Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Umönnunargreiðslur - Bréf til ráðherra

Umboðsmaður barna hefur sent Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra bréf þar sem hann hvetur ráðherra til að beita sér fyrir því að lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna nr. 22/2006 verði breytt þannig að öllum börnum sem uppfylla skilyrði laganna verði tryggður sami réttur til þess að njóta umönnunar foreldra sinna. Bréfið er svohljóðandi:

 

Velferðarráðuneytið
b.t. Guðbjarts Hannessonar
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík


Reykjavík, 26. nóvember 2012


Efni: Lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna

Mikilvægt er að tryggja börnum með langvarandi veikindi og fötlun sérstaka aðstoð og stuðning, sbr. meðal annars samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 23. gr. Barnasáttmálans kemur fram að tryggja skuli rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar. Ennfremur ber að stuðla að því að barninu, sem og þeim sem hafa á hendi umönnun þess svo sem foreldrum, verði veitt viðeigandi aðstoð. Þó að ákvæðið vísi eingöngu til barna með fötlun er ljóst af skýringargögnum með Barnasáttmálanum að það nær einnig til barna sem glíma við langvarandi veikindi. 

Lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna er meðal annars ætlað að tryggja að langveik og alvarlega fötluð börn geti notið umönnunar foreldra sinna, sbr. 2. gr. laganna. Af 20. gr. laganna leiðir hins vegar að einungis foreldrar barna sem greindust með veikindi eða fötlun eftir 1. október 2007 eiga rétt á fullum greiðslum, þ.e. foreldragreiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna. Foreldrar barna sem greindust fyrir þann tíma eiga einungis rétt á grunngreiðslum, sem nema 130.000 krónum á mánuði. Þá geta foreldrar sem eiga rétt á fullum greiðslum starfað í skertu starfshlutfalli og fengið hlutfallslegar greiðslur á móti, á meðan foreldrar sem eiga rétt á grunngreiðslum mega ekki hafa aðrar tekjur. Ljóst er að þessi mikli munur sem er á greiðslum getur leitt til þess að foreldrar barna sem greindust fyrir 1. október 2007 hafa ekki tök á því að sinna umönnun barna sinna með sama hætti og foreldrar sem eiga börn sem greindust eftir þann tíma. Börnum með langvarandi veikindi eða fötlun er því mismunað á grundvelli þess á hvaða tíma greining átti sér stað. Umboðsmaður barna getur ekki séð að málefnalegar ástæður liggi til grundvallar þessari mismunun.

Umboðsmaður barna dregur í efa að ákvæði 20. gr. laga nr. 22/2006 standist almenna jafnræðisreglu, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. Barnasáttmálans. Í því sambandi má benda á að þáverandi umboðsmaður barna gagnrýndi þetta ákvæði í umsögn sinni við frumvarp til laganna árið 2006 og benti á mikilvægi þess að „allir foreldrar – og þar með börn þeirra – sem uppfylla skilyrði laganna hverju sinni njóti jafnræðis og þar með sama réttar til greiðslna án tillits til þess hvenær börnin fæðast eða greinast.“ Umsögnina í heild sinni má nálgast á heimasíðu embættisins, www.barn.is.

Umboðsmaður barna hvetur velferðarráðherra til þess að beita sér fyrir því að lögum nr. 22/2006 verði breytt að þessu leyti og öllum börnum, sem uppfylla skilyrði laganna, tryggður sami réttur til þess að njóta umönnunar foreldra sinna.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna