreldri hefur tekið upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu, enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár. Þetta á aðeins við ef foreldrarnir fara ekki saman með forsjá barnsins. Ákvæði barnalaga nr. 76/2003 um framangreint eru í V. kafla laganna.

6. Forsjá við skilnað eða sambúðarslit foreldra

Meginreglan við skilnað eða sambúðarslit foreldra er sú að þeir fari áfram sameiginlega með forsjá barns síns. Þessi regla var sett í barnalög þegar þeim var breytt árið 2006 en áður var sameiginleg forsjá valkostur sem foreldrar gátu samið um en meginreglan var sú að forsjáin væri hjá öðru foreldrinu. Reyndin hefur verið sú að æ fleiri foreldrar ákveða að fara saman með forsjá barns síns eftir skilnað eða sambúðarslit og var því talið tímabært að gera þá skipan að meginreglu.

31. gr. Forsjá við skilnað eða samvistarslit foreldra.
Foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Sýslumaður skal tilkynna þjóðskrá hjá hvoru foreldra barnið eigi lögheimili. Sýslumaður skal leiðbeina foreldrum um inntak sameiginlegrar forsjár og um þau réttaráhrif sem skráning lögheimilis barns hefur í för með sér. 

Foreldrar geta samið svo um að forsjá barns þeirra verði  í höndum annars hvors.

Nú slíta giftir foreldrar samvistum án þess að hjúskap ljúki og geta þeir þá ákveðið að annað þeirra fari með forsjá barns.

Ef ágreiningur rís um forsjá barns við skilnað foreldra eða við slit sambúðar foreldra, sem skráð hefur verið í þjóðskrá, fer um það mál eftir því sem kveðið er á um í 34. gr.

Ákvæði þetta gildir einnig um skilnað og sambúðarslit foreldris og stjúp- eða sambúðarforeldris sem einnig hefur farið með forsjá skv. 29. gr. a

Sameiginleg forsjá er almennt talin til þess fallin að skapa minnstu mögulegu röskun á högum barns við skilnað foreldra þess og miðar að því að viðhalda eins stöðugu ástandi og mögulegt er þrátt fyrir skilnaðinn. Foreldrum er þó áfram frjálst að semja um að forsjáin verði hjá öðru þeirra. Skilnaður foreldra leggst yfirleitt þungt á barn og því er mikilvægt að sátt náist um framtíðarskipan forsjár sem fyrst og helst með sem minnstri röskun fyrir barnið. Neðst á þessari síðu er listi yfir lesefni sem getur komið sér vel fyrir foreldra barna sem verða fyrir áföllum eins og skilnaði eða sambúðarslitum foreldra og tenglar á helstu aðila sem sinna fjölskylduráðgjöf.

7. Sameiginleg forsjá

Eins og áður sagði er sameiginleg forsjá meginreglan við skilnað eða sambúðarslit foreldra og var sú breyting gerð á barnalögum árið 2006. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að æ fleiri foreldrar völdu þetta fyrirkomulag þá og það að foreldrar fari áfram báðir með forsjá barns síns eftir skilnað eða sambúðarslit er talið stuðla að meiri stöðugleika í lífi barnsins. Hugsunin á bakvið sameiginlega forsjá hefur frá upphafi verið sú að sem minnstar breytingar verði á ábyrgð og réttindum barna og foreldra þeirra jafnvel þó foreldrarnir ákveði að búa ekki lengur saman. Þá er talið að sameiginleg forsjá sé til þess fallin að stuðla að betri samskiptum barns við báða foreldra sína og geti komið í veg fyrir hugsanlegar deilur milli foreldra þegar annað foreldrið getur ekki hugsað sér að afsala sér forsjá barns síns. Sú tilhugsun að forsjáin sé enn sameiginleg eftir skilnað getur því leitt til þess að það foreldri sem ekki hefur barnið hjá sér að jafnaði, sætti sig betur við ástandið. Einnig getur það komið í veg fyrir langvarandi og erfiðar deilur sem geta sett varanlega mark sitt á barnið.

Í 28. gr. a barnalaga er fjallað um inntak sameiginlegrar forsjár en þar segir:

Almennt um inntak sameiginlegrar forsjár.
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.
Ef annað forsjárforeldra barns er hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar.
Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og er öðru foreldrinu þá óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

Í sameiginlegri forsjá felst það fyrst og fremst að foreldrar þurfa að taka í sameiningu allar meiriháttar ákvarðanir sem varða hagi barnsins. Í 28. gr. a barnalaga er þó tekið fram að ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins. Dæmi um hvers konar ákvarðanir það eru má sjá í ofangreindu ákvæði. Ástæðan fyrir því að lögheimilisforeldri er veitt sú heimild að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barns er til þess að daglegt líf barnsins geti haldið áfram þrátt fyrir að foreldrar geti ekki komið sér saman um ýmis atriði. Í 28. gr. a barnalaga er þó kveðið á um að foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu leitast við að hafa samráð áður en málum barns er ráðið til lykta. Ef annað forsjárforeldra barns er hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar.

Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr. 3. mgr. 28. gr. a barnalaga. Það getur því skipt miklu fyrir það foreldri sem barnið býr ekki hjá að fara einnig með forsjána því augljóslega getur það varðað miklu hvar barnið býr og hvort farið er með það úr landi til lengri eða skemmri tíma. Foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns verða að komast að samkomulagi um hjá hvoru þeirra barnið eigi lögheimili og dvelji þá hjá að jafnaði. Allur gangur er síðan á því hvernig foreldrar semja um það hversu miklum tíma barnið ver hjá því foreldri þar sem barnið á ekki lögheimili og er það skipulag alfarið í höndum foreldranna. Sameiginleg forsjá þýðir því ekki að barnið eigi endilega að verja jafnlöngum tíma hjá báðum foreldrum. Það foreldri sem barnið dvelst hjá á hverjum tíma getur tekið ákvarðanir varðandi daglegar þarfir barnsins og felst því ekki í sameiginlegri forsjá að foreldrar þurfi að hafa samráð um alla hluti er varða líf barnsins sama hversu smávægilegir þeir eru. Það foreldri sem barnið á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt lögum, þ. á. m. skattalögum. Jafnvel þó foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns síns eigi að koma sér saman um öll helstu mál er varða barnið þá getur það foreldri sem barnið dvelst hjá tekið smærri ákvarðanir sem varða daglegt líf þess á eigin spýtur.

8. Forsjá við andlát

Við andlát forsjárforeldris verður að taka ákvörðun um forsjá barns. Hafi foreldrar farið sameiginlega með forsjána og annað þeirra andast þá fer eftirlifandi foreldrið eitt með forsjána ásamt maka sínum eða sambúðarmaka eftir atvikum. Hafi foreldri farið með forsjá barns síns ásamt stjúpforeldri þess eða sambúðarforeldri hverfur forsjáin til hins foreldrisins nema stjúpforeldri og foreldri hafa samið um annað, sbr. 29. gr. a barnalaga. Hafi foreldri farið eitt með forsjá barns síns fer forsjáin til hins foreldrisins. Ef barn verður forsjárlaust við andlát forsjárforeldris/foreldra, þ.e. ef engum er til að dreifa samkvæmt reglunum hér að framan, þá tekur barnaverndarnefnd við forsjá barnsins. Aðrir en hér að framan greinir geta gert kröfu um að forsjáin færist til þeirra og má þá gera slíkar ráðstafanir með samningi eða dómi og er það metið í hvert skipti út frá hagsmunum barnsins. Þetta geta verið t.d. nákomnir ættingjar eins og afar og ömmur.

Forsjárforeldrar geta ákveðið hver eða hverjir skuli fara með forsjá barns þeirra að þeim látnum og skal virða þá ákvörðun nema það sé andstætt lögum eða ef ráðstöfunin er ekki talin barninu fyrir bestu. Slík yfirlýsing forsjárforeldra verður að vera skrifleg og verður hún að vera staðfest af sýslumanni eða lögmanni. Ef breyting verður gerð á forsjá við fráfall forsjárforeldris þarf að gera samning milli þess sem fær forsjá barns sjálfkrafa samkvæmt lögum, t.d. hins foreldrisins eða stjúpforeldris og þess sem forsjárforeldri hefur ákveðið að forsjá skuli falla til samkvæmt áðurnefndri yfirlýsingu. Ef ekki næst samkomulag verður að bera mál undir dómstól. Í 30. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir:

Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og annað þeirra andast og fer þá eftirlifandi foreldri eitt með forsjána ásamt maka sínum eða sambúðarmaka, sbr. 29. gr. a, ef því er að skipta.
Nú hefur annað foreldrið farið með forsjá barns og fer þá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið með forsjána, sbr. 29. gr. a, áfram með forsjá eftir andlát forsjárforeldris.
Við andlát foreldris sem farið hefur eitt með forsjá barns hverfur forsjá þess til hins foreldrisins.
Við andlát forsjárforeldris má með samningi skv. 32. gr. eða dómi fela öðrum forsjá barns, að kröfu hans, en þeim sem forsjá annars fellur til skv. 1.–3. mgr. ef það er barni fyrir bestu.
Verði barn forsjárlaust vegna andláts forsjárforeldra hverfur forsjá þess til barnaverndarnefndar. 
Nú hafa forsjárforeldrar ákveðið hver eða hverjir fara skuli að þeim látnum með forsjá barns þeirra og skal þá eftir því farið nema sú ákvörðun sé andstæð lögum eða annað þyki barni fyrir bestu, sbr. 6. mgr. 30. gr. barnalaga.
Yfirlýsing skv. 6. mgr. skal gefin bréflega og skal undirritun hennar staðfest af sýslumanni eða héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni. Það skal skýlaust tekið fram að útgefandi yfirlýsingarinnar hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirritun sína í viðurvist þess er undirskriftina staðfestir og að honum hafi verið leiðbeint um réttaráhrif yfirlýsingarinnar.

9. Samningar foreldra um forsjá og lögheimili

Við skilnað eða sambúðarslit er meginreglan sú að foreldrar fara áfram sameiginlega með forsjá barns síns. Þeir geta þó alltaf samið um að forsjáin sé hjá öðru þeirra þyki það henta betur. Einnig geta foreldrar falið öðrum forsjá barns síns með samningi og verður barnaverndarnefnd þá að samþykkja þá ráðstöfun. Samningar foreldra um forsjá fá gildi við samþykki sýslumanns, sbr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003:

Samningar foreldra um forsjá og lögheimili
Foreldrar geta samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Í samningi um sameiginlega forsjá skal greina hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa fasta búsetu. 
Foreldrar geta samið um breytingu á forsjá barns þannig að forsjá eða lögheimili flytjist frá öðru foreldri til hins eða að samningur um sameiginlega forsjá falli niður og forsjá verði í höndum annars foreldris.
Foreldrar geta falið öðrum forsjá barns síns með samningi. Ef forsjá barns er í höndum annars foreldrisins skal leitað umsagnar hins foreldrisins.
Samning foreldra um forsjá eða lögheimili barns má tímabinda, þó ekki skemur en til sex mánaða.
Samningur um forsjá eða lögheimili barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Sýslumaður skal senda Þjóðskrá ljósrit af staðfestum samningi foreldra um forsjá eða lögheimili. Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttaráhrif samnings. Hann getur synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns og ber að gera það ef hann er andstæður lögum.

10. Sérfræðiráðgjöf

Foreldrar eiga kost á sérfræðiráðgjöf í forsjárdeilum til þess að aðstoða þá við að leysa ágreining um forsjá og er markmið ráðgjafarinnar að leiðbeina aðilum með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sá sérfræðingur sem veitir ráðgjöfina getur rætt við barn, sem mál varðar, telji hann það þjóna hagsmunum þess. Í 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 er að finna ákvæði sem fjallar um þá ráðgjöf sem foreldrum stendur til boða.

33. gr. Ráðgjöf.
Sýslumaður getur boðið aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sérfræðiráðgjöf. Markmið með sérfræðiráðgjöf er að leiðbeina aðilum með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sá sem veitir ráðgjöf gefur rætt við barn, sem mál varðar, telji hann það þjóna hagsmunum þess.
Þeim sem veitir ráðgjöf skv. 1. mgr. er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
Ráðherra setur nánari reglur um ráðgjöf skv. 1. mgr., svo sem um hæfi sérfræðinga sem veita ráðgjöf, inntak og framkvæmd ráðgjafar.

Ákvæðinu var breytt nokkuð þegar barnalögunum var breytt árið 2012. Foreldrum er ekki lengur skylt að sækja ráðgjöf heldur er þeim einungis heimilt að gera það. Einnig var 2. mgr. tekin út en hún kvað á um það að sýslumaður geti látið hjá líða að bjóða sérfræðiráðgjöf ef hann telur hana ónauðsynlega eða tilgangslausa.

Ráðgjöfin er foreldrum að kostnaðarlausu og fer hún ýmist fram á skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík eða á starfsstöð sérfræðings. Ferðakostnað verða foreldrar hins vegar að greiða sjálfir. Ákvæði um slíka sérfræðiráðgjöf kom inn í barnalögin árið 2001 m.a. eftir ítrekaðar áskoranir umboðsmanns barna. Umboðsmaður hafði í mörg ár bent á hversu mikilvægt það er fyrir foreldra og börn að geta sest niður með sérfræðingi til að ræða málin og komast að niðurstöðu um framtíð fjölskyldunnar í kjölfar skilnaðar. Umboðsmaður lagði mikla áherslu á að sú skylda yrði lögð á foreldra sem ætluðu að skilja og hefðu börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, að sækja slíka ráðgjöf sem og að alltaf yrði rætt við börnin að teknu tilliti til þroska þeirra.

Börn hafa augljósa þörf fyrir að geta rætt við einhvern sem þau geta treyst þegar miklir erfiðleikar steðja að fjölskyldulífinu. Þau þurfa oft og tíðum að spyrja ýmissa spurninga. sem koma upp í huga þeirra þegar skilnaður foreldra er í augsýn en því miður fá mörg þeirra ekki næga athygli foreldra sinna, sérstaklega ekki þegar deilur þeirra í milli eru harðskeyttar. Hagsmunir barnanna eru oft og tíðum fyrir borð bornir, þar sem skoðanir þeirra og sjónarmið virðast ekki ná eyrum hinna fullorðnu sem að þessum málum koma.

Umboðsmaður barna hefur alltaf lagt mikla áherslu á rétt barns til tjáningar í öllum málum sem þau varða. Mikilvægt er að börn sem hafa aldur og þroska til að tjá sig við erfiðar fjölskylduaðstæður skulu fá að gera það, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Við breytinguna á barnalögum árið 2012 var 33. gr. a, um sáttameðferð foreldra, sem hefur það að markmiðið að gera samning um lausn máls sem er barni fyrir bestu, verið bætt við til að koma til móts við þessa þörf. Í því ákvæði er kveðið á um skyldu til að veita barni kost á að tjá sig við sáttameðferð, er sú skylda í anda 12. gr. Barnasáttmálans um rétt barns til tjáningar. Fagnar umboðsmaður barna þessu ákvæði og telur hann það mikilvægt skref til að tryggja hagsmuni barna við erfiðar aðstæður

33. gr. a Sáttameðferð.
Áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, umgengni eða dagsektir er foreldrum skylt að leita sátta samkvæmt þessari grein
Sýslumaður skal bjóða aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sáttameðferð en aðilar geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna.
Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Foreldrar skulu mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til. Veita skal barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig við sáttameðferð nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins.
Sáttamaður skal gæta þess að vera hlutlaus í máli og leitast við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geta til þess að máli verði lokið með sátt.
Ef foreldrum tekst ekki að gera samning gefur sáttamaður út vottorð um sáttameðferð. Heimilt er að gefa út vottorð um sáttameðferð ef foreldrar mæta ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis.
Í vottorði um sáttameðferð skal gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum barnsins. Þeim sem sinnir sáttameðferð er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
Vottorð um sáttameðferð er gilt í sex mánuði eftir útgáfu.
Ákvæði þetta gildir einnig um aðra en foreldra sem geta gert kröfu um forsjá, umgengni eða dagsektir.
Ráðherra setur nánari reglur um sáttameðferð, svo sem um hæfi sáttamanna, framkvæmd og vottorð um sáttameðferð.

11. Dómsmál um forsjá eða lögheimili 

Ef ágreiningur er milli foreldra um forsjá barns þeirra sem tekst ekki að leysa með aðstoð sýslumanns fer forsjármálið fyrir dóm þar sem dómari sker úr um hvar forsjáin skuli vera. Sama á við ef ekki tekst að leysa deilur um það hvar barn á að eiga lögheimili. Aðilar leita þá yfirleitt til lögmanna til að fara með mál þeirra fyrir dómstólunum. Dómari skal leitast við að komast að þeirri niðurstöðu sem barninu er fyrir bestu. Dómari getur dæmt sameiginlega forsjá, sbr. 34. gr. barnalaga en henni var breytt með lögum nr. 61/2012 þannig að dómarar fengju þessa heimild. Dómari skal líta á allar aðstæður og meta ýmis atriði áður en hann kveður upp dóm um forsjá eða lögheimili.  Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga er að finna atriði sem dómara ber að líta til þegar hann ákveður hvernig forsjá skuli háttað eða hvar lögheimili barns á að vera. Hér er 34. gr. í heild:

34. gr. Dómur um forsjá, lögheimili barns o.fl. 
Þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns sker dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist. Ef foreldrar leita skilnaðar fyrir dómi leysir dómari um leið úr ágreiningi um forsjá eða lögheimili. Sýslumaður getur veitt leyfi til skilnaðar hjóna þótt ágreiningsmál um forsjá eða lögheimili barns þeirra sé rekið fyrir dómi. 
Dómari kveður á um hvernig forsjá barns verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Dómari lítur m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. 
Dómari getur ákveðið að annað foreldra fái forsjá barns. Þá getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Í máli um lögheimili barns kveður dómari á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. 
Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. 
Í ágreiningsmáli um forsjá barns ber dómara að kröfu annars foreldris eða beggja að kveða á um meðlag í dómi, sem og um inntak umgengnisréttar barns og foreldris og kostnað vegna umgengni, hafi sátt ekki tekist um þessi efni, enda hafi krafa um það verið gerð í stefnu eða greinargerð stefnda. Um ákvörðun dómara um umgengni gilda ákvæði 1.–4. mgr. 47. gr. og 47. gr. b. 
Um meðferð þessara mála fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum VI. kafla. 
Dómari skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um niðurstöðu máls um forsjá barns á eyðublaði sem hún leggur til.

 2. mgr. 34. gr. er útskýrð svona athugasemdum við frumvarpið (þar sem þessari grein var breytt): 

Í 2. mgr. er undirstrikað sem fyrr að dómari ákveði forsjá barns eftir því sem barni er fyrir bestu. Þá er tekið fram að dómari skuli m.a. líta til hæfis foreldra, stöðugleika, tengsla barns við báða foreldra sína, skyldu þeirra til að sinna umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi svo og vilja barns.

Hér er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem dómari leggur til grundvallar við ákvörðun um forsjá. Umfram almenna tilvísun til þess sem barni er fyrir bestu er í núgildandi lögum einungis nefnt sérstaklega það sjónarmið hvort foreldri sem krefst forsjár hafi verið tálmuð umgengni við barnið. Rétt þykir að nefna fleiri sjónarmið í lagaákvæðinu. Markmiðið er að draga fram þá mælikvarða sem liggja til grundvallar mati á því sem barni er fyrir bestu til að gefa því hugtaki frekari merkingu í þessu samhengi. Með þessu eru einnig undirstrikaðar skyldur foreldra gagnvart barni sínu og réttur barnsins.

Hæfi foreldris til að fara með forsjá er eitt af undirstöðuatriðunum en við mat á hæfi má m.a. hafa hliðsjón af meginreglunni um inntak forsjár. Ljóst þykir að tengsl barns við foreldri er oft lykilatriði við ákvörðun forsjár og er hér fyrst og fremst átt við jákvæð og uppbyggileg tengsl. Leggja verður áherslu á að ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Þetta á ekki einungis við um ofbeldi sem hefur beinst eða beinist að barninu sjálfu heldur einnig allt ofbeldi milli einstaklinga í nánum lífsamböndum á heimili barnsins, svo sem ofbeldi milli foreldra eða ofbeldi gagnvart systkini barnsins. Einnig þykir mikilvægt að árétta sérstaklega skyldu beggja foreldra til að tryggja rétt barns til umgengni. Þá er rétt að nefna vilja barns og minnt á að barn öðlast stigvaxandi rétt miðað við aldur og þroska. Markmiðið er ekki að auka ábyrgð barns á deilu foreldra heldur draga betur fram eitt af þeim mikilvægu sjónarmiðum sem nú þegar eru lögð til grundvallar.

Nánari reglur um málsmeðferð forsjár- og lögheimilismála fyrir dómi eru í VI. kafla barnalaganna og einkennast þær sérreglur sem gilda um þessi mál fyrst og fremst af því að um er að ræða persónuleg og oft viðkvæm málefni. Meginreglan er sú að með þessi mál skuli fara að hætti einkamálalaga en þó eru nokkur frávik frá almennum reglum vegna sérstaks eðlis þessara mála. Varða þau frávik m.a. áherslu á hraða málsmeðferðar, meiri afskipti dómara af gagnaöflun, rétt til að halda upplýsingum frá aðilum máls, lokun þinghalda og nafnleynd, svo nokkur atriði séu nefnd.

12. Afhending barns til forsjáraðila

Stundum kemur upp sú staða að sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það réttum forsjáraðila. Þetta getur t.d. gerst eftir að dómari hefur tekið ákvörðun um forsjá barns og það foreldri sem ekki fékk forsjána neitar að hlíta niðurstöðunni. Við þær aðstæður getur það foreldri sem fer með forsjá gert kröfu um það fyrir dómi að því verði afhent barnið. Ef sá sem barnið er hjá neitar að afhenda það þrátt fyrir úrskurð dómara þar um getur sýslumaður lagt á dagsektir sem geta numið allt að 30.000 krónum  á dag. Fjallað er nánar um dagsektir í 48. og 49. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Ef dagsektirnar nægja ekki til að fá barnið afhent getur komið til þess að sýslumaður þurfi að sækja það. Slíkt er ekki gert nema á grundvelli úrskurðar dómara. Ef til þessa kemur skal fulltrúi barnaverndarnefndar í umdæmi þar sem aðför fer fram alltaf vera viðstaddur til að gæta hagsmuna barnsins. Sýslumaður getur einnig leitað liðsinnis lögreglu til að sækja barn og skulu lögreglumenn þá vera óeinkennisklæddir. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fara varlega við beitingu slíks úrræðis þar sem það getur valdið börnum miklu álagi. Fjallað er um framkvæmd forsjárákvörðunar í 45. gr. barnalaga nr. 76/2003:

45. gr. Framkvæmd ákvörðunar um forsjá eða lögheimili. 
Ef sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það réttum forsjármanni getur héraðsdómari, að kröfu hans, ákveðið að lögheimili eða forsjá verði komið á með aðfarargerð. Við meðferð málsins ber dómara að gæta ákvæða 43. gr. og getur dómari hafnað aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga með tilliti til hagsmuna barns. Fer um málsmeðferð að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 13. kafla laga um aðför. 
Ef aðili sem barn dvelst hjá neitar þrátt fyrir úrskurð héraðsdómara að afhenda barnið eða veita upplýsingar, sem sýslumaður telur óhjákvæmilegar til framgangs gerðinni, getur sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda kveðið upp úrskurð um dagsektir, sbr. 48. gr. Skulu dagsektir ákvarðaðar fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar þar til barn er afhent gerðarbeiðanda eða umkrafðar upplýsingar veittar sýslumanni. Dagsektir renna í ríkissjóð. Ákvæði 48. og 49. gr. eiga við um dagsektir samkvæmt þessari grein.
Ef til aðfarar kemur skv. 1. mgr. skal sýslumaður boða fulltrúa barnaverndarnefndar í umdæmi þar sem aðför fer fram til að vera viðstaddan gerðina og skal hann gæta hagsmuna barns. Sýslumaður getur leitað liðsinnis lögreglu við gerðina og er lögreglu skylt að verða við slíkum fyrirmælum sýslumanns. Lögreglumenn skulu vera óeinkennisklæddir við gerðina. Framkvæmd aðfarar skal hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.

13. Forsjársvipting

Ef barnaverndarnefnd telur að foreldrar geti ekki með nokkru móti sinnt barni sínu á viðunandi hátt, þrátt fyrir þá aðstoð sem barn og foreldrar eiga rétt á hjá barnaverndarnefnd og öðrum aðilum þjóðfélagsins, getur komið til þess að svipta verði foreldri forsjá barnsins. Barnaverndarnefnd tekur ekki ákvörðun um forsjársviptingu heldur þarf nefndin að höfða mál um forsjársviptingu barns fyrir dómstóli. Eftir sviptingu forsjár getur barni verið komið fyrir í varanlegu fóstri. Um þetta er fjallað í 29. grein barnaverndarlaga nr. 80/2002:

29. gr. Forsjársvipting.
Barnaverndarnefnd er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur: 

   a. að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,
   b. að barni sem er sjúkt eða fatlað sé ekki tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennsla,
   c. að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,
   d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
 Kröfu um sviptingu forsjár skal því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
 Um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum X. kafla.

Nánari umfjöllun um barnavernd er að finna hér.

14. Umgengni

Barn á rétt til reglubundinnar umgengni við báða foreldra sína þótt þeir búi ekki saman og foreldrum er líka skylt að hafa samband við barn sitt nema slík umgengni teljist andstæð hag barns og þörfum. Þetta á við hvort sem forsjáin er sameiginleg eða aðeins hjá öðru foreldrinu. Meginreglan birtist í 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem segir:

46. gr. Umgengni við foreldri.
Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur.
Foreldri sem barn býr ekki hjá á í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
Foreldri sem nýtur umgengni er heimilt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni. Foreldri sem barn býr hjá ber að tryggja að foreldri sem nýtur umgengni fái nauðsynlegar upplýsingar til þess að umgengnin þjóni hag og þörfum barnsins.
Foreldrar geta samið um hvernig skipa skuli umgengnisrétti, þ.m.t. hvort greiði kostnað vegna umgengni, enda fari sú skipan ekki í bága við hag og þarfir barnsins.
Foreldrar geta óskað staðfestingar sýslumanns á samningi skv. 4. mgr. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings. Sýslumaður getur synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns.

Iðulega er rætt um umgengisrétt út frá rétti foreldris til að umgangast barn sitt en mikilvægt er að hafa það í huga að hér er fyrst og fremst um að ræða rétt barns til að umgangast báða foreldra sína. Því er um að ræða brot á þessum mikilvæga rétti barnsins þegar forsjárforeldri hamlar umgengni hins foreldrisins við barnið. Þessi mikilvægi réttur er einnig varinn samkvæmt 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Í 46. gr. a er fjallað um umgengni við aðra en foreldra. Umrætt ákvæði kom inn í barnalög með lögum nr. 61/2012. Það hljóðar svo:

46. gr. a Umgengni við aðra.
Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 3.–5. mgr. 46. gr. eiga við um umgengni skv. 1. mgr.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að réttur barns til að umgangast aðra en kynforeldra hafi verið rýmkaður með þessum hætti. Í umsögn sinni við frumvarpið sem síðar varð að lögum nr. 61/2012 tók umboðsmaður jafnframt fram að jafnvel væri ástæða til að ganga enn lengra og kveða á um heimild til þess að úrskurða um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra sem eru nákomnir barni, óháð því hvort foreldri umgangist barn reglulega eða ekki. Í því sambandi benti umboðsmaður á að börn geta bundist öðrum einstaklingum nánum tilfinningaböndum, svo sem stjúpforeldrum, ömmum og öfum eða fósturforeldrum. Má því ætla að það geti verið í samræmi við hagsmuni barns að úrskurða um umgengni við aðra en foreldra í ákveðnum tilvikum. Við slíka ákvörðun ætti vilji og tilfinningatengsl barns að ráða mestu þar um.

15. Ákvörðun um umgengni

Við skilnað foreldra skal ákveða hvernig umgengni við það foreldri sem barnið mun ekki búa hjá skuli háttað. Foreldrar geta samið um umgengnina sín á milli og geta jafnframt óskað eftir staðfestingu sýslumanns á þeim samningi en slíkt er þó ekki skylda. Staðfesting sýslumanns á samningi hefur fyrst og fremst þá þýðingu að fari foreldri sem barn býr hjá ekki eftir samningnum getur foreldrið sem á umgengnisréttinn óskað eftir því að þvingunarúrræðum verði beitt. Samkomulag foreldra um umgengni má þó ekki ganga gegn réttindum og þörfum barnsins og verða foreldrar, sem og aðrir, sem að málum þessum koma alltaf að hafa í heiðri það sem barninu er fyrir bestu.

Ef foreldrar geta ekki komið sér saman um hvernig umgengni skuli háttað er hægt að óska eftir úrskurði sýslumanns um málið. Úrskurð sýslumanns má kæra til ráðherra innan tveggja mánaða frá því að hann var kveðinn upp. Í 47. gr. barnalaganna er að finna ákvæði sem kveður á um úrskurð sýslumanns.

47. gr.
Ef foreldra greinir á um umgengni tekur sýslumaður ákvörðun um umgengni samkvæmt þessari grein með úrskurði. Ákvörðun skal ávallt tekin eftir því sem barni er fyrir bestu. Sýslumaður lítur m.a. til tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Þá ber sýslumanni að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Ef sýslumaður telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum þess getur hann kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.
Sýslumaður úrskurðar um inntak umgengnisréttar, skilyrði og hversu honum verði beitt. Sýslumaður getur einnig hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu.
Heimilt er þegar sérstaklega stendur á að úrskurða um umgengni allt að 7 daga af hverjum 14 dögum.
Þegar sérstök ástæða er til getur sýslumaður mælt svo fyrir í úrskurði að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna.
Sýslumaður getur breytt eða fellt úr gildi úrskurð eða samning um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu. Þá getur hann hafnað því að breyta ákvörðun um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu.
Þótt inntak umgengnisréttar hafi verið ákveðið með dómi eða dómsátt, sbr. 34. gr., hefur sýslumaður sömu heimildir til breytinga á þeirri skipan og hefði hún verið ákveðin með úrskurði hans.
Sýslumaður úrskurðar með sama hætti um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið. Leita skal umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.
Um meðferð mála samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum XI. kafla.

Í ofangreindu ákvæði er að finna helstu sjónarmiðin sem líta ber til við ákvörðun um umgengni. Þetta er þó ekki tæmandi talning. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003 má finna skýringar á þeim þáttum sem eiga að hafa áhrif á fyrirkomulag umgengni:

1. Tengsl barns við foreldra skipta miklu máli í sambandi við umgengni. Taka verður tillit til þess ef ekki er um fyrri tengsl að ræða og hafa sérstaklega í huga hæfileika barns til að mynda tengsl með hliðsjón af vitsmunaþroska. Ávallt ber að meta þörf barns fyrir umgengni með tilliti til fyrri sögu um umönnun og tengsl og gera má ráð fyrir rýmri umgengni þar sem barn hefur haft sterk og jákvæð tengsl við umgengnisforeldri.

2. Aldur barns skiptir umtalsverðu máli í sambandi við inntak og framkvæmd umgengni. Hér skiptir sköpum að byggja á þekkingu á þroska barna og mismunandi þörfum þeirra á ólíkum aldursskeiðum. Miklu máli skiptir geta eða þol barns á unga aldri til að vera aðskilið frá aðalumönnunaraðila sínum og til að takast á við breytingar á aðstæðum.

3. Stöðugleiki er almennt mjög mikilvægur fyrir þroska barns. Því yngri sem börn eru, því mikilvægara er að dagleg rútína, reglur og mörk séu með sambærilegum hætti hjá báðum foreldrum. Þá getur m.a. einnig skipt máli hvernig umgengni eða samskiptum hefur verið háttað áður en ágreiningur varð og hvaða rök eru fyrir því að gera breytingar.

4. Búseta foreldra getur skipt sköpum þegar ákveðið er inntak umgengni og hvernig umgengnisrétti skuli beitt. Sérstaklega verður að leggja áherslu á að almennt er talið að mjög rúm umgengni sé einungis barni fyrir bestu í þeim tilvikum þegar foreldrar búa nálægt hvort öðru.

5. Vilji barns að teknu tilliti til aldurs og þroska skiptir einnig mjög miklu máli. Þetta sjónarmið er í samræmi við ákvæði 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og önnur ákvæði laganna af sama meiði.

6. Ofbeldi og hætta á ofbeldi. Það er nýmæli að taka sérstaklega fram í lagaákvæðinu að sýslumanni beri að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi. Með sama hætti og á við um forsjá verður að leggja áherslu á að ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Mikilvægt er að sýslumaður meti áhrif þessa á hvort umgengni skuli vera til staðar, inntak umgengni og skilyrði fyrir því hvernig umgengnisrétti verði beitt þegar það á við.

7. Samskipti, ágreiningur og áhrif á barnið. Í ákvæðinu er einnig að finna það nýmæli að sýslumanni beri að líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Hér verður að leggja áherslu á að barn á fyrst og fremst rétt til umgengni sem er því til góðs, þ.e. umgengni sem hefur jákvæð og uppbyggileg áhrif á líf þess og þroska. Við skilnað, sambúðarslit og þegar foreldrar deila má alltaf gera ráð fyrir einhverjum erfiðleikum, spennu og jafnvel vanlíðan barns. Þá þarf að meta eðli og áhrif þessa á barnið, t.d. hvort um tímabundið ástand er að ræða, hversu djúpstæður ágreiningurinn er og hversu líklegt er að þetta muni hafa afgerandi áhrif á þroskavænleg lífsskilyrði barnsins.

Eins og áður sagði eru ofangreind sjónarmið ekki tæmandi. Sýslumaður metur þannig til viðbótar atriði eins og persónulega stöðu og aðstæður umgengnisforeldris. Í því sambandi getur t.d. reynt á ýmsar ytri aðstæður en einnig atriði eins og vímuefnaneyslu, geðræna sjúkdóma eða persónuleikatruflanir sem koma í veg fyrir að foreldri geti mætt grunnþörfum barns, stutt barnið á þroskabraut eða ráðið við nauðsynlega samvinnu og samskipti við aðra um barnið. Einnig þarf að meta t.d. stöðu barnsins og hugsanlegar sérþarfir og tengsl við systkini og aðra nákomna þegar það á við.

Í 1. mgr. er einnig tekið fram að sýslumaður geti kveðið á um að umgengnisréttar njóti ekki við ef hann telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum barnsins. Mikilvægt þykir að ákvæðið standi í tengslum við þá mælikvarða sem liggja til grundvallar mati á því hvað barni er fyrir bestu. Sambærilegt ákvæði er nú í 6. mgr. 47. gr. Sem fyrr er gert ráð fyrir að sterk rök liggi því til grundvallar að hafna umgengni en hér verða hagsmunir barns þó ætíð að ráða úrslitum.

Við mat sitt á því hversu mikil umgengni skuli vera og hvert inntak hennar skuli vera styðst sýslumaður einnig við þær verklagsreglur sem hafa myndast í framkvæmd en samkvæmt þeim telst það almennt vera lágmarksumgengni að barn dvelji aðra hverja helgi hjá því foreldri sínu sem það býr ekki hjá (þ.e.a.s. ef búseta aðila leyfir) nokkra daga um jól, áramót, páska og í sumarleyfi.

Rétt er að taka fram að sýslumaður getur úrskurðað á þann veg að barnið skuli ekki umgangast það foreldri sem ekki fer með forsjána við sérstakar aðstæður. Þær aðstæður geta verið uppi að það sé ekki gott fyrir barnið að umgangast foreldri sitt, t.d. ef það hefur gerst sekt um ofbeldi gagnvart barninu. Þá getur sýslumaður einnig úrskurðað um að umgengni skuli fara fram undir eftirliti eða tilsjón barnaverndarnefndar. Þetta á helst við í tilvikum þar sem ekki er öruggt að nógu vel fari um barn hjá umgengnisforeldri eða þegar miklar deilur og jafnvel átök eru milli foreldra þegar barn er sótt eða því skilað. Þegar talað er um umgengni undir eftirliti er oftast átt við að starfsmaður barnaverndarnefndar sé viðstaddur þegar umgengni fer fram en þegar talað er um tilsjón með umgengni er venjulega átt við að starfsmaður barnaverndarnefndar (eða einhver annar) hafi milligöngu þegar umgengni fer fram, sjái t.d. um að sækja barn og skila við upphaf og lok umgengni.

16. Þegar foreldrar virða ekki umgengnisrétt

Ef það foreldri sem barn býr hjá kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns sem hefur verið ákveðin með úrskurði eða staðfestum samningi foreldra getur sýslumaður lagt dagsektir á foreldrið sem hindrar umgengni. Sýslumaður leggur aðeins á dagsektir ef það foreldri sem ekki fær notið umgengni við barn sitt krefst þess. Dagsektir fela það í sér að lagðar eru sektir á það foreldrið sem tálmar umgengni og þarf það að greiða tiltekna fjárhæð fyrir hvern dag sem líður frá því að sýslumaður úrskurðar þær og þar til hætt er að hindra umgengni. Dagsektir eru ekki refsing heldur aðeins tæki til að þvinga fram umgengni. Þess vegna falla þær niður ef umgengni fer fram því þá hafa þær náð tilgangi sínum. Samkvæmt barnalögum geta fjárhæðir numið allt að 30.000 kr. á dag.

Ef foreldri sem barn býr hjá heldur áfram að hindra umgengni þrátt fyrir dagsektir getur dómari ákveðið að umgengni verði komið á með þeim hætti að barn sé tekið úr umsjá foreldrisins sem það býr hjá og fært umgengnisforeldrinu. Ef til þessa kemur skal barnaverndarnefnd vera viðstödd og aðstoða barn. Ef þörf er á lögregluaðstoð skulu lögreglumenn vera óeinkennisklæddir. Um þvingunarúrræði er fjallað í 48.- 50.gr. barnalaga nr. 76/2003:

48. gr. Dagsektir til að koma á umgengni.
Umgengni við barn samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra, staðfestum af sýslumanni, verður þvinguð fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt við barnið að neyta hans. Sýslumaður getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn skv. 1. mgr., skyldað þann sem með forsjá barnsins fer til að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum allt að 30.000 kr. fyrir hvern dag. Dagsektir verða ekki lagðar á fyrir lengra tímabil en 100 daga í senn. Dagsektir verða ekki lagðar á fyrr en að liðnum kærufresti skv. 78. gr. eða að gengnum úrskurði dómsmálaráðuneytis hafi úrskurður sýslumanns um umgengni verið kærður. Hafi umgengni verið ákveðin með héraðsdómi verða dagsektir ekki lagðar á fyrr en að liðnum áfrýjunarfresti eða að gengnum dómi Hæstaréttar.
Sýslumaður getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn skv. 1. mgr., úrskurðað að dagsektir falli ekki niður fyrr en látið hafi verið af tálmunum og að umgengni hafi farið þrisvar fram undir eftirliti sérfræðings í samræmi við gildandi skipan á umgengni. Sýslumaður getur frestað því í allt að sex vikur að taka afstöðu til kröfu um dagsektir ef sérstaklega stendur á. Um meðferð þessara mála fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XI. kafla.
Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til látið er af tálmunum eða ef aðför til að koma umgengni nær ekki fram að ganga.
Áfallnar dagsektir falla niður þegar sýslumaður telur að látið hafi verið af tálmunum.
Dagsektarkrafa fyrnist á einu ári. Fyrningarfrestur telst frá uppkvaðningu úrskurðar.

49. gr. Fjárnám fyrir dagsektum.
Gera má fjárnám fyrir dagsektum samkvæmt kröfu þess sem tálmað er að njóta umgengnisréttar og renna þær í ríkissjóð.
Kröfu skal beint til sýslumanns sem sér um að beina greiðsluáskorun til gerðarþola. Ef gerðarþoli lætur ekki af tálmunum sendir sýslumaður aðfararbeiðni til héraðsdóms. Að fenginni áritun héraðsdómara ákveður sýslumaður svo fljótt sem verða má hvar og hvenær fjárnám fari fram og tilkynnir gerðarbeiðanda og gerðarþola um ákvörðun sína. Ekki verður af fjárnámi nema gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur gerðina.
Ákvæði þetta gildir einnig um aðrar fullnustugerðir eftir því sem við á. Um aðför til að koma á umgengni gildir þó ákvæði 50. gr., sbr. 45. gr.
Um meðferð máls og framkvæmd fullnustugerða samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði aðfararlaga eða laga um viðeigandi fullnustugerðir.
Ekki skal greiða gjald í ríkissjóð eða kostnað vegna meðferðar kröfu samkvæmt þessari grein

50. gr. Umgengni komið á með aðför.
Tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum getur héraðsdómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, heimilað að henni verði komið á með aðfarargerð.
Dómari getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð.
Ekki verður af aðför nema gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur gerðina.
Um meðferð máls og framkvæmd aðfarar gilda að öðru leyti ákvæði 45. gr.

Talsverðar umræður hafa verið um þvingunarúrræði gagnvart því foreldri sem ekki rækir umgengnisskyldur sínar við barn. Það að foreldri neiti að umgangast barn sitt hefur mikil áhrif á barnið og getur markað það fyrir lífstíð en þó hefur ekki verið talið rétt að kveða á um þvingunarúrræði í lögum við þessar aðstæður. Slík þvinguð umgengni foreldris og barns, sem foreldrið hefur ekki áhuga á, er almennt ekki talin möguleg og ekki holl barninu.

17. Umgengni annarra en foreldra

Í 46. gr. a barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um umgengni annarra en foreldra við barn. Þar segir að ef annað foreldrið er látið eða bæði, eða foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn, þá geti nánir vandamenn þess foreldris krafist úrskurðar sýslumanns um umgengni þeirra við barn, sbr. 3. mgr. 47. gr. Slíkur úrskurður getur síðan verið grundvöllur fyrir álagningu dagsekta eða beinni aðfarargerð, sbr. umfjöllun hér að framan.

Þegar litið er til þess hverjir teljist til náinna vandamanna samkvæmt ákvæðinu væri einkum horft til afa og ömmu barns en aðrir ættingjar og venslamenn geta líka komið til greina. Ákvæðið á við ef annað foreldra barns er látið, eða bæði, en einnig ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar, t.d. vegna vanhæfni eða langvarandi dvalar erlendis. Það að foreldri sem býr erlendis hafi síma- og/eða bréfasamband við barn leiðir ekki sjálfkrafa til þess að ekki komi til álita að ákveða umgengni þess við t.d. afa og ömmu. Verður að koma til mat á hagsmunum barnsins áður en ákveðið er á um hvort umgengni afa og ömmu eða eftir atvikum annarra, kemur til greina þegar svo stendur á.

Í athugasemdum með frumvarpi til barnalaga er lögð áhersla á að ákvæði um umgengni barns og foreldra annars vegar og umgengni barns og náinna vandamanna hins vegar horfa ólíkt við. Í fyrra tilvikinu á barn rétt á umgengni við foreldri og foreldri rétt á umgengni við barn sitt, auk þess sem því ber skylda til að rækja umgengnina. Nálgast má viðfangsefnið með því að segja að umgengni barns og foreldris skuli njóta við nema sýnt sé fram á að það sé barni fyrir bestu að hennar njóti ekki við eða hún sé takmörkuð. Þegar vandamenn barns eiga í hlut er ekki um að ræða að viðkomandi eigi sjálfstæðan rétt á umgengni við barn samkvæmt framansögðu heldur hitt að viðkomandi geti krafist ákvörðunar um umgengni með hliðsjón af og háð því hvað barninu kemur best þegar svo stendur á að foreldri getur ekki rækt umgengni eða umgengni foreldris og barns er takmörkuð.

18. Fyrirhugaður flutningur barns úr landi

Í 51. gr. barnalaga er kveðið á um það að þegar foreldri á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins hvort sem er innan lands eða utan. Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr. 28. gr. a.

Í 51. gr. a barnalaga er fjallað um ágreining um utanlandsferðir barna. Þar segir að ef foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns greinir á um utanlandsferð barns úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um rétt til að fara með barn úr landi. Við mat á úrlausn máls skal sýslumaður m.a. horfa til tilgangs ferðar, tímalengdar og áhrifa á umgengni.

19. Upplýsingar um barn

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá hinu foreldrinu eða nánar greindum stofnunum, stjórnvöldum eða sérfræðingum. Þessi regla kemur fram í 52. gr. barnalaga nr. 76/2003:

52. gr. Réttur til upplýsinga um barn.
 Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu munnlegar upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.
 Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.
 Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn.
 Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til dómsmálaráðuneytis.
 Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 78. gr.

Ákvæðið á ekki við um sameiginlega forsjá þótt barn dveljist aðeins hjá öðru foreldri um hríð, enda skera forsjárreglur þá úr um aðgang að þessum upplýsingum. Ákvæðið miðast við það að forsjárlausa foreldrið óski eftir upplýsingunum og er ekki gert ráð fyrir að forsjárforeldri eigi frumkvæði að því að skýra hinu frá högum barns. Slík skylda getur þó hvílt á foreldri í skjóli almennra reglna um forsjá og foreldraábyrgð, t.d. ef barn verður sjúkt eða lendir í slysi, er sakað um refsivert brot eða hverfur. Samkvæmt skýringum í greinargerð með ákvæðinu er aðeins átt við munnlegar upplýsingar en ekki bréfleg gögn eða ljósrit af þeim.

Í 2. mgr. ákvæðisins eru taldar upp nokkrar stofnanir, stjórnvöld og sérfræðingar á sviði heilsugæslu og félagsmála sem skulu veita forsjárlausa foreldrinu upplýsingar um barn, en þessi talning er ekki tæmandi. Þá er ákvæðið ekki einskorðað við opinberar stofnanir eða stjórnvöld, læknar eða tannlæknar sem reka eigin stofur falla t.d. hér undir, svo og barnaheimili eða skólar sem reknir eru af öðrum en hinu opinbera. Um barnaheimili skiptir ekki máli hvort það sé starfrækt allan ársins hring eða t.d. aðeins á sumrin. Ungmennafélög og klúbbar, s.s. íþróttafélög og skátafélög falla utan marka þessa ákvæðis. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða starfsmenn á stofnun skuli veita umbeðnar upplýsingar. Það fer eftir reglum sem um stofnunina gilda. Eðlilegast er t.d. að leikskólastjóri gefi upplýsingarnar eða forstöðumaður deildar sem barn dvelst á. Heppilegast er að forstöðumaður sjúkradeildar (yfirlæknir, yfirhjúkrunarfræðingur) fjalli um mál eða a.m.k. sé samráð haft við hann í öllum vafatilvikum. Hliðstæðar athugasemdir eiga við um aðrar stofnanir og starfsmenn.

Réttur forsjárlauss foreldris til að fá upplýsingar um barn sitt felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Það leiðir beinlínis af tilganginum með ákvæðinu sem er að greiða fyrir vitneskju um hagi barns.

Fái forsjárlaust foreldri ekki þær upplýsingar sem það telur sig eiga rétt á getur það skotið málinu til sýslumanns og óskað eftir úrskurði hans. Þetta verður að gerast innan tveggja mánaða frá því ákvörðun um synjun var kynnt forsjárlausa foreldrinu. Samkvæmt 5. mgr. fyrrgreinds ákvæðis getur forsjárforeldrið óskað eftir því að sýslumaður svipti hitt foreldrið almennum rétti til að fá upplýsingar um hagi barns. Ákvæðið, sem sett er til verndar forsjárforeldri og barninu, á við ef um bersýnilega misnotkun er að ræða. Getur hún falist í því að foreldrið, sem í hlut á, spyrji í þaula um hagi barnsins og baki heimilinu veruleg óþægindi sem bitni oft á barninu. Enn fremur má vera að misfarið sé með upplýsingar og þær notaðar í annarlegum eða andfélagslegum tilgangi. Oftast mundi þetta vera þáttur í miklum fjölskylduerjum þar sem heimilisfriði er stefnt í voða. Ákvörðun sýslumanns er kæranleg til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins skv. 74. gr. barnalaga. Ef úrskurður gengur um sviptingu réttar til að fá upplýsingar skv. 5. mgr. þarf að koma fræðslu um hann á framfæri við stofnanir þær, stjórnvöld eða sérfræðinga er greinir í 2. mgr. eftir því sem tök eru á, t.d. við barnaheimili þar sem barn dvelst eða skóla sem barn gengur í. Að jafnaði hvílir tilkynningarskylda um úrskurði sýslumanns á forsjárforeldrinu en tilkynning gæti þó komið í hlut sýslumanns að ósk forsjárforeldris ef sérstaklega stendur á.

20. Réttur barna til að tjá sig

Í barnalögum er lögð rík áhersla á að hlustað sé eftir skoðunum barnanna sjálfra. Þetta á við í samskiptum foreldra og barna almennt og ekki síður þegar kemur að því að úrskurða um mál sem snerta börnin, hvort sem er í tengslum við forsjá eða umgengni. Samráðsrétturinn hefur verið styrktur í sessi á síðustu árum og hefur umboðsmaður barna lagt höfuðáherslu á þann rétt barna að fá að tjá sig um mál sem þau snerta og að tekið skuli tillit til skoðana þeirra í samræmi við þroska. Þessi mikilvægu réttindi barnanna til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir um líf sitt er tryggður í 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir: 

12. gr. Virðing fyrir sjónarmiðum barnsins
Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.

Í 6. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um skyldu foreldra til að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Þá segir í nefndri grein að afstaða barns skuli fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast. Í samráðsrétti felst annars vegar að foreldrum ber að hafa barnið með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar í persónulegum málum þess. Hins vegar felst í samráðsréttinum viðurkenning þess að barn eigi rétt til að hafa eigin skoðanir, rétt til að láta þær í ljós og rétt til að foreldrar hlusti á þær.

Þegar kemur að því að stjórnvöld úrskurði um forsjá eða umgengni er lögð áhersla á að hlusta eftir skoðunum barnanna sjálfra. Um þetta er fjallað í 43. gr. laganna sem er svohljóðandi:

43. gr. Réttur barns til að tjá sig um mál o.fl.
Veita skal barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig um mál nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Dómari getur falið sérfróðum manni að kynna sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það samkvæmt ákvæðum 42. gr. Þegar sérfróður maður hefur ekki verið dómkvaddur getur dómari falið sérfræðingi að kynna sér viðhorf barns og gefa skýrslu um það.
Dómari getur ákveðið að öðrum málsaðila eða báðum sé óheimilt að vera viðstaddur er hann kannar viðhorf barns. Sérfróður maður, sem dómari hefur falið að kanna viðhorf barns, hefur sömu heimildir.
Kynna skal aðilum hvað fram hafi komið um afstöðu barns. Ef aðilum er ekki veittur aðgangur að skýrslu um afstöðu barns skal bókað um það hvaða upplýsingar þeim voru veittar.
Ef þörf er á skal dómari tilkynna til barnaverndarnefndar um aðstæður barns. Ber barnaverndarnefnd að taka málið til meðferðar á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga og beita viðeigandi úrræðum til stuðnings barni þegar það á við.

Í ákvæðinu er ekki miðað við ákveðinn aldur barnsins, heldur skal meta þroska þess í hverju og einu tilfelli.

21. Framfærsla barna

Foreldrum ber að framfæra barn sitt og skal framfærslan miðast við hagi foreldra og þarfir barns. Ákvæði um framfærslu barna eru í IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Með skyldu til framfærslu er átt við að foreldrum sé skylt að tryggja velferð barns, fæða það og klæða og sjá því fyrir húsnæði. Einnig falla innan framfærsluskyldu foreldra framlög sem nauðsynleg teljast vegna menntunar barns og eðlilegrar þátttöku þess í menningar- og félagslífi, eftir því sem aðstæður leyfa. Stjúpforeldri og sambúðarforeldri ber líka skylda til að framfæra barn maka síns en sú framfærsluskylda er aðeins virk meðan hjúskapur eða sambúð við foreldri barns varir og einungis ef viðkomandi fer með forsjá barnsins ásamt foreldri þess skv. 29. gr. a. hið sama á við ef stjúp- eða sambúðarforeldri fer með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit ef annað kynforeldra barns er látið.

Framfærsluskyldu foreldra lýkur þegar barn verður 18 ára. Ef barn giftist áður en það verður 18 ára fellur framfærsluskyldan þó niður nema sýslumaður ákveði að hún skuli haldast til 18 ára aldurs.

22. Meðlag

Sá sem stendur straum af framfærslu barns getur krafist meðlags en viðkomandi verður að fara með forsjá þess eða barnið að búa hjá honum með lögmætum hætti. Barnið sjálft getur ekki farið fram á að sér verði greitt meðlag. Meðlagið tilheyrir þó barninu en það er sá sem annast framfærslu þess sem tekur við meðlagsgreiðslunum og notar til framfærslu barnsins.

Foreldrar verða að ákveða meðlagsgreiðslur við skilnað, slit skráðrar sambúðar og þegar breytingar á forsjá eru gerðar. Þetta á við hvort sem forsjá er sameiginleg eða í höndum annars foreldris. Ef foreldrar semja um meðlagsgreiðslur er nauðsynlegt að sýslumaður staðfesti samninginn svo að hann öðlist gildi. Ef ekki næst samkomulag um meðlag úrskurðar sýslumaður um skyldu foreldris til greiðslu meðlags. Ef foreldrar eru með sameiginlega forsjá getur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá (og barnið býr að jafnaði hjá) krafist þess að hinu foreldrinu verði gert að greiða meðlag.

Í lögum um almannatryggingar er mælt fyrir um fjárhæð barnalífeyris og er einfalt meðlag sama upphæð. Barnalífeyrir er greiddur móður þegar ekki hefur tekist að feðra barn og koma þær greiðslur úr ríkissjóði. Foreldrar mega ekki semja um lægri upphæð en sem nemur upphæð barnalífeyris á hverjum tíma. Þá má sýslumaður aldrei úrskurða um lægra meðlag en sem nemur einföldu meðlagi.

Foreldrar geta samið um hærra meðlag en einfalt og einnig getur sýslumaður, að kröfu lögheimilisforeldris, úrskurðað um aukið meðlag. Það þýðir að lagt er fyrir hitt foreldrið að greiða hærri fjárhæð til framfærslu barns síns en nemur einföldu meðlagi. Ef gerð er krafa um aukið meðlag á að ákveða fjárhæð meðlagsins með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Þannig er t.d. tekið tillit til þess ef meðlagsgreiðandi hefur fyrir öðrum eigin börnum að sjá. Á hinn bóginn er almennt ekki tekið sérstakt tillit til þess ef meðlagsgreiðandi hefur á heimili sínu stjúpbörn enda er greitt meðlag með þeim af foreldri þeirra. Þá hafa eignir og skuldir meðlagsgreiðanda venjulega lítil áhrif við ákvörðun meðlagsfjárhæðar en slíkt kemur helst til álita ef eignir eða skuldir eru verulega umfram það sem venjulegt getur talist eða ef til óhjákvæmilegra skulda hefur verið stofnað. Þá er líka litið til aðstæðna barnsins sjálfs og þess foreldris sem það býr hjá og geta t.d. aukin útgjöld vegna sérþarfa eða veikinda barns eða skert aflahæfi foreldris, t.d. vegna umönnunar barns, skipt máli við ákvörðun meðlagsfjárhæðar.

Hér á vef sýslumanna eru nánari upplýsingar um meðlagsgreiðslur.

23. Sérstök framlög

Samkvæmt 60. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur sýslumaður úrskurðað þann sem er meðlagsskyldur til að greiða sérstakt framlag vegna útgjalda við ýmis tilefni. Nokkur dæmi eru talin upp í ákvæðinu en sú upptalning er ekki tæmandi. Þessi sérstöku framlög koma til viðbótar meðlagsgreiðslum en alls ekki í þeirra stað.

60. gr. Úrskurður vegna sérstakra útgjalda.
Heimilt er að úrskurða þann sem meðlagsskyldur er til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
Framlag skv. 1. mgr. verður því aðeins úrskurðað að krafa um það sé uppi höfð við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög samkvæmt þessari grein.

Sérstakt tilefni, sem ekki er nefnt í ákvæðinu en gæti fallið hér undir er t.d. kostnaður sérkennslu vegna námserfiðleika barns. Sýslumaður metur í hverju tilfelli hvort útgjöld verði talin falla undir ákvæðið.  Forsjárforeldri verður að gera kröfu um greiðslu vegna sérstakra útgjalda innan þriggja mánaða frá því að greiðsla fór fram, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með hana. Kröfuna skal leggja fyrir sýslumann.

Innanríkisráðuneytið gefur út leiðbeiningar um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og er þessar upplýsingar að finna hér á vef sýslumanna.

24. Menntunarframlag

Almennt lýkur framfærsluskyldu foreldra þegar barn verður 18 ára en þó er heimild í 62. gr. barnalaga til að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar. Barnið sjálft setur fram kröfu um slíkt framlag og ber hana upp við sýslumann sem úrskurðar um málið. Sýslumaður getur úrskurðað foreldri til að greiða barni sínu menntunar- eða starfsþjálfunarframlag þar til barnið nær 20 ára aldri. Framlagið tilheyrir barninu sjálfu. Við mat á því hvort menntunarframlag verður úrskurðað skal líta til aðstæðna barnsins og foreldris og meta þær. Í 61. og 62. gr. barnalaga nr. 76/2003 er að finna ákvæði um lok framfærsluskyldu og menntunarframlag.

61. gr. Lok framfærsluskyldu.
Framfærsluskyldu lýkur er barn verður 18 ára.
Skyldu til greiðslu meðlags lýkur fyrir þann tíma ef barn gengur í hjúskap nema sýslumaður ákveði annað.

62. gr. Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar.
Þrátt fyrir ákvæði 61. gr. er heimilt að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt kröfu þess frá 18 ára aldri og allt til þess er það nær 20 ára aldri. Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. á hér við að sínu leyti.
Sýslumaður getur breytt úrskurði skv. 1. mgr. ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldris eða barns hafi breyst.

25. Stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur

Tryggingastofnun ríkisins (TR) sér um eða hefur milligöngu um ýmsar greiðslur vegna barna og ungmenna og sinnir leiðbeiningaþjónustu í tengslum við þessar greiðslur. Á vefsíðu stofnunarinnar, undir liðnum Barnafjölskyldur er að finna ítarlegar upplýsingar um barnalífeyri, meðlag, umönnunargreiðslur og aðrar greiðslur vegna barna. 

26. Áhrif erfiðra breytinga í fjölskyldunni á börn

Börn ráða ekki yfir þeim varnarháttum sem fullorðnir nota undir álagi. Viðbrögð barns við áföllum og álagi fara einkum eftir því hvernig fyrirmyndir þess, þ.e. foreldrarnir, bregðast við erfiðleikunum, hvort sem þau takast á við vandann eða flýja hann.  Foreldrar og uppalendur geta gert mikið gagn með því að kynna sér hvað álagsþættir og breytingar geta haft í för með sér fyrir barnið, miðað við aldur þess og þroska, og nýta sér þá þekkingu til að hjálpa barninu að aðlagast breytingum. Handleiðsla foreldra eða annarra nákominna sem leitað hafa faglegrar ráðgjafar eða lesið sér til um sálræna og félagslega erfiðleika barna getur skipt sköpum hvað varðar andlega heilsu barnsins þegar fram í sækir. Þá er oft gagnlegt fyrir foreldra sem eiga í samskiptavanda að þiggja ráðgjöf fagfólks til að leysa mál sín, með hagsmuni barnsins í huga.

27. Ábyrgð hinna fullorðnu

Ábyrgðin á því að börn fái notið réttinda sinna hvílir fyrst og fremst á foreldrum eða þeim sem fara með forsjá barnanna. Foreldrum ber að vernda börn sín og hlífa þeim við því að lenda á milli í deilum og ósætti. Þó að mikilvægt sé að taka tillit til vilja barna og að börn á unglingsaldri eigi að hafa afgerandi áhrif á það hvernig forsjá, lögheimili og umgengni er háttað er það alltaf foreldranna að taka þessar ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim. Sem betur fer tekst flestum foreldrum að taka ákvarðanir um málefni barna sinna í sátt og án þess að setja börn sín í tryggðarklemmu og valda þeim þannig vanlíðan. Börnin eiga rétt á því að foreldrar þeirri axli þá ábyrgð sem felst í því að vera foreldri, hvort sem viðkomandi fer með forsjá eða ekki.

Allir í samfélaginu þurfa jafnframt að hjálpast að að veita börnum sem best uppeldisskilyrði með því að sýna stöðu þeirra skilning. Börn tilheyra mismunandi fjölskyldugerðum þar sem tilfinningatengsl geta verið flókin. Mikilvægt er að virða rétt barna til að viðhalda tilfinningatengslum við nána aðstandendur hvort sem þau tengjast þeim blóðböndum eða ekki. Þá má í lokin nefna ábyrgð aðila á vinnumarkaði á því að tryggja foreldrum á vinnumarkaði ákveðinn sveigjanleika til að sinna foreldraskyldum sínum.

28. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Fjölskylduráðgjöf sveitarfélaga
Flest stærri sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Nánari upplýsingar má nálgast  á vefsíðum sveitarfélaganna. Í Reykjavík fer þessi þjónusta fram á þjónustumiðstöðvunum.

Fjölskyldumiðstöðin
Fjölskyldumiðstöðin býður foreldrum ráðgjafar- og meðferðarstarf síðdegis og á kvöldin. Að Fjölskyldumiðstöðinni standa Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, Þjónustumiðstöðvar í Reykjavík, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Starfið er tvíþætt; fyrir börn/unglinga annars vegar og foreldra/forsjáraðila hins vegar. Fjölskyldumiðstöðin er ekki lengur starfandi.

Sýslumenn
Sýslumaður getur boðið aðilum forsjár-, lögheimilis-, umgengnis- og dagsektarmála sérfræðiráðgjöf. Markmið með sérfræðiráðgjöf er að leiðbeina aðilum með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sá sem veitir ráðgjöf getur rætt við barn, sem mál varðar, telji hann það þjóna hagsmunum þess. Á sameiginlegum vef sýslumanna er hægt að nálgast upplýsingar um verkefni sýslumanna og einstök embætti.

Foreldrahús
Foreldrahús starfrækir fjölskylduráðgjöf þar sem boðið er upp á fjölskylduviðtöl, einkaviðtöl og hjónaviðtöl. Foreldrasíminn er opinn allan sólarhringinn og foreldrum og öðrum aðstandendum er ávallt velkomið að hringja. Síminn er 581-1799.  Nánari upplýsingar á vefsíðu Vímulausrar æsku.

Fjölskylduþjónusta kirkjunnar
Þjónusta við hjón, fólk í sambúð, fjölskyldur og einstaklinga sem finnst þeir vera í einhvers konar vanda í samskiptum við sína nánustu. Nánari upplýsingar á vefsvæði Fjölskylduþjónustunnar.

Samtökin Barnaheill – Save the Children á Íslandi
Barnaheill veita símaráðgjöf þar sem hægt er að leita upplýsinga um réttindi barna.  Sími samtakanna er 553 5900 en einnig má senda fyrirspurnir á barnaheill@barnaheill.is.

Kvennaráðgjöfin
Kvennaráðgjöfin býður konum og körlum upp á ókeypis félagslega og lögfræðilega ráðgjöf í síma 552-1500 á þriðjudögum kl. 20-22 og á fimmtudögum kl. 14-16.

Sjónarhóll
Þjónustumiðstöðin veitir foreldrum barna með sérþarfir stuðning og ókeypis ráðgjöf um möguleika og úrræði í kerfinu. Nánari upplýsingar á vefsvæði Sjónarhóls.

SÁÁ
Sálfræðiþjónusta SÁÁ er fyrir börn á aldrinum 8 tl 18 ára sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- eða vímuefnavanda. Foreldrar, forsjáraðilar eða stofnanir í umboði þeirra geta haft samband í s. 530 76 00 og pantað tíma fyrir börnin. Sjá nánar um þjónustuna á síðu SÁÁ.

Ýmsir einkaaðilar sinna sálfræðimeðferð, félagsráðgjöf og fjölskylduráðgjöf, sjá t.d. í gulu síðum símaskrárinnar.

29. Tillögur að lesefni

 • Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal. Barnasálfræði frá fæðingu til unglingsára. Reykjavík. 1995.
 • Benedikt Jóhannsson. Börn og skilnaður. Reykjavík. 1996.
 • Berghildur Erla Bernharðsdóttir: „Ljáðu mér eyra - Börn og áföll” í Uppeldi, 5. tbl. 14. árg, bls. 34-40.
 • Bragi Skúlason: Sorg barna. 1994.
 • Christophersen ER, Mortweet SL. Uppeldisbókin : að byggja upp færni til framtíðar. Gyða Haraldsdóttir og Matthías Kristianse þýddu. Reykjavík. 2004.
 • Gossen, Diane. Barnið mitt er gleðigjafi. Fanny Kristín Tryggvadóttir og Magni Hjálmarsson þýddu. Álftanes. 2008. 
 • Guðný Björk Eydal. „Sorg barna” í Uppeldi, 4. tbl. 9. árg, bls. 37 - 40.
 • Huebner, Dawn. Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? Hvað get ég gert þegar reiði tekur völdin? Hvað get ég gert við of mikla neikvæðni? Árný Ingvarsdóttir og Thelma Gunnarsdóttir sálfræðingar þýddu þessar bækur sem henta börnum. Vefsíða: hvadgeteggert.is.
 • Manniche, Vibeke. Bókin um barnið. Meðganga, fæðing og fyrstu sex ár barnsins. Reykjavík. 1997.
 • Missir.is er gagnasafn um sorgarferli, dauða og erfiða lífsreynslu, ætlað almenningi og fagfólki.
 • Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd.  Á vefsíðu RBF er að finna yfirlit yfir rannsóknir sem hafa verið unnar eða verið er að vinna að við félagsráðgjafarskor HÍ varðandi börn og ungmenni.
 • Sigrún Júlíusdóttir og Sólveig Sigurðardóttir. Eftir skilnað. Um foreldrasamstarf og kynslóðatengsl. Reykjavík 2013.
 • Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir. Áfram foreldrar. Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra. Reykjavík. 2000.
 • Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir. Ungmenni og ættartengsl. Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna. Reykjavík 2008.
 • Sæmundur Hafsteinsson í samvinnu við Jóhann Inga Gunnarsson. Lengi muna börnin. 102 atriði til umhugsunar fyrir foreldra. Reykjavík. 1995. Efni bókarinnar má finnar á vef Foreldrahúss.
 • Sæunn Kjartansdóttir: Árin sem engin man. Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Reykjavík. 2009.
 • Verndum bernskuna er bæklingur með góð ráð fyrir foreldra og uppalendur.

Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.