English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Vinir og félagslíf

Á ég að segja frá afbroti vinkonu?

Vinkona mín og aðrir krakkar brutust inní nokkra skóla ... Á ég að kjafta frá eða á ég að vera besta vinkona og segja engum eins og hún bað mig um??

Komdu sæl

Það er ekki gott fyrir þig að vita þetta, finnast rétt að segja frá en þora því ekki vegna hræðslu við viðbrögð vinkonunnar. Það má segja að það sé almenn siðferðileg skylda borgaranna að segja yfirvöldum frá glæpum sem þeir hafa vitneskju um. Þegar um er að ræða börn er nú yfirleitt nóg að þau komi málinu áfram til foreldra, kennara eða annarra sem þau treysta, sem sjá svo um að koma upplýsingunum til réttra aðila eins og við á.

Umboðsmaður barna mælir því með því að þú komir þessu frá þér til foreldra þinna og segir þeim frá stöðu mála. Það er mjög alvarlegt að brjótast inn og vinkona þín og þeir sem stóðu með henni að innbrotunum þurfa líklega einhvers konar aðstoð til að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er. Það er því líklegast betra fyrir vinkonu þína að horfast í augu við staðreyndir, viðurkenna mistök sín og læra af þeim en að allir þegi yfir þessu. Þessu geta auðvitað fylgt samviskubit og stirð samskipti ykkar á milli en þá er mikilvægt að reyna að sjá hlutina í stærra samhengi og hugsa um hvað er réttast að gera í vondri stöðu.

Hér er umfjöllun um börn og afbrot. Þar segir m.a. að 15 ára verða börn sakhæf. Kíktu endilega á.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna