English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinalaus

Ég bý á littlum stað og á ekki marga vini ég hef verið llögð í einelti og veit um fleiri í skólanum sem eru lagðr í einelti en mér líður samt ekki eins illa eins og mér leið.

En ég held að eineltið sé hætt en einginn vill tala við mig, þegar ég reyni að segja eitthvað koma alltaf einhverjir stælar á móti og ég er ekki viss hvað ég á að gera til að eignast vini aftur p.s. ég elska fótbolta en það er ekki hægt að æfa þar sem ég bý. Ég á kannski einkverja fótbolta vini en þeir tala bara við mig þegar við erum í fótbolta svo er ég ekki neitt. Ég geri það alltaf um að ég sé bara svo góð að þau þori bara ekki að sega neitt við mig.

Komdu sæl.

Það er gott að heyra að þú teljir að eineltið sé hætt en leiðinlegt að heyra að þú eigir ekki góða vini. Umboðsmaður barna mælir með því að þú byrjir á því að ræða um þetta við foreldra þína, en yfirleitt gera foreldrar alltaf sitt besta til að hjálpa börnum sínum ef eitthvað bjátar á. Þess vegna gæti verið sniðugt að treysta þeim til að styðja þig eins og þér hentar best. Ef þér líður illa er líka mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn eða einhvern annan sem þú treystir til að fá huggun og skilning.

Þú gætir líka rætt við einhvern um þessi mál innan skólans enda skiptir miklu máli að þér líði vel í skólanum. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur og þess vegna er mikilvægt að umsjónarkennarinn þinn viti af þessu. Þá gæti hann hjálpað þér og hinum krökkunum að laga ástandið. Þú getur líka leitað til námsráðgjafans í skólanum og fengið góð ráð hjá honum.

Þegar kemur að krökkunum sem þú spilar fótbolta með þá gæti vel verið að þau séu feimin við þig þegar þið hættið að spila fótbolta. Ef til vill þarf bara aðeins að brjóta ísinn til þess að þið verðið vinir og getur verið sniðugt að athuga hvort það sé vilji til að gera eitthvað eftir að fótboltanum lýkur.

Varðandi það hvernig er gott að eignast vini þá getur verið gott að kynnast nýju fólki og vonandi nýjum vinum á öðrum vettvangi en þú hefur verið á. Þú getur athugað hvað er í gangi í þínu bæjarfélagi, t.d. hvort það eru einhverjar aðrar íþróttir, er félagsmiðstöðin með eitthvað áhugavert starf eða er eitthvað ungmennastarf hjá Rauða krossinum eða kirkjunni. Svo eru líka stundum einhver námskeið sem þú gætir farið á og kynnst nýju fólki.

Ef að þú ert með fleiri spurningar eða vantar ráðleggingar er þér alltaf velkomið að hafa samband aftur.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna