English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinkonur í fýlu

Mér líður skringilega því að vinkonur mínar eru í fýlu í við hvor aðra og ég get ekki leikið við báðar í einu. Þær kalla hvora aðra hálfvita og margt fleira. Hvað á ég að gera????

Komdu sæl

Þetta eru nú meiri vandræðin. Til að bæta samskiptin gæti verið sniðugt að þið vinkonurnar settust niður með einhverjum fullorðnum sem þið treystið að sé hlutlaus og ræðið málin. Þið gætuð t.d. spurt námsráðgjafann í skólanum eða umsjónarkennarann ykkar um að aðstoða ykkur við að leysa þetta mál. Ef þið eruð allar í sama bekk er mikilvægt að umsjónarkennarinn viti hvað er í gangi. Kennarar hafa ýmsar leiðir til að taka á samskiptavanda án þess að tala um einstaka nemendur.

Það er mikilvægt fyrir þig að vita að þú þarft ekki að blanda þér í samskiptavanda þeirra eða taka afstöðu með annarri hvorri nema þú viljir það sjálf. Það er auðvitað mjög leiðinlegt þegar vinkonur tala illa um hvora aðra eða baktala fólk. Þú getur alveg sagt við þær að þú viljir ekki blanda þér í þeirra mál og að þú viljir ekki heyra svona illt umtal um vinkonu þína. Ef þér líður mjög illa yfir þessu er líka mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn til að fá huggun og skilning, t.d. foreldra.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna