Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skólaheimsóknir

Í  síðustu viku heimsótti umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, ásamt starfsmanni embættisins, Eðvaldi Einari Stefánssyni, nokkra skóla sem taka þátt í verkefninu. Að þessu sinni voru heimsóttir skólar á norður- og austurlandi eins og Fellaskóli í Fellabæ, Seyðisfjarðarskóli, Svalbarðsskóli í Þistilfirði, Hrafnagilsskóli og Oddeyrarskóli á Akureyri.  Í Svalbarðsskóla í Þistilfirði, sem er 9 nemenda grunnskóli, fékk umboðsmaður barna tækifæri á að eiga fund með öllum nemendum skólans þar sem nemendur fengu m.a. tækifæri á að spyrja umboðsmann margvíslegra spurninga.  Þar kom vel í ljós að krakkar líta björtum augum á framtíðina og þar er lítið verið að spá í vandræði hinna fullorðnu.  Móttökurnar voru alls staðar stórkostlegar og var verkefninu vel tekið af skólastjórnendum og kennurum. 

Auk skólanna fimm var félagsþjónustan í Fljótsdalshéraði, meðferðarheimilið Laugaland, Fjölsmiðjan á Akureyri og Rósenborg á Akureyri heimsótt.  Umboðsmaður barna þakkar kærlega fyrir góðar móttökur á öllum þessum stöðum.