Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Aðfarargerðir á börnum - Bréf

Umboðsmaður barna sendi í nóvember innanríkisráðherra bréf þar sem hann hvetur ráðherra til að hlutast til um að verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða verði settar sem fyrst. Bréfið er svohljóðandi:

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 22. nóvember 2012

Efni: Aðfarargerðir á börnum

Í lok sumars árið 2009 bárust umboðsmanni barna athugasemdir vegna aðfarargerða á börnum þar sem bent var á að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við framkvæmd slíkra gerða. Umboðsmaður barna ákvað í framhaldinu að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003. Athugun umboðsmanns leiddi í ljós að aðfarargerðir á börnum eru afar fátíðar. Í þeim tilvikum sem þær fara fram er hins vegar um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna. Verulega skortir á að slíkar gerðir hafi verið nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem koma að framkvæmd þeirra séu meðvitaðir um hlutverk sitt. Til að ræða þessi mál frekar boðaði umboðsmaður barna fund með dómsmálaráðuneytinu, Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, sýslumanninum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands og Hrefnu Friðriksdóttur. Aðilar fundarins voru sammála um að þörf væri á verklagsreglum um framkvæmd aðfarargerða, þar sem hlutverk hvers aðila sem er viðstaddur gerðina er skilgreint. Í kjölfar fundarins sendi umboðsmaður barna bréf til þáverandi dóms- og mannréttindaráðherra þar sem hann hvatti ráðherra til að hlutast til um að gerðar yrðu verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerðar. Umboðsmanni er ekki kunnugt um að slíkar reglur hafi verið settar.

Umboðsmanni barna barst mikill fjöldi erinda vegna aðfarargerðar á börnum sem framkvæmd var í Kópavogi þann 29. júní 2012, sbr. dómur Hæstaréttar nr. 109/2011. Af því tilefni ákvað umboðsmaður að gera sambærilega athugun á framkvæmd aðfarargerða og gerð var árið 2009. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum og gögnum um aðfarargerðir á börnum sem framkvæmdar voru á tímabilinu 1. október 2009 til 31. júlí 2012 frá öllum sýslumannsembættum, barnaverndarnefndum sem og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þeim svörum sem bárust voru tvær aðfarargerðir á börnum framkvæmdar á framangreindu tímabili. Annars vegar var framkvæmd aðfarargerð af  sýslumannsembætti Kópavogs sem sneri að forsjá, sbr. 45. gr. barnalaga. Hins vegar varframkvæmd aðfarargerð af sýslumannsembætti Reykjavíkur sem sneri að umgengni, sbr. 50. gr. barnalaga.

Við skoðun á svörum frá fyrrnefndum aðilum þótti umboðsmanni barna tvennt sérstaklega athugavert. Í fyrsta lagi var sérsveit ríkislögreglustjóra viðstödd gerðina sem fram fór í Kópavogi. Umboðsmaður barna veltir því fyrir sér hvort slíkt hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þó að sérsveitin hafi einungis verið á staðnum til að sinna almennri löggæslu telur umboðsmaður athugavert að útkallsbifreið sveitarinnar hafi verið á vettvangi. Slíkt er að mati umboðsmaður barna ekki í samræmi við ákvæði 3. mgr. 45. gr., þar sem kveðið er á um að lögreglumenn skuli vera óeinkennisklæddir við framkvæmd aðfarargerða.

Í öðru lagi telur umboðsmaður barna gagnrýnisvert hversu margir aðilar voru viðstaddir gerðirnar. Við aðfarargerðina sem fram fór í Reykjavík voru 14 aðilar viðstaddir gerðina. Við aðfarargerðin sem framkvæmd var í Kópavogi voru 32 aðilar viðstaddir gerðina en auk þess hafði fjöldi fólks safnast saman á vettvangi. Í því sambandi má benda á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnalögum er tekið fram að það sé almennt barni fyrir bestu að sem fæstir séu viðstaddir aðfarargerð.

Umboðsmaður barna telur að ofangreindar aðfarargerðir samræmist illa ákvæðum barnalaga og dregur í efa að þær hafi verið framkvæmdar þannig að sem minnst álag hafi skapast fyrir börnin. Umboðsmaður barna telur því ríka þörf á að vinna verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða, í samstarfi við þá aðila sem koma að slíkum gerðum. Umboðsmaður hvetur því innanríkisráðherra til að hlutast til um að slíkar reglur verði settar sem fyrst.

Virðingarfyllst,

____________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna