Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Barnavernd

Kaflar:

 1. Réttur til verndar 
 2. Helstu lög um vernd barna og skipulag barnaverndar
 3. Barnaverndarnefndir
 4. Tilkynningar til barnaverndar 
 5. Hvenær á að tilkynna?
 6. Hvað gerir barnaverndin?
 7. Samskipti barna og barnaverndar
 8. Kvartanir vegna barnaverndarnefnda
 9. Ábyrgð hinna fullorðnu
 10. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til verndar

Óhætt er að fullyrða að foreldrahlutverkið er ábyrgðarmesta hlutverk sem nokkur einstaklingur tekst á hendur í lífinu. Það er foreldranna að veita börnum sínum ást, hvatningu, viðurkenningu og kærleiksríkt aðhald. Börn eiga rétt á vernd gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi og gegn vanrækslu. Börn eiga líka rétt á aðstoð ef þeim líður illa og eru hættuleg sjálfum sér og öðrum. Barnavernd snýst um aðstoð við börn sem búa við óviðunandi aðstæður heima hjá sér eða eru talin stofna heilsu sinni og þroska í hættu. 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til verndar gegn hvers konar ofbeldi. Í 19. grein Barnasáttmálans segir:

1. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni. 

2. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt:„Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

2. Helstu lög um vernd barna og skipulag barnaverndar

Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um inntak forsjár og skyldur foreldra. Í 2. og 3. mgr. segir: 

Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. 
Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Til eru sérstök lög um vernd barna, barnaverndarlög nr. 80/2002. Markmið þeirra er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Einnig hefur verið settar nokkrar reglugerðir með stoð í barnaverndarlögum, sjá listann hér til hægri.

Félags- og húsnæðismálaráðherra í velferðarráðuneytinu fer með yfirstjórn barnaverndarmála en Barnaverndarstofa annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlög ná til. Barnaverndarnefndir sveitarfélaganna sinna barnavernd í sínum umdæmum. Hægt er að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda og nokkrum ákvörðunum Barnaverndarstofu til kærunefndar barnaverndarmála.

3. Barnaverndarnefndir
Barnaverndarnefndir eru pólitískt kjörnar nefndir í sveitarfélögum en víða starfa fagaðilar eins og t.d. félagsráðgjafar eða sálfræðingar fyrir nefndirnar. Hlutverk þeirra er skilgreint í 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:

Hlutverk barnaverndarnefnda er eftirfarandi:
1. Eftirlit. Barnaverndarnefndir skulu kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.
2. Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.
3. Önnur verkefni. Barnaverndarnefndir hafa með höndum önnur þau verkefni sem þeim eru falin í þessum lögum og öðrum lögum. Heimilt er sveitarstjórn að fela barnaverndarnefndum frekari verkefni sem varða aðstæður barna og ungmenna í umdæmi hennar.
Skylt er barnaverndarnefnd að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum þessara laga ef nauðsyn ber til.

Í 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um meginreglur barnaverndarstarfs:

Í barnaverndarstarfi skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.
Í störfum sínum skulu barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til.
Barnaverndarstarf skal stuðla að stöðugleika í uppvexti barna.
Barnaverndaryfirvöld skulu leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu.
Barnaverndaryfirvöld skulu í störfum sínum leitast við að hafa góða samvinnu sín á milli og við aðrar stofnanir sem fjalla um málefni barna.
Barnaverndaryfirvöld skulu í störfum sínum og öllum ákvörðunum gæta samræmis og jafnræðis.
Barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Allir þeir sem vinna að barnavernd skulu gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af.

Nánari upplýsingar um starfsemi barnaverndarnefnda eru á heimasíðu Barnaverndarstofu, en hún hefur umsjón og eftirlit með starfsemi barnaverndarnefnda á landinu. 

4. Tilkynningar til barnaverndar

Til að barnaverndarnefndir geti aðstoðað börnin þarf þeim að berast tilkynning um að grunur leiki á um að barn búi við óviðunandi aðstæður eða að það stefni sjálfu sér í hættu. Í IV. kafla barnaverndarlaga er fjallað um skyldur manna að tilkynna barnaverndarnefnd ef þeir verða þess vísir að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess sé svo áfátt að barninu geti stafað hætta af. Þessi skylda hvílir á okkur öllum. Sérstakar skyldur hafa þeir sem stöðu sinnar vegna eru líklegir til að þekkja til aðstæðna barna að gera barnaverndarnefnd viðvart. Þetta segir í 16. og 17. gr. barnaverndarlaga:

16. gr. Tilkynningarskylda almennings.
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.
Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, náms- og starfsráðgjöfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Ef sá sem tilkynnir óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því sbr. 19. gr. barnaverndarlaga.

Börn og unglingar geta sjálf leitað til barnaverndarnefnda ef þeim finnst að þau búi við slæmar aðstæður eða sæta illri meðferð, eiga í erfiðleikum eða hafa orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum. 

Starfsfólk barnaverndarnefnda veitir upplýsingar og tekur við tilkynningum á dagvinnutíma. Hér á vef Barnaverndarstofu er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra. Einnig er hægt að hringja í Neyðarlínuna í síma 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Hann kemur því á framfæri við rétta aðila eða gefur samband áfram.

5. Hvenær á að tilkynna?

Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga þegar metið er hvort tilkynna eigi um aðstæður barns eða unglings:

 • Líkamleg og andleg vanræksla (þörfum barns ekki sinnt).
 • Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi á heimili (þ.m.t. börn sem vitni að ofbeldi í fjölskyldunni).
 • Ung börn eru skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna.
 • Eldri börn eru skilin eftir langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf.
 • Léleg skólasókn.
 • Börn beita ofbeldi og fremja afbrot.
 • Foreldrar fara ekki með börn til læknis eða á heilsugæsluna þó að þörf sé á því.
 • Há tíðni smáslysa sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.
 • Endurteknir áverkar sem barnið á erfitt með að útskýra.
 • Vannæring.
 • Lélegur fatnaður sem hentar illa aðstæðum.
 • Vímuefnaneysla foreldra.

Ef um ungling er að ræða er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Áfengis- og vímuefnaneysla.
 • Léleg skólasókn.
 • Endurtekin afbrot.
 • Ofbeldishegðun.
 • Þunglyndi, geðröskun og sjálfsvígshugleiðingar.

Ofangreind atriði eru tekin af vef Barnaverndarstofu.

Lögregla skal tilkynna til barnaverndarnefndar um tilvik þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða gegn því.

Tilkynning til barnaverndaryfirvalda er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn/fjölskyldu, sem sá sem tilkynnir telur að þurfi aðstoð.

Stundum er fólk ekki sammála um hvort rétt sé að tilkynna aðstæður barns eða er ekki öruggt um hvort aðstæður barns teljist nógu alvarlegar til að það kalli á aðkomu barnaverndar. Við slíkar aðstæður er réttast að hafa samband við barnaverndina og bera málið einfaldlega upp við starfsfólk hennar. Á vef Barnaverndarstofu segir:

Þú átt að hafa samband við barnaverndarnefnd ef þú hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, það verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að heilsu þess og þroska sé stefnt í alvarlega hættu. Ekki gera ráð fyrir að einhver annar sé búin að tilkynna. Ekki vona að aðstæður barns lagist og bíða með að tilkynna. Láttu vita, það er svo í verkahring starfsfólks barnaverndarnefnda að skoða málið frekar og taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að kanna málið á grundvelli barnaverndarlaga.

6. Hvað gerir barnaverndin?

Þegar barnaverndarnefnd hefur fengið tilkynningu um barn metur starfsfólkið hana og tekur afstöðu til þess hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldrum um að tilkynning hafi borist og um ákvörðun sína í tilefni af henni innan viku frá því að ákvörðunin var tekin. Heimilt er að fresta tilkynningu til foreldra vegna ríkra rannsóknarhagsmuna sbr. 21. gr. barnaverndarlaga. Ef ákveðið er að hefja könnun hefst vinna barnaverndarnefndar við að athuga málið og aðstoða barnið og fjölskyldu þess.

Stundum er talið nóg að byrja á því að bjóða fjölskyldunni stuðningsúrræði, eins og ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar. Önnur úrræði eru t.d. samstarf við skóla eða leikskóla um greiningu og mat á þroskastöðu, námsstöðu eða félagslegri stöðu barnsins, sálfræðiaðstoð eða vistun á heimili eða stofnun. Ef grunur er um kynferðisofbeldi er barninu stundum vísað í Barnahús og ef grunur er um geðræn vandamál er barninu oft vísað á Barna- og unglingageðdeild. Þetta er gert í samráði foreldra og barn í samræmi við aldur þess og þroska.

VI. kafli barnaverndarlaga nr. 80/2002 fjallar um ráðstafanir barnaverndarnefnda:

VI. kafli. Ráðstafanir barnaverndarnefnda.

23. gr. Áætlun um meðferð máls.
Þegar mál hefur verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar skal nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.
Ef könnun leiðir í ljós að þörf er á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögum þessum skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls. Hafa skal samráð við yngri börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum. Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli þegar áætlun rennur út geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.
Barnaverndarnefnd skal ætíð meta þörf á samstarfi við aðra aðila við gerð og framkvæmd áætlunar. Sérstaklega ber að meta þörf á samstarfi við þá sem vinna með málefni viðkomandi barns og nefndir eru í 2. mgr. 17. gr. Ef barnaverndarnefnd telur hagsmuni barns kalla á samstarf við þessa aðila ber nefndinni að leggja áherslu á að afla samþykkis foreldra til að samstarfi verði komið á.
Náist ekki samkomulag við foreldra eða barn, þegar það á við, skal barnaverndarnefnd einhliða semja áætlun um framvindu máls og beitingu úrræða samkvæmt ákvæðum laga þessara. Áætlunina skal kynna fyrir foreldrum og barni.

24. gr. Úrræði með samþykki foreldra.
Barnaverndarnefnd skal, eftir því sem nánar er ákveðið í áætlun skv. 23. gr., með samþykki foreldra og eftir atvikum í samráði við barn veita aðstoð m.a. með því að:
a. leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns,
b. stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræðum samkvæmt öðrum lögum,
c. útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð,
d. útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu,
e. aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála.
Barnaverndarnefnd getur enn fremur með samþykki foreldra og án sérstaks úrskurðar beitt öðrum þeim úrræðum sem kveðið er á um í 26. gr. laga þessara.
Fari foreldrar sem búa ekki saman sameiginlega með forsjá samkvæmt ákvæðum barnalaga nægir að það foreldranna sem barnið býr hjá samkvæmt ákvæðum forsjársamnings samþykki ráðstafanir samkvæmt þessari grein.

25. gr. Úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns.
Barnaverndarnefnd getur, eftir því sem nánar er ákveðið í áætlun skv. 23. gr., með samþykki foreldra og barns sem náð hefur 15 ára aldri:
a. tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur,
b. tekið við forsjá eða umsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða skv. XIII. og XIV. kafla til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings.
Fóstur eða vistun barns skv. 1. mgr. skal eigi standa lengur en þörf krefur. Ráðstafanir þessar skulu að jafnaði vera tímabundnar og sæta reglulegri endurskoðun eftir því sem nánar er kveðið á um í fóstur- eða vistunarsamningi. Með tilliti til hagsmuna barns getur fóstur eða vistun þó varað þar til barn verður lögráða og tekur barnaverndarnefnd þá við forsjá þess. Ef fóstur eða vistun varir þar til barn verður lögráða ber barnaverndarnefnd eigi síðar en þremur mánuðum áður en það verður 18 ára að meta þarfir barnsins fyrir frekari úrræði. Barnaverndarnefnd getur ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstöfun haldist eftir að það verður 18 ára, allt til 20 ára aldurs. Ungmenni getur skotið synjun barnaverndarnefndar, um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, til kærunefndar barnaverndarmála.
Ef ráðstöfun skv. a- eða b-lið 1. mgr. er gegn vilja barns sem ekki hefur náð 15 ára aldri skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta.
Fari foreldrar sem búa ekki saman sameiginlega með forsjá samkvæmt ákvæðum barnalaga þarf samþykki beggja foreldra til ráðstöfunar. Ef barn sem orðið er 15 ára samþykkir úrræði nægir samþykki þess foreldris sem barnið býr hjá en leita skal umsagnar hins foreldrisins.

26. gr. Úrræði án samþykkis foreldra.
Hafi úrræði skv. 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði:
a. kveðið á um eftirlit með heimili,
b. gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun,
c. kveðið á um að heimilt sé að láta aðilum, sem vinna með mál viðkomandi barns og nefndir eru í 2. mgr. 17. gr. og 18. gr., í té upplýsingar um líðan barns eða meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins,
d. ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi.
Ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.
Foreldrar geta skotið úrskurði til kærunefndar barnaverndarmála.

27. gr. Úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis.
Með sömu skilyrðum og fram koma í 26. gr. og ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri:
a. kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði,
b. kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem ráðstöfun þess í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða skv. XIII. og XIV. kafla til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu.
Foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri er heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara. Krafa þess efnis skal berast dómara innan fjögurra vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp. Málskot til dómstóla kemur ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda.
Um málsmeðferð fyrir dómi fer skv. XI. kafla.

28. gr. Úrskurður dómstóls um vistun barns utan heimilis.
Ef barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um skal nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt er með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp.
Ef krafist er framlengingar vistunar skv. 27. eða 28. gr. eða forsjársviptingar skv. 29. gr. áður en vistunartíma lýkur helst ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir.
Um málsmeðferð fyrir dómi fer skv. XI. kafla.

29. gr. Forsjársvipting.
Barnaverndarnefnd er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur:
a. að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,
b. að barni sem er sjúkt eða fatlað sé ekki tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennsla,
c. að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,
d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
Kröfu um sviptingu forsjár skal því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum X. kafla.

30. gr. Úrræði barnaverndarnefndar vegna þungaðra kvenna.
Ef könnun barnaverndarnefndar leiðir í ljós að þunguð kona stofnar heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu skal nefndin beita úrræðum þessara laga í samráði við hina þunguðu konu, og eftir atvikum gegn vilja hennar í samráði við forsjáraðila hennar ef hún hefur ekki náð lögræðisaldri, eftir því sem við getur átt og ætla má að að gagni geti komið.
Ef barnaverndarnefnd telur að úrræði skv. 1. mgr. komi ekki að gagni getur nefndin sett fram kröfu um sviptingu sjálfræðis samkvæmt ákvæðum lögræðislaga í því skyni að koma konunni til aðhlynningar og meðferðar á viðeigandi stofnun. Um málsmeðferð gilda ákvæði lögræðislaga.

31. gr. Neyðarráðstafanir.
Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun sem heyrir undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfsmaður í umboði hans, án undangenginnar málsmeðferðar skv. VIII. kafla, framkvæmt hana.
Barnaverndarnefnd skal án tafar taka málið til meðferðar og innan 14 daga kveða upp úrskurð, eða taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi skv. 28. eða 29. gr., að öðrum kosti fellur ákvörðun skv. 1. mgr. úr gildi. Um málsmeðferð samkvæmt þessari málsgrein gilda ákvæði VIII. kafla.
Við aðstæður þær sem 1. mgr. tekur til er heimilt þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 43. gr. að fara inn á heimili, enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu.

32. gr. Skipan lögráðamanns.
Hafi foreldrar afsalað sér eða verið sviptir forsjá barns hverfur forsjá þess til barnaverndarnefndar að svo stöddu. Barnaverndarnefnd skal fara með lögráð barnsins þar til hún ákveður annað. Barnaverndarnefnd getur óskað eftir því að barni verði skipaður lögráðamaður eða sérstakur fjárhaldsmaður, ef hún telur það þjóna hagsmunum barnsins.
Barnaverndarnefnd tekur forsjá barns í sínar hendur ef það verður forsjárlaust af öðrum ástæðum og hlutast á sama hátt til um að því verði skipaður lögráðamaður, sbr. 1. mgr.

33. gr. Umsjá barns sem vistast utan heimilis.
Þegar barnaverndarnefnd hefur tekið við umsjá eða forsjá barns með heimild í lögum þessum skal hún gera skriflega áætlun um trygga umsjá barnsins. Í áætlun skal tilgreina hvers konar vistun er fyrirhuguð og hversu lengi, markmið með vistun, stuðning við barnið og aðra, auk annars sem máli skiptir.
Leitast skal við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni.
Foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá barns eiga ekki aðild að málum sem varða ákvarðanir um úrræði því til handa, að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt.
Val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis skv. 25. og 27.–29. gr. er ekki kæranlegt til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds, sbr. þó 67. gr. b.

34. gr. Endurskoðun ráðstafana.
Ef foreldri eða barn sem náð hefur 15 ára aldri afturkallar samþykki sitt fyrir tímabundnu úrræði skv. 25. gr. getur barnaverndarnefnd gripið til ráðstafana skv. 26., 27., 28. eða 29. gr. ef skilyrðum þeirra greina er að öðru leyti fullnægt.
Hafi foreldri eða barn sem náð hefur 15 ára aldri veitt samþykki fyrir úrræði skv. 25. gr. sem ætlað er að standa þar til barn verður lögráða eða hafi foreldri verið svipt forsjá skv. 29. gr. getur foreldri eða barn sem náð hefur 15 ára aldri gert kröfu á hendur barnaverndarnefnd, foreldri sem fer með forsjá skv. 67. gr. a eða 67. gr. b og fósturforeldrum, ef það á við, fyrir dómi um að samningi verði hnekkt eða dómi um sviptingu breytt og að foreldri verði falin forsjá eða umsjá barns að nýju.
Krafa skv. 2. mgr. verður því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna, raski ekki stöðugleika í uppeldi barns og taki mið af hag og þörfum þess. Ef foreldri hefur verið svipt forsjá er einungis unnt að gera kröfu ef liðnir eru tólf mánuðir hið skemmsta frá því að dómstóll leysti síðast úr máli með endanlegum dómi.
Ráðstöfun helst þar til dómur hefur fallið.
Um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum X. kafla.

Hér á vef Barnaverndarstofu  er fjallað um úrræði í barnavernd, svo sem MST, PMT, Barnahús, Stuðla, fóstur og sálfræðiþjónustu.  

Um samvinnu við foreldra segir í 17 gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 056/2004:

Leitast skal við að könnun fari fram í samráði og samvinnu við forsjáraðila þó ætíð með hagsmuni barns að leiðarljósi. Samþykki forsjáraðila þarf ekki að liggja fyrir til að afla upplýsinga sem barnaverndarnefnd telur nauðsynlegar fyrir úrlausn máls.

Forsjáraðilum eða þeim sem barn dvelst hjá er skylt að veita liðsinni sitt til þess að könnun máls geti gengið greiðlega, enda skal barnaverndarnefnd sýna þeim sem málið varðar ýtrustu nærgætni.

Hérá vef Barnaverndarstofu  eru spurningar og svör við vangaveltum fólks um það hvað gerist þegar barnavernd fær tilkynningu um barn og hvað barnaverndin getur gert til að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra.

7. Samskipti barna og barnverndar

Taka á réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur og þroska. Barnaverndarnefnd og starfsmönnum hennar er skylt að sýna börnum og ungmennum nærgætni og trúnað. Nefndin má ekki skýra óviðkomandi frá því sem hún kemst að í starfi sínu um einkamál fólks eða heimilishagi. Þess vegna fá þeir sem tilkynna um aðstæður barns ekki upplýsingar um gang málsins.

Það getur verið flókið mál að leita eftir viðhorfi barnsins og reyna að skynja tilfinningar þess og vilja. Stundum þarfnast barnið aðstoðar sérstaks talsmanns til þess að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri. Hlutverk slíks talsmanns er að sjálfsögðu að túlka tilfinningar og vilja barnsins sjálfs. Ef vista á barn sem er yngra en 15 ára gegn vilja þess á stofnun eða heimili eða ef svipta á foreldra forsjá yfir því á það að jafnaði rétt á því að fá skipaðan sérstakan talsmann skv. 46. gr. barnaverndarlaga. Talsmaður á ekki óskoraðan rétt til aðgangs að gögnum í barnaverndarmáli en barnaverndarnefnd ber að meta hverju sinni hvaða upplýsingar um málið rétt er að talsmaður fái til að geta gegnt hlutverki sínu skv. 31. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 056/2004.

Ef barn er orðið 15 ára á það í ákveðnum tilvikum  sjálfstæða aðild að barnaverndarmáli. Það þýðir að barnið hefur meðákvörðunarrétt og þarf að samþykkja vissar ráðastafanir barnaverndar. Ef barn er aðili að máli á það t.d. rétt til að fá að sjá öll gögn sem varða málið og líka til að fá lögmann til að aðstoða sig. 

8. Kvartanir vegna barnaverndarnefnda

Barnaverndarstofa hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda. Hver sem er getur komið kvörtun á framfæri við Barnaverndarstofu vegna ákvarðana barnaverndarnefnda. Lögð er áhersla á að fá kvartanir skriflega. Þegar Barnaverndarstofu berst kvörtun þá er leitað eftir afstöðu viðkomandi barnaverndarnefndar til kvörtunarefnis, upplýsingum um vinnslu og meðferð máls og afrita af gögnum. Barnaverndarstofa metur síðan hvort barnaverndarnefnd hafi fylgt settum lögum við meðferð málsins og sendir aðilum máls og viðkomandi barnaverndarnefnd niðurstöður sínar. Aðrir þeir sem koma á framfæri kvörtunum eða ábendingum um misfellur í barnaverndarstarfi fá hvorki upplýsingar um málið né niðurstöður Barnaverndarstofu vegna ákvæða laga um þagnarskyldu. Nánar hér á vef Barnaverndarstofu .

Kærunefnd barnaverndarmála sker úr í tilteknum ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Aðilar barnaverndarmáls geta skotið úrskurði eða ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um ákvörðun eða úrskurð. Nánari upplýsingar er að finna hér á vefsíðu kærunefndar barnaverndarmála .

9. Ábyrgð hinna fullorðnu

Börn eiga rétt á því að allir í samfélaginu láti sig velferð þeirra varða. Á okkur öllum hvílir sú skylda að láta vita þegar við verðum vör við að barn eigi erfitt, búi við vanrækslu eða er beitt ofbeldi. Á vef Barnaverndarstofu segir:

Ef þú hefur áhyggjur, ættir þú að tilkynna málið. Þín tilkynning getur verið mjög mikilvæg fyrir barnið sem um ræðir. Það er eðlilegt að óttast að maður sé kannski að gera úlfalda úr mýflugu, eða oftúlka aðstæður eða atburð. Margir hafa áhyggjur af því að þetta sé kannski ekki nægilega alvarlegt eða að tilkynning geti búið til óþarfa vandamál. Það er verkefni barnaverndarinnar að meta áhyggjur og hvort að þörf sé á aðstoð. Þitt verkefni er að tryggja að barnaverndarstarfsmenn fái að vita um börn sem hafa það erfitt.

Sérstaklega er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og unglingum séu vakandi yfir velferð þeirra og þekki einkenni ofbeldis og vanrækslu og hvernig eigi að bregðast við ef grunur vaknar um að slíkt eigi sér stað.

10. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Barnaverndarstofa
Barnaverndarstofa veitir ráðgjöf um barnaverndarmál og vinnslu barnarverndarmála. Símatími ráðgjafa Barnaverndarstofu er á milli 11-12 á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum í síma 5302600. Hægt er að senda inn fyrirspurnir hér á vef Barnaverndarstofu.

Barnaverndarnefndir
Hér á vef Barnaverndarstofu er listi yfir barnaverndarnefndir landsins .

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd
Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) er rannsókna- og fræðslustofnun við Háskóla Íslands. RBF er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði félagsráðgjafar, 

Verndum þau
Gagnlegar upplýsingar um barnavernd er að finna í bókinni Verndum þau. Hvernig bregðast á við grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum eftir Ólöfu Ástu Farestveit og Þorbjörgu Sveinsdóttur (Reykjavík 2006)


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.