English Danish Russian Thai Polish

Viltu hafa áhrif?

Réttur til að segja hvað þér finnst

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Þar segir einnig að börn eigi rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Ástæða er til að undirstrika að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu.

Skylda hvílir aftur á móti á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöld, t.d. sveitarstjórnir og skólayfirvöld eiga að hlusta á skoðanir barna og virða þær.

Þessi réttur nær til allra mála sem hafa áhrif á börn á einn eða annan hátt, s.s. málefna fjölskyldunnar, skólans, æskulýðs- og tómstundamála, forvarna og skipulags- og umhverfismála.

Af hverju skiptir þátttaka barna máli?

Börn eru sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og því er mikilvægt að nýta þekkingu þeirra og þá reynslu sem þau búa yfir. Þátttaka barna hjálpar þeim fullorðnu að skilja þau og þarfir þeirra. Þátttaka barna er þeim einnig mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar.Til að bæta aðstæður barna og þjónustu við þau er þátttaka þeirra sjálfra mikilvæg. Rannsóknir á þroska og námi barna hafa sýnt að börn hafa frá unga aldri getu og áhuga til að taka þátt í ákvarðanatöku um málefni sem þau varða enda er það í samræmi við rétt þeirra til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif.

Fjölskyldan

Foreldrar eiga að hafa samráð við barn sitt áður en þeir taka ákvarðanir í málefnum þess. Eftir því sem börnin eldast og þroskast eiga þau að ráða meiru um eigin mál, svo sem hvað þau gera, hverjum þau eru með og hvar þau búa. Þetta stendur í barnalögum.

Börn sem finna að þau eru virt að verðleikum og fá að hafa áhrif á fjölskyldulífið eru líklegri til að eiga góð samskipti við foreldra sína sem og aðra í samfélaginu.

Leikskólinn

Það er hægt að byrja mjög snemma að kenna börnum á lýðræði. Leikskólinn á að leggja grunninn að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi. Starfið í leikskólanum á að mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð og virðingu. Þetta stendur í lögum um leikskóla.

Í leikskóla á að búa til umhverfi þar sem allir:
· Taka virkan þátt í samræðum um almenn málefni.
· Hlusta hver á annan og skiptast á skoðunum.
· Bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum.
· Vinna saman og aðstoða hver annan.
· Hafa val um verkefni og vinnubrögð.
· Hafa áhrif á leikskólastarfið.
· Taka þátt í heimspekilegum umræðum.
· Vinna að jöfnum tækifærum kynjanna til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni.

Grunnskólinn

Grunnskólinn á að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Við hvern grunnskóla skal starfa nemendafélag.

Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa skólaráðs. Gott er að fulltrúar allra árganga geti tekið þátt í starfi félagsins eftir því sem þroski nemenda leyfir.

Með virkri starfsemi nemendafélaga fá nemendur annars vegar tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku í hagsmunamálum sínum og hins vegar þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Veist þú hverjir sitja í stjórn nemendafélagsins í þínum skóla? Þú getur haft samband við þá til koma hagsmunamálum þínum á framfæri.

Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn en í skólaráði eiga að sitja tveir fulltrúar nemenda.

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun skólaráðs og stýrir starfi þess.

Fulltrúar nemenda í skólaráði skuli taka þátt í gerð skólareglna. Leiðbeiningar umboðsmanns barna um skólaráð fyrir nemendur er að finna hér.

Veist þú hverjir eru fulltrúar nemenda í skólaráði? Fá nemendur að hafa áhrif á skólastarfið í þínum skóla?

Bekkjarreglur um umgengni, samskipti og vinnulag í einstaka bekkjum geta haft mikið að segja um líðan barna í skólanum. Mikilvægt er að haft sé samráð við nemendur hvers bekkjar fyrir sig þegar reglurnar eru mótaðar og kennarar taki tillit til vilja nemenda um það hvernig þeir vilja ná fram vinnufriði og umhverfi þar sem öllum líður vel í. Nemendur eru líklegri til að hegða sér vel og leggja metnað í nám sitt þegar þeir finna að þeir hafa áhrif á skólastarfið.

Framhaldsskólinn

Framhaldsskólar eiga að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Nemendafélag á að vera starfrækt í hverjum framhaldsskóla. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.

Veist þú hverjir sitja í stjórn nemendafélagsins í þínum skóla? Þú getur haft samband við þá til koma hagsmunamálum þínum á framfæri.

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar, t.d. þegar fjallað er um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, skólareglur, umgengnishætti í skólanum og vinnu- og félagsaðstöðu nemenda. Þá veitir skólaráð umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað.

Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar úr nemendafélagi,

Skólafundi á að halda a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara.

Skólanefnd er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Hlutverk hennar er m.a. að marka áherslur í starfi skólans. Nemendur eiga einn áheryrnarfulltrúa í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt.

Sveitarfélagið

Stjórnvöld, þ.á.m. sveitarfélög (=borgin, bærinn eða sveitin), eiga að hlusta á skoðanir barna og virða þær eins og fram kemur í Barnasáttmálanum. Sveitarfélög eru skuldbundin til þess að tryggja börnum og unglingum lýðræðislega þátttöku á þeirra eigin forsendum. Á það fyrst og fremst við um málefni er snerta börn á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun. Sem dæmi má nefna skólastarf, tómstundastarf, forvarnastarf og skipulag nánasta umhverfis.

Ungmennaráð í sveitarfélögum eru góður vettvangur fyrir unglinga til að hafa áhrif á samfélagið. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

Í mörgum sveitarfélögum hafa verið stofnuð sérstök ungmennaráð sem geta haft áhrif í sveitarfélaginu. Svo eru sum sveitarfélög með vettvang eins og www.betrireykjavik.is og betrihafnarfjordur.is sem börn og unglingar geta nýtt sér eins til að koma hagsmunamálum sínum á framfæri.

Langflest sveitarfélög landsins eru þátttakendur í svokallaðri Staðardagskrá 21. Í 25. kafla hennar segir að þátttaka barna í ákvarðanatöku og áætlanagerð um umhverfi og þróun sé grundvallarþáttur í að langtímamarkmið verkefnisins náist.

Samráðsréttur barna á öðrum sviðum

Í ýmsum lögum er að finna reglur um rétt barna til að tjá sig um mál og hafa áhrif. T.d. má nefna barnaverndarlög, lög um mannanöfn, lög um ættleiðingar og lög um réttindi sjúklinga.

Meira um lýðræði og þátttöku barna á aðalvef umboðsmanns barna.


 

Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.

Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.