Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Barnasáttmálinn 20 ára - dagskrá afmælisviku

Barnasáttmálinn verður 20 ára þann 20. nóvember. Af því tilefni hafa ungmennaráð umboðsmanns barna, Unicef og Barnaheilla fundað og ákveðið að halda upp á afmælisvikuna 15. til 20. nóvember.

Dagskrá afmælisvikunnar:

• Sunnudagurinn 15. nóvember
Í Kringlunni verða meðlimir ungmennaráðanna með kröfuskilti um réttindi barna milli kl. 14 og 16. Þeir munu kynna Barnasáttmálann fyrir gesti Kringlunnar og dreifa bæklingum um Barnasáttmálann.

• Mánudagurinn 16. nóvember
Allir Alþingismenn fá gjöf frá ungmennaráðunum í tilefni af afmæli Barnasáttmálans með handskrifuðu og skreyttu korti. Um er að ræða upplýsingabækling um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er ætlað að auðvelda þingmönnum að kynna sér þennan mikilvæga mannréttindasamning. 

• Þriðjudagurinn 17. nóvember
Fulltrúar úr ungmennaráðunum mæta á fund allsherjarnefndar Alþingis og ræða við þingmenn um þátttöku barna og hvernig börn og unglingar geta haft aukin áhrif í samfélaginu

• Miðvikudagurinn 18. nóvember
Hetjur í Smáralindinni milli 17 og 19: Fulltrúar úr ungmennaráðum verða með skikkjur og grímur og bjóða öllum sem vilja að styðja sérstaka yfirlýsingu ungmennaráðanna. Teknar verða myndir af „hetjum barnanna”, þ.e. stuðningsaðilum í skikkjum.

• Fimmtudagurinn 19. nóvember
 Yfirlýsing ungmennaráðanna, ásamt myndum af hetjum barnanna, afhentar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra kl. 15.

• Föstudagurinn 20. nóvember
Afmælishátíð verður haldin í Snælandsskóla kl. 14.
Öll nemendaráð eru sérstaklega hvött til þess að halda upp á afmælið í sínum skóla.
Barna- og unglinga Kastljós á RUV.