Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, haldin á Ísafirði 9.-11.apríl 2014, skorar á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þeim er varða ungmennin sjálf.
Í dag, 10. apríl 2014, funduðu börn alkóhólista, sem skipa sérfræðihóp umboðsmanns barna, með ráðherrum til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Umboðsmaður barna vann verkefnið í samstarfi við SÁÁ en tilgangur þess var að ná fram röddum þeirra barna sem búa við alkóhólisma og heyra frá þeim hvað við sem samfélag getum gert til að bæta líf þeirra barna sem búa við þennan vanda.
Umboðsmaður barna hefur nú tekið í notkun nýja heimasíðu. Síðan er enn í vinnslu og á því eftir að lesa yfir og bæta við nokkru efni. Allar ábendingar eru vel þegnar.
Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna hefur umboðsmaður ákveðið að endurskoða álitsgerð embættisins um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum og gefa hana út aftur.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi kynna skýrslu um fátækt barna á Íslandi og í Evrópu þriðjudaginn 15. apríl kl 12.00 - 13:00 í sal Austurbæjarskóla við Barónsstíg.
Þann 26. apríl næstkomandi stendur UNICEF á Íslandi fyrir námskeiðinu Barnasáttmálinn í leikskólanum. Á námskeiðinu er kynnt nýtt námsefni UNICEF um vinnu með Barnasáttmálann innan leikskólans, hvort sem er í skipulagi starfsáætlana, innan starfsmannahópsins eða með börnum.
Börn eru ófjárráða upp að 18 ára aldri og er meginreglan því sú að þau ráða ekki yfir fé sínu. Þó er að finna undantekningar frá þessari reglu í 75. gr. lögræðislaga. Börn ráða nefnilega sjálf yfir peningum sem þau hafa unnið sér fyrir eða fengið að gjöf, þ.m.t. peningar sem fermingarbörn fá að gjöf.