Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Rannsókn - Lífsstíll 7-9 ára barna

Niðurstöður rannsóknar á lífsstíl 7-9 ára barna sýna að hægt er að auka hreyfingu og stuðla að hollara mataræði með samstilltu átaki heimila og skóla. Rannsóknin Lífsstíll 7-9 ára barna er samstarfsverkefni sem vísindamenn og framhaldsnemar við Menntavísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands unnu að á árunum 2006-2008. Verkefnið miðaði að því að auka heilbrigði barna og var unnið í samstarfi við Menntasvið Reykjavíkurborgar og sex grunnskóla í borginni. Á vef Rannís segir um verkefnið:

Markmið
Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif íhlutunaraðgerða á hreyfingu, mataræði og lífsstíl sjö til níu ára barna. Haustið 2006 var 300 sjö ára börnum í sex grunnskólum Reykjavíkur boðin þátttaka í ýmsum mælingum, m.a. á holdafari, þreki, hreyfingu, beinþéttni, mataræði og þáttum sem tengdust lífsstíl þeirra. Þátttökuskólunum var skipt af handahófi í tvo hópa; þrír íhlutunarskólar og þrír viðmiðunarskólar. Engin afskipti voru höfð af viðmiðunarskólunum yfir rannsóknartímabilið. Að tveggja ára íhlutunartímabili loknu árið 2008 voru allir þátttakendur mældir á sama hátt og við upphaf rannsóknarinnar.

Íhlutunaraðgerðir
Íhlutunaraðgerðir voru framkvæmdar bæði í skólunum og í samstarfi við foreldra. Rannsakendur unnu í náinni samvinnu við kennara og stjórnendur í hverjum íhlutunarskóla þannig að sem best samþætting markmiða og skólastarfs næðist. Mánaðarlegir fundir með kennurum og skólastjórum íhlutunarskólanna voru haldnir þar sem stefnumótun, framkvæmd og skipulagning íhlutana var rædd og ákveðin í samvinnu. Á þessum fundum fengu kennarar fræðslu um hreyfingu og næringu, auk þess að ræða markmið og leiðir og skiptast á hugmyndum. Markmið hreyfiíhlutunarinnar var að auka vægi hreyfingar í almennu skólastarfi, m.a. með því að auka útikennslu og samþætta hreyfingu við flestar námsgreinar. Á seinna ári íhlutunar var bætt við aukatíma í íþróttum. Næringaríhlutunin fólst meðal annars í næringarfræðikennslu og verklegum æfingum í samstarfi við kennara, foreldra og starfsfólk skólanna. Næringarfræði kom inn í Aðalnámskrá grunnskóla árið 2007 sem hluti af náttúrufræði, fyrir tilstuðlan þessa verkefnis. Í framhaldi af því var kennsluefni þróað í samræmi við markmið Aðalnámskrár.

Reglulegir upplýsinga- og fræðslufundir voru haldnir með foreldrum barnanna á þessu tveggja ára tímabili. Einnig var opnuð heimasíða með ýmsu efni um hreyfingu og hollustu og starfið í skólunum.

Niðurstöður
Við upphaf rannsóknarinnar hreyfðu börn í íhlutunarskólunum sig að jafnaði um 35 mínútur á dag í skipulagðri hreyfingu. Afar fá börn hreyfðu sig samkvæmt hreyfiráðleggingum Lýðheilsustöðvar (60 mín/dag miðlungserfið/erfið hreyfing). Við mat á íhlutunum kom í ljós að samkvæmt skráningu hafði skipulögð hreyfing á skólatíma aukist jafnt og þétt yfir rannsóknartímabilið. Undir lok íhlutunartímabilsins fengu börn í íhlutunarskólunum að jafnaði um 60 mínútur af skipulagðri hreyfingu á skólatíma. Niðurstöður hreyfimælinga sýndu einnig umtalsverða aukningu hreyfingar af miðlungserfiðri og erfiðri hreyfingu á skólatíma, einkum meðal drengja. Þátttakendur í íhlutunarhópi juku þrek sitt hlutfallslega meira en þátttakendur viðmiðunarskólanna, eða að meðaltali um 10% frá því þeir voru mældir haustið 2006.

Við upphaf rannsóknarinnar var ávaxta- og grænmetisneysla barnanna lág, því var mest áhersla lögð á að auka hana. Í íhlutunarskólum jókst ávaxta- og grænmetisneysla á tímabilinu í um meira en 60 g/dag að meðaltali, en minnkaði á sama tíma í viðmiðunarskólunum um 45 g/dag. Við lok tímabilsins náðu 22% barnanna í íhlutunarskólunum ráðleggingum varðandi ávaxtaneyslu og 4% ráðleggingum varðandi grænmetisneyslu, samanborið við 16% og 0% í viðmiðunarskólunum. Fiskneysla jókst í báðum hópum. Gæði fitu í fæðu barna í íhlutunarskólunum jukust. Sykurneysla var enn há við lok rannsóknarinnar en trefjaneysla hafði aukist í íhlutunarskólunum. Báðir hópar náðu að meðaltali ráðlögðum dagskammti af joði við lok rannsóknarinnar en ekki af D vítamíni.

Ályktanir
Grunnskólabörnin sem tóku þátt í þessu tveggja ára íhlutunarverkefni hreyfðu sig meira, voru í betra líkamlegu formi og borðuðu hollari mat að tveimur árum liðnum samanborið við börn í viðmiðunarhóp. Niðurstöður verkefnisins sýna að mögulegt er að breyta lífsstíl og lifnaðarháttum barna á jákvæðan hátt með réttum íhlutunaraðgerðum í almennu skólastarfi.

Þátttakendur
Rannsóknarverkefnið var samstarfsverkefni Háskóla Íslands og sex grunnskóla í Reykjavík; Árbæjarskóla, Fossvogsskóla, Ingunnarskóla, Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Seljaskóla. Þátttakendur frá Háskóla Íslands voru Erlingur Jóhannsson, prófessor, Ingvar Sigurgeirsson, prófessor og Inga Þórsdóttir, prófessor. Þrír doktorsnemar komu að framkvæmd verkefnisins, þau Ása Guðrún Kristjánsdóttir doktor í næringarfræði, Kristján Þór Magnússon MPH faraldsfræðingur og Hannes Hrafnkelsson MD sérfræðingur í heimilslækningum. Tveir meistaranemar komu að verkefninu; Katrín Heiða Jónsdóttir og Erna Héðinsdóttir. 

Vefsíða rannsóknarinnar er http://vefsetur.hi.is/lifsstill/.