Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ályktun vegna fyrirhugaðs verkfalls framhaldsskólakennara

Umboðsmaður barna og Heimili og skóli hafa verulegar áhyggjur af nemendum  í framhaldsskólum vegna  fyrirhugaðs verkfalls framhaldsskólakennara sem boðað hefur verið til þann 17. mars. nk. Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið mikið áhyggjuefni hér á landi og er hætt við að langvarandi verkfall verði til þess að fleiri nemendur hætti í skóla og ljúki ekki framhaldsnámi.

Umboðsmaður barna og Heimili og skóli vilja koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:

  • Framhaldsskólanemendur eru hvattir til að missa ekki móðinn og stunda nám af fullum krafti þó hætta sé á verkfalli. Óvíst er hvort til verkfalls komi og þá hvaða áhrif það mun hafa á skólastarf.
  • Mikilvægt er að huga sérstaklega að velferð og menntun nemenda í framhaldsskólum. Kennarar og annað starfsfólk framhaldskóla er því hvatt til að undirbúa nemendur eins vel og hægt er fyrir hugsanlegt verkfall og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að því að nemendur flosni ekki upp úr námi.
  • Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og eiga að stuðla að því að þau fái menntun við hæfi. Foreldrar eru því hvattir til að halda vel utan um börn og ungmenni í framhaldsskólum ef til verkfalls kemur og veita þeim þá aðstoð sem þau þurfa.
  • Börn og ungmenni eiga rétt á framhaldsmenntun í faglegu umhverfi þar sem stuðlað er að alhliða þroska hver og eins. Það skiptir sköpum fyrir starf framhaldsskóla að hægt sé að ráða hæfa kennara og borga þeim viðunandi laun miðað við menntun og reynslu. Hvetjum við því samningsaðila til að semja um kjör sem fyrst, svo verkfall bitni ekki á hagsmunum og menntun nemenda.