English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Vinalaus II

Ég sendi bréf um dagin og svarið hjálpaði mér mjög lítið. Ég vil ekki tala um það við foreldra mína að ég eigi enga vini og engin vilji vera með mér eða tala við mig. Ég hef oft nefnt þetta við umsjónarkennarann minn, það er enginn námsráðgjafi, engin félagsstörf eða neitt á veturna eru íbúar á staðnum sem ég bý á langt undir 100, það er ekki æft neinar íþróttir og þannig ég vil meira hvernig ég gett bætt félagslegt líf mitt í skóla og utan hans. Hvort ég geti kannski tekið það í skrefum.

Komdu sæl aftur.

Leitt að fyrra svar okkar hafi ekki hjálpað þér sem skyldi en hér gerum við okkar besta til að bæta við það svar. Það er ýmislegt sem þú getur gert til að bæta félagslíf þitt í skólanum eða utan skóla en þá gæti verið sniðugt að þú leitir eftir því sjálf og sýnir frumkvæði að búa til vettvang sem hentar þér. Þetta getur kostað mikla vinnu en þú lærir örugglega mikið á því að fara í þetta "verkefni".

Þú segir að þú hafir oft nefnt vinaleysið við umsjónarkennarann þinn og það hafi ekki gengið og að ekki sé námsráðgjafi í skólanum. Ef til vill er einhver annar starfsmaður eða kennari sem hefur áhuga á félagsstörfum og vill gjarnan aðstoða við að byggja upp gott félagsstarf fyrir börn og unglinga. Þú getur t.d. prófað að tala við skólastjórann og athuga hvort að hann sjái einhverja lausn. Í litlum samfélögum er oft starfandi einhver tómstundafulltrúi, ef hann er til staðar þá má örugglega leita til hans líka.

Ein leið sem má skoða er að stofna skátaflokk eða tómstundahóp, hvort sem er í skólanum eða utan. Það þarf einungis 5-6 manns til að stofna einn skátaflokk og það má gjarnan leita til Bandalag íslenskra skáta og athugað hvort að það sé skátafélag starfandi í nágrenni við þína heimabyggð. Þó svo að það sé enginn skátahópur starfandi þá geta allir haft frumkvæði af stofnun skátaflokks ef nægur áhugi er fyrir hendi. Það er hægt að hafa samband við skátana í gegnum símann 550-9800, svo er líka hægt að senda póst á skatar@skatar.is. Þú nefnir að þú sért mikið í fótbolta en að fótboltavinir þínir tali bara við þig þegar þið eruð í fótbolta. Líkt og kemur fram í fyrra svari okkar þá gæti verið sniðugt fyrir þig að sýna frumkvæði í samskiptum og athuga hvort að einhver þar sé tilbúinn að gera eitthvað eftir æfingu eða fótboltaleik. Annað hvort er einhver til í að gera eitthvað eða ekki og þó svo að enginn sé tilbúinn að gera neitt eftir æfingu þá þarf það ekki að vera neinn heimsendir. Þú gætir líka prófað að sýna frumkvæði í skólanum, ekki bíða eftir að aðrir tali við þig. Ef aðstæður eru þannig þá getur þú prófað að bjóða nokkrum krökkum heim til þín þegar foreldrar þínir eru heima. Þið gætuð þá gert eitthvað skemmtilegt og foreldrar þínir stutt þig. Það getur tekið tíma að mynda tengsl þannig að þú mátt ekki örvænta þó svo að það gangi ekkert eða hægt í byrjun. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi en það skilar litlum árangri að bíða eftir því að hlutirnir gerist af sjálfu sér.

Við hjá umboðsmanni barna viljum í lokin benda þér á þessa síðu sem þú gætir haft gagn af að lesa. En þar koma fram leiðbeiningar um það hvernig hægt er að styrkja sjálfsmyndina sína. Þar segir meðal annars:

· Það er enginn fullkominn og því skaltu ekki reyna að vera það. Gerðu frekar eins vel og þú telur þig geta og vertu sátt við það.

· Lærðu á mistökum þínum. Viðurkenndu að þú hafir gert mistök því allir gera mistök á lífsleiðinni. Þau eru hluti af þroska þínum.

· Hugsaðu um hverju þú getur breytt og hverju ekki. Ef þú vilt breyta einhverju, byrjaðu þá strax. En ef það er eitthvað sem þú getur ekki breytt (t.d. hæð þín), sættu þig þá við það og lærðu að meta það.

Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað, þetta er hins vegar svolítið almennt svar. Það væri hægt að svara þér betur ef við vissum eitthvað meira um þínar aðstæður til dæmis eitthvað um skólann þinn. En gangi þér vel og ekki hika við að hafa samband aftur ef þig vantar frekari aðstoð.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.